Afnám verðtryggingar forsenda lágrar verðbólgu

Greiningardeild Arion banka segir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sé í dauðafæri að halda verðbólgu skaplegri til lengri tíma en örfárra mánaða í senn.

Þetta er svo sannarlega rétt hjá greiningardeildinni, ekki síst vegna þess að nú liggur fyrir sú fyrirætlan stjórnvalda að afnema verðtryggingu. Reyndar gera fyrirliggjandi tillögur ráð fyrir að það eigi sér stað á nokkurra ára tímabili, á meðan aðrir hafa bent á að hægt sé að gera það strax með pennastriki (eða atkvæðagreiðslu) og er sá er þetta ritar í þeim hópi enda höfundur frumvarps þar að lútandi.

Ástæða þess að þetta er satt hjá greiningardeildinni er sú að verðtryggingin er helsti orsakavaldur óhóflegrar peningalegrar þenslu sem er jafnframt meginorsök mikillar verðbólgu á Íslandi. Um þetta verður vart deilt lengur þar sem sjálfur forsætisráðherra hefur tekið undir þess afstöðu sem byggir á vísindalegum sönnunum fyrir því að þetta sé reyndin.

Jafnframt er skorað á þá sem kunna að vera ósammála þessu að hrekja niðurstöður vísindalegrar rannsóknar Dr. Jacky Mallet við Háskólann í Reykjavík, þar að lútandi: http://arxiv.org/abs/1302.4112

Aldrei þessu vant eru athugasemdir ekki velkomnar nema þær feli í sér efnisleg rök sem hrekja framangreindar niðurstöður.

P.S. Þess má geta að ný útlán eru núna aðeins 25% verðtryggð en restin er óverðtryggð, og má því segja sem svo að meirihluti lántakenda hafi nú þegar kosið með fótunum þannig að þeir séu fylgjandi afnámi verðtryggingar lánsfjár. A.m.k. á sínum eigin lánum.


mbl.is Peningastefnunefndin í dauðafæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Nei,! en mig langar að senda þetta á facebook. Venjulega byrja ég á að taka merkilegar setningar og ber höfund fyrir,síðan eftir 1-2,sendi ég alla greinina (greinar viðkomandi) annars kaffæra þeir þær birtast ekki á forsíðu.

Helga Kristjánsdóttir, 8.2.2014 kl. 01:57

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er í sjálfu sér ekki verðtryggingin, sem er vandamálið heldur er það verðbólgan.  Hvort skyldi koma á undan hænan eða eggið????????????

Jóhann Elíasson, 8.2.2014 kl. 07:05

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Verðbólga getur orðið í hvaða peningakerfi sem er.

Það sem gerist hinsvegar í peningakerfi með verðtryggð útlán er að verðbólga veldur samsvarandi útþenslu peningamagns í kerfinu. Það ýtir hinsvegar undir verðbólguna, eykur hana og viðheldur henni mun lengur en annars til dæmis eftir verðbólguskot. Vegna þess að flest verðtryggðu útlánin eru útfærð með neikvæðri eignamyndun eru þessi áhrif nánast óhjákvæmileg.

Þetta hefur verið sýnt fram á með vísindalegum aðferðum að er staðreynd. Sú rannsókn sem vísað er til í pistlinum var birt fyrir ári síðan og enn hefur enginn getað bent á neina villu eða neitt sem ekki stemmir í niðurstöðunum. Þeim sem trúa ekki þessum staðreyndum er bent á að margoft hefur verið skorað á þá sem halda eitthvað annað, að gera þá sitt besta til að hrekja niðurstöður rannsóknarinnar. Það hefur engum tekist hingað til.

Þetta er ekki spurning um "hvort komi á undan" í þessu samhengi. Reyndin er sú að í peningakerfinu eru báðir þessir þættir að verki samtímis, og fleiri. Alla verðbólgu má rekja til offramleiðslu peninga, en verðtrygging er aðeins ein af mörgum leiðum til að offramleiða peninga. Það sem er hinsvegar sérstakt við hana er að hún tekur áhrifin af öllum hinum hlutunum sem mögulega geta valdið verðbólgu og magnar þau upp. Þannig verður verðbólga mun meiri og þrálátari í kerfi með mikið af verðtryggðum útlánum heldur en án þeirra.

Þannig er spurninginin í rauninni röng, því orsakasambandið sem er í gangi er allt öðruvísi og talsvert flóknara en í þeirri einfölduðu mynd sem hænan og eggið eru. Á móti mæti allt eins spyrja: Í þessari myndlíkingu hvort er þá verðtryggingin hænan eða eggið? Það er ekki til neitt rétt svar við því vegna þess að það er einfaldlega spurningin sem er röng. Hænan og eggið eru nauðsynlegar forsendur fyrir tilvist hvors annars, en það sama á hinsvegar alls ekki við um verðbólgu og verðtryggingu, bæði fyrirbærin geta verið til sjálfstætt frá hvoru öðru, þó að áhrif þeirra geti spilað saman.

Villan hjá þeim sem ekki þykjast/vilja skilja þetta felst í þeirri ranghugmynd að verðtrygging geti ekki verið sjálfstæður áhrifaþáttur, en það er hún svo sannarlega, og hefur bein áhrif á peningaþenslu sem orsakar meiri rýrnun á verðgildi gjaldmiðilsins heldur en myndi vera án hennar. Vilji menn finna ástæður þess að íslenska krónar tapar verðgildi sínu eins hratt og raun ber vitni, þá er þetta einmitt það sem þeir ættu að vera að skoða.

Önnur villa felst í því að þar sem fyrir upptöku verðtryggingar hafi líka verið mikil verðbólga og þess vegna hljóti sú verðbólga að eiga sér aðrar orsakir en sjálfa verðtrygginguna. Þetta er ekki heldur rétt. Eins og áður sagði má rekja alla verðbólgu til offramleiðslu á peningum, en slík offramleiðsla getur átt sér margar orsakir, og verðtrygging er aðeins ein möguleg orsök. Staðreyndin er sú að fyrir upptöku verðtryggingar var ekki mikilli kunnáttu fyrir að fara í hagstjórn hér á landi, og ríkissjóður settur á hausinn reglulega, en þá var því oftast bjargað með peningaprentun, það er að segja að ríkið gaf bara út nýja peninga og notaði þá til að fjármagna ríkishallann. Auðvitað hafði þetta sömu afleiðingar og önnur offramleiðsla á peningum: verðbólgu. Þó að þessi hagstjórnaraðferð/mistök hafi aukið verðbólgu, er hinsvegar ekki þar með sagt að þá geri verðtryggð útlán það ekki. Slík röksemdafærsla felur í raun í sér rökvillu. Hið rétta er að "fyrir verðtryggingu" var það offramleiðsla peninga sem orsakaði verðbólgu og eftir að verðtrygging var sett á útlán hefur offramleiðsla á peningum líka orsakað verðbólgu.

Auk beinnar peningaprentunar og verðtryggingar, er margt fleira sem getur valdið offramleiðslu peninga (og þar með verðbólgu), til dæmis óábyrgar lánveitingar, ofmat á virði lánsfjármagnaðra fjárfestinga, útgáfa sértryggða skuldabréfavafninga, markaðsmisnotkun, peningafölsun, og fleira. Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta allt saman dæmi um eða einkenni óabyrgrar hegðunar, galla í regluverki, og lélegrar hagstjórnar. Verðtrygging útlána lagar ekki þau vandamál, heldur einangrar aðeins fjármagnseigendur frá þeim.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.2.2014 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband