Geirfinnur er líka mjög aðgengilegur
14.1.2012 | 00:00
Vinsældir feluleikja virðast óþrjótandi innan stjórnsýslunnar. Til dæmis hef ég undir höndum sönnunargögn um tilvik þar sem Fjármálaeftirlitið varð uppvíst að tilraunum til yfirhylmingar með brotlegum fjármálafyrirtækjum. Það misheppnaðist reyndar svo illa að það hafði þveröfug áhrif og vakti talsvert meiri athygli en ef ekkert hefði verið að gert.
Svipað er uppi á teningnum í Seðlabankanum eins og stjórnendur bankans hafa reyndar áréttað sjálfir og viðurkennt, að opinberar tölur á vef bankans geti verið villandi og síst til þess fallnar að skýra hina raunverulegu stöðu. Þetta er líka sama stofnun og komst að því að við skulduðum útlendingum í raun helmingi meira eftir að við höfnuðum Icesave heldur en áður hafði verið haldið fram á meðan reynt var að sannfæra okkur um að þessi ríkisstyrkur fyrir gjaldþrota fyrirtæki væri bæði viðráðanlegur og skynsamlegur.
Kristján Möller þingmaður og fyrrverandi samgönguráðherra hefur nú brugðið á það frumlega stílbragð í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér, að samtvinna þetta við leikinn (útúr)snú-snú. Tilefnið er skýrsla um veggjöld sem var unnin af Hagfræðistofnun, en virðist hinsvegar hvergi hafa verið birt. Skýringar þingmannsins eru stórkostlegar, eins og eftirfarandi tilvitnun sýnir:
Skýrslan var kynnt í ríkisstjórn sumarið 2010. Í frumvarpi til laga um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir var þess getið að Hagfræðistofnun væri að vinna að mati á fjárhæð veggjalda til að standa undir framkvæmdakostnaði. Þegar formlegar viðræður hófust af hálfu ríkisins um fjármögnun vegaframkvæmda við lífeyrissjóði fengu ráðgjafar ríkisins skýrsluna einnig afhenta ásamt öðrum skýrslum sem gerðar höfðu verið.
Siglfirðingurinn staðfestir sem sagt að skýrslan hafi aldrei komið fyrir augu almennings og að aldrei hafi verið gerð nein tilraun til að kynna hana almenningi. Með öðrum orðum þá svarar hann því hvort skýrslan hafi verið sýnd Pétri, með því að benda á að hún hafi verið sýnd Páli inni á klósetti bak við læstar dyr, eða svo gott sem. Orðaleikurinn nær svo áður ótroðnum hæðum í lokasetningunni: Skýrslan hefur því komið að góðum notum og verið aðgengileg á vefsvæði Hagfræðistofnunar með hjálp leitarvéla.
Sé vefur Hagfræðistofnunar skoðaður á venjulegan hátt, með því að heimsækja forsíðuna og fylgja þeim hlekkjum sem vísa á efnisinnihaldið, þá kemur jú í ljós að þar er talin upp skýrsla um veggjöld í lista yfir verkefni sem unnin hafa verið fyrir aðra. Í listanum eru tenglar á sumar af þessum skýrslum en alls ekki allar og þar á meðal ekki þessa tilteknu skýrslu. Ef maður veit hinsvegar skráarnafnið og slóðina nákvæmlega upp á staf er auðvelt að niðurhala skýrsluna til aflestrar.
Slóðin er: https://ioes.hi.is/publications/cseries/2010/C10_08.pdf
Og ef það skyldi nú ekki vera nógu augljóst þá stendur titillinn á síðunni og sé honum slegið orðrétt inn í leitarvél er þetta fyrsta leitarniðurstaðan. Auðvitað er skýrslan ekkert falin, heldur erum það við kjósendurnir sem erum svona heimsk að kunna ekki skil á þessum nýjustu framförum í aðgengismálum.
Möllerinn hlýtur svo að hafa samband við umhverfisráðuneytið til að greina frá því að olían á Drekasvæðinu sé í raun mjög aðgengileg. Aðeins þurfi að bora frá hafsbotni undir hyldjúpu úthafinu gegnum nokkur hundruð metra basalthraunlög til að komast að henni. Því næst þarf svo að láta Ríkislögreglustjóra vita að líkamsleifar Geirfinns séu í raun mjög aðgengilegar. Aðeins þurfi að fara í réttu gjótuna í rétta hrauninu og þá muni hann koma í leitirnar og málið upplýsast.
![]() |
Hagfræðistofnun birti ekki skýrsluna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frétt gærdagsins
12.1.2012 | 12:46
Eins og hér var skýrt frá í gærkvöldi hefur fjármálaráðuneytið birt hluthafasamninga nýju viðskiptabankanna þriggja, samtals um 65 ljósmyndaðar blaðsíður. Eitthvað af upplýsingum er varðar fjárhagsmálefni hluthafa og kauprétti sem teljast trúnaðarmál hafa þó verið afmáðar á ljósmyndunum.
Þetta er auðvitað talsverð frétt, en frétt dagsins í dag er hinsvegar sú að hátt í sólarhring ríkti algjör þögn um þessi tíðindi í helstu fjölmiðlum landsins. Á því kann ég engar skýringar, nema að fréttaritarar hafi mögulega hætt snemma í vinnunni í gær. Þar sem ég á enn eftir að kynna mér efni þessara samninga veit ég ekki heldur hvort þar er eitthvað bitastætt að finna, en væntanlega kemur það í ljós fljótlega.
Sjá: Hluthafasamkomulög í tengslum við eignarhald á stóru viðskiptabönkunum þremur | Fjármálaráðuneytið
Samningarnir í heild sinni
- Hlutafjársamkomulag vegna NBI (nú Landsbankans). Landskil ehf. fara með 18,7% eignarhlut í Landsbankanum fyrir hönd Landsbanka Íslands hf., á móti 81,3% hlut íslenska ríkisins.
- Hlutafjársamkomulag vegna Nýja Glitnis (nú Íslandsbanka). ISB Holding ehf. fer með 95% eignarhlut í Íslandsbanka fyrir hönd Glitnis banka hf., á móti 5% hlut íslenska ríkisins.
o Sjá einnig breytingu á ákvæði 14.4(a)
- Hlutafjársamkomulag vegna Nýja Kaupþings (nú Arion banka). Kaupskil ehf. fara með 87% eignarhlut í Arion banka fyrir hönd Kaupþings banka hf., á móti 13% hlut íslenska ríkisins.
![]() |
Hluthafasamningar bankanna birtir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hlutafasamingar nýju bankanna birtir
11.1.2012 | 19:31
Í dag birti fjármálaráðuneytið hluthafasamninga nýju viðskiptabankanna þriggja, samtals um 65 ljósmyndaðar blaðsíður. Eitthvað af upplýsingum er varðar fjárhagsmálefni hluthafa og kauprétti hafa þó verið afmáðar á ljósmyndunum, að sögn ráðuneytisins vegna ákvæða upplýsingalaga.
Hvers vegna engin frétt hefir birst um þetta kann ég engar skýringar á. Það kann að vera að þetta hafi einfaldlega farið framhjá fjölmiðlum og sloppið undir ratsjánna hjá árvöklum bloggurum og öðrum álitsgjöfum. Nema þeim sem hér skrifar.
Þar sem mér hefur ekki unnist tími til að lesa þessi plögg í þaula vildi ég vekja athygli á þeim hér í þeirri von að aðrir árvöklir greinendur verði þess varir og taki gögnin til skoðunar. Það er ekkert víst að neitt bitastætt sé þarna að finna, en ef eitthvað finnst væri gaman að fá athugasemdir um það hér að neðan.
Fjármálaráðuneytið:
Hluthafasamkomulög í tengslum við eignarhald á stóru viðskiptabönkunum þremur
Haustið og veturinn 2009 voru gerðir hluthafasamningar í tengslum við hlutafjáreign í Landsbankanum hf., Íslandsbanka hf. og Arion banka hf., milli íslenska ríkisins annars vegar og gömlu bankanna hins vegar. Helstu atriði samninganna voru birt í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna sem lögð var fyrir Alþingi í mars 2011 (sjá bls. 40, 52 og 67). Hlutafjárframlög ríkisins vegna bankanna þriggja nema um 135 ma.kr., á móti 156 ma.kr. hlutafjárframlagi annarra hluthafa.
Um miðjan október 2011 barst beiðni til fjármálaráðuneytisins þar sem óskað var eftir aðgangi að hluthafasamkomulögunum í heild sinni. Ráðuneytið lagði mat á eðli þeirra upplýsinga sem fram koma í efni hluthafasamkomulaganna, m.t.t. upplýsingalaga, þar sem upplýsingarnar höfðu ekki verið birtar áður. Einnig er rétt að árétta að stjórnvöldum er óheimilt skv. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að veita aðgang að upplýsingum sem varða viðskipta- og fjárhagsmálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, án ótvíræðs samþykkis þess sem í hlut á, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila.
Því óskaði ráðuneytið eftir afstöðu annarra hluthafa og bankanna sjálfra, með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, til þess að veittur yrði aðgangur að umræddum skjölum í heild sinni. Ráðuneytinu hafa nú borist svör frá hluthöfum og bönkunum sem um ræðir og eru samningarnir birtir hér.Samningarnir í heild sinni
- Hlutafjársamkomulag vegna NBI (nú Landsbankans). Landskil ehf. fara með 18,7% eignarhlut í Landsbankanum fyrir hönd Landsbanka Íslands hf., á móti 81,3% hlut íslenska ríkisins.
- Hlutafjársamkomulag vegna Nýja Glitnis (nú Íslandsbanka). ISB Holding ehf. fer með 95% eignarhlut í Íslandsbanka fyrir hönd Glitnis banka hf., á móti 5% hlut íslenska ríkisins.
o Sjá einnig breytingu á ákvæði 14.4(a)
- Hlutafjársamkomulag vegna Nýja Kaupþings (nú Arion banka). Kaupskil ehf. fara með 87% eignarhlut í Arion banka fyrir hönd Kaupþings banka hf., á móti 13% hlut íslenska ríkisins.
Upplýsingar sem varða tiltekin viðskipta- og fjárhagsmálefni hluthafa í greinum 1.1, 5.1, 9.4 og 9.6 hafa verið fjarlægðar í samræmi við ákvæði 5. gr. upplýsingalaga. Um er að ræða ákvæði er varða hluthafavernd annars vegar og verð kaupréttar hins vegar.
Sjá einnig:
Greinargerð um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna
Umræður á Alþingi um skýrslu fjármálaráðherra
[Viðbætur síðuhöfundar:]
Guðlaugur Þór fjallar á bloggsíðu sinni um málið
Grein Guðlaugs um málefni sparisjóða: Pressan.is
Sýnishorn úr umfjöllun Marinó G. Njálssonar um endurreisnarskýrsluna o.fl.:
Afslættir af lánum heimilanna og afslættir af íbúðalánasöfnum - marinogn.blog.is
600 milljarðar af skuldum heimilanna við bankana vegna... - marinogn.blog.is
Franska byltingin var ekki ein heldur tvær
11.1.2012 | 03:32
Tæplega fimmtugur Túnisbúi, sem kveikti í sér í mótmælaskyni á fimmtudag, lést af sárum sínum í dag...
Rifjum nú upp hvernig byltingin í Túnis sem varð kveikjan að hinu arabíska vori, er sögð hafa byrjað. Í kjölfarið á því að Mohamed Bouaziz, 26 ára gamall götusali kveikti í sér í mótmælaskyni eftir að söluvarningur hans (og þar með lífsviðurværi) var gerður upptækur á það sem hann taldi mjög niðurlægjandi hátt.
Án þess að kryfja það mál til mergjar langar mig að benda hér á nokkrar hliðstæður:
Í Grikklandi, þar sem umtalsverður óróleiki hefur verið undanfarin misseri, gerðist svipað í fyrrasumar, örvæntingarfullur maður á miðjum aldri þjakaður af skuldavanda greip til þess örþrifaráðs að kveikja í sér í mótmælaskyni.
Aftur hefur Túnisbúi gripið til þess örþrifaráðs að kveikja í sér, að því er virðist í mótmælaskyni vegna þess að umbætur láta á sér standa undir stjórn nýrra valdahafa.
Í Egyptalandi, vöggu arabíska vorsins hafa aftur brotist út óeirðir vegna óánægju með herforingjastjórnina sem tók við eftir byltinguna sem varð þar í fyrra.
Franska byltingin, sú sem oftast er vitnað til sem sögulegrar fyrirmyndar, var ekki bara ein bylting. Þær voru að minnsta kosti tvær ef ekki fleiri.
Hér á Íslandi varð svokölluð Búsáhaldabylting veturinn 2008-2009. Eftir að mestu óeirðirnar lægðu hafa verið haldnir öflugir mótmælafundir og það er orðin hálfgerð þjóðaríþrótt að sýna í verki hvað okkur finnst um þá sem fara með völdin. Þetta er jafnvel farið að móta orðspor Íslendinga á skemmtilegan hátt.
Mörgum finnst samt sem lítið hafi breyst. Kjarni vandans er að við búum ennþá við allt of stórt og brothætt fjármálakerfi sem ósjálfrátt verður upphaf og endir allra umræðu um nokkuð sem máli skiptir. Fjármálavaldið er þar af leiðandi enn ríkjandi og lítið bólar á umbótum af því tagi sem margir vonast eftir, ekki síst varðandi möguleika almennings á lýðræðislegri þáttöku í mótun samfélagsins.
Um þetta munu helstu áherslurnar snúast á næstu misserum, uppstokkun aldraðra og úreltra fjármála- og valdakerfa ásamt sívaxandi kröfu um fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt. Hvort sem byltingin borðar börnin sín eða eitthvað annað þá verður hún bara sterkari af næringunni, og reynslunni ríkari.
P.S. Búinn að uppfylla fyrsta áramótaheitið nú þegar!
![]() |
Lést af sárum sínum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Smávægileg áminning
2.1.2012 | 14:05
Eftir að forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sendi frá sér þau skilaboð í nýársávarpi sínu að hann væri allt annað en hættur afskiptum af þjóðmálum, hafa menn keppst um að rýna í þau skilaboð. Túlka margir þau þannig að Ólafur hugsi sér að snúa sér aftur að stjórnmálum, jafnvel fara framboð í Alþingiskosningum um leið og hann lætur af störfum sem forseti?
Í tengdri frétt segist Gísli Árnason, formaður félags stjórnar VG í Skagafirði, telja allar líkur á að hreyfing sem berjist gegn aðild Íslands að ESB, undir forystu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, myndi uppskera ríkulegan stuðning. Tómarúm sé á vinstri vængnum í baráttunni gegn ESB.
Á bloggi Heimssýnar við sömu frétt segir:
Bæði á vinstri væng stjórnmálanna sem þeim hægri er eftirspurn eftir stjórnmálaafli sem túlkaði þá staðfestu afgerandi meirihluta þjóðarinnar að búa áfram í fullvalda þjóðríki utan ríkjabandalags eins og ESB...
Alþingiskosningar eru eftir hálft annað ár. Eru ekki allir klárir í bátana?
Skiljanlega er þarna vísað til þess ístöðuleysis sem verið hefur í Evrópumálum meðal flokkanna á Alþingi. Sá eini sem hefur alltaf haft skýra og óhaggaða stefnu í þeim málum er flokkur aðildarsinna, Samfylkingin, en hinir hafa ekki alltaf verið eins staðfastir hvorki með né móti.
Svo virðist sem í þessari umræðu gleymist gjarnan að þetta er alls ekki tæmandi upptalning á valkostum íslenskum stjórnmálum. Það eru meira að segja til allnokkrar stjórnmálahreyfingar sem hafa aldrei hvikað frá skýrri afstöðu til fullveldis. Án þess að telja þær allar upp vil ég benda á eina slíka, sem ég á sjálfur aðild að.
Ég ætla ekki að þylja upp stefnuræðu eða neitt slíkt við þetta tilefni, það má bíða betri tíma. Hinsvegar ætla ég að gefa hér smá sýnishorn úr stuttri en viðburðaríkri sögu fyrstu stjórnmálasamtakanna sem voru stofnuð eftir síðustu kosningar:
- Samtök Fullveldissinna voru formlega stofnuð í maí 2009.
- Hafa síðan þá haldið úti vefsíðu og bloggi.
- Hafa alltaf uppfyllt lagaskilyrði um fjármál stjórnmálasamtaka.
- Munu aldrei hvika frá skýrri fullveldisstefnu.
- Hafa beitt sér af krafti gegn ríkisvæðingu einkaskulda.
- Áttu beinan hlut í kosningasigri sem fer á spjöld sögunnar.
- Eiga aðild að rekstri Grasrótarmiðstöðvarinnar.
- Samtökin eru klár í bátana þegar kallið kemur.
- Hægri og vinstri eru úrelt hugtök, stefnum fram á veginn!
Það er kominn tími til að fólk hætti að kvarta undan því að það vanti einhverja valkosti aðra en gömlu spillingarflokkana. Slíkir valkostir eru til nú þegar, Samtök Fullveldissinna eru ekki þau einu, og það er ekkert því til fyrirstöðu að þessar fylkingar geti haft áhrif. Það eina sem þið ágætu kjósendur þurfið að gera er að skrá ykkur úr gamla flokknum og ganga til liðs við einhver af þeim nýju framboðum sem fullvíst er muni verða í boði í aðdragandi næstu kosninga. Og gleyma þeim ekki heldur þegar í kjörklefann er komið!
Gleðilegt nýtt ár.
![]() |
Telur forsetann eiga stuðning vísan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samevrópsk seðlaprentun í áratug
1.1.2012 | 10:00
Evrópumál | Breytt 6.12.2011 kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Farsælt komandi ár
31.12.2011 | 23:30
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gleðilega sólstöðuhátið
24.12.2011 | 18:09
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Opið bréf til þingmanna og forseta Íslands
17.12.2011 | 17:55
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.12.2011 kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Afhverju fór Edge öðruvísi en IceSave?
16.12.2011 | 21:52
9/11: samsæriskenningin
16.12.2011 | 17:26
Þjóðsögur um peningamál (TEDx fyrirlestur)
16.12.2011 | 17:12
Kaldhæðni örlaganna
15.12.2011 | 12:53
Bankaáhlaup í Lettlandi um helgina
12.12.2011 | 08:00
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar kerfið þykist vera lesblint
11.12.2011 | 01:02
Öryggis- og alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)