Ekki minnst einu orði á heimilin

Hagsmunasamtök heimilanna sendu í dag frá sér svofellda yfirlýsingu.

---

Viðspyrnu er þörf – fyrir hagkerfið og heimilin

Í gær kynnti Ríkisstjórn Íslands „Viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf“ vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19 veirunnar.

Það dylst engum að ef fram heldur sem horfir mun efnahagslíf þjóðarinnar og jafnvel heimsins alls verða fyrir miklu áfalli, þannig að viðspyrnu er þörf og nauðsynlegt að undirbúa hana eins vel og hægt er.

Hins vegar þarf að hafa í huga að undirstaða hagkerfisins eru heimilin, því án þeirra væri engin þörf á neinni þjónustu, engin til að hvorki kaupa né selja og engin til að lána. Í stuttu máli væri ekkert hagkerfi til án heimila landsins.

Það skýtur því óneitanlega skökku við að í viðspyrnu ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á heimilin, frekar en þau væru ekki til.

Þetta er því miður sama hugarfarið og einkenndi aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins, þar sem ekkert  var gefið eftir gagnvart heimilunum sem voru látin taka á sig höggið af fullum þunga og með skelfilegum afleiðingum.

Það má alls ekki endurtaka sig.

Þá, eins og nú, hafði Ríkisstjórn Íslands samráð við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) um „lausnir“ og nú eins og þá, hunsar hún algjörlega fulltrúa heimilanna.

Hagsmunasamtök heimilanna þurfa ekki síður að koma að borðinu en SFF og jafnvel enn frekar.

Heimilin eru hagkerfið

Til samanburðar er áhugavert að nefna aðra ríkisstjórn sem líka tilkynnti um sína „viðspyrnu“ vegna Covid-19 og hjá henni eru áherslur aðrar og betri. Ríkisstjórn Ítalíu virðist átta sig á mikilvægi heimilanna og snýr aðgerðum sínum fyrst og fremst að þeim. Þannig hafa stjórnvöld á Ítalíu gefið heimilum og einstaklingum „frestheimild“  á afborgunum húsnæðislána í kjölfar Covid-19.

Ekki nóg með það, heldur hafa Samtök fjármálafyrirtækja á Ítalíu sagt að lítil fyrirtæki og heimili muni fá frestheimildir vegna efnahagslegra afleiðinga Covid-19.

Ísland er sem betur fer ekki jafn illa statt og Ítalía vegna veirunnar og vonandi þarf ekki að grípa til jafn róttækra aðgerða hér á landi og Ítalir hafa neyðst til að gera en reynslan eftir hrun ætti þó að hafa kennt stjórnvöldum að heimilin þurfa að vera með í ráðum og að gæta þurfi hagsmuna þeirra ekki síður en fjármálafyrirtækjanna.

Við, sem þjóð, verðum að setja heimilin á íslandi í forgang því þau eru grunnurinn að hagkerfinu.

Viðspyrna fyrir heimilin

Hagsmunasamtök heimilanna vilja því beina því til Ríkisstjórnar Íslands að endurtaka ekki mistök fyrri ríkisstjórna og muna að aðgerðir hennar eigi fyrst og fremst að snúast um að verja heimilin í landinu.  Þá er vert að minna á að Stjórnarskráin er samin fyrir einstaklinga og heimili þeirra en ekki til að verja stjórnkerfið eða fjármálafyrirtækin.

Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að strax verði sett þak á verðtryggingu lána heimilanna að hámarki 3,5%. Hefði það verið gert í kjölfar bankahrunsins 2008 hefði margt farið á annan veg og þúsundir fjölskyldna ekki misst heimili sín.

Hagsmunasamtök heimilanna benda á að það sem veldur heimilunum meiri skaða en nokkuð annað er hækkun verðbólgu vegna þess sér-íslenska og stórhættulega fyrirkomulags sem heitir verðtrygging á lánum heimilanna.

Fari verðbólgan af stað hefur engin stjórn á því sem gerist nema gripið sé í taumana strax með fyrirbyggjandi aðgerðum. Aðstæður eins og þær sem núna hafa skapast staðfesta það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa krafist frá seinasta hruni að afnema beri með öllu verðtryggingu lána heimilanna án tafar, því hún veldur bæði þeim og hagkerfinu öllu stórfelldum skaða.

Vonandi kemur ekki til þess, en fari allt á versta veg þá verður Ríkisstjórn Íslands einnig að grípa til „frestheimilda“ á greiðslum húsnæðislána á sama eða svipaðan hátt og Ríkisstjórn Ítalíu er að gera.

Hagsmunasamtök heimilanna bjóða Ríkisstjórn Íslands aðstoð sína og óska hér með formlega eftir aðkomu að þeim leiðum og lausnum fyrir heimilin í landinu sem sannarlega þarf að fara í á þessum sérstöku tímum sem nú ganga yfir, því sameinuð getur íslensk þjóð sigrast á öllum vanda. 


mbl.is Hagstjórnarviðbrögðin jákvæð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Því miður virðist vera nákvæmlega það sama í gangi núna og var í hruninu.  Það virðist eiga að "hjálpa" vinum og "elítufélögum" á kostnað almennings og auðvitað sitja heimilin uppi með reikninginn..

Jóhann Elíasson, 11.3.2020 kl. 20:00

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sá sem mun fá það hlutverk að meta hvaða fyrirtæki séu "lífvænleg" og verði þar með haldið á lífi, fær um leið hlutverk "aftökustjóra" hinna sem verða skilin eftir.

Það sem er öðruvísi fyrir heimilin núna en var í hruninu 2008 er að þau hafa núna annan valkost en að láta verðtrygginguna yfir sig ganga enn einu sinni. Stýrivextir eru nefninlega komnir undir verðbólgu og óverðtryggðir bankavextir undir verðtryggð lánskjör. Ég hvet því alla sem mögulega geta til að íhuga að endurfjármagna verðtryggðu lánin sín með nýjum óverðtryggðum lánum.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.3.2020 kl. 20:26

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þó það eigi að leika sama leikinn og í HRUNINU, er ekki þar með sagt að það takist.  En það er aldrei að vita hvað "fjármálelítunni" dettur í hug því það virðast vera lítil takmörk á hugmyndafluginu...

Jóhann Elíasson, 11.3.2020 kl. 20:37

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Vertu feginn Guðmundur að ekki sé minnst einu orði á heimilin.

Það fór ekki svo vel síðast þegar skjaldborgin var byggð af helferðarhyskinu, -breyttist fljótt í gjaldborgina.

Þetta eru samt að stofninum til sama sjálftökuliðið, svo ekki er öll nótt úti enn.

Magnús Sigurðsson, 12.3.2020 kl. 06:04

5 identicon

Eru það ekki hagsmunir heimilanna að verja fyrirtækin?

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 12.3.2020 kl. 09:25

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eru það ekki hagsmunir fyrirtækjanna að verja heimilin?

Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2020 kl. 14:29

7 identicon

ekki gleyma blessaðri krónunni, hefur fallið um 10% í dag. hvað áhrif hefur það á vöruverð í landinu og hver borgar ? almenningur eins og fyrri daginn.

Hnikarr Antonsson (IP-tala skráð) 12.3.2020 kl. 14:41

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þannig að útflutningur okkar hefur orðið 10% ódýrari fyrir útlönd og samkeppnishæfni landsins aukist sem því nemur.

Krónan olli því ekki heldur breytingar í umhverfinu.

Málmskífurnar og pappírsmiðarnir breyttust ekkert.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2020 kl. 15:22

9 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Málið snýst vitanlega á endanum um að verja heimilin. Það er ástæðan fyrir því að lögð er áhersla á að tryggja að fólk fái greidd laun þurfi það að vera heima í sóttkví, að fólk geti minnkað við sig vinnu og fengið greiddar atvinnuleysisbætur að hluta, og ekki síst ástæðan fyrir því að til stendur að draga úr álögum á atvinnulíf og fresta greiðslum gjalda. Það er nefnilega svo að fólkið, sem býr á heimilunum, vinnur hjá fyrirtækjunum, og fari þau á hausinn eða verði að segja stórum hluta starfsmanna upp, þá bitnar það á heimilunum.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.3.2020 kl. 19:46

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það eru ekki öll heimili á vinnumarkaði.

Ef það væri einlægt fyrst markmið stjórnvalda að verja heimilin hefðu þau sagt það hreint út. Þess í stað kusu þau að tala fyrst og fremst um að hjálpa atvinnurekendum.

Þegar valin eru orð þá þýða þau orð hvað var valið.

Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2020 kl. 19:51

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Fólk lifir á launum sem það fær fyrir vinnu. Og þeir sem ekki vinna lifa á tekjum hinna sem vinna. Er erfitt að skilja þetta?

Þorsteinn Siglaugsson, 12.3.2020 kl. 22:34

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Margir sem ekki vinna lifa á því sem þeir hafa safnað sér í formi lífeyris og annars sparnaðar, en ekki á tekjum annara.

Atvinnurekendur lifa á hins vegar tekjum annarra, það er að segja viðskiptavina sinna, sem á endanum eru alltaf heimilin.

Án heimilanna væri enginn atvinnurekstur.

Er erfitt að skilja þetta?

Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2020 kl. 22:49

13 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Jæja karlinn. Þú áttar þig sumsé ekki á því að þegar framleiðsla og sala vöru og þjónustu dregst saman, þá þarf að segja upp fólki, og þá lenda heimilin í erfiðleikum. Og að leiðin til að hindra þessa afleiðingu er að draga úr hættunni á að segja þurfi upp fólki. Held að flestir aðrir geri sér blessunarlega grein fyrir þessu.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.3.2020 kl. 10:13

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jú auðvitað átta ég mig á því. Það er alveg óþarfi að vera að gera mér upp annað.

Þegar heimili lenda í erfiðleikum, þá þurfa þau að draga saman kaup á vöru og þjónustu og þá dregst framleiðsla og sala vöru og þjónustu saman og atvinnurekendur lenda í vandræðum.

Þetta hangir nefninlega á sömu spýtunni. Án heimilanna eru engir viðskiptavinir að kaupa vöru og þjónustu af atvinnurekendum.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.3.2020 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband