Lausn snjóhengjuvandans hér

Slitastjórn Landsbankans hefur óskað eftir því við Seðlabanka Íslands að fá að flytja 200 milljarða í erlendum gjaldeyri úr landi til að borga Icesave. Seðlabankinn hafnaði því, réttilega, enda hefur bæði íslenski löggjafinn hafnað því auk þess að fá þá ákvörðun staðfesta með alþjóðlegum dómi. Þar að auki hefur Seðlabankinn nú loksins viðurkennt, í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika, að nýji bankinn sem búinn var til úr rústum hins gamla, er ógjaldfær í erlendri mynt, og mun því þurfa á þessum peningum að halda.

Það þýðir þó alls ekki að gamli bankinn muni ekki fá neina peninga til að senda úr landi á endanum, en að sjálfsögðu á það ekki að verða fyrr en nýji bankinn hefur fengið að njóta forgangs að þeim til endurkaupa á skuldabréfi sem þáverandi fjármálaráðherra lét nýja bankann gefa út til slitastjórnarinnar vegna tiltekinna eignasafna sem eru líklega að stóru leyti ólögmæt lán og er auk þess miklum vafa undirorpið hvort um raunverulegar gjaldeyriseignir sé að ræða. Gengistryggð lán voru nefninlega í raun aldrei veitt í erlendri mynt heldur íslenskum krónum. Þannig á nýji bankinn ekki einu sinni að láta þennan gjaldeyri af hendi, heldur íslenskar krónur, sem hann á nóg af.

Yrði farið eftir slíkri áætlun færi erlend staða þjóðarbúsins jafnframt úr mínus í plús á næstu þremur til fjórum árum, miðað við forsendur fyrir spám Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisjöfnuð næstu misseri. Slík áætlun gæti dugað til þess að bræða stærsta einstaka bitann í hinni svokölluðu snjóhengju.

Hérna eru lykilatriði í útfærslunni á þessu:

1) Skuldbreyta því sem eftir stendur af Landsbankabréfinu í krónur.

2) Afskrifa það sem er umfram 88,8 milljarða (rúma 224 milljarða).

3) Skipta öllum gjaldeyri í eigu slitastjórnar LBI í krónur.

4) Afhenda TIF þann helming þrotabúsins sem hann á tilkall til.

5) TIF greiði sinn helming Icesave út, í rammíslenskum krónum.

6) Restin af eignum þrotabús LBI færðar í eignarhaldsfélag.

7) Bretum og Hollendingum afhent sitthvort hlutabréf þess.

8) Icesave málið búið, allir fá sitt og Ísland kemur út í stórum plús.

Undirritaður leggur til að þessi löglega og hagkvæma leið verði farin.

ATH. Lögfræðilegur fyrirvari: af gefnu tilefni skal áréttað að þrátt fyrir að vera birt á opinberum vettvangi njóta skrif mín hugverkarréttar, ekki síst sæmdarréttar. Þessi hugmynd að útfærslu á skynsamlegri efnahagsáætlun er ekki til sölu, heldur vill höfundur gjarnan að hún verði notuð. Ætli hinsvegar einhver að eigna sér hana í annað hvort viðskiptalegum, pólitískum, eða öðrum tilgangi öðrum en réttur höfundur leyfir, er gerður áskilnaður um fullan sæmdarrétt og yrði honum framfylgt með því að senda innheimtu bréf fyrir sanngjörnum ágóða höfundar af þeim ávinningi sem af þessu hlytist. Þar sem nánast útilokað er að meta hvað sé sanngjarnt í því samhengi vísast til laga um ríkisábyrgð, þar sem viðmiðunarmörk fyrir álagningu ríkisábyrgðargjalds eru á bilinu 0,25-4% þeirrar fjárhæðar sem gengist er í ábyrgð fyrir, á ári.


mbl.is Fékk ekki undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Stjórnvöld hafa hvorki völd til að skuldbreyta skuldabréfi í ereldnri mynt í krónur né til að taka einhliða ákvörðun um að afskrifa hluta af því. Það þarf því að semja um þetta. Það eru engar líkur á að hægt sé að semja um lækkun forgangskrafna þegar þrotabúið á fyrir öllum forgangskröfum. Það þarf því að borga þetta. Annars erum við aftur komnir í málaferli við Breta og Hollendinga út af því og það er nánast öguggt að við töpum slíkum málaferlum.

Sigurður M Grétarsson, 12.5.2013 kl. 22:59

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú nefndir einmitt grundvallaratriðið í þessu.

Það þarf því að semja um þetta.

Það hefur einmitt ekki verið gert, heldur var búinn til ólöglegur samningur undir þvingunum. Lögráða stjórnvalda hafa fullt vald til að framfylgja lögum og ógilda slíka gjörninga liggi frammi gögn um slíkt. Sem þau gera.

Aftur á móti hafa verið haldnar  tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um þetta nú þegar þar sem samningum um þetta var hafnað í bæði skiptin. Þessi niðurstaða hefur nú þegar verið staðfest af EFTA dómstólnum.

Þú ert raunverulega að halda því fram að það sé ekki hægt, sem þegar er.

Vei yður vantrúuðum!

P.S. Hvaða hagsmuni hefur þú annars af því að vilja ólmur borga Icesave  Sigurður? Hvaða hvatir knýja þig til þess að langa að gera það?

Guðmundur Ásgeirsson, 12.5.2013 kl. 23:47

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það var reyndar ekkert ólöglegt við Icesave samninginn. Það er ekkert sem bannar deiluaðilum að gera samning um sím mál í stað þess að taka áhættu fyrir dómstólum. Það hvernig dómsmálið fer sé samningi hafnað gerir samninginn ekki ólöglegan gagnvart þeim sem unnu málið.

En þetta skiptir engu máli í þessu sambandi. Icesave samningurinn og síðan niðurstaða EFTA dómstólsins fjallaði einungis um deiluna um það hvort ríkið bæri ábyrð á innistæðum upp í lágmarkstryggingu í gjaldþrota einkabönkum ef innistæðutryggingasjóðurinn næði ekki að tryggja það sem þrotabúið nær ekki að tryggja. Svo kom reyndar líka inn í það deila varðandi mismunun innistæðueigenda eftir því hvar þeir áttu sínar innistæður.

Ágreiningurinn snerist á engan hátt að forgangi kröfuhafa með forgangskröfur á eignum þrotabús gamla Landsbankans. Það var aldrei ágreingingur um það að innistæðueigendur ættu forgang í þær. Það hefur því aldrei verið ágreiningur um að innistæðueigendurnir eiga þessar upphæðir sem verið er að sækja um undanþágu frá gjaldeyrishöftum til að koma til þeirra. Það voru því aldrei haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur um það hvort þrotabúin ættu að greiða þessar skudlir eins og eignir þeirra hrykkju til enda aldrei neinn ágreiningur um það.

Þessi eign innistæðueigenda og reyndar líka almennra kröfuhafa því þrotabúið á eignir upp í almennar kröfur eru eignarréttarvarðar eignir þeirra samkvæmt stjórnarskrá. Stjórnvöld hafa því engar heimildir til að ráðskast með þær og allra síst að taka einhliða ákvarðanir um að afskrifa hluta þeirra.

Sigurður M Grétarsson, 13.5.2013 kl. 17:37

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Icesave samningar eru víst ólöglegir. 60% kusu NEI.

Ertu búinn að gleyma því strax eða er þetta valkvæmt?

Lestu svo gjaldþrotalögin. Kröfur á að greiða út í krónum.

Hættu svo að fullyrða eitthvað sem þú veist ekki.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.5.2013 kl. 23:17

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það að samningi sé hafnað gerir hann ekki ólöglegan. Honum er einfaldlega hafnað. Það er hin venjubundni gangur milliríkjasamninga að samninganefndir gera samningana sem að sjálfsögðu eru með fyrirvara um samþykki þeirra sem ráða. Það væri að sjálfsögðu búið að gefa út ákærur ef eihver hefði gert eitthvað ólöglegt í tegslum við samningagerðina.

Það er alveg rétt að það er heimilt að greiða út í krónum í gjaldþrota íslenskum fyrirtækjum jafnvel þó þeim hafi verið lánaður gjaldeyrir. Það er þess vegna sem verið er að óska eftir undanþágu frá gjaldeyrishöftunum svo hægt sé að greiða innistæður í þeim gjaldmiðlum sem þær voru lánaðar í. Það er fullkomlega óeðlilegt að hafna því enda eru eigur erlendis í erlendum gjaldeyri til að standa undir þessum greiðslum og því hefur það ekki áhrif á gengi krónunnar að láta þær fara til kröfuhafa. Það hefði reyndar óheppileg áhrif að vera að taka þessa peninga inn í landi og stækka þannig snjóhengjuna. Það er því ekki hægt að réttlæta það að hafna innistæðueigendum um að fá greiðslur í þeim gjaldmiðli sem þeir lánuðu bankanum á einhvers konar forsndum um að það þurfi að gæta efnahagslegs stöðugleika hér á landi.

Eina ástæða þess að ekki er búið að samþykkja þetta er að það er verið að setja þrýsting á kröfuhafa í þrotabúið að semja um lengingu í skuldabréfi nýja Landsbankans. Þetta er með öðrum orðum þvingunaraðgerð sem í raun er kúgunaraðgerð af hálfu okkar Íslendinga. Vissulega hafa fáir samúð með vogunarsjóðum í því efni en þegar um er að ræða almenna innistæðueigendur, sveitafélög og góðgerðafélög sem voru að leggja sparnað sinn í banka þá er það allt annað mál. Reyndar hafa ríkisstjórnir viðkomandi landa greitt almennum innistæðueigendum út en ekki sveitafélögum eða góðgerðarfélögum. En þú vilt sjálfsagt svína á þessum hópi með kúgunaraðgerðum?

Sigurður M Grétarsson, 14.5.2013 kl. 15:33

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú virðist hafa misskilið þetta.

Þegar löggjafinn, sem í þjóðaratkvæðagreiðslu um lagafrumvarp er þjóðin sjálf, segir að það eigi ekki að borga Icesave, þá eru það lög.

Það voru engar samningaviðræður um þá lagasetningu.

Eftir að hún lá fyrir staðfesti EFTA dómstóllinn svo að ríkið ætti ekki að gangast í ábyrgð fyrir þessu. Athugaðu að niðurstaða dóms EFTA dómstólsins fól það ekki bara í sér að íslenska ríkið þyrfti ekki að ábyrgjast þetta, heldur að það væri beinlínis óheimilt enda bannar tilskipunin um innstæðutryggingar ríkisábyrgð.

Þetta hefur allt saman verið skilmerkilega skrásett og skjalfest hér á þessu bloggi undanfarin fjögur ár. Hvar hefur þú verið?

Og hvers vegna í veröldinni er þér svona mikið í mun að borga Icesave?

Guðmundur Ásgeirsson, 14.5.2013 kl. 17:19

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Um gjaldþrotaskipti:

http://www.althingi.is/lagas/141a/1991021.html#G99

XVI. kafli. Kröfur á hendur þrotabúi.
99. gr. Allar kröfur á hendur þrotabúi falla sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.
Kröfur á hendur þrotabúi um annað en peningagreiðslu sem verða ekki efndar eftir aðalefni sínu skulu metnar til verðs eftir þeim reglum sem gilda um slíkt mat við aðför.
Kröfur á hendur þrotabúi í erlendum gjaldmiðli skulu færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi á þeim degi sem úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta að því leyti sem þeim verður ekki fullnægt skv. 109.–111. gr.

Um innstæðutryggingar:

http://www.althingi.is/lagas/141a/1999098.html#G9

III. kafli. Greiðslur úr sjóðnum.
9. gr. Greiðslur úr sjóðnum.
Nú er aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda. Er þá sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr A- eða B-deild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Greiðsluskylda sjóðsins verður einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti. Sjóðnum er heimilt við endurgreiðslu andvirðis innstæðu úr A- eða B-deild að inna greiðsluna af hendi í samræmi við skilmála er gilda um innstæðu eða verðbréf, t.d. hvað varðar binditíma, uppsögn og þess háttar. Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi fjármálafyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirðis innstæðu.

Einhverjar frekari spurningar?

Guðmundur Ásgeirsson, 24.5.2013 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband