Útilokaðir vegna skoðanna sinna?

Skipan í sérfræðingahópa á vegum stjórnvalda í gær, annars vegar um afnám verðtryggingar og hins vegar um leiðréttingar lána, hefur vakið talsverða athygli og sitt sýnist hverjum. Sumir vilja meina að fulltrúar í hópunum hafi verið skipaðir á grundvelli einhvers annars en sérfræðiþekkingar. Til dæmis vegna pólitískra tengsla eða afstöðu til umræddra málefna.

Athygli vekur hinsvegar að þau samtök almennings hér á landi sem hafa látið sig þessi mál varða einna mest, eru útilokuð frá þáttöku. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um Hagsmunasamtök heimilanna, sem hafa látið sig þessi mál varða frá upphafi, og þegar enginn annar hefur viljað taka þau á dagskrá.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa á undanförnum misserum lagt fram fjölmargar ítarlegar og útfærðar tillögur að leiðum til að niðurfæra lán, og hafa jafnframt reiknað út hugsanlegan "kostnað" við slíkar aðgerðir, sem getur vel verið lítill eða enginn ef rétt útfærsla er valin.

Samtökin hafa jafnframt gengið svo langt að skrifa frumvarp um afnám verðtryggingar, sem var meira að segja lagt fram á Alþingi og flutt þar í mars síðasdtliðnum, og er því til nú þegar á þingskjali. Þannig er fullkomlega óljóst í hverju vinna síðarnefnda "sérfræðingahópsins" á að snúast um, þar sem meginafurð hans er nú þegar tilbúin að mestu leyti og hefur verið það um allnokkurt skeið í boði Hagsmunasamtaka heimilanna.

Með allri þessari sérfræðivinnu yfir nokkurra ára tímabil, þar sem allskyns færir aðilar með sérfræðikunnáttu á ýmsum sviðum, hafa komið að málum sem eru á sviði samtakanna og mótað tillögur þeirra, má segja að samtökin séu orðin helsti sérfræðiaðili landsins þegar kemur að leiðréttingum lána og afnámi verðtryggingar.

Þess vegna hlýtur það að vekja sérstaka athygli, að þegar skipað er í "sérfræðingahópa" sem eiga að leggja fram útfærslur á þessum aðgerðum, þá skulu samtök helstu sérfræðinga landsins á því sviði vera sniðgengin með öllu.

Getur verið að útilokun á þáttöku samtakanna hafi eitthvað að gera með þá staðreynd að samtökin hafa eindregna og þekkta afstöðu til verkefnisins og eru mjög fylgjandi leiðréttingum lána og afnámi verðtryggingar?

Sporin hræða í þessum efnum. Þegar ríkisstjórn sú sem var við völd haustið 2008 setti saman "sérfræðingahóp" um verðtryggingu (undir handleiðslu forseta ASÍ) voru aðilar einmitt sérvaldir í þann hóp á grundvelli skoðana sinna, sem voru þær helstar að gera ekkert til að stemma stigu við fyrirsjáanlegri hækkun á skuldum heimilanna vegna verðtryggingar, sem þá var metin upp á minnst 250 milljarða króna og hefur síðan þá reynst mjög hóflega áætluð eða vanáætluð.

Þá voru þeir sem hvað hæst höfðu látið í ljós þá skoðun að laga þyrfti ástandið fyrir heimilin, einfaldlega útilokaðir og á sjónarmið þeirra ekki hlustað. Núna virðist enn á ný eiga að undanskilja þá sem virkilega vilja gera vel í því að laga stöðu heimilanna. Þess í stað er skipað í framvarðarsveit embættismönnum, flokksgæðingum, og aðilum úr fjármálakerfinu, en ekkert útlit fyrir að hlusta eigi á sjónarmið sérfræðinga sem koma úr röðum almennings.

Það virðist því vera komin slagsíða á ríkisstjórnina strax á fyrstu 100 dögum hennar, sem lýsir sér í því að útiloka sjónarmið almennings frá umræðu um opinber mál, en hlusta aftur á móti eyrnasperrt á sjónarmið sérhagsmunahópa úr atvinnulífinu og bregðast við þeim eins og þægir rakkar. Nægir þar að nefna frumvarp um seinkun gildistöku nýrra laga um neytendalán sem var pantað af Samtökum fjármalafyrirtækja hjá innanríkisráðuneytinu, flutt af meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar, og afgreitt á slíkum methraða án umræðu gegnum Alþingi að annað eins hefur aldrei sést.

Vinnubrögðin við skipun "sérfræðinga" nú í þessa vinnuhópa um stærstu og brýnustu hagsmunamál íslenskra heimila fyrr og síðar, gefur ekki tilefni til aukinnar bjartsýni á vönduð vinnubrögð.


mbl.is Sérvaldir vegna skoðana sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neita að bera kostnað vegna lífeyrissjóða

"Eina leiðin til þess að fá sjóðina til þess að bera nokkurn kostnað af Íbúðalánasjóði er með því að afnema eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar", segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða.

Talandi um eignarrétt þá hljóta lífeyrissjóðirnir í ljósi þessarar nýjustu yfirlýsingar, að vera tilbúnir að skila þeim hluta eignarréttarvarinna atvinnutekna sem þeir hafa hirt af fólki gegnum tíðina, ásamt þeirri 3,5% raunávöxtun sem lofað hefur verið af þeim fjármunum til að réttlæta eignarnámið.

Þar sem stærðfræðilega er útilokað að lífeyrissjóðirnir muni nokkurntíma geta staðið við það loforð, þá eru þeir auðvitað ekki í neinni aðstöðu til þess að krefjast neins varðandi eignarrétt eða að hann sé virtur eitthvað sérstaklega þegar kemur að málefnum þeirra.

Það mætti hinsvegar kannski skoða það, hvort þeir eru ekki tilbúnir að afskrifa kröfur sínar á hendur Íbúðalánasjóði, gegn því að endurkröfur sjóðfélaga fyrir inngreiddum hluta atvinnutekna ásamt 3,5% raunávöxtun verði einnig afskrifaðar. Að minnsta kosti niður að því marki sem lífeyrissjóðirnir treysta sér til að standa við, í ljósi eignarréttar launþega.

Eitt er þó alveg ljóst:

   Heimilin neita alfarið að bera kostnað vegna ÍLS!

Eins ljóst er það að:

   Heimilin neita alfarið að bera kostnað vegna LLS!

Þessir aðila hljóta að mega taka tapið sitt og hafa það í kvöldmat, eins og þeir hafa sjálfir boðið heimilum landsmanna upp á um langt árabil.


mbl.is Neita að bera kostnað vegna ÍLS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilin fyrning endurkröfuréttar

Nokkurs misskilnings hefur gætt að undanförnu um fyrningartíma endurkröfuréttinda sem skuldarar kunna að eiga á hendur fjármálafyrirtækjum vegna lánasamninga sem þeir hafa ofgreitt af samkvæmt ólögmætum ákvæðum um verðtryggingu, vexti eða annan lánskostnað. Af þessu tilefni væri kannski við hæfi að skoða hvað lög nr. 150/2007 um fyrningarfrest kröfuréttinda hafa að geyma. Samkvæmt þeim er almennur fyrningartími fjögur ár, en að vissum skilyrðum uppfyllltum getur hann þó verið lengri og jafnframt þarf að huga að reglum um upphaf og slit fyrningartíma.

Samkvæmt 5. gr. laganna fyrnast kröfur vegna skuldabréfa og peningalána á tíu árum, en samkvæmt meginreglum neytendréttar getur gagnkvæmur réttur skuldara til endurkröfu vegna slíkra viðskipta ekki verið lakari en réttur kröfuhafa í sömu viðskiptum. Til að mynda segir í 10. gr. að ef kröfuhafi hefur ekki haft vitneskju um kröfuna eða skuldarann, þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir að hann fékk þá vitneskju. Er þá nærtækast að vísa til þess að fjármálafyrirtækin sjálf telja enn vera uppi mikla óvissu um endurútreikninga og réttindi skuldara samkvæmt þeim, en ganga verður út frá því að neytendur séu almennt grandalausir um þann rétt og geti þar af leiðandi ekki heldur talist hafa nauðsynlega vitneskju um endurkröfu sína.

Samkvæmt 2. gr. laganna reiknast fyrningarfrestur krafna sem stofnast vegna vanefnda, frá þeim degi þegar samningur er vanefndur. Sé þessu ákvæði beitt á lánssamninga, má segja að fyrningarfrestur hljóti að verða að reiknast frá og með þeim degi sem samningurinn var síðast í vanefndum. Hvað varðar lán með ólögmæta gengistryggingu eru þau enn í vanefndum af hálfu lánveitanda ef ekki er búið að endurreikna þau lögum samkvæmt, og þá hefur fyrningartími í raun aldrei hafist vegna krafna þeim tengdum.

Loks kveður 14. gr. laganna á um slit fyrningar þegar kröfuhafi hefur beinlínis eða með atferli sínu viðurkennt greiðsluskyldu. Þá liggur beint við að vísa til þess að fjármálafyrirtæki hafa öll viðurkennt greiðsluskyldu í formi leiðréttingar samkvæmt endurútreikningum þeirra lána sem þegar hafa verið endurreiknuð einu sinni eða tvisvar. Nú síðast í júní á þessu ári hafa til að mynda bæði Landsbankinn og Lýsing viðurkennt skyldu sína í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/2013, og má því segja að í þeim tilvikum og sambærilegum hafi fyrningu verið slitið með slíku athæfi.

Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að neinar endurkröfur neytenda vegna ólögmætra ákvæða um gengistryggingu geti verið fyrndar, í það minnsta ekki vegna lánssamninga sem gerðir voru um mitt ár 2003 eða síðar. Jafnframt er rétt að hafa í huga að bann við gengistryggingu tók gildi samkvæmt vaxtalögum um mitt ár 2001, en þar sem lánssamningar neytenda eru nánast alltaf til nokkurra ára má leiða líkur að því að samningur gerður eftir gildistökuna hafi enn verið virkur eftir 2003 og þá enn í vanefndum.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að í tilvikum lána sem enn hafa ekki verið endurreiknuð og leiðrétt lögum samkvæmt, er fyrning endurkröfuréttinda ekki enn hafin, hvað þá að það geti reynt á hversu löng hún er. Þegar þar að kemur hinsvegar, þarf að líða áratugur frá og með þeim degi. Endurkröfur vegna lána sem nú eru óuppgerðar, ættu því ekki að fyrnast fyrr en í fyrsta lagi árið 2023.

Mikilvægt er að neytendur láti ekki glepjast af málflutningi um að réttindi þeirra séu fyrnd, þegar þau eru það alls ekki. Málflutningur af því tagi mun seint verða til þess að auka hróður þeirra fjármálafyrirtækja og lögmanna þeirra sem þannig haga framkomu sinni gagnvart viðskiptavinum að reyna að villa um fyrir þeim og misbjóða hagsmunum þeirra með blekkingum. Slíkt háttalag brýtur að öllum líkindum einnig gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, en skv. g-lið 1. mgr. 9. gr. þeirra falla villandi upplýsingar um lögbundin réttindi neytenda undir viðskiptahætti sem eru villandi sbr. nánari skilgreiningar í reglugerð nr. 160/2009 um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir, og skv. 5. gr. sömu laga þar með bannaðir.


mbl.is Misskilið fordæmisgildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannanöfn og starfsheiti

Nú er orðið löglegt að heita bæði Þyrnirós og Mjallhvít á Íslandi, en tvær slíkar eru símaskránni (já.is) í öðru tilvikinu er það millinafn.

Flestum til skemmtunar eru tveir klaufar í símaskránni, en eins og við mátti búast eru það ekki eiginnöfn þeirra heldur "starfsheiti/titill". Hvorugt þeirra heitir reyndar Hans, en viðurnefnið "Klaufi" var ekki eiginnafn Hans Klaufa heldur. Jafnframt eru fimm hrakfallabálkar í símaskránni, en sem betur fer heill hellingur af hjúkrunarfræðingum og læknum líka, þar af tveir galdralæknar!

Allmargir geimfarar eru skráðir í símaskrá en mér er ekki ljóst hvort um er að ræða starfsmenn tölvuleikjafyrirtækisins CCP þar sem raunverulegir geimfarar sem kalla má íslenska held ég sé örfáir og aðeins einn hafi farið frá jörðu. Einn þessara geimfara er að auki skráður sem "partýdýr" og rennir það stoðum undir fyrrnefnda kenningu um tengingu við leikjaiðnað, en þrjú slík sem að auki má finna verða líklega auðveld viðfangsefni fyrir dágóðan fjölda starfandi ljónatemjara auk þriggja slöngutemjara.

Níu manns titla sig "frumkvöðull" og fimm sem "brauðtryðjandi", en athygli vekur að það eru allt saman karlmenn. Kannski einhverjir af þeim séu nógu góðir fyrir allar prinsessurnar sem er offramboð af... hver veit? Eitt veit ég þó að a.m.k. einn af þessum brautryðjendum starfar raunverulega við að ryðja brautir en hann ekur snjómoksturstækjum á Keflavíkurflugvelli.

Einn er skráður sem kommúnisti en engir byltingarmenn lengur, enda þora sennilega færri að skrá slíkt opinberlega nú til dags af ótta við að lenda á einhverjum lista hjá alríkisyfirvöldum einhversstaðar (sem á Íslandi heitir þjóðskrá). Hinsvegar eru þrír skráðir mótmælendur, sem ekki er ljóst hvort séu meðlimir andspyrnuhreyfinga eða lútherskir heittrúarmenn, nema hvort tveggja sé. Eins og búast má við er mikill fjöldi presta og djákna í skránni, en enginn rabbíni, klerkur eða imam. Aftur á móti er þar að finna a.m.k. tvo goða (að heiðnum sið, en ekki menn sem heita Goði).

Auk embættis Forseta Íslands eru sex aðrir forsetar í símaskránni, þar á meðal einn fyrrverandi forseti Alþingis en hinir eru formenn félaga og samtaka sem bera þennan titil. Enginn núverandi ráðherra en nokkrir fyrrverandi. Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra, hefur að ég held alla tíð verið skráður sem blaðamaður, sem er reyndar aftur orðið hans aðalstarf. Spurning hvort þetta telst þá þar með leiðrétt, eða hvað?

Samtals níu karlmenn eru skráðir í símaskrá með titilinn "prins" og eins og til að toppa það er einn þeirra "prins og söngvari". Þessir prinsar munu að öllum líkindum vaða í prinsessum, því yfir hundrað konur eru skráðar með það starfsheiti í símaskrá. (Jafnrétti á Íslandi, hvaaaað?!). Nokkrar þeirra hafa titilinn skráðan ásamt öðru starfsheiti, sem eru sum mjög prinsessuleg, til dæmis danskennari og athafnakona, en önnur dálítið undarlegri eins og kraftlyftinga prinsessa (?!) en langflottust er samt ein Jedi prinsessa. Nokkrir kóngar og drottningar eru skráð, væntanlega foreldrar þeirra.

Engar "stórstjörnur" eru þó skráðar, væntanlega er það með vilja gert til þess að forðast áreiti frá æstum aðdáendum og allskyns furðufuglum.

Þrjú afreksmenni eru skráð en aðeins einn hugvitsmaður. Talsverður fjöldi er af snillingum og gáfnaljósum, eitt þeirra er jafnvel gíraffasérfræðingur líka! Einnig er vart þverfótandi fyrir spámönnum, spákonum, sjáendum, galdramönnum, nornum, seiðkonum og -körlum og jafnvel -skröttum. Fimm vampírur eru skráðar og því ljóst að minnst einn af sex vampírubönum þarf að finna sér önnur verkefni, kannski getur hann með aðstoð frá tveimur skráðum galdralæknunum reynt að eiga við þessi þrjú tröll sem einnig eru í skránni.

Merkilegt er þó, að enginn er skráður "vitringur" í símaskránni en þar eru hinsvegar þrír sem eru "dreki" þar af einn sem heitir það raunverulega að millinafni, en þar er líka "amma dreki" og einn sem er "nemi og dreki", ætli hann sé að læra að verða dreki eða hvað? Sjálfur er ég skráður  kerfisfræðingur sem er frekar almenns eðlis en á merkilega vel við um mörg þeirra mjög svo ólíku starfa sem ég hef fengist við. Aftur á móti er núverandi starfsheiti á ráðningarsamningi, erindreki, en tveir aðrir slíkir drekar eru í skránni.

Við gætum þurft að hafa áhyggjur því drekabanar fylla svo margar síður af leitarniðurstöðum í skránni að um algjört ofurefli yrði að ræða fyrir okkur drekana. Þar eru einnig fjölmargir riddarar og þrjár stríðshetjur, mikið magn af ofurhetjum og jafnvel þrjár þjóðhetjur, en þó einungis einn heiðursmaður.

Skráðir letingjar hér á landi eru þrír talsins. Allnokkrir húmoristar eru í skránni og einn þeirra er þar að auki piparsveinn en þeir eru alls þrír slíkir og gætu jafnvel átt sér viðreisnar von því alls eru sex ungfrúr og þrjár fröken skráðar.


mbl.is Nafnið Þyrnirós samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúba norðursins snýr aftur

Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's varar við áhættu sem stöðu ríkissjóðs Íslands kunni að stafa af áætlun ríkisstjórnarinnar um að lækka skuldir heimila. Yfirlýsing S&P byggir hinsvegar á þeirri forsendu að lækkunin verði framkvæmd með þeim hætti að ríkissjóður taki að sér að greiða niður höfuðstól skulda einstaklinga (og kröfuhafar fái þar með kröfur sínar greiddar að fullu).

Þessa aðvörðun verður því að taka með þeim augljósa fyrirvara, að það er engin slík áætlun í gangi hjá neinum hér á landi, hvorki ríkisstjórn landsins né öðrum aðilum. Ekki einu sinni hjá bönkunum, sem stæra sig af því hversu mikið þeir hafi sjálfir lækkað skuldir heimila (eftir að hafa verið þvingaðir til þess af dómstólum).

Málflutningur S&P er því bara Kúba norðursins afturgengin.

Af þessu tilefni væri líklega mjög hollt að rifja upp ágrip úr notkunarskilmálum S&P:

The ratings and credit related analyses of Standard & Poor's and its affiliates and the observations contained in reports and articles published on this Web Site are statements of opinion as of the date they are expressed and not statements of fact or recommendations to purchase, hold, or sell any securities or make any investment decisions. Standard & Poor's assumes no obligation to update any information following publication. Users of the information provided through this Web Site should not rely on any of it in making any investment decision. Standard & Poor's opinions and analyses do not address the suitability of any security. Standard & Poor's does not act as a fiduciary or an investment advisor. While Standard & Poor's has obtained information from sources it believes to be reliable, Standard & Poor's does not perform an audit and undertakes no duty of due diligence or independent verification of any information it receives. ... ... ...

Þess má geta að dómsmálaráðuneyti Bananaríkjanna hefur höfðað mál gegn S&P fyrir blekkingar og villandi viðskiptahætti. Helsta málsvörn fyrirtækisins í málinu er sú, að einungis flón myndi taka mark á svo "uppblásnum" yfirlýsingum eins og þeim sem fyrirtækið hefur látið frá sér. Til að mynda þegar stórir bankar, þar á meðal þeir íslensku, fengu toppeinkunn skömmu áður en þeir sprungu í tætlur. Reyndar þá má rekja stóran hluta orsaka fjármálakreppunnar til þess að S&P og hin matsfyrirtækin tvö sem deila með sér markaðnum (cartel), gáfu gölluðum undirmálslánavafningum toppeinkum sem gerði útgefendum þeirra kleift að selja þá út um allan heim.

Það er ekkert við nýjustu yfirlýsingu S&P um Ísland, sem gefur annað í skyn en að viðskiptahættir fyrirtækisins séu þeir sömu og áður, þ.e. villandi og ómarktækir, og byggðir á röngum upplýsingum um staðreyndir mála. Enda er þetta bara "þeirra skoðun", rétt eins og sú skoðun að án ólöglegrar ríkisábyrgðar á innstæðutryggingum yrði hér heimsendir. Eini heimsendirinn sem bólar á virðist hinsvegar vera hjá trúverðugleika Standard & Poor's sem með sama áframhaldi verður sennilega bráðum réttnefni.

P.S. Flokkað undir: Spaugilegt.


mbl.is Skuldalækkun skilar verri horfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúxembourg með leyniþjónustu?

Samkvæmt meðfylgjandi frétt er komið upp njósnahneyksli í Luxembourg sem varðar leyniþjónustu landsins. Þrátt fyrir að vera sæmilega vel upplýstur, og jafnvel eitthvað yfir meðallagi varðandi svona mál, þá verður að viðurkennast að ég hafði aldrei leitt...

Holl áminning fyrir Sjálfstæðismenn (og aðra)

Eða var hann kannski bara að tala um aðgerðir fyrir heimili útgerðarmanna? Alþingi - Ferill máls 15. - 142. lþ. Veiðigjöld (innheimta veiðigjalda, sérstakt veiðigjald o.fl.) Eða heimili aðstandenda samtaka fjármálafyrirtækja? Alþingi - Ferill máls 26. -...

Tær snilld

Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta ( TIF ) hefur valið sér nýjan geymslustað fyrir fjármuni sjóðins: Landsbankann (þann nýja). Samkvæmt ársreikningi 2012 voru í árslok samtals 30 milljarðar í sjóðnum sem lágu á reikningi hjá Seðlabanka Íslands....

Forsendur ríkisábyrgðar ÍLS brostnar?

Meðal þess sem kemur frá í nýútkominni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um starfsemi Íbúðalánasjóðs, er eftirfarandi: „Þrátt fyrir eindreginn vilja Ríkisábyrgðasjóðs til að upplýsa viðeigandi aðila um áhyggjur sínar virðast umsagnir og áhyggjur...

Eitthvað um verðtrygginguna?

Rannsóknarskýrsla um starfsemi Íbúðalánasjóðs kemur út í dag. Það verður forvitnilegt að sjá hvað verður í skýrslunni, og jafnframt hvað ekki. Þar á meðal hvort í henni sé að finna eitthvað um afleiðingar þess að byggja rekstrarmódel svo stórs...

En verðmerkingar á neytendalánum?

Skýrt er frá því að Neytendastofa sendi frá sér skilaboð til kaupmanna þar sem brýnt er fyrir þeim að hafa verðmerkingar í lagi. Samkvæmt íslenskum lögum fer Neytendastofa með eftirlit með verðmerkingum, og er það vel að stofnunin skuli sinna þeim...

Ekkert að marka OECD

Nýlega kom út skýrsla frá efnahags og framfarastofnuninni OECD þar sem fullyrt var að verulega hefði dregið úr misskiptingu á Íslandi eftir hrun. En 10% fjölskyldna eiga 41% af skuldunum. Stofnuninni hefur greinilega mistekist að fara yfir skuldahliðina...

Ekki bara í bankanum heldur nánast allsstaðar

Meðfylgjandi frétt segir af föður sem varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að vera að fullkominni ósekju sviptur prókúru (fjárræði) yfir bankareikningi dóttur sinnar, þrátt fyrir að hafa með henni fulla forsjá til jafns við móður. Þetta er auðvitað...

Sjá umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna eru steinhissa á því að undanfarna daga hafa fjölmiðlar landsins verið með síbyljandi umfjöllun um þær umsagnir sem borist hafa efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda...

Ég ákæri - hámark hræsninnar

Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að kæra Edward Snowden fyrir njósnir. Hann hefur það helst til saka unnið að hafa njósnað fyrir almenning um innri starfsemi stóra bróðurs, og upplýst almenning svo um þess sem hann varð vísari. Það var því miður alls ekki...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband