... en fleiri heimili í óskilum

meðfylgjandi frétt mætti að grunlausu ef til vill skilja þannig að:

Heimilum sem eru í vanskilum við Íbúðalánasjóð hefur fækkað um 10% það sem af er ári eða um 420 heimili.

Við fyrstu sýn mætti jafnvel halda sem svo að þetta væri merki um "bætt ástand"?

Sé hinsvegar nánar að gáð kemur í ljós að svo er alls ekki:

Viðskiptablaðið - 500 fasteignir til sölu

Íbúðalánasjóður leysti til sín 436 íbúðir til fullnustukrafna á fyrri hluta árs 2013 og seldi 114 íbúðir.

Þannig kemur í raun ekkert á óvart að fjölskyldum í vanskilum hafi fækkað um 420 þar sem þær hafa misst heimili sín á nauðungarsölu og eru þær fjölskyldur því heimilislausar og búnar að láta heimilið af hendi upp í skuldirnar sem voru í vanskilum. Það sem er í raun afthyglisverðast við tölfræðina er að þrátt fyrir þetta hafa a.m.k. 16 heimili til viðbótar bæst við á vanskilalista, umfram þær fjölskyldur sem hafa misst heimili sín á nauðungarsölum.

Fyrirsögnin á fréttinni sem er þessi: "Færri heimili í vanskilum"

Væri því réttari ef þar stæði frekar: "Fleiri heimili í óskilum"


mbl.is Færri heimili í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Helgason

Já, ég var að spá í það sama þ.e. hvort að þessi tölfræði fangar þá sem hafa misst húsnæði sitt á uppboði.

Og ef ég man rétt þá kom holskefla af uppboðum rétt fyrir kosningar væntanlega vegna þess að kröfuhafar óttuðust að ný ríkisstjórn myndi stöðva uppboð þar til væri búið að leiðrétta lánin.

En nú er aldeilis gott að við erum með seðlabanka sem á kröfur á þrotabú bankanna og hefur tekið sér stöðu með vogunnarsjóðum og öðrum kröfuhafabræðrum gegn skuldugum heimilum landsins. Því hvaða gagn væri svo sem af því að hægt væri að treysta því að tölfræði SÍ um skuldastöðu heimilanna væri hlutlaust mat fagaðila?  

Benedikt Helgason, 19.9.2013 kl. 19:57

2 identicon

@2   Hver djö.... er nú þetta?

Hefurðu einhversstaðar orðið var við hver plön eru í þessari meintu skuldaleiðréttingu, gagnvart þeim sem hafa mist húsin á nauðungarsölu?

Það verður kanski eftir öðru að t.d. íbúðalánasjóður njóti leiðréttingarinnar þar sem hann er jú orðinn eigandi húss sem hefur verið boðið upp vegan skulda!

Ég held að það sé einboðið að þeir sem hafa misst allt sitt vegna stökkbreytingarinnar verði að ná rétti sínum. Hæpið þó að þeir séu miklir bógar til að ráða lögfræðing og alles!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 20.9.2013 kl. 08:14

3 identicon

Já Mummi, Það er þetta með tölfræðina og framsetningu á því sem að baki liggur. Ég sagði strax og ég sá þessar tölur að nauðungarsölur, gjaldþrot og þvingaðar sölur á markaði væru megin ástæðan fyrir þessari fækkun. Sýnist það vera staðfest af þér hérna.

Arnar Kristinsson (IP-tala skráð) 20.9.2013 kl. 08:55

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Bjarni Gunnlaugur: ég eyddi þessari kæfu sem var greinilega ekki efnislegt innlegg heldur óumbeðið auglýsingaefni.

En það er mjög góð spurning hvað stjórnvöld muni gera í málefnum þeirra sem hafa þegar misst húsnæði sitt. Hvort það fólk fái líka leiðréttingu og í hvaða formi. Ég er til dæmis sjálfur í þeirri stöðu að hafa beðið lengi eftir að mér verði skilað eign sem hefur af mér tekin með óréttmætum hætti. Þegar ný ríkisstjórn tók við gerði ég mér hóflegar væntingar en nú meira en 100 dögum síðar bíð ég enn eftir þeirri leiðréttingu sem mér var lofað. Í þessu tilviki er búið að leiðrétta viðkomandi lán svo svo ekki er eftir neinu að bíða varðandi útfærslu á því, en hinsvegar væri gott að fá hina brottnumdu eign til baka sem fyrst svo ég geti haft af henni afnot á ný.

Samt sem áður bólar ekkert á efndum... þó að leiðréttingin sé komin!

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2013 kl. 12:06

5 identicon

Smá athugasemd út af fyrirsögninni. Að vera í óskilum þýðir svolítið annað en vera í vanskilum. "Hundur í óskilum" kalla sig tveir norðlendingar, sem hafa haft sig í frammi við að skemmta fólki þar um slóðir. Minn málskilningur er með þeim hætti að það tákni að einhver hafi fundið hund, sem eiganda vantar að. Er þetta kannski einhver landshlutabundinn skilningur?

E (IP-tala skráð) 20.9.2013 kl. 14:08

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það sem hefur verið skilað, telst vera í skilum.
Það sem á eftir að skila, telst vera í óskilum.

Samanber hliðstætt dæmi:

Ef ég verð af einhverjum ástæðum viðskila við sundfatnaðinn minn í baðklefa sundhallarinnar og hann endar loks í körfu fyrir óskiladót, þá er sundfatnaðurinn í óskilum þar til, og ef, ég fæ hann aftur í mína vörslu.

Nú eru umrædd heimili í vörslu annara en réttmætra eigenda þeirra, og eru þau þar af leiðandi í óskilum þar til réttmætir eigendur fá þau aftur.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2013 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband