Ríkisábyrgð á bönkum má aldrei í lög leiða
20.1.2020 | 00:21
Það er hughreystandi að sjá yfirlýsingar Guðlaugs Þórs utanríkisráðherra um að hann hafi komið því skýrt á framfæri að Ísland samþykki ekki ríkisábyrgð á innstæðum í bönkum. Slíkri ríkisábyrgð hefur í tvígang verið hafnað af Íslendingum í þjóðaratkvæðagreiðslum sem voru báðar bindandi samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins.
Á hinn bóginn eru blikur á lofti því á sama tíma koma fram efasemdir um að Ísland geti fengið undanþágu frá nýrri tilskipun 2014/49/ESB um innstæðutryggingar. Þetta boðar ekki gott því eins og ráðherra bendir réttilega á myndi það þýða að öll hugsanleg "Icesave-mál" framtíðarinnar yrðu fyrirfram töpuð.
Sé þetta rétt virðist Evrópusambandið vilja lögleiða það brot sem Bretland og Holland frömdu gegn þágildandi tilskipun um innstæðutryggingar í fjármálahruninu 2008, og þau reyndu svo að gera Ísland meðsekt um með því að fá okkur til að undirgangast ólöglega ríkisábyrgð. Kemur kannski ekki á óvart þar sem Evrópusambandið tók upp málstað hinna brotlegu fyrir EFTA dómstólnum, sem töpuðu málinu. Þetta er því mögulega einhverskonar andsvar til að reyna að bjarga andlitinu.
Ekki er þó öll nótt úti enn þar sem Evrópusambandið virðist í öllum æðibunuganginum hafa gleymt að taka tillit til þess að ríkisábyrgð felur í sér ríkisaðstoð, sem er algjört bannorð í öllum grundvallarreglum Evrópuréttarins. Almenn löggjöf sem brýtur í bága við grunnreglur (svo sem stjórnarskrá) telst nefninlega ómerk í flestum vestrænum réttarkerfum og má því virða hana að vettugi eins og hver önnur ólög.
Nú skiptir öllu máli að íslensk stjórnvöld verði vel á verði og strax og málið kemur til kasta EFTA eða sameiginlegu EES nefndarinnar verði lagðar fram bókanir á öllum stigum þar sem ríkisábyrgð er mótmælt. Ef til þess kæmi að tilskipunin yrði engu að síður tekin upp í EES samninginn yrði óhjákvæmilega að gera stjórnskipulegan fyrirvara við það af hálfu Íslands, þar sem slíkri ríkisábyrgð hefur í tvígang verið hafnað af íslenskum kjósendum í stjórnarskrárbundnum þjóðaratkvæðagreiðslum.
Enn fremur er afar nauðsynlegt að háttvirtur utanríkisráðherra upplýsi nákvæmlega í hvaða ákvæðum tilskipunar 2014/49/ESB sé mælt fyrir um ríkisábyrgð, svo við sem látum okkur málið varða getum byrjað að vinna að vörnum Íslands gegn þessu eins og við höfum gert hingað til í málum er varða ríkisábyrgð á bankainnstæðum.
Snýst um kjarna Icesave-deilunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
IceSave | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Bretland ekki fyrst til að ganga úr ESB
18.1.2020 | 21:20
Fullyrt er í meðfylgjandi frétt að Bretland verði fyrsta ríkið sem gengur úr Evrópusambandinu, 31. janúar næstkomandi.
Þetta er rangt því áður hafa tvö ríki og eitt sjálfsstjórnarsvæði gengið úr Evrópusambandinu, en þau eru:
- Alsír (1962) sem var áður frönsk nýlenda
- Grænland (1985) sem var áður dönsk nýlenda
- Saint Barthélemy (2012) sem er frönsk nýlenda
Aftur á móti verður Bretland fyrsta ríkið innan Evrópu sem gengur úr Evrópusambandinu, 31. janúar næstkomandi.
Þingnefnd meinar útgöngusinnum að hringja Big Ben | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Geimveðurfar
15.12.2019 | 17:39
"Okkur til mikillar undrunar höfum við á nálgun farsins að sólu greint umfangsmikla hverfistrauma, jafnvel 10 til 20 sinnum stærri en stöðluð reiknilíkön fyrir sólina gera ráð fyrir. Inn í dæmið vantar því eitthvert grundvallaratriði um sólina og hvernig sólvindurinn sleppur út. Þetta hefur gríðarlegar skírskotanir. Við geimveðurspár verður að taka tillit til þessara strauma ef við ætlum okkur að geta sagt um hvort massastreymi frá kórónunni geti teygt sig alla leið til jarðarinnar eða lamið á geimförum á leið til tunglsins eða Mars," segir Justin Kasper, prófessor í loftslags- og geimvísindum og verkfræði við Michigan-háskóla.
Samfélög nútímans eru háðari flóknari og margbrotnari tækni en áður og því getur "umfangsmikið ónæði" frá sólu mögulega verið gríðarlega alvarlegt. "Væri okkur unnt að spá fyrir um geimveðurfar gætum við slökkt á eða einangrað hluta rafdreifikerfisins til að hlífa því við tjóni. Sömuleiðis mætti slökkva á gervihnattakerfum sem gætu verið í hættu stödd," segir Stuart Bale, eðlisfræðiprófessor við Kaliforníuháskóla í Berkeley, og rifjar upp í þessu sambandi að "meiriháttar fyrirbæri í geimnum" hefði árið 1859 splundrað símalínum á jörðinni. Annað slíkt fyrirbæri hafi gangsett sprengidufl bandarískra herskipa í N-Víetnam 1972.
Þessar nýjustu upplýsingar um áhrif sólarinnar á veðurfar hljóta að vera umhugsunarefni fyrir alla þá sem um þessar mundir velta fyrir sér orsökum veðurfarsbreytinga.
Rauðglóandi leyndarmál afhjúpuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 16.12.2019 kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Opnar alls ekki fyrir Uber
29.11.2019 | 16:13
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram frumvarp til nýrra laga um leigubifreiðaakstur. Með frumvarpinu er brugðist við tilmælum frá Eftirlitsstofnun EFTA, sem telur líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar feli í sér aðgangshindranir sem samræmast ekki skyldum íslenska ríkisins að EES-rétti.
Nokkurs misskilnings hefur gætt um að með frumvarpinu sé stefnt að því að opna fyrir starfsemi fyrirtækja á borð við hið bandaríska Uber, sem skilgreinir sig sem svokallaða farveitu. Það felst í því að halda úti vefþjónustu þar sem bílstjórar geta gefið notendum kost á akstri gegn gjaldi sem er samið um milli farþega og bílstjóra hverju sinni.
Svo er þó alls ekki, því samkvæmt 7. gr. frumvarpsins munu leigubifreiðastöðvar eftir sem áður þurfa að hafa starfsleyfi útgefið af Samgöngustofu og uppfylla skilyrði slíkrar leyfisveitingar. Þar á meðal þarf viðkomandi fyrirtæki að hafa starfsstöð hér á landi sem er virk og traust. Enn fremur þarf það að hafa fyrirsvarsmann sem uppfyllir ýmsar af þeim kröfum sem eru gerðar til rekstrarleyfishafa leigubifreiða, svo sem að hafa lögheimili innan evrópska efnahagssvæðisins, fullnægjandi ökuréttindi, hafa setið tilskilin námskeið um leigubifreiðaakstur, rekstur, bókhald, skattskil o.fl. og staðist próf.
Uber fyrirtækið uppfyllir engin þessara skilyrða. Það er ekki með starfsstöð á Íslandi, fyrirsvarsmaður þess er ekki búsettur innan EES, hann hefur ekki ökuréttindi til aksturs leigubifreiða hér landi, og hefur hvorki sótt námskeið um slíkan akstur né staðist próf. Þvert á móti gengur viðskiptalíkan fyrirtækisins beinlínis út á að starfa án slíkra leyfa og það sama á við um bílstjóra þess. Starfsemin samræmist því hvorki núgildandi íslenskum lögum né umræddu frumvarpi verði það að nýjum lögum.
Starfshópur um heildarendurskoðun laganna tók starfsemi farveitna sem þessara einmitt til sérstakrar skoðunar, en um það segir í greinargerð með frumvarpinu:
"Niðurstaða starfshópsins var sú að í raun væri ekkert því til fyrirstöðu að heimila farveitum að bjóða þjónustu sína hér á landi. Hins vegar væri nauðsynlegt að líta til þess að í ljósi nýlegs dóms Evrópudómstólsins bæri að líta á farveitur sem farþegaflutningafyrirtæki. ... Í ljósi sjónarmiða um jöfn samkeppnisskilyrði og þeirrar grundvallarhugsunar ... að tryggja öryggi og gæði þjónustu verður að telja eðlilegt að sömu kröfur séu gerðar til farveitna og annarra aðila sem stunda farþegaflutninga með leigubifreiðaakstri. Þannig þurfa farveitur að fullnægja öllum skilyrðum sem leigubifreiðastöðvum verður gert að fullnægja og með sama hætti þurfa bílstjórar sem bjóða þjónustu sína hjá farveitum að uppfylla skilyrði leigubifreiðalöggjafarinnar og hafa gilt rekstrarleyfi og eftir atvikum atvinnuleyfi."
Samkvæmt þessu er alveg ljóst að með frumvarpinu er engan veginn verið að opna fyrir starfsemi fyrirtækja á borð við Uber hér á landi. Eina leiðin til þess að Uber gæti hafið starfsemi hér á landi væri að breyta sér í leigubílastöð eins og BSR eða Hreyfil, en þá væri það ekki lengur Uber heldur öðruvísi fyrirbæri. Þar sem slíkt samræmist hreinlega ekki viðskiptalíkani fyrirtækisins eru engar líkur á því að það gerist.
Uber er tæplega að fara að leggja starfsemi sína í núverandi mynd niður, til þess eins að komast inn á íslenskan markað fyrir leigubifreiðastöðvar.
Frumvarp opnar á Uber og Lyft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frekar á svartan lista
17.10.2019 | 13:38
Fjármálalíf landsins nötrar nú og skelfur yfir meintri "hættu" af því að íslensku bankarnir lendi á svokölluðum "gráum lista" vegna skorts á vörnum gegn peningaþvætti.
Við eigum ekkert heima á þessum gráa lista, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Það er alveg rétt hjá henni, því ef setja ætti íslensku bankana á einhver lista ætti það miklu frekar að vera svartur listi. Grár er ekki nógu dökkur fyrir þá.
Eigum ekkert heima á þessum gráa lista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Smálánafrumvarp er þunnur þrettándi
15.10.2019 | 15:39
Viðskipti og fjármál | Breytt 20.10.2019 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Endurútreikningur óþarfur - borgið höfuðstólinn
26.7.2019 | 16:15
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Alvörn ISAVA ohf. - Hneykslunarviðbrögð
20.7.2019 | 00:03
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tyrkland úr NATO ?
11.6.2019 | 17:38
Hvar er Rannsóknarskýrsla heimilanna?
28.5.2019 | 19:41
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Rangtúlkun áhrifa Hæstaréttardóms
24.5.2019 | 23:51
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ósamræmi í málshraða Persónuverndar
22.5.2019 | 21:44
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ekki kapítalismi að níðast á launþegum
21.5.2019 | 15:17
Taka Frónkex út úr vísitölunni?
20.4.2019 | 16:21
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Afhverju ekki fyrr?
31.3.2019 | 20:06
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)