Ekki fyrsta íslenska rapplagið
11.4.2018 | 15:08
Helgi Björnsson söngvari var í viðtali í morgun í þættinum Ísland vaknar á útvarpsstöðinni K100. Þar var einkum rætt um fyrirhugaða sextugsafmælistónleika og af því tilefni skautað létt yfir feril söngvarans. Meðal þess sem þar kom fram var sú fullyrðing að lagið Toppurinn (að vera í teinóttu) sem Helgi söng með hljómsveitinni Síðan skein sól hafi verið fyrsta rapplagið sem var gefið út á Íslandi.
Við ofangreinda fullyrðingu er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi verður að teljast í besta falli umdeilanlegt hvort flokka megi umrætt lag sem rapp. Hörðustu rappáhugamenn myndu tæplega samþykkja það og gætu bent á að þó í laginu sé fönkaður raftaktur og textarnir rímaðir dugar það ekki til þess að tónsmíð flokkist sem rapp, heldur þarf fleira að koma til. Í öðru lagi og burtséð frá þeirri flokkun, virðist sú fullyrðing ekki standast nánari skoðun að rapptónlist hafi ekki verið gefin út hér á landi fyrr en með þessu lagi.
Á vefnum Glatkistan má nefninlega lesa um hina goðsagnakenndu rappsveit Tennurnar hans afa, sem var starfandi á árunum 1988-1995. Sveitin gaf árið 1991 út hljóðsnælduna Dömur mínar og herrar, látið eins og heima hjá ykkur, með 10 rapplögum. Sum laganna svo sem La barna og Ég er kinky vöktu athygli fyrir það sem á þeim tíma þóttu klámfengnir textar, en sem fáir myndu sennilega kippa sér upp við í dag og yrði frekar litið á þau sem gamanvísur. Síðarnefnda lagið var svo notað í kvikmyndinni Veggfóður og kom það út á samnefndri plötu með tónlist úr myndinni árið eftir eða 1992.
Sama ár eða 1992 kom lagið Toppurinn út á smáskífunni S.S.Sól (hver man ekki eftir smáskífum á geisladiskum?) og ári seinna eða 1993 á breiðskífunni SSSól. Þannig er ljóst að það var hvorki fyrsta rapplagið sem var gefið út á Íslandi né það fyrsta sem var flutt á íslensku. Þvert á móti fæst ekki betur séð en að Tennurnar hans afa eigi þann heiður, nema mér skjátlist og einhverjir aðrir hafi verið enn fyrri til að gefa út rapp hér á landi.
Það er samt eitthvað svo séríslenskt og krúttlegt við það að sextugur söngvari annálaðrar sveitaballahljómsveitar telji sig hafa verið fyrstan til að gefa út rapp hér á landi, að maður verður eiginlega að gefa honum prik fyrir viðleitnina. :)
![]() |
Helgi stóðst prófið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bitcoin kerfið var ekki hakkað
2.3.2018 | 09:13
Fram kemur í viðtengdri frétt að íslenskur landsliðsmaður í knattspyrnu hafi tapað inneign sinni í rafmyntinni Bitcoin. Það er að sjálfsögðu slæmt að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni. Af þessu tilefni kunna, eins og eðlilegt má teljast, að vakna spurningar um öryggi Bitcoin og eftir atvikum annarra rafmynta. Mikilvægt er að halda ákveðnum staðreyndum til haga áður en ályktanir eru dregnar af þessu.
Margar rafmyntir eru til og Bitcoin er aðeins ein þeirra. Sumar þeirra eru mögulega svikamyllur sem hefur verið komið á fót af ótraustum aðilum en það þýðir alls ekki að það sama eigi við um Bitcoin. Ekki frekar en að það er mismunandi hvort fólk treystir dollurum frá Zimbabwe eða Bandaríkjunum.
Bitcoin nýtur þeirrar sérstöðu meðal rafmynta að allur forritskóði sem hún byggist á er opinn og þar af leiðandi geta allir tölvunördar heimsins rýnt í kóðann og hakkarar reynt óheftir að brjóta hann en það hefur engum þeirra tekist ennþá. Að enginn skuli hafa fundið brotalöm í kerfinu er líklega besta sönnun sem hægt er að fá fyrir því að öryggið haldi, að minnsta kosti enn sem komið er.
Þrátt fyrir þetta sterka innbyggða öryggi er Bitcoin alls ekki gallalaus. Til dæmis útheimtir það ákveðna kunnáttu, geymslupláss og vinnslugetu á tölvubúnaði að tileinka sér notkun Bitcoin af einhverju viti. Þessi skref eru þó ekki óyfirstíganleg fyrir nútíma tölvunotendur eins og útbreiðsla kerfisins gefur ákveðnar vísbendingar um.
Vegna flækjustigsins hafa samt sprottið upp allskyns aðilar sem bjóðast til þess að einfalda ferlið með því að taka við peningum í þjóðargjaldmiðlum (eða evrum) frá fólki og breyta þeim í bitcoin inneignir. Þessu má líkja við það þegar einhver leggur peninga inn í banka sem breytir þeim í innstæðu á bankareikningi, í trausti þess að geta komið hvenær sem er og innheimt þá innstæðu í formi peninga. Slíka aðila væri í þessu samhengi hægt að kalla milliliði en tölvukerfi þeirra sem halda utan um inneignirnar eru ekki opin heldur er kóðinn og þar með virkni þeirra leyndarmál.
Engar tölvuárásir þar sem Bitcoin inneign hefur verið stolið hafa brotið sjálft myntkerfið enda er það nánast ómögulegt, heldur hafa þær allar beinst að milliliðunum í slíkum viðskiptum. Af upplýsingum sem fylgja með þeirri frétt sem hér um ræðir má álykta að það sama eigi við í þessu tilfelli. Þessu má líkja við bankarán og gildir einu hvort það er framið af hvítflibbum, tölvuhökkurum eða vopnuðum ræningjum.
Þegar bankinn er tómur eða milliliðurinn hefur verið rændur af kunnáttumönnum á því sviði með einbeittan brotavilja, þýðir það ekki að peningarnir sem voru lagðir til hans séu einskis virði eða ótraustir heldur fóru þeir einfaldlega bara annað. Stundum er fólk líka rænt milliliðalaust. Ef einhver er til dæmis rændur tíuþúsund krónum eru þær krónur ekkert ótraustari gjaldmiðill fyrir vikið heldur var fórnarlambið einfaldlega rænt. Sama á við ef einhver hakkar tölvu og stelur Bitcoin veski annars manns, það er ekki brot á Bitcoin heldur þjófnaður á veski sem inniheldur Bitcoin.
Þrátt fyrir allt er tvennt sem Bitcoin hefur fram yfir flesta þjóðargjaldmiðla. Í fyrsta lagi er ekki hægt að falsa Bitcoin án þess að brjóta sjálft grunnkerfið og gera það um leið verðlaust. Í öðru lagi og með sama fyrirvara, er ekki hægt að offramleiða Bitcoin og rýra þannig verðgildi myntarinnar þar sem takmörkun á því er innbygð í kerfið og enginn einn getur breytt því innan kerfisins. Þannig er nýmyndun peninga í kerfinu ("peningaprentun") alltaf fyrirsjáanleg stærð sem hægt er að draga ályktanir af og byggja ákvarðanir á.
Þegar allt þetta er tekið saman má segja sem svo að þó svo að hægt sé að stela peningum þýðir það ekki að peningarnir sjálfir séu ótraustir heldur hafi þeir einfaldlega ekki verið geymdir á stað sem var nægilega vel varinn fyrir þjófnaðinum. Innbrot og þjófnaður á fjárverðmætum sýna ekki fram á bresti í verðmætunum heldur því umhverfi þar sem þau voru geymd. Þvert á móti bendir það til þess að um verðmætan gjaldmiðil sé að ræða ef einhver vill leggja á sig þá fyrirhöfn að stela honum.
![]() |
Íslenskur landsliðsmaður rændur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Peningamál | Breytt s.d. kl. 04:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Leppstríð stórvelda þarfnast loftflutninga
28.2.2018 | 00:02
Íslensk stjórnvöld eru sögð hafa neitað að framlengja leyfi íslenskra flugfélaga til vopnaflutninga á stríðshrjáðum svæðum erlendis.
Eflaust kann að hafa haft áhrif á ákvörðunina að nú er kominn í forsæti ríkisstjórnar flokkur sem hefur hernaðarandstöðu á stefnuskrá sinni.
En ef þau væru samkvæm sjálfum sér ætti næsta skref að felast í því að stöðva alla hergagnaframleiðslu á Íslandi.
![]() |
Flugfélagið fær ekki nýja heimild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Öryggis- og alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Einföld lausn er til sem stjórnvöld hafa ekki notað
26.2.2018 | 20:01
Sjá: Lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda
Engra lagabreytinga er þörf heldur aðeins að þar til bær stjórnvöld nýti þau lagalegu úrræði sem þeim standa nú þegar til boða. (Sjá viðtengda frétt og fyrri færslur hér þessu bloggi.)
Að stjórnvöld hafi ekki nýtt sér lögboðnar heimildir afsakar þau ekki frá því að hafa ekki stöðvað hina ólöglegu starfsemi, sem vel að merkja enginn hefur getað fært gild rök fyrir því að samræmist lögum, hvorki umrædd fyrirtæki né hlutaðeigandi stjórnvöld.
Það væri mjög einfalt að leggja lögbann á glæpastarfsemina ef vilji stæði til þess. Ekki þarf að breyta neinum lögum heldur væri nóg að framfylgja þeim lögum sem þegar eru í gildi.
Helstu vandamál íslensks samfélags stafa ekki af því að lögin séu ekki nóg góð heldur af því að ekki er eftir þeim farið og þeim er ekki heldur framfylgt þegar á þau reynir.
Enginn hefur ennþá kært mig fyrir meiðyrði í garð umræddra glæpastofnana á undanförnum árum og hlýtur því að verða að túlka það sem samþykki þeirra fyrir því að slíkar ásakanir eigi rétt á sér. Þetta eru því viðurkenndar glæpastofnanir!
(Það sama á við um hinar lánastofanirnar sem eru aðeins lunknari að dylja okrið.)
![]() |
Smálán vaxandi vandi meðal ungs fólks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda
15.2.2018 | 15:48
Neytendasamtökin segja í tilkynningu sinni að svo virðist sem þau úrræði sem stjórnvöld hafi til að koma í veg fyrir ólöglega lánastarfsemi dugi skammt, með vísan til starfsemi svokallaðra smálánafyrirtækja sem bjóða neytendum ólögleg lán. Það má vissulega taka undir með þeim að stemma beri stigu við slíkri okurlánastarfsemi.
Þess væri reyndar óskandi að Neytendasamtökin hefðu beitt sér með sama hætti vegna ólöglegra stórlána annarra lánveitenda. Með því á ég t.d. við húsnæðislán en þau fela í sér stærstu skuldbindingar sem venjulegir neytendur undirgangast. Staðfest hefur verið af dómstólum að meira og minna öll slík lán sem veitt voru af fjármálafyrirtækjum fram að bankahruninu 2008 voru ólögleg, jafnt gengistryggð sem verðtryggð.
Jafnframt verður að skoða yfirlýsingar Neytendasamtakanna í ljósi þess að þau hafa þrátt fyrir allt í hendi sér úrræði sem hægt væri að grípa til. Samkvæmt lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda nr. 141/2001 getur ráðherra veitt stjórnvöldum og samtökum heimild til að leita lögbanns og höfða dómsmál til að stöðva eða hindra brot gegn neytendum. Neytendasamtökin eru einmitt meðal þeirra samtaka sem hafa fengið slíka heimild samkvæmt auglýsingu ráðherra nr. 1320/2011.
Þrátt fyrir að njóta slíkrar heimildar, hafa Neytendasamtökin samt aldrei reynt að krefjast lögbanns á ólöglega starfsemi smálánafyrirtækja. Reyndar hefur aðeins einn þeirra aðila sem hafa heimild til þess reynt að nýta þá heimild, en Hagsmunasamtök heimilanna hafa alls fjórum sinnum leitað lögbanns á þessum grundvelli.
Í fyrsta sinn sem heimildinni var beitt beindist málið gegn ólöglegum vörslusviptingum ökutækja vegna ólöglegra bílasamninga, sem voru í kjölfarið stöðvaðar með lagasetningu. Því næst gegn innheimtu ólöglega gengistryggðra lána sem höfðu ekki verið leiðrétt í samræmi við lög af hálfu Lýsingar og Landsbankans. Þá var jafnframt krafist lögbanns á heimildarlausa innheimtustarfsemi Dróma hf., sem var stöðvuð í kjölfarið og umsjón þeirra lána sem þar um ræddi færð yfir til Arion banka.
Neytendasamtökin ættu kannski að leita í smiðju Hagsmunasamtaka heimilanna, og nýta hluta af því mikla fé sem þeim er úthlutað á hverju ári úr ríkissjóði, til að standa straum af höfðun lögbannsmáls í því skyni að stöðva ólöglega starfsemi smálánafyrirtækja? Með því væri að minnsta kosti staðið við stóru orðin í tilkynningu samtakanna...
![]() |
Yfir 400% ársvextir af smálánum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Afnám kynbundinnar mismununar
3.2.2018 | 13:48
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Fróðleikskorn um kjörgengisskilyrði #2
10.1.2018 | 16:34
Eldsvoðar í háhýsum...
8.1.2018 | 18:20
Lýsing: minningargrein um uppvakning
12.12.2017 | 22:52
Fróðleikskorn um kjörgengisskilyrði
7.12.2017 | 14:15
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.1.2018 kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Á Íslandi eru einkum þrjú stór skipulögð glæpasamtök sem mynda eina samstæða heild
26.10.2017 | 00:24
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 04:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Evrumýtan um afnám verðtryggingar
9.10.2017 | 07:41
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.10.2017 kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Persónuverndarlög og dreifing nektarmynda
3.10.2017 | 19:21
Vísindi og fræði | Breytt 4.10.2017 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Röng hugtakanotkun um þjóðerni lána
19.9.2017 | 22:34
Kostuleg rangfærsla dómsmálaráðherra
19.9.2017 | 17:32
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)