Ítalir setja upp fjármagnshöft
16.2.2014 | 18:02
Samkvæmt fréttum sem voru að berast verða allar millifærslur inn í landið héðan í frá álitnar skattskyldar tekjur, og þarlendum bönkum gert skylt að halda eftir 20% af fjármagnsfærslum eða sem svarar til skattsins. Til þess að fá undanþágu frá þessu virðist þurfa að sýna fram á að í raun sé ekki um skattskyldar tekjur að ræða. (Semsagt álitið vera peningaþvætti eða skattaundanskot uns sakleysi hefur verið sannað.)
Meira um málið hér: http://www.zerohedge.com/news/2014-02-16/money-launderer-until-proven-innocent-italy-imposes-20-tax-withholding-all-inbound-m
Í öðrum fréttum af gjaldeyrishöftum á evrusvæðinu, þá vitnar Evrópuvaktin í þýzku fréttastofuna Deutsche-Welle, sem skýrði frá því að Panicos [já hann heitir það í alvöru!] Demetriades, aðalbankastjóri Seðlabanka Kýpur hafi sagt í gær [fyrradag] að höft á peningalegar tilfærslur yrðu úr sögunni um næstu áramót á Kýpur. Þau voru sett á til þess að koma í veg fyrir að innistæðueigendur í grískum bönkum tæmdu reikninga sína í kjölfar bankakreppunnar sem skall þar á fyrir ári. Frá þeim tíma hafa Kýpverjar ekki haft heimild til að nota tékka eða taka út meira en 300 evrur á dag af bankareikningum sínum.
http://www.evropuvaktin.is/frettir/32394/
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Falskar forsendur
14.2.2014 | 18:54
Hagfræðingur Landsbankans heldur því fram að óverðtryggð lán séu dýrari en verðtryggð. Þetta er hinsvegar ekki allskostar rétt. Í Morgunblaðinu í dag eru tekin dæmi um kostnað við 20 milljón króna lán miðað við mismunandi forsendur. Tekin eru dæmi um verðtryggt lán miðað við annars vegar 3% verðbólgu, 5% verðbólgu, og svo óverðtryggt. Miðað við gjaldskrá Landsbankans þarf að endurgreiða eftirfarandi fjárhæðir af þessum lánum:
- Verðtryggt (3% verðbólga): 66,5 milljónir (333%)
- Verðtryggt (5% verðbólga): 113 milljónir (565%)
- Óverðtryggt: 55,7 milljónir (279%)
Dæmi svo hver fyrir sig um hver þessara fjárhæða er lægst, en það ætti að vera frekar augljóst hvert þessara lána er ódýrast.
En þar með er ekki öll sagan sögð því þessi útreikningur samræmist ekki lögum um neytendalán. Samkvæmt þeim ber að reikna upplýsingar um lánskostnað verðtryggðra lána miðað við annars vegar ársverðbólgu (nú 3,1%) og hinsvegar meðaltal verðbólgu síðustu 10 ára (8,1%). Síðari forsendunni er hinsvegar sleppt í framsetningu Morgunblaðsins, og má hugsanlega rekja það til þess hver útkoman úr slíkum útreikningi er.
Með því að nota vefreiknivél Landsbankans sjálfs er hægt að reikna þetta út, miðað við jafngreiðslulán á þeim kjörum sem bankinn býður nú og meðalverðbólgu síðustu 10 ára eins og lög kveða á um. Niðurstaðan verður þá að endurgreiða þarf alls tæpar 232 milljónir króna (1160%). Með öðrum orðið þarf að borga meira en ellefu sinnum höfuðstólinn.
Fleira er bogið við samanburðinn í morgunblaðinu í dag, til að mynda eru lánin með mismunandi endurgreiðsluferla. Dæmið frá Landsbankanum miðast við samsetta lánveitingu þar sem annað lánið er jafngreiðslulán en hitt með jöfnum afborgunum (sem er ódýrara). Dæmin frá hinum stóru bönkunum tveimur eru hinsvegar miðuð við jafngreiðslulán, sem hefur hingað til verið algengasta formið hér á landi hvort sem um er að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. Þá eru þessi lán auk þess með misjafnlega langan lánstíma. Af því leiðir að dæmin sem eru tekin í blaðinu eru ekki samanburðarhæf og draga upp villandi mynd sem á sér litla eða enga stoð í raunveruleikanum.
Því hefur einnig verið haldið fram að óverðtryggð lán verði illviðráðanleg vegna hárrar greiðslubyrði í upphafi lánstíma. Skoðum nánar hvað er hæft í slíkum fullyrðingum. Aftur er stuðst við vefreiknivél Landsbankans, 40 ára jafngreiðslulán á þeim kjörum sem bankinn býður nú:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 91.522 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 91.668 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 91.890 kr.
- Óverðtryggt (6,75% vextir): 120.791 kr.
Vissulega eru fyrstu greiðslurnar hærri sem skýrist af því að lánskostnaður er staðgreiddur á hverjum gjalddaga í stað þess að færa stóran hluta hans á höfuðstól lánsins (þvert gegn lögum vel að merkja) og seinka greiðslu hans. Það er einmitt þess vegna sem óverðtryggða lánið er ódýrast á heildina litið, enda er eðlilegt að staðgreiðsla sé ódýrari en þegar veittur er greiðslufrestur. Ofan á þessi mánaðarlegu viðbótarlán fyrir verðtryggingunni bætast svo vaxtavextir sem gera ekkert annað en hækka lánskostnaðinn síðar meir. Hér gildir sú regla að því sem þú hefur ekki efni á í dag hefurðu ekki efni á á morgun þó þú frestir greiðslu þess, nema kannski þú vinnir í happdrætti í millitíðinni.
Reyndar er sama hvað maður blekkir sjálfan sig þá verður verðtryggða lánið alltaf dýrara, þó að það verði "dýrara seinna" þá er það bara eins og að pissa í skónna sína, skammgóður vermir. Helsti munurinn á þessum lánum er nefinlega sá að greiðslubyrði óverðtryggða lánsins verður alltaf sú sama, á meðan greiðslubyrði verðtryggða lánsins fer hækkandi. Þess vegna er ágætt að skoða líka hvenær á lánstímanum hún verður sú sama á þeim:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 12,5 ár
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 6,7 ár
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 4 ár
Eftir þetta verður svo greiðslubyrðin af verðtryggða láninu hærri heldur en því óverðtryggða, og fer síhækkandi í þau 27,5 - 36 ár sem eftir lifa lánstímans. Skoðum hversu há greiðslan verður nákvæmlega á síðasta gjalddaganum:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 221.264 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 477.385 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 1.528.443 kr.
- Óverðtryggt: 120.791 kr.
Nei þetta er ekki villa, miðað við forsendur síðustu tíu ára verður afborgunin síðast ein og hálf milljón af verðtryggða láninu, og athugið að hér er átt við afborgun aðeins eins mánaðar sem þýðir að á í lok lánstímans þarf að greiða hátt í sautján milljónir af láninu á einu ári. Getur verið að árstekjur einstaklings sem ekki ræður við að greiða 120.791 kr. í afborganir á mánuði verði nokkurntíma svo háar, hvað þá eftir 40 ár? Að minnsta kosti hafa aldrei neinar vísbendingar eða sannanir nokkurntíma verið bornar fram sem stutt gætu slíkar kenningar. Að reyna svo að réttlæta slíkar firrur með því að vísa til "lágtekjuhópa" sem þurfi "lága greiðslubyrði" er hreinasta svívirða og dónaskapur.
Svo er annað sem hefur algjörlega gleymst hjá sumum að taka með í reikninginn, en það eru vaxtabætur sem koma á móti vaxtagreiðslum af húsnæðislánum, og dempa þannig greiðslubyrðina í upphafi lánstímans, á meðan lítil eignarmyndun hefur átt sér stað. Skoðum þá næst hvernig greiðslubyrðin verður að teknu tilliti til vaxtabóta, miðað við sömu lánsforsendur og að vaxtabætur dreifist jafnt niður á alla gjalddaga afborgana. Þar sem gjarnan hefur verið vísað til "lágtekjuhópa" og meintra þarfa þeirra skulum við þá miða við að tekjuviðmið vaxtabóta skerði þær ekki en samkvæmt upplýsingum RSK eru þær óskertar hjá hjónum kr. 1.200.000 á ári eða mest kr. 100.000 á mánuði.
Vaxtabætur:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 60.824 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 61.463 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 62.446 kr.
- Óverðtryggt (6,75% vextir): 100.000 kr.
Eins og sjá má fást hæstu lögleyfðu vaxtabætur vegna óverðtryggða lánsins. Að teknu tilliti til þeirra verða fyrstu afborganir nettó:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 30.698 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 30.205 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 29.444 kr.
- Óverðtryggt (6,75% vextir): 20.791 kr.
Dæmi svo hver fyrir sig hvað af þessu lánum er "ódýrast" en eins og þarna má sjá er greinilegt að óverðtryggða lánið er hér um bil helmingi ódýrara en það verðtryggða!
Rétt er taka fram að þetta er miðað við núverandi vaxtabótakerfi og þarfnast því engra lagabreytinga heldur er þetta raunveruleikinn á Íslandi í dag. Ljóst er að þær forsendur sem fullyrðingar fylgjenda verðtryggingar um meinta óbærilega háa greiðslubyrði óverðtryggðra lánabyggjast á, eru í besta falli villandi og í versta falli falskar. Þess er líka rétt að geta að Landsbankinn á stórfelldra hagsmuna að gæta en hann er með stærsta jákvæða verðtryggingarjöfnuðinn af öllum bönkunum og græðir fyrir vikið milljarð á hverju verðbólguprósenti. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að taka það mjög alvarlega þegar bankinn tjáir afstöðu sína til verðtryggingar.
Niðurstaða: Greiðslubyrðin er alls ekki of þung (fyrir lágtekjuhópa)!
![]() |
Greiðslubyrðin er of þung |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Afglæpavæðing að verða opinber stefna?
13.2.2014 | 22:54
"Menn verða að horfa á raunveruleikann eins og hann er."
Þessi orð höfð eftir heilbrigðisráðherra gætu varla verið sannari.
Og þar sem umræðan tengist fíkniefnum, hvað með öll löglegu fíkniefnin? Þeir sem þurfa að nota amfetamín af heilsufarsástæðum geta nú þegar fengið það gegn lyfseðli. Reyndar hefur verið talað um þetta sem eitt mest misnotaða lyfið hér á landi, um leið og það er notað í læknisfræðilegum tilgangi sem talinn hefur verið réttlætanlegur.
Hefur ekki umræðan um þessi mál verið á algjörum villigötum hingað til? Hvar er til dæmis jafnræðisreglan þegar kemur að þeim sem þurfa á öðrum lyfjum en amfetamíni að halda af heilsufarsástæðum? Hvað með þau lyf sem ekki eru banvæn/skaðleg? Hvar er umræðan um þau?
Staðreynd: flest dauðsföll af völdum lyfjanotkunar verða vegna löglegra lyfja sem keypt eru samkvæmt lyfseðli, hvort sem sá lyfseðill sé gefinn út á réttum forsendum eða röngum. Hvers vegna snýst umræðan ekki um banvænu lyfin frekar en þau sem engan drepa og munu aldrei geta drepið nokkurn mann?
Er gildismat okkar vesturlandabúa varðandi lyfjanotkun kannski á villigötum? Það væri alltént ekki eina umræðan í okkar lyfjaháða þjóðfélagi sem væri á villigötum. Nægir að nefna Icesave, skuldamál heimilanna, verðtryggingu og fleiri hluti þar sem fullt af fólki virðist vera algjörlega úti á túni. Á hvaða sterku lyfjum er eiginlega það fólk sem ekki skilur þessa hluti almennilega eftir allar útskýringar sem veittar hafa verið?
Getur verið að einhver hluti þess fólks sé að taka inn röng lyf? Eða jafnvel að sumir úr þessum hópi séu ekki einu sinni að fá réttu lyfin sem myndu henta þeim til að líða betur? Og hugsa skýrar en þeir gera?
Allavega er nokkuð ljóst að refsistefnan í þessum málaflokki er ekki að virka. Til að taka dæmi um óæskilegar afleiðingar þeirrar stefnu er nægilegt að líta til Bandaríkjanna, þar sem einkarekin fangelsi eru hraðast vaxandi "iðnaðurinn" í því landi.
Hversu sjálfbært getur land verið þar sem helsti vaxtarbroddurinn felst í því að fangelsa þegnana? Hvaða framtíð getur slíkt land haft aðra en varanlega eymd og grimmd? Staðreyndirnar tala sínu máli þar sem eymd og grimmd er hvergi meiri en í þeim löndum sem eru hvað hörðust á refsistefnunni í vímu/fíkniefnamálum.
Svo er mjög mikilvægt að skilja á milli vímuefna og fíkniefna. Ekki eru öll vímuefni fíknivaldandi, og ekki eru heldur öll fíkniefni vímuvaldandi. Besta dæmið um það er sykur, sem er ekkki vímuefni, en samt fíkniefni. Tóbak (nikótín) er ekki heldur álitið vera vímugjafi í hefðbundnum skilningi, en er samt meðal sterkustu fíkniefna sem þekkjast.
Er ekki kominn tími til að færa umræðuna um þessi mál upp á betra plan, þar sem staðreyndir liggja til grundvallar, frekar en fordómar og annað húmbúkk? Augljóslega er höfundur með þessu að taka afstöðu með afglæpavæðingu lyfjanotkunar, en um leið að vekja athygli á þeim alvarlega tvískinnungi sem hefur gætt um þennan málaflokk. Öll umræða er velkomin, án fordóma af hálfu þess sem þetta skrifar.
![]() |
Óþreyja eftir betra ástandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Búið að reyna á ábyrgð ríkisins
10.2.2014 | 16:40
Nú er liðið rúmt ár síðan EFTA-dómstólinn kvað upp dóm sinn um að íslenska ríkinu bæri ekki að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), sem er reyndar meira að segja óleyfilegt samkvæmt tilskipun 94/19/EB.
Með þeirri niðurstöðu var staðfest það sem fjöldi aðila, flestir úr röðum almennings frekar en elítunnar, reyndu ítrekað af mikilli þrautsegju að koma þáverandi stjórnvöldum hér á landi í skilning um, og mikilvægi þess að taka til fullra varna gegn ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga. Það tók fjögur ár, og sigur hafðist að lokum.
Núna hafa Bretar og Hollendingar loksins viðurkennt það rétta í verki, það er að segja með því að stefna hinum réttmæta greiðanda innstæðutrygginga (TIF) fyrir þann dómstól sem hefur lögsögu í varnarþingi hans (Héraðsdóm Reykjavíkur) og gera þar kröfu um greiðslu þess sem þeir telja sig vanta upp á vegna innstæðna sem þeir hafi átt hér á landi.
Tryggingasjóðurinn er sjálfseignarstofnun, og sem slíkur nýtur hann ekki ríkisbyrgðar, heldur þvert á móti, hann er til að mynda fjármagnaður af bönkunum sjálfum, og eins og áður segir er beinlínis óheimilt að fjármagna hann með ríkisábyrgð. Hefði slík ríkisábyrgð verið veitt þá hefði Ísland gerst brotlegt við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum.
Það athyglisverðasta við þetta er sú staðreynd að hvorugur stefnenda átti neinar innstæður í íslenskum bönkum, og eiga því enga kröfu á hendur TIF, svo málinu sem þeir hafa höfðað hlýtur að verða að vísa frá Héraðsdómi Reykjavíkur sökum aðildarskorts.
Komist dómurinn engu að síður að þeirri niðurstöðu að stefnendur hafi með einhverjum hætti getað eignast kröfu(r) á hendur TIF, hljóta þeir að þurfa að framvísa gögnum sem staðfesta það, máli sínu til stuðnings. Geti þeir það ekki, hlýtur málinu að lykta með sýknu TIF, en geti þeir það þá hafa þeir að öllum líkindum gert það með veitingu ríkisábyrgðar á innstæðutryggingum, og þar með gerst brotlegir við EES-samninginn.
Við úrlausn málsins hlýtur að hafa sitt að segja, að búið sé að sökkva nýja Landsbankanum (sem er í eigu ríkisins) í 300 milljarða króna skuldir við þrotabú þess gamla til þess að hann geti greitt kröfur á hendur sér vegna innstæðna. Þar af er hann nú þegar búinn að greiða tugi milljarða fyrirfram og það í erlendum gjaldeyri. Þessum greiðslum hlýtur því að þurfa að skila til baka, eða í það minnsta skuldajafna þeim á móti dómkröfunum.
Ekki er hinsvegar víst að þeir innstæðueigendur sem hafa eygt von endurheimtur úr búinu, verði sáttir ef þær skerðast vegna málshöfðunar Breta og Hollendinga, en kröfur þeirra gæti TIF ekki efnt öðruvísi en að nota eignir úr búi Landsbankans til þess. En þar sem það eru aðallega breskir og hollenskir ríkisborgarar þá eru góðu fréttirnar þær að þeir þyrftu þá í framhaldinu aðeins að glíma við sín eigin stjórnvöld til að fá því skilað.
Þá hlýtur það jafnframt að liggja beint við fyrst Bretar og Hollendingar virðast núna telja að Landsbankinn eigi bara alls ekkert að borga þeim þetta heldur eigi TIF að gera það, að þá verði hinum svokölluðu "Landsbankabréfum" rift hið snarasta, og ekki bara rift heldur þau rifin í tætlur og kveikt í tætlunum og öskunni svo sturtað niður úr klósettinu.
Því næst gæti sá banki snúið sér að því að leiðrétta uppsprengdar skuldir viðskiptavina eins og hann hefði átt að verja síðustu fjórum árum í að gera, í stað þess að rembast við að senda Bretum og Hollendingum gjafir úr skuldsettum gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Hann hefði þá í það minnsta þeim mun meira svigrúm til þess að leiðrétta lánin hjá heimilunum, þó ekki nema bara þannig að þau samræmist lögum. Vonandi á samt ekki eftir að taka önnur fjögur ár að fá þá sem ekkert þykjast skilja til þess að fatta þau lög.
Og svo er það rúsínan í pylsuendanum, sem er sú að jafnvel þó að Bretum og Hollendingum tækist að vinna þetta dómsmál, þá yrði sá dómur ekki aðfararhæfur í neinu öðru en íslenskum krónum: TADA! Það gæti svo reynst þeim afar erfitt ef ekki ógerlegt að selja svo stórar fjárhæðir fyrir erlendan gjaldeyri. Nema kannski með miklum afföllum, og langri bið eftir afléttingu gjaldeyrishafta til að flytja þann gjaldeyri úr landi.
Jæja, þá eru tveir stærstu keppendurnir dottnir úr leik í störukeppninni.
Næsti?
![]() |
Ekki mun reyna á ábyrgð ríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frábærar fréttir
10.2.2014 | 15:42
Hollenski seðlabankinn DNB og breski innstæðusjóðurinn FSCS hafa stefnt Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi, TIF, fyrir héraðsdóm, og krefjast þar greiðslu tæplega 556 milljarða króna.
Þetta eru frábærar fréttir því svo virðist sem báðir þessir erlendu aðilar séu núna loksins, fimm árum eftir að þetta leiðindamál kom upp, búnir að lesa lögin og reglurnar sem um þetta gilda, og ársgamlan dóm EFTA-dómstólsins á grundvelli þeirra.
Fyrir vikið beina þeir loksins kröfum sínum í málinu að réttum aðila: Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sjálfseignarstofnun sem nýtur ekki ríkisábyrgðar. Það hefðu þeir átt að gera allan tímann en hafa ekki gert fyrr en nú þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að benda þeim á það.
Það sem verður mest spennandi að fylgjast með verður hvort Samfylkingin stormar ekki í heild sinni niður í héraðsdóm strax í fyrramálið, til þess að bjóða fram greiðslu eins og þau eru margbúin að lofa stefnendum í málinu. (*kjánahrollur*)
![]() |
Krefjast 556 milljarða vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
IceSave | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Afnám verðtryggingar forsenda lágrar verðbólgu
7.2.2014 | 20:15
Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um réttláta málsmeðferð
7.2.2014 | 17:02
Ekki Bitcoin heldur eftirlíking
6.2.2014 | 22:33
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Staðfesting á alríki ESB
4.2.2014 | 19:45
Evrópumál | Breytt 5.2.2014 kl. 03:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Icesave IV: Riftun Landsbankabréfanna
28.1.2014 | 18:26
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Frumvarpið löngu tilbúið
27.1.2014 | 19:17
Villandi fréttaflutningur
21.1.2014 | 18:50
Mikið fár út af litlu
19.1.2014 | 21:17
Fjölmiðlar | Breytt 20.1.2014 kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ástæðan er vel þekkt
11.1.2014 | 15:50
Tær snilld
6.1.2014 | 13:18
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)