Mannanöfn og starfsheiti

Nú er orðið löglegt að heita bæði Þyrnirós og Mjallhvít á Íslandi, en tvær slíkar eru símaskránni (já.is) í öðru tilvikinu er það millinafn.

Flestum til skemmtunar eru tveir klaufar í símaskránni, en eins og við mátti búast eru það ekki eiginnöfn þeirra heldur "starfsheiti/titill". Hvorugt þeirra heitir reyndar Hans, en viðurnefnið "Klaufi" var ekki eiginnafn Hans Klaufa heldur. Jafnframt eru fimm hrakfallabálkar í símaskránni, en sem betur fer heill hellingur af hjúkrunarfræðingum og læknum líka, þar af tveir galdralæknar!

Allmargir geimfarar eru skráðir í símaskrá en mér er ekki ljóst hvort um er að ræða starfsmenn tölvuleikjafyrirtækisins CCP þar sem raunverulegir geimfarar sem kalla má íslenska held ég sé örfáir og aðeins einn hafi farið frá jörðu. Einn þessara geimfara er að auki skráður sem "partýdýr" og rennir það stoðum undir fyrrnefnda kenningu um tengingu við leikjaiðnað, en þrjú slík sem að auki má finna verða líklega auðveld viðfangsefni fyrir dágóðan fjölda starfandi ljónatemjara auk þriggja slöngutemjara.

Níu manns titla sig "frumkvöðull" og fimm sem "brauðtryðjandi", en athygli vekur að það eru allt saman karlmenn. Kannski einhverjir af þeim séu nógu góðir fyrir allar prinsessurnar sem er offramboð af... hver veit? Eitt veit ég þó að a.m.k. einn af þessum brautryðjendum starfar raunverulega við að ryðja brautir en hann ekur snjómoksturstækjum á Keflavíkurflugvelli.

Einn er skráður sem kommúnisti en engir byltingarmenn lengur, enda þora sennilega færri að skrá slíkt opinberlega nú til dags af ótta við að lenda á einhverjum lista hjá alríkisyfirvöldum einhversstaðar (sem á Íslandi heitir þjóðskrá). Hinsvegar eru þrír skráðir mótmælendur, sem ekki er ljóst hvort séu meðlimir andspyrnuhreyfinga eða lútherskir heittrúarmenn, nema hvort tveggja sé. Eins og búast má við er mikill fjöldi presta og djákna í skránni, en enginn rabbíni, klerkur eða imam. Aftur á móti er þar að finna a.m.k. tvo goða (að heiðnum sið, en ekki menn sem heita Goði).

Auk embættis Forseta Íslands eru sex aðrir forsetar í símaskránni, þar á meðal einn fyrrverandi forseti Alþingis en hinir eru formenn félaga og samtaka sem bera þennan titil. Enginn núverandi ráðherra en nokkrir fyrrverandi. Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra, hefur að ég held alla tíð verið skráður sem blaðamaður, sem er reyndar aftur orðið hans aðalstarf. Spurning hvort þetta telst þá þar með leiðrétt, eða hvað?

Samtals níu karlmenn eru skráðir í símaskrá með titilinn "prins" og eins og til að toppa það er einn þeirra "prins og söngvari". Þessir prinsar munu að öllum líkindum vaða í prinsessum, því yfir hundrað konur eru skráðar með það starfsheiti í símaskrá. (Jafnrétti á Íslandi, hvaaaað?!). Nokkrar þeirra hafa titilinn skráðan ásamt öðru starfsheiti, sem eru sum mjög prinsessuleg, til dæmis danskennari og athafnakona, en önnur dálítið undarlegri eins og kraftlyftinga prinsessa (?!) en langflottust er samt ein Jedi prinsessa. Nokkrir kóngar og drottningar eru skráð, væntanlega foreldrar þeirra.

Engar "stórstjörnur" eru þó skráðar, væntanlega er það með vilja gert til þess að forðast áreiti frá æstum aðdáendum og allskyns furðufuglum.

Þrjú afreksmenni eru skráð en aðeins einn hugvitsmaður. Talsverður fjöldi er af snillingum og gáfnaljósum, eitt þeirra er jafnvel gíraffasérfræðingur líka! Einnig er vart þverfótandi fyrir spámönnum, spákonum, sjáendum, galdramönnum, nornum, seiðkonum og -körlum og jafnvel -skröttum. Fimm vampírur eru skráðar og því ljóst að minnst einn af sex vampírubönum þarf að finna sér önnur verkefni, kannski getur hann með aðstoð frá tveimur skráðum galdralæknunum reynt að eiga við þessi þrjú tröll sem einnig eru í skránni.

Merkilegt er þó, að enginn er skráður "vitringur" í símaskránni en þar eru hinsvegar þrír sem eru "dreki" þar af einn sem heitir það raunverulega að millinafni, en þar er líka "amma dreki" og einn sem er "nemi og dreki", ætli hann sé að læra að verða dreki eða hvað? Sjálfur er ég skráður  kerfisfræðingur sem er frekar almenns eðlis en á merkilega vel við um mörg þeirra mjög svo ólíku starfa sem ég hef fengist við. Aftur á móti er núverandi starfsheiti á ráðningarsamningi, erindreki, en tveir aðrir slíkir drekar eru í skránni.

Við gætum þurft að hafa áhyggjur því drekabanar fylla svo margar síður af leitarniðurstöðum í skránni að um algjört ofurefli yrði að ræða fyrir okkur drekana. Þar eru einnig fjölmargir riddarar og þrjár stríðshetjur, mikið magn af ofurhetjum og jafnvel þrjár þjóðhetjur, en þó einungis einn heiðursmaður.

Skráðir letingjar hér á landi eru þrír talsins. Allnokkrir húmoristar eru í skránni og einn þeirra er þar að auki piparsveinn en þeir eru alls þrír slíkir og gætu jafnvel átt sér viðreisnar von því alls eru sex ungfrúr og þrjár fröken skráðar.


mbl.is Nafnið Þyrnirós samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband