Fleiri réttindi eru í stjórnarskrá en eignarréttur

Húseigendafélagið leggur í umsögn sinni um frumvarp um breytingar á húsleigulögum sem liggur fyrir á Alþingi, aðaláherslu á eignarrétt fasteignaeigenda sem eru leigusalar. Það er í sjálfu sér allt í lagi því sá réttur er bundinn í stjórnarskránna. Slík samtök njóta tjáningarfrelsis og mega ráða því hvernig þau haga hagsmunabaráttu sinni.

Á hinn bóginn verður einnig að taka með í reikninginn að ýmis önnur réttindi eru bundin í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála sem íslenska ríkið hefur samþykkt. Þar á meðal rétturinn til viðunandi húsnæðis á viðráðanlegum kjörum, enda hangir lífsvirðurværi margra í samfélaginu á því, ekki síst þeirra sem minnst mega sín.

Eignarréttur eins og hann er skilgreindur í stjórnarskrá er ekki án takmarkana. Hann má til að mynda takmarka í þágu almannahagsmuna. Enginn verður þó sviptur eign sinni án þess að fá bætur fyrir og það er viðurkennt. Sem sæmi um þetta má nefna að eigendur fasteigna mega yfirleitt ekki stunda þar starfsemi sem veldur tjóni á umhverfinu eða rýrir réttindi annarra. Þessi sjónarmið hafa einnig verið staðfest í réttarframkvæmd.

Frumvarpið sem um ræðir felur ekki í sér sviptingu eignarréttar heldur aðeins skilyrði fyrir því hvernig honum sé ráðstafað. Burtséð frá því hvort frumvarpið verði samþykkt eða ekki verður eigendum íbúða áfram heimilt að eiga þær og selja eða kaupa slíkar eignir eins og þeim lystir. Lagaskilyrðin sem eru lögð til í frumvarpinu kveða eingöngu á um hvernig megi ráðstafa slíkum eignum til útleigu og fénýta þær þannig.

Þegar ein tegund réttinda vegst á við aðra tegund réttinda er alltaf skynsamlegt að leita jafnvægis þar á milli. Þess vegna er það ekki endilega stjórnarskrárbrot þó að löggjafinn reyni að stuðla að því að slíkt jafnvægi náist.

Rétturinn til húsnæðis er ekkert síður mikilvægur en eignarrétturinn. Ef sá sem þetta skrifar þyrfti að velja á milli þess að einhver verði heimlislaus og leyfa fasteignareiganda að gera hann heimilislausan, yrði sá fyrir valinu sem er í veikari stöðu. Lesendur mega svo draga sínar ályktanir um hvor það sé í þessu ímyndaða tilviki.

Það þjónar engum samfélagslegum hagsmunum að gera fólki ókleift að hafa viðunandi húsnæði. Það þjónar ekki heldur hagsmunum fasteignaeigenda að hemilislaust fólk ráfi göturnar umhverfis fasteignir þeirra og grípi jafnvel til ólöglegra örþrifaráða eins og innbrota og þjófnaða til að reyna að draga fram líf sitt. Þvert á móti er það til þess fallið að rýra hagsmuni eigenda fasteigna þegar svo er ástatt.

Eignarrétturinn er til staðar og óneitanlega mikilvægur, en kannski ekki eins einhliða og kann að virðast við fyrstu sýn. Ákveðin mannúð er ekki aðeins nauðsynleg til að byggja réttlátt og gott samfélag heldur er hún líka beinlínis stjórnarskrárbundin. Fyrir því eru góðar ástæður sem stefna að því jafnvægi sem er forsenda fyrir góðum árangri.


mbl.is Húsaleigufrumvarp í trássi við stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

í Stjórnarskránni segir líka að ekki megi svipta fólk ríkisborgararéttindum
Því finnst manni þingmenn deila þeim réttindum út all frjálslega

Grímur Kjartansson, 23.3.2024 kl. 20:47

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Grímur.

Það er rétt að ekki má svipta fólk ríkisborgararéttindum.

Ég hef ekki sterka skoðun á því hvort þingmenn kunni að fara of frjálslega með vald sitt til að veita ríkisborgararétt. Stjórnarskráin vetitir þeim frjálsar hendur í þeim efnum og setur ekki sérstök skilyrði. Alþingi veitir aðeins ríkisborgararétt í undantekningartilfellum. Mig minnir að jafnaði 20-30 manns á ári eða þar um bil fái ríkisborgararétt með þeim hætti. Miklu fleiri fá ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun útlendingastofnunar á grundvelli þess að uppfylla hin ýmsu skilyrði sem koma fram í lögum til að hljóta ríkisborgarétt með þeim hætti.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.3.2024 kl. 21:09

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Meðlimir Pussy Riot voru þakklátar en virtust mjög hissa þegar þeim var tilkynnt um íslenskan ríkisborgararétt
Engu líkara en einhverjir aðrir hafi sótt um fyrir þær?

Við viljum varla hafa það þannig
og þó svo Alþingi samþykki þá fá alþingismenn mjög litlar upplýsingar um þá sem verið er að veita ríkisborgarréttinn

Grímur Kjartansson, 24.3.2024 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband