Tvöfalt ríkisfang veldur vandræðum

Í frétt RÚV sem er endursögð hér á mbl.is segir meðal annars: "...kennara frá Wales, sem var á leið til Bandaríkjanna með nemendum sínum, var vísað frá borði í Keflavík þann 16. febrúar þegar hann millilenti hér á leið vestur um haf."

Af gefnu tilefni skal tekið skýrt fram að þrátt fyrir að getið sé ákveðinna trúarbragða í fyrirsögn fréttarinnar, kemur ekkert fram í henni um þau trúarbrögð eða hvaða þýðingu þau gætu mögulega haft í þessu samhengi. Þetta er því dæmi um villandi fyrirsögn sem er ekki í neinum tengslum við raunverulegt efni viðkomandi fréttar.

Jafnframt segir í frétt RÚV: "Þá segir sveitastjórnin að engar fullnægjandi skýringar hafi verið gefnar á því af hverju kennaranum hafi verið vísað frá borði - hvorki á flugvellinum í Keflavík né hjá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík."

Það skyldi þó aldrei vera að kennarinn hefði orðið uppvís að tvöfeldni varðandi ríkisfang sitt og væri þrátt fyrir allt ríkisborgari einhvers þeirra sjö ríkja sem svokallað "ferðabann" Bandaríkjaforseta nær til? Kæmi slíkt í ljós myndi það leysa hina meintu "ráðgátu" um ástæður þess að honum var ekki leyft að ferðast til Bandaríkjanna.

Þannig var einmitt málum vaxið hjá írönskum Taekwondo þjálfara sem lenti í vandræðum með að komast héðan til Bandaríkjanna skömmu eftir að Bandaríkjaforseti gaf út tilskipun sína um svokallað "ferðabann". Sú staðreynd sem hafði úrslitaþýðingu í því tilviki, að sá ágæti maður væri í raun íranskur ríkisborgari, kom hvergi fram í umfjöllun fjölmiðla um málið. Það hefur kannski þótt óþægilegt sannleikskorn í augum sumra?

Þess má geta til upplýsingar og fróðleiks, að vandamál sem þessi eru með öllu óþekkt í Noregi, þar sem er ekkert til sem heitir tvöfalt ríkisfang. Þeir sem öðlast norskt ríkisfang á einhvern annan löglegan hátt en með fæðingu sinni, verða einfaldlega fullgildir norskir ríkisborgarar og eru því fullkomlega frjálsir ferða sinna til Bandaríkjanna.

Lærdómurinn af þessu er sá að tvöfeldni leiðir til vandræða. Svo má líka velta því fyrir sér hvers vegna einhver gæti viljað heimsækja stað þar sem hann er ekki velkominn?


mbl.is Múslima vísað frá borði í Keflavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Hér er ég ósammála þér, kæri vin.  Fyrir það fyrsta þá eru hátt í 10% íslenskra ríkisborgara með fleiri en eitt ríkisfang. Ég leyfi mér að efast um tvöfeldni þeirra.

Það eru engin alþjóðalög eða samningar um ríkisföng, og gildir þá einu hversu mörgföld þau eru. Hvert ríki fyrir sig hefur sína skilmála um hvernig hægt er að öðlast ríkisfang og mörgum ríkjum. Mörgum ríkjum er sama hvort þú hafir ríkisfang fyrir og gera ekki þá kröfu að þú afsalir þér fyrra ríkisfangi þegar þér er veittur ríkisborgararéttur. Flestum þeirra ríkja er líka sama hvort þú fáir ríkisborgararétt í öðru landi.  Önnur lönd, þar á meðal Noregur, krefjast þess að þú sér ekki með annan ríkisborgararétt en þeirra. En þetta er bara lagaumhverfið og það er ekki mitt að segja þér hvernig það er. Þú gætir kannski skrifað ritgerð sem ber saman þessi réttindi á milli landa.

Hitt með tvöfeldnina (eða margfeldni)... Það er óþarfi að íja að því að hátt í 30.000 Íslendingar, þar á meðal dætur mínar, séu á einhvern hátt tvöfaldir. Það sama gildir um hinn íslenska taekwondo þjálfara, því að í það minnsta er hann Íslendingur á meðan hann dvelur í þessu landi.

Axel Þór Kolbeinsson, 20.2.2017 kl. 21:37

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll og blessaður.

Það er rétt að engin alþjóðleg lög gilda um þetta heldur er það hvers lands að ákveða sínar reglur um ríkisborgararétt. Þannig er ekkert í alþjóðalögum sem kemur í veg fyrir að einhver væri með ríkisborgararétt í öllum löndum, sannkallaður heimsborgari, ef lög einstakra ríkja stæðu ekki í vegi fyrir því líkt og í Noregi.

Það var alls ekki meiningin með þessum skrifum að gera neinum upp illsakir, og biðst ég velvirðingar ef það var útkoman. Þar sem löglegt er að hafa tvöfalt ríkisfang á Íslandi þá er ekkert út á þá að setja sem kjósa að hafa þann háttinn á. Aðrir kjósa einfaldleikann fram yfir flækjustig, líkt og Norðmenn í þessu tilviki. Svo má eflaust rökræða hvort sé skynsamlegra.

Tilgangurinn var fyrst og fremst að benda á að stundum er veruleikinn flóknari en hann virðist vera. Með því á ég við að eins og fjölmiðlar hafa fjallað um þessi mál er látið halda eins og verið sé að bera Evrópubúa út úr flugvélum hægri vinstri af einhverjum duttlungum vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta sem nær til sjö ríkja utan Evrópu og svo er það gert hneykslanlegt, sem það vissulega væri ef satt reyndist. Staðreyndin er hins vegar sú að í þeim tilvikum gerist þetta þegar um er að ræða fólk sem er reyndar einmitt með ríkisfang í þeim löndum sem umrædd tilskipun nær til (auk annars ríkisfangs í Evrópulandi). Þetta lykilatriði kemur því miður aldrei fram í fréttaflutningi af svona atvikum og því eru það í raun og veru falskar fréttir.

Það skal tekið fram að með þessu er ég ekki að taka neina afstöðu til Bandaríkjaforseta eða tilskipunar hans. Bandarískir dómstólar hafa dæmt hana ógilda og ég er sammála þeirri niðurstöðu, trúði því reyndar aldrei að þetta gæti flogið.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.2.2017 kl. 22:31

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég bjóst við engu nema góðum hug frá þér, en færslan sjálf fannst mér skrifuð með þeim hætti að tortryggni gætti gagnvart þeim sem hafa fleiri en eitt ríkisfang. Þess vegna varð ég að svara þér sem fyrst.

Rétt er það að hægt er að rökræða um hvernig lög eiga að vera og í raun á að gera það við öll þau lög sem maður telur að séu ekki þau bestu. Eins og þú veist vil ég sjálfur taka innflytjendalöggjöfina í gegn frá A til Ö til að jafna rétt allra, eða í það minnsta sem flestra.

Ég er líka sammálala þér varðandi fréttaflutninginn hér. Fyrsta spurning blaðamanns ætti að vera hvort viðkomandi væri ríkisbargari í fleiri löndum. Blaðamennska er því miður bara ekki betri en þetta.

Axel Þór Kolbeinsson, 20.2.2017 kl. 23:13

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér útlendingalöggjöfina ofan í kjölin. Hana má eflaust endurskoða eins og svo margt í íslensku lagasafni. Það mun eflaust koma sá dagur áður en langt um líður að ég muni setja mig betur inn í þau mál.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.2.2017 kl. 23:24

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt Guardian er maðurinn breskur ríkisborgari og ekki með tvöfalt ríkisfang. Sé það rétt er þetta mjög undarlegt og setur málið í annað samhengi, og ég verð kannski að éta ofan í mig einhver ummæli hér að ofan hvað þetta varðar. Það gefur hins vegar enn frekar tilefni til þess að komist verði til botns í málinu.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.2.2017 kl. 11:36

6 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ummæli þín eru gild þrátt fyrir að þessi einstaklingur hafi ekki tvöfalt ríkisfang og því ekki ástæða til að éta neitt, nema þú hafir skipt um skoðun.

Tvöfalt ríkisfang hentar vel fólki sem kemur frá löndum sem ekki hafa 90 daga túristadvöl í boði fyrir það ríki sem viðkomandi býr í. Það er óþarfa pappírsvinna að sækja um vegabréfsáritun til að heimsækja foreldra eða systkyni.

Axel Þór Kolbeinsson, 21.2.2017 kl. 13:08

7 Smámynd: Matthildur Jóhannsdóttir

Ég var að kinna mér hverning væri að kaupa fasteign í Indónesíu nánartiltekið undraeyjunni ´Balí. Þá komst ég að því að þeir leifa ekki útlendinum að kaupa land og þeir leifa ekki tvöfalt ríkifang tengt því að þeir vilja ekki að útlendingar kaupi upp landið þeirra. Fallegustu staðina og eru svo bara að nota það í 2 vikur á ári. Ég hef ekki kynnt mér þetta annarstaðar en ég er að huga að því að hafa sumarhús í ódýrara landi en Íslandi þegar ég verð öldruð svo ég geti lifað. Mér líst vel á Norður strönd Marako og ætla að líta á þann möguleika. Enda má ég ekki henda íslenska vegabréfinu og ellilífeirinum í leiðinni.

Matthildur Jóhannsdóttir, 21.2.2017 kl. 13:35

8 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ég er einn af þeim sem er með tvöfaldan ríkisborgararétt, en þegar ég tók ríkisborgararétt í USA, þá voru lögin, eftir þvi sem mér var sagt, að þegar ég tæki erlendan ríkisborgararétt, þá mundi ég missa þann íslenska og ég var ánægður með það.

Við komu til Íslands síðastliðið sumar á Keflavíkurflugvelli þá var mér tjáð að ég væri ennþá með íslenskan ríkisborgararétt, þegar ég spurði hversu lengi ég mætti vera á Íslandi.

Mér var tjáð að lögum um tvöfaldan ríkisborgararétt hafi verið breitt, en ég held að Ísland sé eitt af þeim fáum löndum sem að lög geta gilt aftur í tíman.

Ég fór í gengi að afsala mér íslenska ríkisborgararéttinum, en það gekk ekki upp því að það gat engin stofnun sagt mér hvar það væri gert, byrjaði hjá Hagstofuni og var svo eftir það bent á aðra og svo aðra og svo aðra etc. stofnun, ég rann út á tima.

Fólk á að ákveða sig með ríkisborgararétt, því að það er erfitt að þjóna tveimur herrum á sama tíma, so to speak.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 21.2.2017 kl. 14:52

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jóhann.

Lög geta gilt afturvirkt í vissum skilningi, ef þau eru ívilnandi. Lög sem eru íþyngjandi, geta hins vegar ekki gilt afturvirkt. Þetta er ekki einskorðað við Ísland heldur á við í flestum vestrænum ríkjum að ég held.

Af þessu tilefni vil ég benda þér á að samkvæmt 13. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952 getur útlendingastofnun leyst þann sem búsettur er erlendis og er orðinn eða óskar að verða erlendur ríkisborgari undan íslensku ríkisfangi. Enn fremur segir þar í 2. mgr. "Eigi verður þeim neitað um að verða leystur undan ríkisfangi sem er erlendur ríkisborgari og á lögheimili erlendis."

Ef þú ert alveg harðákveðinn að vilja afsala þér íslenskum ríkisborgararétti myndi ég því ráðleggja þér að snúa þér til útlendingastofnunar með beiðni um það.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.2.2017 kl. 15:20

10 identicon

Það hefur semsagt komið í ljós samkvæmt nýjustu fréttum(falsfréttum) að maðurinn var ekki með tvöfalt ríkisfang heldur eitt vegabréf, breskt vegabréf, og að ástæðan fyrir því að honum var neitað um að fá að koma til Bandaríkjanna hafi einfaldlega verið geðþótta ákvörðun Bandarískar yfirvalda vegna þess að hann er múslimi.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 21.2.2017 kl. 15:20

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stórundarlegt.

Ef ég væri þessi maður hefði ég reyndar alls ekki látið bjóða mér þessa framkomu, heldur neitað að fara frá borði fyrr en starfsfólk flugfélagsins hefði gefið mér skýringar á því af hverju þau vildu vísa mér frá borði og rökstuðning fyrir þeirri afstöðu.

Ef hann hefði gert það þá væri ástæðan engin ráðgáta.

Alvöru fólk gætir réttar síns, en lætur ekki vaða yfir sig eins og tusku og vælir svo eftir á yfir öllu heimsins óréttlæti.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.2.2017 kl. 15:24

12 identicon

Ástæða flugfélagsins var mjög einföld: Bandarísk yfirvöld höfðu látið það vita að viðkomandi farþegi mætti ekki koma til Bandaríkjana. Það er næg og fullgild ástæða fyrir flugfélagið enda gæti það haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir það að flúga eftir sem áður með farþegann.

ls (IP-tala skráð) 21.2.2017 kl. 16:47

13 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Mikið rétt. Ef Icelandair hefði flogið áfram með hann hefði flugvélinni verið meint að lenda og flugfélagið átt í hættu á að missa flugleyfi sitt til Bandaríkjanna. Þannig eru lögin þar og hafa verið í yfir áratug.

Axel Þór Kolbeinsson, 21.2.2017 kl. 18:20

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

ls - Ég verð að vera ósammála þér um að það sé "næg og fullgild ástæða" fyrir því að taka einn mann fyrir og neita honum um löglega þjónustu sem hann er búinn að kaupa án rökstuðning, að "Bandaríkjamenn sögðu það". Í rauninni væri allt eins hægt að tilgreina "af því bara" sem jafn góða/lélega ástæðu.

Hins vegar geri ég mér grein fyrir því sem er hér bent á, að sé slíkum fyrirmælum ekki hlýtt getur flugfélagið átt á hættu að vera svipt leyfi til að fljúga til Bandaríkjanna. Slíkt er hins vegar óréttmætt og brýtur líklega gegn alþjóðalögum og -samningum.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.2.2017 kl. 19:25

15 identicon

Þú tókst kannski eftir var flugið til Bandaríkjanna. Þeir eins og aðrir ráða því sjálfir hverjum þeir hleypa inn í landið. Þess vegna er það nóg að kaninn segði að þessi fengi ekki að fara inn í landið. Að fljúga vísvitandi með farþega sem vitað er að fái ekki að fara inn í landið er vafasamt hvar sem er, en Kaninn hefur ströng lög með þetta og því hefði það verið lögbrot (í USA) að fljúga með manninn. Flugrekstrarsamningar milli landa gera ráð fyrir því að flugfélög fylgi lögum. Geri þau það ekki geta þau misst leyfið til að fljúga til þess lands.

Ég er hræddur um að eigendur Icelandair (að mestu lífeyrissjóðir) hefðu ekki verið ánægðir með að félagið væri sett á hausinn í viðleitni til að hafa áhrif á Bandaríska pólitík.

Þetta er allt saman óháð því hvaða skoðun við getum haft á því hvernig kaninn ákveður hverjir mega koma inn eða ekki. 

ls (IP-tala skráð) 22.2.2017 kl. 10:59

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nú er loksins komin fram skýring á því hvers vegna breska kennaranum var ekki leyft að fljúga til Bandaríkjanna.

Var á lista hjá bandarískum yfirvöldum | RÚV

Samkvæmt frétt RÚV um málið er hann á lista bandarískra yfirvalda yfir þá sem þau telja að þurfi að hafa sérstakt eftirlit með. Þar segir að ekki sé um að ræða svokallaðan "No fly list" yfir einstaklinga sem eru grunaðir um tengsl við hryðjuverkastarfsemi heldur er um að ræða annan lista sem virðist vera meira almenns eðlis. Ekki er að svo stöddu vitað hvers vegna maðurinn er á þeim tiltekna lista en fréttastofa RÚV hefur beint fyrirspurn um það til bandaríska landamæraeftirlitsins og er nú beðið svars þaðan.

Það voru semsagt hvorki íslensk yfirvöld né flugfélagið sem tóku ákvörðun um að stöðva för kennarans, heldur var það gert vegna fyrirmæla bandaríska landamærayfirvalda á grundvelli skráningar mannsins á umræddan lista. Sá listi er mjög umdeildur, meðal annars vegna þess að ekki eru veittar upplýsingar um hverjir eða hvort tilteknir einstaklingar séu á honum og dæmi eru um að menn hafi lent á þeim lista án þess að fótur sé fyrir því, til dæmis vegna þess að farið hafi verið mannavillt á þeim og einhverjum sem heita sama nafni eða eru svipaðir í útliti.

Sá listi sem hér um ræðir hefur verið fyrir hendi lengi og er (að ég held) meðal þeirra ráðstafana sem bandarísk stjórnvöld hafa gripið til eftir atburðina í New York þann 11. september árið 2001. Þetta er því ekki neitt nýmæli og hefur ekkert að gera með margumrædda tilskipun nýs forseta Bandaríkjanna um svokallað ferðabann á einstaklinga frá sjö tilteknum ríkjum í mið-Austurlöndum.

Fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið, hefðu betur átt að koma þessum lykilatriðum málsins strax á framfæri, og taka skýrt fram að það tengdist ekki tilskipun bandaríkjaforseta, til þess að fyrirbyggja misskilning þar að lútandi meðal almennings. Þeir sem telja ástæðu til að gagnrýna hann hafa sennilega af nægu öðru að taka sem raunverulega gæti átt rétt á sér að gagnrýna hann fyrir.

Guðmundur Ásgeirsson, 23.2.2017 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband