Greiningarskortur leiðir til misskilnings

„Of mikil óvissa er þó um fyriráætlanir stjórnvalda til að meta hvort að draga muni í raun úr sjálfstæði Seðlabankans,“ segir IFS greining. Hitt sé hins vegar ljóst að verði dregið úr sjálfstæði Seðlabankans munu verðbólguhorfur versna.

Það sem "snillingarnir" hjá IFS greiningu virðast ekki hafa fattað ennþá, sem verða líklega að teljast nokkuð stór afglöp hjá fyrirtæki sem segist starfa við greiningu, er að það er ekki seðlabankastjóri sem ákveður peningastefnuna, heldur peningastefnunefnd.

Lög nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, 24. gr. (1. málsl.):

"Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum eru teknar af peningastefnunefnd."

 2. mgr. 24. gr. (1. málsl.):

"Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, einn af yfirmönnum bankans á sviði mótunar eða stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Seðlabankastjóri er jafnframt formaður peningastefnunefndar."

Semsagt, fimm bankastjórar, þar af tveir pólitískt skipaðir, en þau eru: Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, Katrín Ólafsdóttir lektor við Háskólann í Reykjavík og Gylfi Zoëga prófessor við Háskóla Íslands.

Forsætisráðherra lætur það rétt svo blakta í vindi að bankastjórunum verði hugsanlega kannski einhverntímann fækkað í þrjá og starfsheitum þeirra breytt en það sé samt ekkert víst og kannski verði þetta bara óbreytt áfram, en það sé allavega allrar skoðunar vert. Þá virðist sem allt ætli að fara á límingunum í þjóðfélaginu og menn falla hver um annan þveran í ofstopa og hleypidómum sem virðast engan endi hafa.

Svei mér þá, ef þetta er ekki orðið helsjúkt þjóðfélag. Og ég sem var rétt svo að byrja að jafna mig eftir óboðlega framgöngu tiltekins þáttastjórnanda á sunnudagsmorguninn, af þeirri tegund sem maður var farinn að vona að heyrði sögunni til hér á landi. Að fréttamenn taki öldur ríkisljósvakans í gíslingu til þess að útvarpa einkaviðhorfum sínum.

Nú eru heilu greiningardeildirnar og ekki bara deildir í öðrum fyrirtækjum heldur jafnvel svokallaðir "sjálfstæðir" greiningaraðilar komnir í keppni um að kasta sér á áróðursbálið. En á meðan þessu stendur halda heimili landsmanna áfram að brenna hægt og bítandi.


mbl.is Ummælin skapa óvissu um verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Færeyingar hafa komist býsna vel af án Seðlabanka. Allt tal um sjálfstæði er fyrir bý, enda orðleppur sem ekki á við. Hagstofan ætti að vera nægilega góð opinber stofnun til að veita stjórnvöldum aðstoð í"peningastefnumálum."

Hef fylgst með þáttum þínum á Útvarpi Sögu. Þar er ekkert lát á umsögn um gjaldþrot sem eru yfirvofandi. Á Seðlabankanum hvílir mikill ábyrgð á stefnuleysinu. Í marga mánuði og ár hefur verið beðið eftir að stýrivextir yrðu lækkaðir. Það gleymist líka að Seðlabankinn hefur haft mörg úrræði til að stuðla að lægri stýrivöxtum. Skólastjórahlutverki Seðlabankastjórans er auðsjáanlega lokið.

Sigurður Antonsson, 17.2.2014 kl. 21:45

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þakka hlustunina, vona að þér líki þátturinn.

Panama er víst ekki með seðlabanka heldur eru allir bankar sem þar starfa "sjálfstæðir", bara hver með sínum hætti. Margir svokallaðir útrásarvíkingar virðast hafa vera hrifnir af því að eiga viðskipti þar (eða í gegnum það land). Þetta er kannski eitthvað sem við ættum að velta betur fyrir okkur.

Þess má líka geta að rafmyntin Bitcoin er fullkomlega nothæfur gjaldmiðill án þess að þar sé nokkur einast seðlabanki inni í myndinni. Það er kannski líka eitthvað sem við ættum að velta fyrir okkur.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2014 kl. 01:43

3 Smámynd: Sigurður Antonsson

Góðar ábendingar um lítið ríki sem kemst af án seðlabanka. Bitcoin er líklega verri en króna.

Allir þættir um fjármál eru af því góða. Fyrir þá sem ekki átta sig á flóknum lánagreiðslum ættu þættir þínir að vera happafengur. Einnig er mikið kunnáttuleysi í því hvernig sýslumenn meðhöndla mál. Þar ert þú á skólasviði og ættir að njóta frumkvöðlastyrkja ef til.

Vöntun á skilningi lánasamninga eða fjárhagslegum ábyrgðum virðist vera mikill. Sjálfsagt væri að hafa skyldugrein í skólum um fjármál. Krónulekinn sýnir að við höfum í gegnum tíðina aldrei náð tökum á fjármálum þjóðarinnar. Forðumst að eiga og bera ábyrgð á bönkum?

Skólun á fjármalasviði er eitthvað það brýnasta að ég held.

Við sjáum á línuritunum þínum að öll eru þau niður á við nem þau efstu.

Hvaða vísitölur eru efst veit ég ekki? Sýnir að ég er enn að læra. Áttaði mig á því fyrir þrjátíu árum að íbúðarlán með verðtryggingu sem ég yfirtók var eins og eilífðarvél.

Sigurður Antonsson, 19.2.2014 kl. 00:42

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þakka þessa umsögn. Við sem höfum verið starfandi að þessum málum höfum einmitt gengið með þann draum lengi að fara út í fræðslumálin af auknum krafti. Við munum eflaust gera það þegar þessari baráttu um ólöglega lánasamninga lýkur, enda væri hún lítils virði ef við lærum ekkert á henni. Þá er ég að meina að við lærum á þessu sem samfélag, og byrjum að hegða okkur eins og ábyrgir neytendur, að veita seljendum/lánveitendum aðhald.

Ég er ekki sammála þér um að Bitcoin sé verri en króna. Reyndar þá sé ég ekki hvernig þú færð það út. Bitcoin er nefninlega laus við flesta þá ókosti sem fylgja þeim gjaldmiðlum sem seðlabankar gefa út. Hvað er það sérstaklega sem þér finnst vera "slæmt" við Bitcoin?

Línuritin hérna vinstra megin eru í þessari röð:

  • 12 mánaða verðbólga (íslensk)
  • Ólíuverð á heimsmarkaði
  • Álverð á heimsmarkaði
  • Gullverð á heimsmarkaði
  • Silfurverð á heimsmarkaði
  • Gengi Bandaríkjadals á heimsmarkaði
  • Gengi Evru á heimsmarkaði

Loks koma lánshæfiseinkunnir Íslands.

Tek það fram að ég hef ekki uppfært þetta lengi og kannski er lánshæfismatið búið að skána eitthvað. Ætti kannski að bæta við líka genginu á Bitcoin, en það var ekki til þegar ég setti þetta upp.

 

Guðmundur Ásgeirsson, 19.2.2014 kl. 08:57

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég yfirfór þetta og komst að því að lánshæfismatið er rétt skráð.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.2.2014 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband