Verðstöðvun strax!

Einn stærsti einstaki verðbólguvaldurinn á Íslandi er hár fjármagnskostnaður sem öðru fremur stafar af verðtryggingu fjárskuldbindinga í bankakerfinu sem ýtir undir þenslu fjármagnseigna og rýrir þannig sífellt verðgildi krónunnar og skapar óstöðugleika. Rannsóknir hafa sýnt að fjármagnskostnaður er allt að helmingur vöruverðs og meira en það í sumum flokkum opinberrar þjónustu líka, en hér á landi er einnig mjög stór hluti fjármagnskostnaðar í formi verðbóta af völdum verðtryggingar.

Hægt væri að slá á þennan vítahring með opinberri verðstöðvun hér á landi. Með því er þó alls ekki átt við að ríkið eigi að fara að hafa bein afskipti af smásöluverðlagningu eins og samtök verslunar og þjónustu virðast hafa gert kröfu um með nýlegum skilaboðum sínum til þáttakenda í yfirstandandi viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Heldur þarf einfaldlega að frysta vísitölu neysluverðs, sem er einfalt að gera með minniháttar breytingum á lögum nr. 12/1995 um vísitölu neysluverðs, en fordæmi eru fyrir slíku bæði hérlend og söguleg.

Frá og með gildistöku slíkrar stöðvunar myndu verðbætur samstundis hverfa úr fjármagnskostnaði bæði fyrirtækja og heimila. Þannig myndi skapast slaki í rekstri fyrirtækja og þrýstingur á launakostnað myndi minnka þannig að forsendur til verðhækkana væru ekki lengur til staðar. Þetta samræmist alveg frjálsri verðlagningu, og það gæti jafnvel farið svo að einhverjir kaupmenn eða fyrirtæki sem áður voru sliguð af fjármagnskostnaði sæu sér leik á borði og lækkuðu verð til að bæta samkeppnisstöðu sína. Þetta gæti jafnvel leitt til nokkurrar verðhjöðnunar sem væri gott fyrir bæði heimili og fyrirtæki þar sem veltuhraði myndi aukast á sama tíma.

Þegar jafnvægi væri náð og fólk gæti náð andanum aftur væri svo hægt að fara að skoða það hvort ekki væri þá svigrúm til að leiðrétta sérstaklega þær skuldir heimila sem hafa stökkbreyst í þeim hremmingum sem staðið hafa yfir á fjármálamörkuðum undanfarin misseri. Með því að losna við þennan uppsprengda fjármagnskostnað væru allar líkur á því að þjóðfélagið sem heild hefði aukið svigrúm og yrði betur í stakk búið til að takast á við slíkt verkefni, jafnvel þó að menn greini hugsanlega eitthvað á um hversu langt skuli ganga í þeim efnum. Hér er fjallað nánar um það: Verðtryggingarsnjóhengjan.


mbl.is Styrking krónu skilar sér í lægra verðlagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Hár fjármagnskostnaður á Íslandi stafar öðru fremur af óstöðugleika og óvissu. Þeir sem lána peninga líta á tvennt þegar þeir ákveða hvort þeir lána peningana á annað borð og hverjum skuli lánað.

1. Öryggi, það er vissu um að fá peningana til baka.

2. Ávöxtun.

Þegar öryggi er lítið verður auðvitað krafan um ávöxtun há, og öfugt. Ef einhver heldur að öryggi verði aukið, og þar af leiðandi krafan um ávöxtun lækkuð með því að vera með hundakúnstir til að falsa vísitöluna, þá þjáist hann af ranghugmyndum. 

Eina leiðin til þess að lækka fjármagnskostnað til lagframa er að skapa stöðugt umhverfi þar sem lánardrotnar geta treyst því að fé þeirra fari ekki forgörðum.

Að fara að fikta við vísitöluna með þeim hætti sem greinarhöfundur ýjar að er ávísun á áframhaldandi óstöðugleika og fjármagnsflótta og þar af leiðandi háum fjármagnskostnaði. 



Hörður Þórðarson, 10.5.2013 kl. 01:47

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Hörður,mig grunar að Guðmundur sé að tala um verðtrygginguna.Eins og þú veist hefur gengið verið að hækka en aðrir þættir eins og hækkun fasteignamatsverðs út á landi haldið verðinu uppi(afleiðing verðtryggingar).Hugmyndir hafa verið um fastgengi um ákveðinn tíma sem yrði leiðrétt(gengið) á ákveðnum fresti.Þetta er ætlað til að auka stöðugleikann en ekkert endilega verið að LEIKA sér með gjaldmiðilinn.Gjaldið sem lánin eru "seld"á eru vextirnir.Verðtryggingin er einungis ætluð sem trygging lánveitandanna gegn óðaverðbólgu.En svo skrýtið sem það er ættu þessar verðbætur að ganga til baka þegar verðlag lækkar en það virðist nú ekki gera.Er þá ekki eitthvað rotið í ríki Dana?

Jósef Smári Ásmundsson, 10.5.2013 kl. 07:32

3 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Hvernig afla þeir sér öryggis sem lána peninga í öðrum löndum þar sem engin verðtrygging er, en samt lágir vextir??

Eyjólfur G Svavarsson, 10.5.2013 kl. 09:34

4 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Hvernig afla þeir sér öryggis sem lána peninga í öðrum löndum þar sem engin verðtrygging er, en samt lágir vextir??"

Þetta er ekki spurning um að afla öryggis. Þegar ábyrgir aðilar lána peninga meta þeir líkurnar á að fá peningana tilbaka, það er hvort eru peningarnir öruggir eða ekki.

Til dæmis: Til stendur að lána í peninga í landi A þar sem verðbólga hefur verið lág áratugum saman, spáð er áframhaldandi stöðugleika og lítilli verðbólgu,  stjórnvöld vilja halda í þennan stöðuguleika og vinna gegn spillingu og landsmenn sjá sér almennt hag i að viðhalda stöðugleika. Þá eru menn yfirleitt fúsir til þess að veita lán á vöxtum sem eru lítið eitt hærri en verðbólgan, enda eru miklar líkur á því að þeir fái peningana tilbaka. Engum dettur í hug að biðja um verðtryggingu vegna þess að engin þörf er á henni.

Ef hins vegar á að lána peninga í landi B þar sem verðbólga hefur verið há og sveiflukennd,  spilling á háu stig, spáð áframhaldandi óstöðugleika, landsmenn eru með stöðugar óraunhæfar kröfur sem leiða til verðbólgu og óvissu, stjórnmálaflokkar eru fullkomlega úti að aka og bjóða gull og græna skóga þegar minna en ekkert er til í ríkiskassanum, þá er eðlilegt að lánveitendur skuli að minnsta kosti krefjast verðtryggingar og ríflegra vaxta til þess að vega upp á móti áhættunni, enda geta þeir búist við að tapa peningunum sem þeir lánuðu.

Því miður er B ástand á Íslandi og þess vegna er dýrt að taka lán þar. Flóknara er þetta nú ekki. Ef það á að fara að stela af lánveitendum með því að falsa verðtrygginguna er það ávísun á hærri fjármagnskostnað þegar til lengri tíma er litið, ekki lægri.

Hörður Þórðarson, 10.5.2013 kl. 12:40

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hörður: Hár fjármagnskostnaður á Íslandi stafar öðru fremur af óstöðugleika og óvissu.

Eins og kemur fram í pistilinum þá er það verðtrygging lánsfjár í bankakerfinu sem veldur þessum óstöðugleika, sem hefur óvissu í för með sér.

Ef við afnemum verðtryggingu og fáum stöðugan gjaldmiðil, þá þarf ekki að verðtryggja skuldir sérstaklega til að þær skili raunávöxtun, heldur geta þær gert það með eðlilegri ávöxtun í umhverfri lágrar verðbólgu.

Til að lækka verðbólguna þarf fyrst að afnema verðtryggingu, annars munum við aldrei geta náð þessum margumtalaða stöðugleika. Skiptir þá engu máli hvað við gerum svo næst á eftir því, hvort við göngum í ESB eða tökum upp annan gjaldmiðil, eða höldum krónunni (Sem þá væri orðin stöðugri). Við þurfum fyrst að vinda ofan af verðtryggingarskrúfunni.

Þessu er Seðlabanki Íslands orðinn sammála, þegar hann viðurkennir nú loksins að viðskiptamódel Íbúðalánasjóðs, sem byggir alfarið og eingöngu á hinni séríslensku töfralausn verðtryggingu, er í raun ósjálfbært.

Er eitthvað fleira sem þarf að skýra betur við þetta?

Guðmundur Ásgeirsson, 10.5.2013 kl. 14:25

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eyjólfur: Hvernig afla þeir sér öryggis sem lána peninga í öðrum löndum þar sem engin verðtrygging er, en samt lágir vextir??

Það er einfalt. Þeir kaupa gull.

Þar sem það getur verið erfitt að fjárfesta í gulli á Íslandi nema þurfa svo að borga af því virðisaukaskatt við sölu, þá er líka hægt að benda á hlutbréf í námufyrirtækjum. Það er skotheldur gróði að eiga gullnámu.

Þau fyrirtæki á Íslandi sem komast þessu næst eru líklega álfyrirtækin sem fá ódýrt rafmagn og borga lága skatta fyrir að fá að stunda sinn rekstur í nánast mengungarlausu umhverfi í samanburði við það sem þekkist annarsstaðar. Þau eru reyndar ekki skráð á markað hér á landi en mér skilst að bæði Alcoa og Rio Tinto séu skráð á mörkuðum erlendis.

Svo hefur ríkið hingað til getað gefið út verðtryggð skuldabréf þegar eftirspurn er eftir þeim, burtséð frá því hvað menn segja um neytendalánin og verðtrygginguna á þeim.

Þannig má sjá að það eru margir verðtryggðir fjárfestingarkostir til handa þeim sem vilja, aðrir en bein rányrkja á hendur heimilum landsmanna.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.5.2013 kl. 18:20

7 Smámynd: Hörður Þórðarson

"Eins og kemur fram í pistilinum þá er það verðtrygging lánsfjár í bankakerfinu sem veldur þessum óstöðugleika, sem hefur óvissu í för með sér."

Verðtryggingin er komin til vegna óstöðugleikans, ekki öfugt. Hverjum sem hefur fylgst með gangi mála á Íslandi undanfarna áratugi ætti að vera það fullkomlega ljóst. Verðtryggingin var sett á vegna þess, að annars brann fé lánveitenda upp í verðbólgu sem jú var komin til vegna óstöðugleika.

Er verðtrygging í löndum þar sem stöðugleiki ríkir. Nei, enda er engin þörf á henni.

Ég er ekkert sérlega bjartsýnn á að hlutirnir fari að lagast á Íslandi þegar skilningur á grundvallar atriðum á borð við þetta er svona slæmur. 

Að halda því fram að verðtrygging valdi óstöðugleikanum er svipað og að halda því fram að lyf valdi sjúkdómi. Lyfið getur haft einhverjar hvimleiða aukaverkanir en það heldu lífi í sjúklingnum þannig að ekki er ráðlegt að hætta að gefa það þangað til hann hefur læknast.

Hörður Þórðarson, 10.5.2013 kl. 20:17

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þú ert að tala um ástæðuna fyrir því að menn ákváðu að setja á verðtryggingu. Ég er að tala um afleiðingarnar af þeirri ákvörðun.

Þetta er tvennt ólíkt, efnahagsleg óstjórn áranna fyrir 1979 annars vegar, og svo hinsvegar afleiðingar þesseftir að verðtryggingin var tekin upp þá.

Það má lesa um þetta hérna: http://arxiv.org/abs/1302.4112

Endilega gerðu athugasemdir ef þú telur að eitthvað sé rangt í því sem fram í rannsóknarritgerðinni. Ef eitthvað er rangt verður það leiðrétt, sem er einmitt tilgangurinn með því þetta sé birt þarna. Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.5.2013 kl. 01:34

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Að halda því fram að verðtrygging valdi óstöðugleikanum er svipað og að halda því fram að lyf valdi sjúkdómi. Lyfið getur haft einhverjar hvimleiða aukaverkanir en það heldu lífi í sjúklingnum þannig að ekki er ráðlegt að hætta að gefa það þangað til hann hefur læknast.

Stundum felst lækningin í því að hætta á lyfinu.

Sérstaklega þegar lyfið er farið að valda eitrun.

Hér eru eitrunareinkennin augljós:

Áhrif verðtryggingar á skuldir heimila

Og sjúklingnum fer hrakandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.5.2013 kl. 01:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband