Ekki afnám heldur aukning verðtryggingar

Á uppfærðri þingmálaskrá ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, er ekki að finna neitt frumvarp um afnám verðtryggingar. Ekki einu sinni um að taka þau hænuskref að afnema verðtryggingu 40 ára jafngreiðslulána eða lána sem veitt eru til styttri tíma en 10 ára, líkt og fjármálaráðherra hefur þó ítrekað lofað.

Þvert á móti er efst á lista fjármálaráðherra, frumvarp um "erlend lán" sem er reyndar rangnefni því það frumvarp snýst alls ekki um erlend lán, heldur innlend. Með frumvarpinu er í raun lagt til að gengistrygging lánsfjár verði lögleidd. Þannig felur það í sér tillögu um að auka umfang verðtryggingar, en ekki að draga úr því.

Yfirskrift frumvarpsins er ekki eina fölsunin í því, heldur felur það í sér aðra og mun alvarlegri fölsun. Reglur seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja leyfa þeim nefninlega að bókfæra gengistryggð lán sem "gjaldeyriseignir", þrátt fyrir að ekki sé um neinn gjaldeyri að ræða heldur verðtryggð lán í íslenskum krónum.

Ríkisstjórn Sigurðar Inga ætlar þannig ekki aðeins að svíkja þau fyrirheit sem hún hefur gefið kjósendum, heldur ætlar hún líka að lögleiða fölsun á erlendum gjaldeyri. Samskonar fölsun og þá sem var meðal stærstu orsakaþátta fjármálahrunsins sem þessi sama ríkisstjórn þykist ætla að klára að gera upp. Það ætlar hún þó raunverulega ekki að gera, heldur að skapa kjöraðstæður fyrir bankana til að halda áfram að svíkja og pretta.

Ísland væri betur sett með enga ríkisstjórn, heldur en þá sem vill leyfa falsanir og halda áfram að senda umheiminum þau skilaboð að Ísland sé svikabæli.


mbl.is Málaskrá ríkisstjórnarinnar birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Stundum er betra að hafa djöfulinn sem þú þekkir, en þann sem þú ekki þekkir. Það mátu allir vita að afnám verðtryggingar mundi gufa upp í skitlykt með brottför Sigmundar Daviðs.

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 24.4.2016 kl. 16:52

2 identicon

Það er fyrir löngu orðið ljóst að verðtryggingin verður ekki afnumin á þessu kjörtímabili enda lagðist nefndin sem falið var að finna leið til þess gegn því.

Hins vegar lagði nefndin til að hætt yrði að lána verðtryggð lán til 40 ára. Í því felst þó alls ekki tilmæli um að veita 40 ára óverðtrygg lán enda allra síst hægt að afnema verðtryggingu á þeim.

Það er þó vandkvæðum bundið að hætta að veita verðtryggð lán til 40 ára vegna þess að við það myndi þeim sem standast greiðslumat fækka mjög mikið.

Auk þess er Sjálfstæðisflokkurinn andsnúinn því að verðtryggingin verði afnumin.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.4.2016 kl. 19:46

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ásmundur. Þú ert ekki að segja neinar fréttir.

Nefndin sem þú vísar til fór gegn skipunarbréfi sínu. Henni var aldrei falið að taka neina afstöðu til þess hvort það ætti að afnema verðtryggingu, heldur átti hún að útfæra framkvædina á því.

Það þarf ekkert að "finna" neina leið til þess. Á einum af fundum þessarar nefndar var henni einfaldlega afhent tilbúið frumvarp um afnám verðtryggingar. Auðveldara hefði það ekki getað verið og á þeim tímapunkti hefði starfi nefndarinnar í raun átt að vera lokið. Hún notaði frumvarpið því miður ekki, heldur stakk því undir stól.

Það væri engum vandkvæðum bundið að veita óverðtryggð lán til 40 ára. Ef þau væru veitt á viðunandi kjörum myndi þeim ekkert fækka sem gætu staðist greiðslumat. Ef það væri hinsvegar gert ráð fyrir raunverulegum kostnaði verðtryggðra lána í greiðslumati, myndi enginn standast það. Greiðslumat þar sem venjulegur maður á meðallaunum er talinn hafa efni á því að borga yfir 100 milljónir fyrir 20 milljón króna íbúð, er hrein fölsun og blekking.

Mér er fullkunnugt um að Sjálfstæðisflokkurinn er andsnúinn afnámi verðtryggðra lána. Það er einmitt kjarni vandamálsins.

Hinsvegar hefur formaður þess flokks margoft sagst ætla að afnema verðtryggingu lána sem veitt eru til skemmri tíma en 10 ára, sem og 40 ára jafngreiðslulána. Núna liggur fyrir að hann ætlar meira að segja að svíkja það loforð líka.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.4.2016 kl. 21:13

4 identicon

Guðmundur, það er ekki hægt að ætlast til að nefnd sérfræðinga útfæri framkvæmd á afnámi verðtryggingar ef hún telur að afnámið sé skaðlegt.

Það er barnalegt að ákveða afnám verðtryggingar og ætlast svo til að sérfræðingar komi með stimpil á frumvarp þess efnis.

Það er rétt að nefndin lagði til að lán allt að tíu árum yrðu óverðtryggð en misskilningur að hún legði til að það ætti einnig við um lán til 40 ára enda engin rök fyrir því að lán til td 25 ára geti ekki verið óverðtryggð en 40 ára lán geti það.

Verðtryggð lán hafa þann kost að dreifa greiðslubyrðinni. Með því að afnema verðtryggingu myndu flestir ekki standast greiðslumat og því ekki geta keypt íbúð.

Það væri því mjög misráðið að afnema verðtrygginguna meðan krónan er enn gjaldmiðillinn okkar. Nær væri að berjast fyrir lægri vöxtum til að lækka greiðslubyrðina.

Mig grunar að margir þeir sem bíða eftir afnámi verðtryggingar haldi að með því myndi verðtryggingin falla niður á þeirra eigin lánum en vextir haldast óbreyttir.

Hugsanlegt afnám verðtryggingar mun hins vegar aðeins ná yfir ný lán sem þá munu bera mun hærri vexti en verðtryggð lán þannig að fæstir myndu standast greiðslumat.

Ásmundur (IP-tala skráð) 24.4.2016 kl. 21:57

5 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Hvað með þá sem hafa borgað verðtryggð lán í 60 ár og eru enn að borga á elliárum ?

 Ekki vegna óreyðuskulda heldur vegna þess að mismunur á húsverði er slikur eftir því hvar fólk byggir að ekkert fæst fyrir húseiginir víða úti á Landi.

Erla Magna Alexandersdóttir, 24.4.2016 kl. 22:35

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ásmundur.

Þú virðist eitthvað hafa misskilið þetta. Nefndinni var falið að útfæra afnám verðtryggingar, vegna þess að verðtrygging er skaðleg. Ef nefndin hefur talið skaðlegt að útrýma því sem er skaðlegt, þá er varla hægt að kalla þá sem í henni sátu sérfræðinga. Það væri þá svipað og slökkvilið sem teldi það vera skaðlegt að slökkva elda. Með öðrum orðum, ekki starfi sínu vaxið.

Hvort sem "barnalegt" er rétta orðið eða ekki, var að minnsta kosti alveg óþarfi að skipa þessa nefnd. Frumvarpið var samið í ársbyrjun 2013, löngu áður en þessi nefnd var skipuð, og talsvert áður en ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks komst til valda. Það eins sem þurfti að gera var að leggja frumvarpið fram á Alþingi, og þess vegna var mjög kjánalegt að skipa einhverja nefnd sem hvorki þurfti né vildi vinna vinnuna sína.

Það er enginn misskilningur um 40 ára jafngreiðslulánin. Nefndin lagði til að bannað yurði að verðtryggja þau. Hér eru tillögur nefndarinnar ef þú skyldir ekki vera með þær nógu vel á hreinu: https://www.forsaetisraduneyti.is/afnam-verdtryggingar/

Verðtryggð lán dreifa ekki greiðslubyrðinni, heldur færa hana til aftari hluta lánstímans sem hefur þau áhrif að margfalda kostnaðinn sem þá fellur á lánið. Það er ekki kostur heldur ókostur, og meginástæðan fyrir því að þarf að afnema þetta lánsform. Svo er vel hægt að dreifa greiðslubyrði óverðtryggðra lána líka ef menn vilja það, en þó án þess að það margfaldi lánskostnaðinn. Ef "flestir" myndu ekki standast greiðslumat eins og þú fullyrðir, þá þýðir það ósköp einfaldlega að vextirnir eru of háir. Þá þarf vissulega að lækka, eins og þú virðist vera sammála um.

Það er mikilvægt að átta sig á því að afnám verðtryggingar hefur ekkert með krónuna sem gjaldmiðil að gera. Meira að segja Samfylkingin er búin að viðurkenna það. Venjulegar krónur sem við fáum launin okkar borguð með bera enga verðtryggingu, og ef það er í lagi, þá er eins gott að útgjöldin séu líka óverðtryggð.

Auðvitað hefur afnám verðtryggingar aðeins áhrif á ný lán sem yrðu tekin eftir afnámið. Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli. Ef einhver hefur misskilið það og haldið að með afnámi verðtryggingar sé átt við einhverskonar afturvikra leiðréttingu eða breytingu á eldri lánum, þá er það einfaldlega misskilningur sem ég get ekki gert neitt að. Reyndar deili ég þeirri skoðun ekki með þér að halda að flest fólk sé svo miklir kjánar að skilja þetta ekki.

Svo legg ég til að sleppa því að endurtaka það sem nú þegar er búið að skrifa hér. Ef einhver þarf að lesa það sama tvisvar er það vel hægt þó að það standi bara á einum stað á síðunni.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.4.2016 kl. 22:49

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Erla.

Þú spyrð, hvað með þá sem hafi hingað til verið að borga af verðtryggðum lánum?

Svarið er að ef þeir hafa ekki verið upplýstir um þau áhrif sem verðtrygging raunverulega hefur á kostnaðinn sem þarf að greiða, þá eiga þeir líklega rétt á skaðabótum fyrir tjón sitt.

Það hefur þó ekkert með afnám verðtryggingar til framtíðar að gera, sem er umfjöllunarefni pistilsins hér að ofan.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.4.2016 kl. 22:52

8 identicon

Guðmundur, nefndin komst að þeirri niðurstöðu að það væri skaðlegt með krónu sem gjaldmiðil að afnema verðtrygginguna á lán til lengri tíma en 10 ára. Hún gat því ekki fallist á það.

Það er í löndum eins og Rússlandi og Norður-Kóreu sem sérfræðingar eru notaðir sem stimplar á misgjörðir ráðamanna. Reyndar þekkist það einnig á Íslandi en vonandi fer slíkum tilvikum fækkandi.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 25.4.2016 kl. 06:40

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ásmundur.

Þessar voru ekki niðurstöður nefndarinnar og það hlýturðu að vita ef þú veist eitthvað. Auk þess var henni aldrei falið að taka neina afstöðu til neins og ennþá síður að velta fyrir sér gjaldmiðlinum. Ástæðan fyrir því að það þarf að afnmema verðtryggingu er að hún er skaðleg, og þá getur ekki verið skaðlegt að útrýma henni. Ef húsi stafar ógn af eldi þá þarf að slökkva eldinn, og það er hreinlega kjánalegt að halda því fram að það geti verið skaðlegt.

Hættu svo þessum tröllaskap, nú ert þú byrjaður að endurtaka þig, og með því gerirðu öðrum lesendum engan greiða.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.4.2016 kl. 08:04

10 identicon

Guðmundur, þú ert kjáni.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 25.4.2016 kl. 09:47

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þakka þér fyrir Ásmundur. Lifðu heill.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.4.2016 kl. 10:18

12 identicon

Guðmundur

Segðu mér hver hugsunin er að baki afnámi verðtryggingar. Verðtrygging var til þess hugsuð að varðveita ellilífeyrinn. Raunávöxtun sjóðanna er miðuð við skitin 3%. Geta píratar ekki bara séð gamla fólkið í friði? Af hverju finnst ykkur þetta ofrausn? - Ekki er siðferðið nú á háu plani.

Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 25.4.2016 kl. 16:52

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einar.

Þú blandar saman ólíkum hlutum. Hér er ekki verið að fjalla um ellilífeyri, heldur afnám verðtryggingar neytendalána. Ég skal segja þér hver er hugsunin að baki því. Hún er sú að þar sem verðtryggð útlán eins og þau eru útfærð af íslenskum bönkum eru efnahagslega skaðleg, þá þurfi að afnema þau. Alveg eins og ef upp kemur eldur í húsi, sem er skaðlegur, þá er rétt að slökkva eldinn, því annars mun húsið óhjákvæmilega brenna til grunna og jafnvel íbúarnir með. Þá skiptir engu máli hvað verður um lífeyrissparnað þeirra, hann mun ekki slökkva eldinn heldur tekst slökkviliðinu það vonandi.

Ef ég skil þig rétt þá virðistu halda að það sé einhver bein samsvörun á milli þessa og ellilífeyris, en það er hinsvegar misskilningur hjá þér því svo er alls ekki. Reiknireglan sem þú vísar til er ekkert annað en aðferð sem er notuð við bókhaldslegt uppgjör lífeyrissjóða. Raunveruleg réttindi sjóðfélaga eru hinsvegar ákvörðuð með allt öðrum hætti. Þessi bókhaldsregla kom til dæmis ekki í veg fyrir stórfellda skerðingu lífeyrisréttinda þegar lífeyrissjóðirnir töpuðu hundruðum milljarða á fjárfestingum sem urðu verðlausar í bankahruninu. Verðtrygging útlána kom ekki í veg fyrir það, og reyndar var hún einn af orsakaþáttum hrunsins.

Þrátt fyrir mikla leit hefur aldrei fundist ellilífeyrisþegi sem hefur fengið til baka með 3% raunvöxtum allt sem honum hefur verið gert að greiða í lífeyrissjóð um ævina. Þó svo að margoft hafi verið auglýst eftir þessum "verðtryggða lífeyrisþega" hefur hann ekki komið í leitirnar, vegna þess einfaldlega að hann er ekki til. Hinsvegar hefur þessi mýta oft og ítrekað verið notuð til að reyna að telja fólki trú um ágæti verðtryggingar neytendalána, en það er bara blekking sem því miður allt of margir hafa fallið fyrir.

Svo ég taki dæmi af eigin skinni, þá átti ég lífeyrissparnað sem var geymdur í sama bankanum og húsnæðislánið kom frá, og stóð í góðri trú um að þannig væri hagsmunum mínum borgið, því ef skuldirnar hækkuðu myndi lífeyririnn gera það líka. Þegar bankinn hrundi og helmingurinn af lífeyrissparnaðinum gufaði upp þá varð ég alls ekki var við að húsnæðislánið lækkaði um sama hlutfall, heldur þvert á móti hækkaði það um helming! Það eru því ósannindi að einhver bein samsvörun sé á milli verðtryggingar neytendalána og lífeyris, þar sem raunveruleikinn er allt annar.

Loks á ég mjög erfitt með að skilja hvers vegna þú ert að blanda Pírötum eitthvað sérstaklega í þetta. Það var Framsóknarflokkurinn sem lofaði því að afnema verðtryggingu neytendalána en stóð ekki við það, og það var fjármálaráðherra úr Sjálfstæðisflokki sem lofaði því að afnema verðtrygginguna a.m.k. af lánum til allt að 10 ára sem og af jafngreiðslulánum til 40 ára. En þú ert kannski bara ánægður með að þeir skuli ætla að svíkja þau fyrirheit? Fyrst þú spyrð get ég svarað því að Píratar, allavega þeir sem ég þekki, geta alveg "séð gamla fólkið í friði" eins og þú orðar það. Sem flokkur hafa Píratar það ekkert á stefnuskrá sinni að skerða hagsmuni lífeyrisþega eða annarra þjóðfélagshópa, heldur þvert á móti hafa þeir miklu frekar vilja til þess að standa vörð um réttindi almennra borgara.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.4.2016 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband