Misskilin fyrning endurkröfuréttar

Nokkurs misskilnings hefur gætt að undanförnu um fyrningartíma endurkröfuréttinda sem skuldarar kunna að eiga á hendur fjármálafyrirtækjum vegna lánasamninga sem þeir hafa ofgreitt af samkvæmt ólögmætum ákvæðum um verðtryggingu, vexti eða annan lánskostnað. Af þessu tilefni væri kannski við hæfi að skoða hvað lög nr. 150/2007 um fyrningarfrest kröfuréttinda hafa að geyma. Samkvæmt þeim er almennur fyrningartími fjögur ár, en að vissum skilyrðum uppfyllltum getur hann þó verið lengri og jafnframt þarf að huga að reglum um upphaf og slit fyrningartíma.

Samkvæmt 5. gr. laganna fyrnast kröfur vegna skuldabréfa og peningalána á tíu árum, en samkvæmt meginreglum neytendréttar getur gagnkvæmur réttur skuldara til endurkröfu vegna slíkra viðskipta ekki verið lakari en réttur kröfuhafa í sömu viðskiptum. Til að mynda segir í 10. gr. að ef kröfuhafi hefur ekki haft vitneskju um kröfuna eða skuldarann, þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir að hann fékk þá vitneskju. Er þá nærtækast að vísa til þess að fjármálafyrirtækin sjálf telja enn vera uppi mikla óvissu um endurútreikninga og réttindi skuldara samkvæmt þeim, en ganga verður út frá því að neytendur séu almennt grandalausir um þann rétt og geti þar af leiðandi ekki heldur talist hafa nauðsynlega vitneskju um endurkröfu sína.

Samkvæmt 2. gr. laganna reiknast fyrningarfrestur krafna sem stofnast vegna vanefnda, frá þeim degi þegar samningur er vanefndur. Sé þessu ákvæði beitt á lánssamninga, má segja að fyrningarfrestur hljóti að verða að reiknast frá og með þeim degi sem samningurinn var síðast í vanefndum. Hvað varðar lán með ólögmæta gengistryggingu eru þau enn í vanefndum af hálfu lánveitanda ef ekki er búið að endurreikna þau lögum samkvæmt, og þá hefur fyrningartími í raun aldrei hafist vegna krafna þeim tengdum.

Loks kveður 14. gr. laganna á um slit fyrningar þegar kröfuhafi hefur beinlínis eða með atferli sínu viðurkennt greiðsluskyldu. Þá liggur beint við að vísa til þess að fjármálafyrirtæki hafa öll viðurkennt greiðsluskyldu í formi leiðréttingar samkvæmt endurútreikningum þeirra lána sem þegar hafa verið endurreiknuð einu sinni eða tvisvar. Nú síðast í júní á þessu ári hafa til að mynda bæði Landsbankinn og Lýsing viðurkennt skyldu sína í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 50/2013, og má því segja að í þeim tilvikum og sambærilegum hafi fyrningu verið slitið með slíku athæfi.

Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að neinar endurkröfur neytenda vegna ólögmætra ákvæða um gengistryggingu geti verið fyrndar, í það minnsta ekki vegna lánssamninga sem gerðir voru um mitt ár 2003 eða síðar. Jafnframt er rétt að hafa í huga að bann við gengistryggingu tók gildi samkvæmt vaxtalögum um mitt ár 2001, en þar sem lánssamningar neytenda eru nánast alltaf til nokkurra ára má leiða líkur að því að samningur gerður eftir gildistökuna hafi enn verið virkur eftir 2003 og þá enn í vanefndum.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að í tilvikum lána sem enn hafa ekki verið endurreiknuð og leiðrétt lögum samkvæmt, er fyrning endurkröfuréttinda ekki enn hafin, hvað þá að það geti reynt á hversu löng hún er. Þegar þar að kemur hinsvegar, þarf að líða áratugur frá og með þeim degi. Endurkröfur vegna lána sem nú eru óuppgerðar, ættu því ekki að fyrnast fyrr en í fyrsta lagi árið 2023.

Mikilvægt er að neytendur láti ekki glepjast af málflutningi um að réttindi þeirra séu fyrnd, þegar þau eru það alls ekki. Málflutningur af því tagi mun seint verða til þess að auka hróður þeirra fjármálafyrirtækja og lögmanna þeirra sem þannig haga framkomu sinni gagnvart viðskiptavinum að reyna að villa um fyrir þeim og misbjóða hagsmunum þeirra með blekkingum. Slíkt háttalag brýtur að öllum líkindum einnig gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, en skv. g-lið 1. mgr. 9. gr. þeirra falla villandi upplýsingar um lögbundin réttindi neytenda undir viðskiptahætti sem eru villandi sbr. nánari skilgreiningar í reglugerð nr. 160/2009 um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir, og skv. 5. gr. sömu laga þar með bannaðir.


mbl.is Misskilið fordæmisgildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll. Bendi til gamans á ákvæði XIV. til bráðabirgða í vaxtalögum nr. 38/2001, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010. Þar segir:

Fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknast frá 16. júní 2010.

Oddur (IP-tala skráð) 16.9.2013 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband