Vaxtalækkanir skila sér seint og illa

Þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í maí 2019 voru stýrivextir 4,50%. Síðan þá hafa þeir í skrefum verið lækkaðir niður í 1,75%, eða um 61%.

Þegar vaxtalækkunarferlið hófst voru lægstu óverðtryggðir vextir íbúðalána hjá bönkunum 6,00% en hafa síðan þá lækkað niður í 4,90% miðað við þá mælingu sem gildir fyrir apríl mánuð, eða um einungis 18%.

Frá síðustu mælingu hefur Landsbankinn lækkað vexti tvisvar og tilkynnti í gær um þriðju lækkunina, niður í 4,00% frá og með 14. apríl næstkomandi, en sú lækkun mun ekki skila sér inn í mælingu seðlabankans fyrr en í maí í fyrsta lagi.

Ef óverðtryggðir bankavextir hefðu hins vegar þróast á sama hátt og stýrivextir og lækkað um 61% ættu þeir núna að vera komnir niður í 2,33%.

Verðbólga er nú 2,1% þannig að ef verðtryggðir vextir endurspegluðu sama raunvaxtastig og þeir óverðtryggðu ættu vextir verðtryggðra íbúðalána að vera komnir niður í um 0,23%, en eru nú lægstir 2,40% hjá bönkunum.

Samkvæmt þessum forsendum eiga heimilin ennþá inni hjá bönkunum enn frekari vaxtalækkanir upp á a.m.k. 1,77-2,17 prósentustig. Neytendur hljóta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau sjái til þess að sú lækkun nái strax fram að ganga. Enda er ólíðandi að bankarnir stingi mismuninum í eigin vasa, ekki síst í núverandi árferði.


mbl.is Landsbankinn lækkar útlánsvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni fer með kolrangt mál - er hann með óráði?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í morgun:

"Ég vek athygli á því að eftir yfirlýsingu Seðlabankans frá því í morgun hafa vextir á verðtryggðum lánum fallið niður í 0%, ekki bara til skamms tíma heldur allt fram til ársins 2026. Markaðurinn gerir ráð fyrir því að vextir verði lágir, ekki bara á þessu ári heldur mörg næstu ár eftir yfirlýsingar Seðlabankans frá því í morgun. Þetta skiptir miklu þegar spurt er hvernig aðgerðir stjórnvalda geti haft áhrif á hag heimilanna."

Þetta virðast vera frábærar fréttir, að verðtryggð lán séu orðin vaxtalaus! Ef betur er að gáð kemur hins vegar í ljós að þetta er of gott til að vera satt. Samkvæmt vaxtatöflum bankanna eru lægstu vextir á verðtryggðum íbúðalánum þeirra nú:

Var Bjarni þá að ljúga eins og svo oft áður eða hvað var hann eiginlega að meina? Þegar allt er skoðað ofan í kjölinn kemur reyndar á daginn að ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa féll í morgun nánast niður í 0% í Kauphöllinni í viðskiptum á milli fjárfesta. Það er sjálfsagt hið besta mál en engu að síður efninu óviðkomandi.

Hafi þetta verið það sem vísað var til kemur tvennt til greina:

Annað hvort er vanþekking Bjarna á fjármálum slík að hann heldur að vextirnir sem heimilin þurfa að greiða af verðtryggðum lánum sínum séu þeir sömu og fjárfestar sætta sig við að fá í kauphallarviðskiptum með ríkisbréf.

Eða hitt sem gæti líka útskýrt þetta, að þarna hafi Bjarni hreinlega vísvitandi verið að tala gegn betri vitund, til að kveikja þá hugmynd hjá þeim sem ekki vita betur, að með þessu sé heimilunum borgið og þess vegna óþarfi að setja þak á verðtryggingu eins og nánast allir hafa krafist að undanförnu nema hann sjálfur.

Ég læt lesendum eftir að meta hvort sé sennilegra og hvort sé verra.

Önnur ummæli Bjarna í sama svari skutu einnig skökku við:

"Ég vek líka athygli á því vegna umræðunnar um verðtryggð lán að hafi menn raunverulegar áhyggjur af því að verðbólga sé á leiðinni ættu menn ekki að gleyma því að ræða um stöðu þeirra sem hafa tekið óverðtryggð lán í stórauknum mæli á undanförnum árum vegna þess að þeirra greiðslubyrði um hver mánaðamót mun hækka miklu meira en hinna sem hafa verðtryggð lán og njóta í raun og veru skjóls af henni."

Skjóls af verðtryggingunni???!!! Að halda því fram að heimilin njóti einhvers skjóls af verðtryggingu lána er svo mikið öfugmæli að í það er ekki orðum eyðandi.

Svo mætti halda að Bjarni hafi ekki alveg fylgst með, því vextir óverðtryggðra lána hafa alls ekkert farið hækkandi heldur lækkandi þar sem þeir hafa elt stýrivexti seðlabankans niður á við og eru nú orðnir lægri en þeir verðtryggðu ef tekið er tillit til verðbólgu. Enn fremur virðist hann ekki átta sig á því að hvað sem líður vöxtum óverðtryggðra lána þá hækkar höfuðstóll þeirra ekki í verðbólgu eins og gerist með þau verðtryggðu, sem er einmitt það skaðlega við þau síðarnefndu en ekki vextirnir.

Annað hvort veit maðurinn ekkert í sinn haus þegar kemur að fjármálum, eða þá að hann er af algjörri ósvífni að snúa út úr og fara með rangt mál.

Rétt eins og til að toppa þessa vitleysu sagði hann líka:

"Seðlabankinn hefur skyldur að lögum til að halda aftur af verðbólgunni og hann ver trúverðugleika sinn til að sinna því verkefni með þeim tækjum og tólum sem hann hefur. Ég tel ekki tímabært að grípa til sérstakrar lagasetningar vegna verðbólgu og verðtryggingar. Ég tel reyndar að ef við færum út í slíkar aðgerðir mætti efast um traust okkar á því að þessir hlutir verði í lagi."

Af ofangreindum ummælum Bjarna sjálfs að dæma, er miklu frekar ástæða til að efast um traust á því sem hann er sjálfur að gera, heldur en á aðgerðum seðlabankans. Eða hvað á seðlabankinn annars að gera í því vantrausti sem hlýtur að skapast af fjármálaráðherra sem annað hvort er úti að aka eða vísvitandi að bulla og ala þannig á tortryggni, sem við þurfum síst af öllu á að halda á þessum viðsjárverðu tímum?

Bjarni ætti kannski í sínu starfi og framsetningu að draga lærdóm af framkomu talsmanna almannavarna sem hafa með reglulegri, skýrri og réttri upplýsingagjöf að undanförnu, áunnið sér gríðarlegt traust meðal landsmanna. Það má rétt ímynda sér hvílíkt vantraust gæti skapast ef þau yrðu uppvís að því að slengja fram í gríð og erg fullyrðingum um smitfaraldurinn sem enginn flugufótur væri fyrir? Þá myndu engar smitvarnir halda því hér myndi ríkja skálmöld með allsherjar ógn og skelfingu!

Þarf kannski að setja fjármálaráðherra með óráði í sóttkví í þágu almannavarna?


mbl.is Bjarni óttast ekki verðbólguskot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki minnst einu orði á heimilin

Hagsmunasamtök heimilanna sendu í dag frá sér svofellda yfirlýsingu.

---

Viðspyrnu er þörf – fyrir hagkerfið og heimilin

Í gær kynnti Ríkisstjórn Íslands „Viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf“ vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19 veirunnar.

Það dylst engum að ef fram heldur sem horfir mun efnahagslíf þjóðarinnar og jafnvel heimsins alls verða fyrir miklu áfalli, þannig að viðspyrnu er þörf og nauðsynlegt að undirbúa hana eins vel og hægt er.

Hins vegar þarf að hafa í huga að undirstaða hagkerfisins eru heimilin, því án þeirra væri engin þörf á neinni þjónustu, engin til að hvorki kaupa né selja og engin til að lána. Í stuttu máli væri ekkert hagkerfi til án heimila landsins.

Það skýtur því óneitanlega skökku við að í viðspyrnu ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á heimilin, frekar en þau væru ekki til.

Þetta er því miður sama hugarfarið og einkenndi aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins, þar sem ekkert  var gefið eftir gagnvart heimilunum sem voru látin taka á sig höggið af fullum þunga og með skelfilegum afleiðingum.

Það má alls ekki endurtaka sig.

Þá, eins og nú, hafði Ríkisstjórn Íslands samráð við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) um „lausnir“ og nú eins og þá, hunsar hún algjörlega fulltrúa heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna þurfa ekki síður að koma að borðinu en SFF og jafnvel enn frekar.

Heimilin eru hagkerfið

Til samanburðar er áhugavert að nefna aðra ríkisstjórn sem líka tilkynnti um sína „viðspyrnu“ vegna Covid-19 og hjá henni eru áherslur aðrar og betri. Ríkisstjórn Ítalíu virðist átta sig á mikilvægi heimilanna og snýr aðgerðum sínum fyrst og fremst að þeim. Þannig hafa stjórnvöld á Ítalíu gefið heimilum og einstaklingum „frestheimild“  á afborgunum húsnæðislána í kjölfar Covid-19.

Ekki nóg með það, heldur hafa Samtök fjármálafyrirtækja á Ítalíu sagt að lítil fyrirtæki og heimili muni fá frestheimildir vegna efnahagslegra afleiðinga Covid-19.

Ísland er sem betur fer ekki jafn illa statt og Ítalía vegna veirunnar og vonandi þarf ekki að grípa til jafn róttækra aðgerða hér á landi og Ítalir hafa neyðst til að gera en reynslan eftir hrun ætti þó að hafa kennt stjórnvöldum að heimilin þurfa að vera með í ráðum og að gæta þurfi hagsmuna þeirra ekki síður en fjármálafyrirtækjanna.

Við, sem þjóð, verðum að setja heimilin á íslandi í forgang því þau eru grunnurinn að hagkerfinu.

Viðspyrna fyrir heimilin

Hagsmunasamtök heimilanna vilja því beina því til Ríkisstjórnar Íslands að endurtaka ekki mistök fyrri ríkisstjórna og muna að aðgerðir hennar eigi fyrst og fremst að snúast um að verja heimilin í landinu.  Þá er vert að minna á að Stjórnarskráin er samin fyrir einstaklinga og heimili þeirra en ekki til að verja stjórnkerfið eða fjármálafyrirtækin.

Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að strax verði sett þak á verðtryggingu lána heimilanna að hámarki 3,5%. Hefði það verið gert í kjölfar bankahrunsins 2008 hefði margt farið á annan veg og þúsundir fjölskyldna ekki misst heimili sín.

Hagsmunasamtök heimilanna benda á að það sem veldur heimilunum meiri skaða en nokkuð annað er hækkun verðbólgu vegna þess sér-íslenska og stórhættulega fyrirkomulags sem heitir verðtrygging á lánum heimilanna.

Fari verðbólgan af stað hefur engin stjórn á því sem gerist nema gripið sé í taumana strax með fyrirbyggjandi aðgerðum. Aðstæður eins og þær sem núna hafa skapast staðfesta það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa krafist frá seinasta hruni að afnema beri með öllu verðtryggingu lána heimilanna án tafar, því hún veldur bæði þeim og hagkerfinu öllu stórfelldum skaða.

Vonandi kemur ekki til þess, en fari allt á versta veg þá verður Ríkisstjórn Íslands einnig að grípa til „frestheimilda“ á greiðslum húsnæðislána á sama eða svipaðan hátt og Ríkisstjórn Ítalíu er að gera.

Hagsmunasamtök heimilanna bjóða Ríkisstjórn Íslands aðstoð sína og óska hér með formlega eftir aðkomu að þeim leiðum og lausnum fyrir heimilin í landinu sem sannarlega þarf að fara í á þessum sérstöku tímum sem nú ganga yfir, því sameinuð getur íslensk þjóð sigrast á öllum vanda. 


mbl.is Hagstjórnarviðbrögðin jákvæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisábyrgð á bönkum má aldrei í lög leiða

Það er hughreystandi að sjá yfirlýsingar Guðlaugs Þórs utanríkisráðherra um að hann hafi komið því skýrt á framfæri að Ísland samþykki ekki ríkisábyrgð á innstæðum í bönkum. Slíkri ríkisábyrgð hefur í tvígang verið hafnað af Íslendingum í þjóðaratkvæðagreiðslum sem voru báðar bindandi samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins.

Á hinn bóginn eru blikur á lofti því á sama tíma koma fram efasemdir um að Ísland geti fengið undanþágu frá nýrri tilskipun 2014/49/ESB um innstæðutryggingar. Þetta boðar ekki gott því eins og ráðherra bendir réttilega á myndi það þýða að öll hugsanleg "Icesave-mál" framtíðarinnar yrðu fyrirfram töpuð.

Sé þetta rétt virðist Evrópusambandið vilja lögleiða það brot sem Bretland og Holland frömdu gegn þágildandi tilskipun um innstæðutryggingar í fjármálahruninu 2008, og þau reyndu svo að gera Ísland meðsekt um með því að fá okkur til að undirgangast ólöglega ríkisábyrgð. Kemur kannski ekki á óvart þar sem Evrópusambandið tók upp málstað hinna brotlegu fyrir EFTA dómstólnum, sem töpuðu málinu. Þetta er því mögulega einhverskonar andsvar til að reyna að bjarga andlitinu.

Ekki er þó öll nótt úti enn þar sem Evrópusambandið virðist í öllum æðibunuganginum hafa gleymt að taka tillit til þess að ríkisábyrgð felur í sér ríkisaðstoð, sem er algjört bannorð í öllum grundvallarreglum Evrópuréttarins. Almenn löggjöf sem brýtur í bága við grunnreglur (svo sem stjórnarskrá) telst nefninlega ómerk í flestum vestrænum réttarkerfum og má því virða hana að vettugi eins og hver önnur ólög.

Nú skiptir öllu máli að íslensk stjórnvöld verði vel á verði og strax og málið kemur til kasta EFTA eða sameiginlegu EES nefndarinnar verði lagðar fram bókanir á öllum stigum þar sem ríkisábyrgð er mótmælt. Ef til þess kæmi að tilskipunin yrði engu að síður tekin upp í EES samninginn yrði óhjákvæmilega að gera stjórnskipulegan fyrirvara við það af hálfu Íslands, þar sem slíkri ríkisábyrgð hefur í tvígang verið hafnað af íslenskum kjósendum í stjórnarskrárbundnum þjóðaratkvæðagreiðslum.

Enn fremur er afar nauðsynlegt að háttvirtur utanríkisráðherra upplýsi nákvæmlega í hvaða ákvæðum tilskipunar 2014/49/ESB sé mælt fyrir um ríkisábyrgð, svo við sem látum okkur málið varða getum byrjað að vinna að vörnum Íslands gegn þessu eins og við höfum gert hingað til í málum er varða ríkisábyrgð á bankainnstæðum.


mbl.is Snýst um kjarna Icesave-deilunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretland ekki fyrst til að ganga úr ESB

Fullyrt er í meðfylgjandi frétt að Bret­land verði fyrsta ríkið sem geng­ur úr Evrópusambandinu, 31. janú­ar næst­kom­andi.

Þetta er rangt því áður hafa tvö ríki og eitt sjálfsstjórnarsvæði gengið úr Evrópusambandinu, en þau eru:

  • Alsír (1962) sem var áður frönsk nýlenda
  • Grænland (1985) sem var áður dönsk nýlenda
  • Saint Barthélemy (2012) sem er frönsk nýlenda

Aftur á móti verður Bretland fyrsta ríkið innan Evrópu sem gengur úr Evrópusambandinu, 31. janúar næstkomandi.


mbl.is Þingnefnd meinar útgöngusinnum að hringja Big Ben
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geimveðurfar

"Okk­ur til mik­ill­ar undr­un­ar höf­um við á nálg­un fars­ins að sólu greint um­fangs­mikla hverfistrauma, jafn­vel 10 til 20 sinn­um stærri en stöðluð reiknilíkön fyr­ir sól­ina gera ráð fyr­ir. Inn í dæmið vant­ar því eitt­hvert grund­vall­ar­atriði...

Opnar alls ekki fyrir Uber

Sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra hef­ur lagt fram frum­varp til nýrra laga um leigubifreiðaakstur. Með frumvarpinu er brugðist við tilmælum frá Eftirlitsstofnun EFTA, sem telur líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar feli í sér...

Frekar á svartan lista

Fjármálalíf landsins nötrar nú og skelfur yfir meintri "hættu" af því að íslensku bankarnir lendi á svokölluðum "gráum lista" vegna skorts á vörnum gegn peningaþvætti. „Við eigum ekkert heima á þessum gráa lista,“ segir Þórdís Kolbrún...

Smálánafrumvarp er þunnur þrettándi

Nýlegt frumvarp ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem ætlað er að stemma stigu við ólöglegum smálánum, felur í raun lítið annað í sér en lögfestingu á gildandi rétti. Skoðum nánar efni frumvarpsins (með nokkrum einföldunum fyrir lesendur): 1. gr....

Endurútreikningur óþarfur - borgið höfuðstólinn

Nú hafa svokölluð smálánafyrirtæki ákveðið að hætta að sniðganga íslensk lög með því að leggja ólöglega háan kostnað á slík lán. Reyndar fylgir ekki sögunni hvort þau ætli einnig að hætta að sniðganga dönsk lög sem þau segjast starfa eftir, en samkvæmt...

Alvörn ISAVA ohf. - Hneykslunarviðbrögð

1. Stjórnendur ISAVIA ofh. hafa greinilega tekist til handa við að verja hendur sínar vegna hér um bil tveggja milljarða króna taps af völdum WOW. 2. Með einum eða öðrum hætti mun þetta tap lenda á skattgreiðendum / flugfarþegum. 3. Aðferð stjórnenda...

Tyrkland úr NATO ?

Tölvuárás á vefsíðu Isavia | RÚV Tvær tölvuárásir gerðar á vefsíðu Isavia - mbl.is Hakkarahópur segist hafa ráðist á Isavia | RÚV Á­rásin á Isavia runnin undan rifjum teymis tyrk­neskra tölvu­þrjóta - Vísir Ráðist á íslenskar vefsíður - mbl.is Ráðist á...

Hvar er Rannsóknarskýrsla heimilanna?

"Spurð hvort áfram­hald­andi upp­gjör á efna­hags­hrun­inu og eft­ir­mál­um þess sé aðkallandi segir Katrín [Jakobsdóttir forsætisráðherra] að með rann­sókn­ar­skýrslu Alþing­is hafi þegar feng­ist nokkuð skýr heildarmynd." - segir í frétt mbl.is . Berum...

Rangtúlkun áhrifa Hæstaréttardóms

Nýlega féll dómur Hæstaréttar Íslands sem felldi úr gildi ákvörðun um endurupptöku á skattamáli Jóns Ásgeirs Jóhanessonar og Tryggva Jóhannessonar. Síðan þá hefur ítrekað verið fjallað um málið á síðum mbl.is og niðurstaða hans rangtúlkuð. Einkum hefur...

Ósamræmi í málshraða Persónuverndar

Hinn 20. júlí 2018 beindi ég kvörtun til Persónuverndar yfir því að tiltekið fyrirtæki hér í bæ, væri að stunda ólögmætar persónunjósir á hendur mér. Síðan þá hefur umrætt fyrirtæki viðurkennt háttsemina en borið því við að hún hafi verið í þágu annars...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband