Röng þýðing: "Æfing" er ekki lagahugtak

Því miður virðast hafa orðið "þýðingarmistök" við endurritun viðtengdrar fréttar um þróun mála vestanhafs varðandi tilskipun Bandaríkjaforseta um svokallað ferðabann.

Samkvæmt tilvitnun Washington post (innan gæsalappa) er textinn sem um ræðir svohljóðandi: "...a lawful exercise of the President’s authority..."

Samkvæmt hugtakasafni þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytis Íslands hefur orðalagið "exercise powers" merkinguna "að beita (vald)heimildum".

Samkvæmt hugtakasafni þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytis Íslands hefur orðalagið "exercise of official authority" merkinguna "beiting opinbers valds".

Samkvæmt hugtakasafni þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytis Íslands hefur orðalagið "exercise of implementing powers" merkinguna "(að) beita framkvæmdavaldi".

Samkvæmt bandarískri stjórnskipan fer forsetinn bæði með framkvæmdavald og löggjafarvald (að vissu leyti) sem á sér hliðstæðu í 2. gr. Stjórnarskrár Íslands.

Þannig virðist vera morgunljóst að orðalagið í tilvitnaðri frétt Washington Post á við um beitingu opinbers valds forseta Bandaríkjanna en ekki neinar "æfingar".

Það skal tekið skýrt fram að með þessu er engin afstaða tekin til málsins önnur en sú að þýðing fréttaritara virðist í þessu tilviki vera röng.

Án þess að hafa rannsakað málið sérstaklega virðist þó í fljótu bragði mega segja sem svo að líklega sé tilskipunin sjálf líka röng að ýmsu leyti.

Góðar stundir og afsakið allar gæsalappirnar.


mbl.is Telja lögin vera með Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flatjarðarkenningar um afnám verðtryggingar

Meðal umtöluðustu kosningaloforða í seinni tíð eru þau fyrirheit sem gefin voru í aðdraganda síðustu kosninga um afnám verðtryggingar neytendalána. Nú þegar langt er liðið á kjörtímabilið bólar hinsvegar ekkert á efndum þeirra fyrirheita. Jú, það var skipaður "sérfræðingahópur" sem var falið það verkefni að útfæra afnám verðtryggingar. Jafnvel þó að hópnum hafi strax á fyrstu dögum starfa sinna verið afhent tilbúin útfærsla á silfurfati, mistókst honum samt einhvernveginn að skila þeirri útfærslu af sér. Þess í stað varð útkoman einhver hálfkæringur um að þrengja lánstíma verðtryggðra lána.

Æ síðan hafa hinir og þessir aðilar á opinverum vettvangi látið í ljós vanþekkingu sína með fullyrðingum um að það sé "ekki hægt" eða "mjög erfitt" að afnema verðtryggingu. Nú er svo komið að jafnvel Framsóknarmenn sem lögðu einna mesta áherslu á loforð um að afnema verðtryggingu, er farnir að elta slíkan málflutning. Sennilega gera þeir það í því skyni að búa sér til afsökun fyrir því að hafa mistekist verkefnið, og réttlæta sig með því að það sé svo "erfitt" (að afnema verðtryggingu). Að gefnu tilefni væri því vel við hæfi að fara yfir nokkrar staðreyndir málsins. Ekki skoðanir og ekki einstaklingsbundna afstöðu til málsins, heldur beinharðar staðreyndir:

  • Rétt eins og verðtryggingu var upphaflega komið á með lagasetningu, verður hún ekki afnumin öðru vísi en með lagasetningu, þ.e. breytingum á lögum um vexti og verðtryggingu.
  • Rétt eins verðtrygging miðað við gengi erlendra gjaldmiðla var afnumin mjög auðveldlega með gildistöku núgildandi vaxtalaga fyrir 15 árum síðan, væri alveg jafn auðvelt að afnema verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs.
  • Fyrir Alþingi liggur núna frumvarp fjármálaráðherra þar sem meðal annars er gerð tillaga um afnám verðtryggingar neytendalána miðað við hlutabréfavísitölur, með einni setningu í frumvarpstextanum, eða einmitt með "pennastriki" eins og það er stundum kallað. Ekki þyrfti að breyta nema einu orði í þeim texta til að afnema verðtryggingu neytendalána miðað við vísitölu neysluverðs líka.
  • Frumvarp um afnám verðtryggingar neytendalána (miðað við vísitölu neysluverðs) hefur tvisvar verið lagt fram á Alþingi nú þegar. Frumvarp með fullnaðarútfærslu afnáms verðtryggingar var fyrst lagt fram í mars 2013 á síðasta kjörtímabili, og jafnframt var sambærilegt frumvarp lagt fram í janúar á þessu ári.
  • Það eina sem þarf að gera til að afnema verðtryggingu neytendalána er að meirihluti Alþingis samþykki frumvarp þar að lútandi sem lög, og forseti staðfesti þau með undirritun sinni.

Enn fremur er rétt að vekja athygli á því að það er ranghermt í viðtengdri frétt mbl.is að þau Elsa Lára Arn­ar­dótt­ir og Gunn­ar Bragi Sveins­son hafi sagt í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær, að ekki sé hægt að af­nema verðtrygg­ing­una með einu penn­astriki held­ur verði að gera það í skref­um. Hið rétta er að í grein þeirra segir orðrétt:

"Í fréttum undanfarið hefur heyrst að draga skuli úr vægi verðtryggingar og að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki. Það þurfi að gera í skrefum."

Augljóslega eru þau ekki þarna að tjá sínar persónulega skoðanir, heldur eru þau að vísa til þeirra röngu fullyrðinga sem margir aðrir og sérstaklega hinir sjálfskipuðu varðhundar verðtryggingar, hafa látið út úr sér í viðtölum við fjölmiðla að undanförnu. Þar fer fremstur í flokki sjálfur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sem hefur það sem af er þessu kjörtímabili haldið málinu í dvala, og nánast dauðadái, innan veggja ráðuneytis síns.

Nú kann einhverjum að þykja bratt hjá mér að kalla skoðanir annarra "rangar". Við það stend ég hinsvegar fullum fetum, því sumir hlutir í veruleikanum eru einfaldlega staðreyndir, þar á meðal að það er ekkert sérstaklega erfitt að afnema verðtryggingu. Sá sem hefur aðra skoðun, er því ekki vel upplýstur og fer með rangt mál. Alveg eins og sá sem myndi halda því fram að jörðin væri flöt, en hvort sem það er skoðun viðkomandi aðila eða ekki breytir það engu um að slík fullyrðing er einfaldlega röng.

Það er áhyggjuefni fyrir Íslendinga að sjálfur fjármálaráðherra landsins, skuli ekki vita betur en svo, að bera fram rangar upplýsingar þegar kemur að einu stærsta og mikilvægasta hagsmunamáli íslenskra neytenda. Það er líka áhyggjuefni að fjölmiðlar, sem eiga að þjóna því hlutverki að upplýsa um mikilvæg málefni líðandi stundar, skuli taka athugasemdalaust undir slíkar flatjarðarkenningar. Þjóðfélagsumræða á Íslandi yrði þeim mun gagnlegri og markvissari, ef hún byggðist á staðreyndum frekar en tilhæfulausum ósannindum.


mbl.is Vilja verðtryggingu burt í skrefum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki afnám heldur aukning verðtryggingar

Á uppfærðri þingmálaskrá ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, er ekki að finna neitt frumvarp um afnám verðtryggingar. Ekki einu sinni um að taka þau hænuskref að afnema verðtryggingu 40 ára jafngreiðslulána eða lána sem veitt eru til styttri tíma en 10 ára, líkt og fjármálaráðherra hefur þó ítrekað lofað.

Þvert á móti er efst á lista fjármálaráðherra, frumvarp um "erlend lán" sem er reyndar rangnefni því það frumvarp snýst alls ekki um erlend lán, heldur innlend. Með frumvarpinu er í raun lagt til að gengistrygging lánsfjár verði lögleidd. Þannig felur það í sér tillögu um að auka umfang verðtryggingar, en ekki að draga úr því.

Yfirskrift frumvarpsins er ekki eina fölsunin í því, heldur felur það í sér aðra og mun alvarlegri fölsun. Reglur seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja leyfa þeim nefninlega að bókfæra gengistryggð lán sem "gjaldeyriseignir", þrátt fyrir að ekki sé um neinn gjaldeyri að ræða heldur verðtryggð lán í íslenskum krónum.

Ríkisstjórn Sigurðar Inga ætlar þannig ekki aðeins að svíkja þau fyrirheit sem hún hefur gefið kjósendum, heldur ætlar hún líka að lögleiða fölsun á erlendum gjaldeyri. Samskonar fölsun og þá sem var meðal stærstu orsakaþátta fjármálahrunsins sem þessi sama ríkisstjórn þykist ætla að klára að gera upp. Það ætlar hún þó raunverulega ekki að gera, heldur að skapa kjöraðstæður fyrir bankana til að halda áfram að svíkja og pretta.

Ísland væri betur sett með enga ríkisstjórn, heldur en þá sem vill leyfa falsanir og halda áfram að senda umheiminum þau skilaboð að Ísland sé svikabæli.


mbl.is Málaskrá ríkisstjórnarinnar birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuttuguþúsund mótmælendur

Bara svo að það sé á hreinu þá var Austurvöllur gjörsamlega smekkfullur á milli 17:00 og 19:00 og ekki nóg með það heldur voru allar aðliggjandi götur líka troðnar af fólki. Til sönnunar því eru myndir sem teknar voru á staðnum. Hafandi verið viðstaddur mörg af stærstu og mikilvægustu mótmælum samtímans getur undirritaður borið vitni um að sjaldan, jafnvel aldrei, hafa eins margir verið samankomnir á Austurvelli til að tjá óánægju sína heldur en í dag. Nokkuð hefur verið á reiki í fjölmiðlum í dag hver fjöldi þáttakenda hafi verið en af fjöldatölum frá fyrri mótmælum að dæma er þó hægt að fullyrða að fjöldinn hafi ekki verið undir fimmtán þúsund og sennilega yfir tuttugu þúsund. Sjálfur hefur undirritaður aldrei upplifað jafn mikinn fjölda í slíkum mótmælum. Þegar hæst stóð var beinlínis ómögulegt að komast inn á Austurvöll, slikur var mannfjöldinn sem þar var samankominn. Það ánægjulega við það er þó að með þessu sýnir íslenska þjóðin að sá neisti sem kviknaði hjá henni með búsahaldabyltingunni 2009 og mótmælum í kjölfarið, hefur ekki slokknað. Á meðan sá neisti lifir má búast við því að stjórnvöldum í landinu verði sýnt viðhlítandi aðhald, og það eru góðu fréttirnar frá deginum í dag. Annað sem var líka mjög ánægjulegt við mótmælin í dag var hversu friðsöm þau voru, en ekki varð vart neitt mikið alvarlega heldur en að sumir hentu eggjum og margir mættu með banana sem þeir hentu í átt að Alþingishúsinu en líkamlegt ofbeldi sást hinsvegar hvergi.

Áfram Ísland!


mbl.is 7-8 þúsund manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska krónan stöðugasti gjaldmiðillinn

Greiningardeild Arion banka hefur gefið út afar athyglisverða greiningu á gengisflökti nokkurra gjaldmiðla miðað við evru. Meðal þeirra eru allir helstu gjaldmiðlar sem notaðir eru í alþjóðlegum viðskiptum eins og Bandaríkjadalur, japanskt jen, og svissneskur franki, gjaldmiðlar enskumælandi landa, og fleiri eins og ungverskar forintur, ásamt öllum þjóðargjaldmiðlum norðurlandanna: Arion banki - Sérefni_krónan_2016.pdf

Meðal niðurstaðna greiningarinnar er að undanfarið ár eða svo, hefur íslenska krónan verið stöðugust allra gjaldmiðla í úrtakinu, gagnvart evru, og hefur reyndar verið með þeim stöðugustu undanfarin 5 ár eða svo. Einnig hefur íslenska krónan verið að styrkjast jafnt og þétt að undanförnu og á sama tíma hefur gjaldeyrisforði landsins farið vaxandi og lánshæfismatið þokast upp á við.

Spá greiningardeildarinnar til náinnar framtiðar er svohljóðandi: "Miðað við spár um verðbólgu, viðskiptakjör, utanríkisviðskipti og það sem virðast vera farsæl þáttaskil í sögu gjaldeyrishafta hér á landi mætti ætla að horfur fyrir krónuna næstu misseri bentu mun frekar til styrkingar en veikingar."

Þetta er auðvitað bara spá, og greiningardeildir banka eru ekki endilega alltaf sannspáar, en það er þó vonandi að þessi spá gangi eftir. Stærstu tíðindin í þessu eru hinsvegar þær staðreyndir sem nú liggja fyrir um algjörlega fordæmalausan stöðugleika íslensku krónunnar undanfarin misseri. Það mætti jafnvel halda að henni væri hollast að vera í höftum eins og hún hefur verið, enda fæst sem bendir til þess að óheft fjármagnsflæði sé yfir höfuð skynsamlegt, ekki frekar en til dæmis óheft geislavirkni, eða eldur.


mbl.is Telja krónuna styrkjast eftir haftalosun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskrift að lausn húsnæðisvandans

Ríkisskattstjóri er sagður hafa sett sig í samband við Airbnb og sambærileg fyrirtæki sem hafa milligöngu um skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, í því skyni að gera grein fyrir íslenskum reglum um svokallað gistináttagjald. Það er þarft og gott...

Óhagstæðari en 3,2% verðtryggt?

Fé­lags­bú­staðir hafa óskað eft­ir því að 500 millj­óna króna lán­taka fé­lags­ins hjá Lána­sjóði sveit­ar­fé­laga verði tryggð með veði í út­svar­s­tekj­um Reykja­vík­ur­borg­ar. Beiðnin var tek­in fyr­ir á fundi borg­ar­ráðs í gær og var samþykkt að...

Hvað er samfélagsbanki?

" Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, benti ný­verið á í grein sem birt­ist í Morg­un­blaðinu, að frá ár­inu 2008 hafi rík­is­valdið lagt 77,8 millj­arða í samfélags­bank­ann Íbúðalána­sjóðinn. " Hér er farið með slíkt fleipur...

Útskýrir eflaust margt

Komið hefur í ljós að höfuðstöðvar Íslandsbanka eru smitaðar af illvígum myglusveppi. Það útskýrir kannski margt undarlegt í starfsemi fyrirtækisins undanfarin misseri?

Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum

Úff. Nú er þetta orðið mjög vandræðalegt. Sjá: Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum Fyrst þingflokkur VG, svo framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, og nú Ung vinstri græn, sem auk þess að fordæma Dani fyrir að taka sér Íslendinga til fyrirmyndar,...

Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum

Ath. Hér er endurbirtur pistill um sama mál frá því í gær, með þeirri breytingu einni að nöfn hlutaðeigandi aðila hafa verið uppfærð til samræmis við tengda frétt: Þingflokkur VG Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar gagnrýnir nýlega danska löggjöf um...

Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum

Þingflokkur VG gagnrýnir nýlega danska löggjöf um útlendingamál, sem felur það meðal annars í sér að heimilt sé að krefja innflytjendur sem hafa ráð á því um að greiða hluta þess kostnaðar sem fellur á danska skattgreiðendur vegna málsmeðferðar og...

Ekki króna úr ríkissjóði vegna Icesave

Samkvæmt frétt á vef slitastjórnar gamla Landsbankans , voru síðustu eftirstöðvar forgangskrafna í slitabú bankans vegna Icesave, greiddar að fullu í gær. Þar með liggur fyrir að ekki ein króna hefur verið lögð á herðar skattgreiðenda vegna málsins og...

Vilja Íslendingar stofna banka í Kína?

Utanríkisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu um fullgildingu stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að Ísland leggi til 17,6 milljónir Bandaríkjadala eða 0,0179% af stofnfé bankans sem samsvarar...

Gleðilega hátíð ljóss og friðar

Heillaóskir til lesenda og annarra bloggara. Gleðileg jól og aðrar hátíðar eftir því sem við á. Megi komandi ár verða farsælt og gæfuríkt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband