Tuttuguþúsund mótmælendur

Bara svo að það sé á hreinu þá var Austurvöllur gjörsamlega smekkfullur á milli 17:00 og 19:00 og ekki nóg með það heldur voru allar aðliggjandi götur líka troðnar af fólki. Til sönnunar því eru myndir sem teknar voru á staðnum. Hafandi verið viðstaddur mörg af stærstu og mikilvægustu mótmælum samtímans getur undirritaður borið vitni um að sjaldan, jafnvel aldrei, hafa eins margir verið samankomnir á Austurvelli til að tjá óánægju sína heldur en í dag. Nokkuð hefur verið á reiki í fjölmiðlum í dag hver fjöldi þáttakenda hafi verið en af fjöldatölum frá fyrri mótmælum að dæma er þó hægt að fullyrða að fjöldinn hafi ekki verið undir fimmtán þúsund og sennilega yfir tuttugu þúsund. Sjálfur hefur undirritaður aldrei upplifað jafn mikinn fjölda í slíkum mótmælum. Þegar hæst stóð var beinlínis ómögulegt að komast inn á Austurvöll, slikur var mannfjöldinn sem þar var samankominn. Það ánægjulega við það er þó að með þessu sýnir íslenska þjóðin að sá neisti sem kviknaði hjá henni með búsahaldabyltingunni 2009 og mótmælum í kjölfarið, hefur ekki slokknað. Á meðan sá neisti lifir má búast við því að stjórnvöldum í landinu verði sýnt viðhlítandi aðhald, og það eru góðu fréttirnar frá deginum í dag. Annað sem var líka mjög ánægjulegt við mótmælin í dag var hversu friðsöm þau voru, en ekki varð vart neitt mikið alvarlega heldur en að sumir hentu eggjum og margir mættu með banana sem þeir hentu í átt að Alþingishúsinu en líkamlegt ofbeldi sást hinsvegar hvergi.

Áfram Ísland!


mbl.is 7-8 þúsund manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska krónan stöðugasti gjaldmiðillinn

Greiningardeild Arion banka hefur gefið út afar athyglisverða greiningu á gengisflökti nokkurra gjaldmiðla miðað við evru. Meðal þeirra eru allir helstu gjaldmiðlar sem notaðir eru í alþjóðlegum viðskiptum eins og Bandaríkjadalur, japanskt jen, og svissneskur franki, gjaldmiðlar enskumælandi landa, og fleiri eins og ungverskar forintur, ásamt öllum þjóðargjaldmiðlum norðurlandanna: Arion banki - Sérefni_krónan_2016.pdf

Meðal niðurstaðna greiningarinnar er að undanfarið ár eða svo, hefur íslenska krónan verið stöðugust allra gjaldmiðla í úrtakinu, gagnvart evru, og hefur reyndar verið með þeim stöðugustu undanfarin 5 ár eða svo. Einnig hefur íslenska krónan verið að styrkjast jafnt og þétt að undanförnu og á sama tíma hefur gjaldeyrisforði landsins farið vaxandi og lánshæfismatið þokast upp á við.

Spá greiningardeildarinnar til náinnar framtiðar er svohljóðandi: "Miðað við spár um verðbólgu, viðskiptakjör, utanríkisviðskipti og það sem virðast vera farsæl þáttaskil í sögu gjaldeyrishafta hér á landi mætti ætla að horfur fyrir krónuna næstu misseri bentu mun frekar til styrkingar en veikingar."

Þetta er auðvitað bara spá, og greiningardeildir banka eru ekki endilega alltaf sannspáar, en það er þó vonandi að þessi spá gangi eftir. Stærstu tíðindin í þessu eru hinsvegar þær staðreyndir sem nú liggja fyrir um algjörlega fordæmalausan stöðugleika íslensku krónunnar undanfarin misseri. Það mætti jafnvel halda að henni væri hollast að vera í höftum eins og hún hefur verið, enda fæst sem bendir til þess að óheft fjármagnsflæði sé yfir höfuð skynsamlegt, ekki frekar en til dæmis óheft geislavirkni, eða eldur.


mbl.is Telja krónuna styrkjast eftir haftalosun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskrift að lausn húsnæðisvandans

Ríkisskattstjóri er sagður hafa sett sig í samband við Airbnb og sambærileg fyrirtæki sem hafa milligöngu um skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, í því skyni að gera grein fyrir íslenskum reglum um svokallað gistináttagjald. Það er þarft og gott framtak hjá skattinum að upplýsa þessa aðila um að starfsemi þeirra brjóti gegn íslenskum lögum og feli raunverulega í sér skattsvik.

Þetta er hinsvegar alls ekki nóg og í raun bara dropi í hafið. Þær rannsóknir og úttektir sem gerðar hafa verið á umfangi þessarar svörtu atvinnustarfsemi, hafa leitt í ljós að minnsta kosti 3.000 íbúðir og 1.000 herbergi sem eru í ólöglegri útleigu þar sem þau eru ekki skráð sem slík í opinberum skrám. Af þessu tilefni verður hér á eftir gerð heiðarleg tilraun til þess að greina hóflega (þ.e. lágmarks-) stærð og umfang skattsvikanna.

Til einföldunar má gefa sér þær hóflegu forsendur að öll herbergi séu leigð einstaklingum en íbúðir leigðar að minnsta kosti 2-3 manna hópum, og útfrá því má álykta að jafnaði séu tveir ferðamenn um hvert rými. Gerum svo ráð fyrir um 80% nýtingu gistinátta yfir árið sem er líka hóflega áætlað þar sem opinberar tölur gefa til kynna að öll pláss séu í raun fullnýtt allt árið. Þá er útkoman 584 gistinætur á ári í hverju rými, en margfaldað með 4.000 rýmum gefur það 2.336.000 gistinætur á ári. Gistináttagjald er 100 kr. á nótt, og samkvæmt því gætu tapaðar skatttekjur numið 233,6 milljónum króna á ári.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því einnig þarf að taka til skoðunar áhrif þessa á tekjur sveitarfélaga, en meðal tekjustofna þeirra eru fasteignagjöld. Samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga mega fasteignagjöld vera allt að 0,5% af íbúðarhúsnæði, en allt að 1,32% af húsnæði sem nýtt er til ferðaþjónustu. Þeir sem leigja íbúðarhúsnæði til ferðamanna án þess að skrá það sem atvinnuhúsnæði, eru því að svíkja viðkomandi sveitarfélag um mismuninn eða 0,82% af fasteignamati húsnæðisins. Auk þess er sérstök heimild til að hækka gjaldið um allt að 25% til viðbótar eða upp í 26,32%.

Það getur verið erfitt að áætla fasteignamat þess húsnæðis sem þannig er leigt út, en til einföldunar verður hér byggt á þeirri forsendu að það sé svipað og meðalíbúð eða 30 milljónir króna, sem er líka hóflegt viðmið. Mismunurinn á fasteignagjöldunum í því tilviki, eftir því hvort húsnæðið er skráð sem íbúðar- eða atvinnuhúsnæði, er 246.000 kr. á ári, en heilar 7,75 milljónir ef hækkunarheimildin væri nýtt. Fyrir 4.000 íbúðir nemur tekjutap sveitarfélaga vegna þessarar svörtu atvinnustarfsemi því 984 milljónum króna eða tæpum milljarði á ári, en tæpum 31 milljarði væri hin sérstaka hækkunarheimild fullnýtt.

Þar með er ekki heldur öll sagan sögð, því ástandið á húsnæðismarkaðnum er með þeim hætti að Íslendingar á leigumarkaði eiga nú í mestu vandræðum með að fá húsnæði. Stór orsakaþáttur þess vanda er hve mikið af íbúðarhúsnæði hefur beinlínis verið tekið út af leigumarkaðnum til þess að leigja það ólöglega út til ferðamanna. Til að bregðast við þessu neyðast sveitarfélög til að útvega jafn margar félagslegar íbúðir, en þar sem þær er allar uppteknar fyrir verður það ekki gert nema með því að kaupa eða byggja nýjar íbúðir.

Ef við gefum okkur eins og hér að framan hóflegar forsendur, og reiknum með að kostnaður við kaup eða byggingu á félagslegu húsnæði sé sá sami og fasteignamat meðalíbúðar eða um 30 milljónir, þýðir það að kostnaður sveitarfélaganna við öflun 4.000 íbúða er að minnsta kosti 120 milljarðar króna. Kostnaður sem myndi aldrei falla á sveitarfélögin ef ekki væri fyrir hina ólöglegu íbúðaleigu, heldur ætti með réttu að falla á atvinnurekendur í ferðaþjónustu vegna uppbyggingar löglegra gistirýma.

Tekið skal fram að allar tölulegar forsendur hér að ofan eru eingöngu áætlaðar og því eðli málsins samkvæmt hóflega áætlaðar. Telja má líklegt að ef sambærileg rannsókn væri byggð á rauntölum, yrðu útkomutölurnar enn hærri. Af þeim má ráða að þó það sé ágætt framtak hjá ríkisskattstjóra að hnykkja á gistináttagjaldinu, þá sé það samt bara dropi í haf tekjutaps og áfallandi kostnaðar sveitarfélaga vegna ólöglegrar íbúðaleigu. Vangoldin fasteignagjöld og áfallandi kostnaður sem stafar af þeim vanda sem skapast hefur á húsnæðismarkaðnum stefna í að verða mörghundruðfalt meiri.

Ofan á þetta allt saman bætist svo sú undarlega staðreynd að Samband sveitarfélaga hefur beinlínis barist gegn því að þær hátt í tíuþúsund íbúðir sem bankar og fjármálafyrirtæki hafa leyst til sín frá hruni, verði skilgreindar sem atvinnuhúsnæði, þrátt fyrir að í lögum um fjármálafyrirtæki standi skýrum stöfum að meðferð fullnustueigna teljist vera liður í atvinnustarfsemi þeirra. Miðað við sömu forsendur og gefnar eru hér að ofan má ætla að tekjutap sveitarfélaga vegna þessa nemi allt að 77,5 milljörðum króna á ári.

Eins og glöggir lesendur kunna nú þegar að hafa áttað sig á, blasir hér við nærtæk lausn á fjárhagsvanda margra sveitarfélaga. Sú lausn felst í því að efla eftirlit með því að húsnæði sé rétt skráð miðað við raunverulega notkun þess. Í tilviki íbúða sem eru leigðar ferðamönnum er það einfalt verk, starfsfólk sveitarfélags gæti einfaldlega flett upp lista yfir slíkar íbúðir á umræddum vefsíðum og borið saman við fasteignaskrá sveitarfélagsins. Það sama mætti gera á grundvelli gagna um nauðungarsölur og aðrar yfirtökur lánveitenda á íbúðum. Með því að skrá rétt þær íbúðir sem þannig eru nýttar til atvinnustarfsemi, gætu tekjur viðkomandi sveitarfélaga stóraukist í kjölfarið.

Einnig blasir hér við lausn á húsnæðisvanda íbúa í sveitarfélögum. Hún felst í því að í þeim sveitarfélögum þar sem alvarlegur húsnæðisvandi er ríkjandi, verði þeir sem nota íbúðir í ólöglega atvinnustarfsemi einfaldlega tilkynntir til lögreglu og hún send á vettvang til að loka þeirri glæpastarfsemi. Eigendur slíks húsnæðis ættu þá engra kosta völ nema að leigja það út löglega, það er að segja sem íbúðarhúsnæði til íbúðarafnota. Eðli málsins samkvæmt stæði það húsnæði þá þeim til boða sem annars væru heimilislausir, og myndi það þannig hjálpa viðkomandi sveitarfélagi að uppfylla stjórnarskrárbundnar skyldur sínar gagnvart íbúum sínum. Einnig myndi það spara þeim yfir hundrað milljarða sem annars myndi kosta að uppfylla þær skyldur með íbúðakaupum eða nýbyggingum.

Allt sem þarf til að leysa vandann, er að framfylgja gildandi lögum landsins.

 

Heimildir:


mbl.is Ríkisskattstjóri kynnir Airbnb íslensk skattalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhagstæðari en 3,2% verðtryggt?

Fé­lags­bú­staðir hafa óskað eft­ir því að 500 millj­óna króna lán­taka fé­lags­ins hjá Lána­sjóði sveit­ar­fé­laga verði tryggð með veði í út­svar­s­tekj­um Reykja­vík­ur­borg­ar.

Beiðnin var tek­in fyr­ir á fundi borg­ar­ráðs í gær og var samþykkt að vísa er­ind­inu til borg­ar­stjórn­ar. Lánið er til fjör­tíu ára og með verðtryggðum 3,2 pró­sent vöxt­um. 

Lánið er tekið til að fjár­magna kaup á fé­lags­legu hús­næði og til upp­greiðslu óhag­stæðari lána Fé­lags­bú­staða sem tek­in voru til kaupa og viðhalds á fé­lags­legu hús­næði.

Óhagstæðari lána en á verðtryggðum 3,2% vöxtum? surprised Hversu mikið óhagstæðari???


mbl.is 500 milljóna lán tryggt með útsvari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er samfélagsbanki?

"Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, benti ný­verið á í grein sem birt­ist í Morg­un­blaðinu, að frá ár­inu 2008 hafi rík­is­valdið lagt 77,8 millj­arða í samfélags­bank­ann Íbúðalána­sjóðinn."

Hér er farið með slíkt fleipur að maður veit varla hvar á að byrja á að vinda ofan af ruglinu. Í fyrsta lagi þá er það nauðsynleg forsenda þess að stofnun geti talist vera samfélagsbanki, að hún sé til að byrja með banki. Íbúðalánasjóður er hinsvegar alls ekki banki, heldur lánasjóður nákvæmlega eins og nafnið segir. Í öðru lagi þá er það hluti af skilgreiningu samfélagsbanka að það sé banki sem sé þannig rekinn að hann skili hagnaði sínum aftur til samfélagsins. Annað hvort með því að vera í eigu samfélagsins þannig að arðurinn af rekstrinum renni aftur þangað, eða með því að skila honum til viðskiptavina þannig að í stað arðs njóti þeir betri viðskiptakjara, að sjálfsögðu innan þeirra marka sem þarf til að reksturinn standi undir sér.

Íbúðalánasjóður gerir hvorugt af framangreindu, hann hefur hvorki skilað samfélaginu sem á hann arði né bættum kjörum til viðskiptavina, heldur hefur hann skilað samfélaginu stórfelldu tapi og viðskiptavinum líka með því að velta allri verðbólguáhættu yfir á heimilin í landinu í formi stærðfræðilega óborganlegrar verðtryggingar. Á meðan hefur ríkissjóður sparað sér tugi milljarða það sem af er þessari öld með því að fjármagna sjálfan sig með óverðtryggðum lántökum frekar en verðtryggðum. (Sjá nánar: Sérrit lánamála ríkisins um samanburð á hagkvæmni verðtryggðrar og óverðtryggðrar fjármögnunar ríkissjóðs.)

Þessar staðreyndir virðast ekki vefjast mikið fyrir þeim sem reyna að halda því fram að Íbúðalánasjóður sé samfélagsbanki, sem virðist fyrst og fremst gert til að draga upp neikvæða mynd af samfélagsbönkum án þess að fyrir slíkum fölsunum sé neinn fótur. Nú síðast stökk fjármálaráðherra landsins á þann vagn. Það er umhugsanarvert að sjálfur fjármálaráðherra skuli sýna af sér svo algjöra vanþekkingu á eðli langstærsta fyrirtækisins í ríkisreikningnum, að halda að það sé banki sem er alls ekki banki í raun og veru. Það væri sjálfsagt farsælla fyrir land og þjóð að hafa fjármálaráðherra sem þekkir muninn.

Fyrir þá sem kunna að vera í vafa, er rétt að benda á að núna klukkan 14:00 hefst í Norræna húsinu, fundur um samfélagsbanka, þar sem hugtakið verið kynnt og færð rök fyrir því að æskilegt kunni að vera að innleiða slíka starfsemi hér á landi. Fundurinn verður sýndur í beinni útsendingu á vefnum, og má nálgast streymið hér:

Fundur um samfélagsbanka- streymi - Norræna Húsið | Norræna Húsið


mbl.is 70 milljarða viðskipti ÍLS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskýrir eflaust margt

Komið hefur í ljós að höfuðstöðvar Íslandsbanka eru smitaðar af illvígum myglusveppi. Það útskýrir kannski margt undarlegt í starfsemi fyrirtækisins undanfarin misseri?

Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum

Úff. Nú er þetta orðið mjög vandræðalegt. Sjá: Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum Fyrst þingflokkur VG, svo framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar, og nú Ung vinstri græn, sem auk þess að fordæma Dani fyrir að taka sér Íslendinga til fyrirmyndar,...

Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum

Ath. Hér er endurbirtur pistill um sama mál frá því í gær, með þeirri breytingu einni að nöfn hlutaðeigandi aðila hafa verið uppfærð til samræmis við tengda frétt: Þingflokkur VG Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar gagnrýnir nýlega danska löggjöf um...

Sambærileg ákvæði nú þegar í íslenskum lögum

Þingflokkur VG gagnrýnir nýlega danska löggjöf um útlendingamál, sem felur það meðal annars í sér að heimilt sé að krefja innflytjendur sem hafa ráð á því um að greiða hluta þess kostnaðar sem fellur á danska skattgreiðendur vegna málsmeðferðar og...

Ekki króna úr ríkissjóði vegna Icesave

Samkvæmt frétt á vef slitastjórnar gamla Landsbankans , voru síðustu eftirstöðvar forgangskrafna í slitabú bankans vegna Icesave, greiddar að fullu í gær. Þar með liggur fyrir að ekki ein króna hefur verið lögð á herðar skattgreiðenda vegna málsins og...

Vilja Íslendingar stofna banka í Kína?

Utanríkisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu um fullgildingu stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að Ísland leggi til 17,6 milljónir Bandaríkjadala eða 0,0179% af stofnfé bankans sem samsvarar...

Gleðilega hátíð ljóss og friðar

Heillaóskir til lesenda og annarra bloggara. Gleðileg jól og aðrar hátíðar eftir því sem við á. Megi komandi ár verða farsælt og gæfuríkt.

Öfugsnúinn fréttaflutningur um neytendalán

Í tengdri frétt er fjallað um ágreiningsmál sem varðaði lántöku bundna gengi erlendra gjaldmiðla, eða með svokallaðri gengistryggingu, sem var staðfest með dómi Hæstaréttar í júní 2010 og margítrekuðum dómum síðan þá að væri ólögleg. Einhvernveginn tekst...

Verður Árni Páll #nakinníkassa?

Án djóks. Í alvöru? Steikt.

#fellibylurinn

Fjúkandi trampólín í desember. Á Íslandi. Hvað er það eiginlega?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband