Fjármál stjórnmálasamtaka

Hópur Evrópuráðsríkja gegn spillingu (GRECO) hefur gefið út skýrslu þar sem lagt er mat á hversu vel íslenskum stjórnvöldum hefur tekist að innleiða tilmæli um gegnsæi í fjármálum stjórnmálasamtaka. Árið 2006 voru sett lög um fjármál stjórnmálasamtaka og hefur þeim verið breytt tvisvar, fyrst í ágúst 2009 og svo í september 2010. Vissulega er gott að búið sé að gera þessar úrbætur, en þó er enn misbrestur á því að farið sé eftir lögunum. Í þeim segir m.a.:

9. gr. Upplýsingaskylda um reikninga stjórnmálasamtaka.
Stjórnmálasamtök skulu fyrir 1. október ár hvert skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. ... ... ...

Þann 17. desember sl. barst hinsvegar fréttatilkynning frá Ríkisendurskoðun þar sem segir m.a.:

Ríkisendurskoðun hefur birt útdrátt úr ársreikningum stjórnmálasamtaka fyrir árið 2009 þar sem m.a. koma fram upplýsingar um framlög til þeirra frá lögaðilum. Aðeins er birtur útdráttur úr ársreikningum fjögurra samtaka en stofnuninni hafa enn ekki borist reikningar frá fleirum. ... ... ...

Upphaflega stóð til að birta útdráttinn sl. haust en það tókst ekki þar sem aðeins ein samtök höfðu skilað reikningi þegar skilafrestur rann út 1. október.

Það hlýtur að teljast sérstakt að einungis ein stjórnmálasamtök hafi skilað ársreikningi á réttum tíma og lögum samkvæmt, og ekki síður að allir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi skiluðu of seint. Núna þegar ársfjórðungur er liðinn síðan skilafresturinn rann út eiga þrír af þeim enn eftir að skila ársreikningum: Framsóknarflokkur, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Grípum aftur niður í lögin:

3. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.
Skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka skv. 1. mgr. er að viðkomandi samtök hafi áður fullnægt upplýsingaskyldu sinni til Ríkisendurskoðunar skv. 9. gr.

Á fjárlögum 2011 er gert ráð fyrir 304,2 milljónum undir þessum útgjaldalið, en þar sem enginn þeirra hefur uppfyllt skilyrði 9.gr. laganna verður þessum fjármunum ekki úthlutað lögum samkvæmt. Ekki heldur til þeirra samtaka sem þó skiluðu á réttum tíma, því þau eiga ekki enn fulltrúa á Alþingi. Þetta eru heil 85% af framlögum ríkisins til stjórnmálastarfs og því er útlit fyrir að þeir fái að kenna á niðurskurði ríkisútgjalda eins og í öðrum málaflokkum. Þetta mun eflaust hafa nokkur áhrif á rekstur flokkanna, en öllum sparnaði í ríkisútgjöldum ber þó auðvitað að fagna, og mætti jafnvel nýta  svigrúmið sem skapast með þessu til að styrkja önnur starfandi stjórnmálasamtök sem ekki hafa notið þess að fá neina ríkisstyrki hingað til.

Í áðurnefndri fréttatilkynningu Ríkisendurskoðunar segir enn fremur:

Með breytingu á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, sem nýlega tók gildi, munu slík samtök ekki geta fengið framlög úr ríkissjóði nema hafa áður skilað reikningum sínum til Ríkisendurskoðunar. Stofnunin bindur vonir við að heimtur ársreikninga frá stjórnmálasamtökum muni batna í kjölfar þessarar lagabreytingar.

Leiða má líkur að því að framvegis muni stjórnmálaflokkar huga betur að þessu, enda eru þessar greiðslur bróðurparturinn af tekjum þeirra eins og sjá má í meðfylgjandi samantekt.

UPPFÆRT 18.1.2011: Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú skilað ársreikningi fyrir árið 2009.

UPPFÆRT 20.1.2011: Samfylkingin hefur nú skilað ársreikningi fyrir árið 2009.

UPPFÆRT 26.1.2011: Innsláttarvilla sem orsakaði minniháttar skekkju uppgötvaðist í ársreikningi Samfylkingarinnar 2009 en hefur nú verið leiðrétt hjá Ríkisendurskoðun.

UPPFÆRT 3.3.2011: Framsóknarflokkurinn hefur nú skilað ársreikningi fyrir árið 2009.

Samantektin hefur verið uppfærð til samræmis við þetta.


mbl.is Lög um upplýsingaskyldu að mestu uppfyllt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þór Ólafsson

Glæsilegt! Þegar þeir þyggja þetta fé úr ríkissjóði þarf einhver að kæra þá, hugsanlega til Umboðsmanns Alþingis. Ertu til í að taka það að þér? Ég skal hjálpa.

Jón Þór Ólafsson, 15.1.2011 kl. 14:49

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hafðu engar áhyggjur. Frumathugun hefur farið fram nú þegar, og málið er komið á undirbúningsstig.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.1.2011 kl. 17:09

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

16.1.2011: Svipan vitnaði í þessa færslu.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.1.2011 kl. 17:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband