#Occupied Grikkland

#Occupy (Katalipsi) Greek Ministry of Finance

Þessi mynd var tekin fyrir helgi af byggingu gríska fjármálaráðuneytisins. Borðanum á miðri mynd var komið fyrir af meðlimum starfsmannafélags ráðuneytisins, á honum stendur #Katalipsi sem er gríska og þýðir það sama og #Occupy. Starfsmennirnir eru nú á sjötta degi níu daga langs verkfalls.

Á meðan verkfallinu stendur safnast engir skattar, en það breytir í raun engu því áður en þeir fóru í verkfall frí á launum að mati þýzkra lífeyrisþega, þá hættu þeir að geta prentað skattheimtuseðlana því blekið sem er notað kláraðist og það eru ekki til peningar fyrir meiru!

Stjórnvöld ætluðu að bregða á það ráð að innheimta þess í stað skatta með álagningu á orkureikninga landsmanna. Starfsmenn hjá orkuveitunni brugðust við því með því að fara í samúðarverkfall með kollegum sínum í fjármálaráðuneytinu, en bættu um betur og umkringdu bygginguna sem hýsir innheimtudeildina og hindruðu aðgang starfsmanna þangað.

Núna er því hvorki hægt að innheimta skatta né orkureikninga en ríkissjóður Grikklands hefur rambað á barmi gjaldþrots um allnokkurt skeið. Og flest önnur verkalýðsfélög landsins voru í þann mund að boða tveggja daga allsherjarverkfall sem mun nokkurnveginn kyrrsetja þjóðfélagið.

#Occupy


mbl.is ESB bannar „nakið“ skuldatryggingaálag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Femínasismi á villigötum?

Í kvöldfréttum sjónvarps var sýnt frá allsérstæðu nýmæli í sögu fjölmiðlunar á Íslandi. Þar gerðist það í fyrsta sinn að skipulögð glæpasamtök kynntu sig formlega til sögunnar sem slík. Og það á blaðamannafundi á opinberum stað þar sem grímuklæddir meðlimirnir héldu kynningu á starfsemi sinni, að viðstöddum fréttariturum helstu fjölmiðla landsins, með glærukynningu á tjaldi, margmiðlunarefni og allan pakkann. Nei, þetta er ekki skáldsaga eftir Kafka heldur Ísland árið 2011.

Ha? Glæpasamtök? Já ég þarf ekkert að endurtaka það fyrst þú kannt að lesa, og þó tiltekið hlutfall lesenda eigi alveg örugglega eftir að vera andvígt þeirri nálgun á viðfangsefnið, þá ætla ég að biðja viðkomandi að leyfa mér að útskýra fyrst hvers vegna. Að því loknu má svo gjarnan mynda sér þá skoðun að ég sé algjört fáviti að halda þessu fram um hugrakkar nafnlausar konur sem útdeila sinni sérstöku tegund af réttlæti hatri án dóms og laga, ef það verður þá niðurstaðan.

Þegar ég sá þennan furðulega flokk sýndan ganga niður tröppur lögreglustöðvarinnar var það sem kom númer þrjú upp í hugann afhverju þær voru ekki handteknar umsvifalaust fyrir að dylja á sér heimildir á almannafæri? Já, það er nefninlega ólöglegt! Það sem kom númer eitt og tvö upp í hugann var hinsvegar það sem virðist fyrst og fremst aðgreina þetta frá klaninu: markhópurinn og liturinn á skikkjunum.

Almennt má ekki einu sinni lögreglan ganga um grímuklædd, það er aðeins gert þegar nauðsyn krefur. Þó óbreyttum borgurum sé í vissum undantekningartilvikum heimilt að beita valdi er þeim samt algjörlega óheimilt að taka sér lögregluvald með þeim hætti sem þarna virðist hafa verið gerð tilraun til. Og jafnvel þó svo væri þá er það engu að síður stjórnarskrár- og mannréttindabrot ef sami aðili rannsakar, ákærir, dæmir, og útdeilir refsingunni eins og í þessu tilfelli.

Á upptöku heyrðist ein huldukonan eða aðili á þeirra vegum bjóða grunlausum manni kynlífsþjónustu símleiðis, sem var ennþá ólöglegt síðast þegar ég vissi. Gildir einu þó vændið sé bara plat því hvorki vörusvik né tilraunir til fjársvika geta talist löglegt athæfi heldur. Að minnsta kosti voru þær með þessu að reyna að ginna viðkomandi til að kaupa það sem hann hélt að væri kynlífsþjónusta. Slíkt er vissulega glæpur, en það er líka glæpur að hvetja eða ginna aðra til afbrota, og ekki einu sinni lögreglu er heimilt að nota tálbeitur nema að undangengnum dómsúrskurði.

Í þessu skyni beittu huldukonurnar blekkingum og öðru sviksamlegu athæfi, sem var til þess fallið að valda þolendunum umtalsverðum miska, þar á meðal frelsissviptingu og orðsporsáhættu. Það er alveg á tæru að hljóðritun símtala án vitundar viðmælanda er refsivert brot á fjarskiptalögum og friðhelgi einkalífs, auk þess sem það varðar líklega við lög um persónuvernd að halda skrá um símanúmerin án samþykkis. En þegar tilgangurinn með þessu öllu er svo að nota upptökurnar til að eyðileggja mannorð viðkomandi á fölskum forsendum, þá er fólk komið inn á verulega skuggalegar brautir.

Óhugnaðurinn náði svo hámarki þegar skýrt var frá því að meðal persóna í umræddum símaleikritum væri ólögráða stúlkubarn. Eftirfarandi þrír möguleikar koma þá til greina: 1) "Stóru systurnar" settu "litlu systur" í þá aðstöðu að þykjast selja sig í símtali við mann sem hélt að þetta væri í alvöru og var eflaust að fíla það; 2) Þetta var hvort sem er hluti af dimmum reynsluheimi "litlu systur" og "stóra systir" var aðeins að notfæra sér neyð hennar; 3) Sú "litla" var í raun eldri leikkona, og símtalið þar með undir sömu lagaákvæði fallið og notkun á lögaldra leikurum sem eru látnir líta út fyrir að vera börn (með öðrum orðum barnaklám). Það hlýtur að koma til kasta Barnaverndar að rannsaka þessi málsatvik sérstaklega.

Um alla þessa hluti hafa "stóru systurnar" haft víðtækt samsæri. Það er alls engin kenning heldur afbrot út af fyrir sig. Samtök þessi virðast vera bæði mannmörg og þaulskipulögð, en staðfestur fjöldi þolenda er allt að 173 manns. Hið óvenjulega er hinsvegar að meðlimirnir hafa sjálfir látið gera upptökur af játningum sínum opinberar og beinlínis afhent lögreglu umtalsvert magn sönnunargagna, svo það eina sem eftir stendur virðist vera að upplýsa um nöfn þeirra og heimilisföng. Ég hélt (vonaði) að ég myndi aldrei eiga eftir að segja þetta eða skrifa, en ef einhverntímann hefur verið verkefni fyrir greiningardeild Ríkislögreglustjóra...

Aftur á móti má segja þessum huldukonum til varnar að eflaust hafa þær allan tímann talið sig vera að gera það rétta og jafnvel að vinna mjög göfugt verk. Þannig er það víst alltaf hjá siðblindu fólki. Það sorglegasta var samt að horfa upp á fjölmiðla og jafnvel lögregluna á höfuðborgarsvæðinu fullkomlega meðvirk í þessari bilun án þess að fram kæmu neinar teljandi athugasemdir.


mbl.is Stóra systir fylgist með þér!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælafundir á Lækjartorgi og Austurvelli í dag

Laugardaginn 15. október kl. 15 er boðað til aðgerða, Tökum torgin, hér í Reykjavík.
Ætlunin er að koma saman á Lækjartorgi og láta í ljós andstöðu við fjármálavaldið og krefjast alvöru lýðræðis, eins og gert verður um allan heim þennan dag.
Samskonar aðgerðir hafa verið boðaðar í 662 borgum í 79 löndum um allan heim.
Hér á eftir fylgir í íslenskri þýðingu ákall þeirrar alheimssamstöðu sem myndast hefur á örskömmum tíma gegn fjármálavaldinu og fyrir alvöru lýðræði.

Alþjóðleg yfirlýsing

15. október — Sameinumst í baráttunni fyrir hnattrænum breytingum

Tilkynning frá 15. októberhreyfingunni – Mótmæli gegn fjármálaveldi og alvöru lýðræðis krafist í 662 borgum í 79 löndum.
Sjá vefsíðu um viðburðinn á heimsvísu.
Hinn 15. október mun almenningur um heim allan fara út á götur og torg. Frá Ameríku til Asíu, frá Afríku til Evrópu rís fólk upp til að krefjast réttar síns og alvöru lýðræðis. Tími er kominn til að við sameinumst í friðsömum mótmælum um heim allan.
Núverandi valdhafar vinna einungis í þágu örfárra og hundsa bæði vilja meirihlutans og þann fórnarkostnað sem mannfólk og umhverfi verður að bera. Þetta er óþolandi staða sem verður að taka enda.
Við munum einum rómi gefa stjórnmálamönnunum, og fjármálaelítunni sem þeir þjóna, til kynna að það er okkar, fólksins, 99 prósentanna, að ákveða okkar eigin framtíð. Við erum ekki vörur í þeirra höndum til að höndla með, né heldur í höndum bankamannanna sem eru ekki fulltrúar okkar.
Hinn 15. október ætlum við að hittast á götum úti og hefja þær hnattrænu breytingar sem við viljum sjá. Við munum mótmæla friðsamlega, ræða saman og skipuleggja okkur þar til við náum þeim fram.

Tími er kominn til að sameinast. Tími er kominn fyrir þá að hlusta.

Almenningur um allan heim, rísum upp 15. október.

15. október - We are the 99%

Á sama tíma munu Raddir fólksins standa fyrir dagskrá á Austurvelli og meðal ræðumanna verður formaður Hagsmunasamtaka Heimilanna, Andrea J Ólafsdóttir.


mbl.is Mótmælt í 951 borg í 82 löndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfelld talnamengun af mannavöldum

Í fyrirsögn tengdrar fréttar er ranglega fullyrt að 164 milljarðar hafi verið afskrifaðir af lánum heimila. Þó það sé ekki tekið fram þá er væntanlega átt við frá hruni. En þetta er bara einfaldlega ekki rétt og notkun þessarar tölu í fyrirsögninni er í raun talnamengun af mannavöldum. Mengunin stafar frá Þjóðhagsáætlun 2012, skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um efnahagsstefnu, og er um leið gagnrýnislaus eftiröpun á villandi framsetningu Samtaka Fjármálafyrirtækja á samskonar tölum.

Í textanum sjálfum kemur hinsvegar hið sanna í ljós: Af þessum 164 milljörðum eru 131 vegna endurútreiknings gengistryggðra lána. Það er auðvitað ekki niðurfelling á neinum skuldum og með því að gera það að aðalatriði er sannleikanum snúið á hvolf. Til að gera þetta meira villandi er svo gengisleiðréttingin sundurliðuð, en heildarsumman hvergi þannig að þeirri tölu sem raunverulega skiptir máli er einfaldlega sleppt.

En stærðfræði lýgur ekki og einfaldur frádráttur leiðir í ljós að raunverulegar afskriftir nema 164-131 = 33 ma.kr. Einföld deiling sýnir jafnframt að það eru um 33/1201 = 2,7% af fasteignaveðlánum heimila og 33/1641 = 2% af VLF 2011 og ekki nema 33/4676 = 0,7% af VLF frá hruni (2009-2011). En er kannski til of mikils ætlast að fjölmiðlar kunni að... reikna?


mbl.is 164 milljarðar afskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging og fleira á undanhaldi

Landsbankinn hefur tekið upp á því merkilega nýmæli að bjóða nú fasteignalán án verðtryggingar. Fylgir hann þannig í fótspor Arion banka sem hóf nýlega að markaðssetja slík lán. Vextir eru svipaðir eða allt að 6,725% á lánum með hámarks veðhlutfall 80% og 5 ára binditíma vaxta, en auk þeirra býður Landsbankinn ögn lægri vexti bundna til 3 ára eða 6,525% fyrir 80% veðhlutfall og 6,4% fyrir 70% veðhlutfall eða lægra. Óverðtryggð lán eru svosem ekkert ný uppfinning, þau hafa hingað til verið örfá prósent af húsnæðislánamarkaðnum, en það sem er nýtt núna er markaðssetningin og hóflegir fastir vextir með allt að 5 ára binditíma.

Hér er fréttatilkynningin: Landsbankinn kynnir nýjungar í inn- og útlánum

Miðað við núverandi verðbólgustig eru þetta frekar lágir raunvextir, og því er ljóst að bankarnir eru með þessu að veðja á lækkandi verðbólgu, sem er ánægjulegt því þá fara viðskiptalegir hagsmunir þeirra saman með hagsmunum viðskiptavina. Auk þessara tveggja banka hefur Íbúðalánasjóði verið veitt heimild til óverðtryggðra viðskipta sem vilji er til að koma til framkvæmda á næstunni, og Íslandsbanka hefur verið veitt heimild til útgáfu sértryggðra skuldabréfa (húsnæðislánavafninga) til að fjármagna óverðtryggðar lánveitingar. Það er ljóst að verðtrygging er á undanhaldi, og aðeins tímaspursmál hvenær þessi meinsemd verður horfin að mestu úr neytendaviðskiptum.

Annað sem er á undanhaldi eru fjármögnunarfyrirtækin svokölluðu sem voru hvað duglegust að veita lán til bíla- og tækjakaupa. Eins og var tilkynnt í þessari viku með heilsíðuauglýsingu í dagblöðum hafa SP-Fjármögnun hf. og Avant ehf. sameinast undir merkjum Landsbankans.

SP-Fjármögnun hf. og Avant ehf. sameinast Landsbankanum

Landsbankinn hefur átt SP-Fjármögnun að meirihluta frá 2002 og að fullu frá 2009 eftir að hafa haldið því lifandi gegnum hrunið með 30 milljarða innspýtingu, en eignaðist þrotabú Avant í febrúar á þessu ári í kjölfar nauðasamninga. Þetta er því fyrst og fremst breyting á skipuriti samstæðunnar, en þó er munur á: Viðskiptavinir SP-Fjármögnunar halda réttindum sínum áfram óbreyttum gagnvart Landsbankanum, en þar sem Avant var sett í þrot þá urðu þeir sem áttu endurkröfu á fyrirtækið fyrir tapi á því sem var umfram eina milljón af kröfu þeirra. Þessi ójafna meðferð er ekki alveg það sem maður myndi ætlast til af "banka allra landsmanna".


mbl.is Mikið framboð á óverðtryggðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmál nr. 0

Á fyrstu viku 140. löggjafarþingsins hafa nú þegar verið lögð fram yfir fimmtíu þingmál. Ætlunin var að gera hér grein fyrir því helsta sem varðar efnahagsmál, og fjárhagslega afkomu heimila. Þar sem um yfirgripsmikið efni er að ræða reyndist...

Hefja viðræður við forsætisráðherra

Hagsmunasamtök Heimilanna hafa sent frá sér fréttatilkynningu : Í kjölfar fjölmennra mótmæla fyrir ári síðan sáu stjórnvöld sér þann leik helstan á borði að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við fulltrúa úr...

Hagsmunasamtök heimilanna hefja viðræður við forsætisráðherra

Í kjölfar fjölmennra mótmæla fyrir ári síðan sáu stjórnvöld sér þann leik helstan á borði að bjóða fulltrúa Hagsmunasamtaka heimilanna að borðinu til að reikna út, í félagi við fulltrúa úr stjórnkerfinu og fjármálageiranum, hvað hinar ýmsu aðgerðir myndu...

Mótmæli breiðast út um Heimsbyggina

Vorið við Miðjarðarhaf er að breytast í haustið í Bandaríkjunum. Með smá viðkomu á Íslandi í gær og á morgun. Um nokkurt skeið hafa staðið yfir setumótmæli í New York sem beinast gegn fjármálastofnunum á Wall Street og spillingu auðvaldsins. Handtökur á...

Tíminn er kominn

Tunnumótmæli á Austurvelli mánudagskvöldið 3. október klukkan hálfátta. Og svo er hér skemmtileg frétt gríska miðilsins On-News , í vélþýðingu Google: Bartzokas George, Attorney-President of the Citizens' Movement - Borrowers, told newsbomb.gr said:...

Stöndum heiðursvörð

Lögreglumenn fara nú í kröfugöngu frá lögreglustöðinni við Hverfisgötu að fjármálaráðuneytinu við Lindargötu þar sem þeir munu afhenda ráðherra áskorun vegna kjaramála sinna. Almennir borgarar sem styðja kjarabaráttu lögreglumanna ættu auðvitað að standa...

Gerendur heimilisofbeldis...

...eru ekki alltaf karlar. Útrýmum kynbundnum fordómum og staðalímyndum! Þegar komið var á staðinn reyndist um sambýlisfólk að ræða um sextugt og hafði konan stungið manninn í kviðinn með hnífi og í handlegg. Og vinsamlegast hættið um leið að sjónvarpa...

Verður saknað

Hljómsveitin R.E.M. er hætt störfum. Um þetta er aðeins eitt að segja:

Birtingarmyndir skuldavanda (ekki fyrir viðkvæma!)

Grískur maður á miðjum aldri reyndi í gær 16. september, að semja við bankann sinn um lausnir vegna skuldavanda. Hér má sjá viðbrögð mannsins eftir að bankinn hafnaði öllum samningaumleitunum. A man pours a flammable liquid on his body to set himself on...

Ummæli dagsins á Alþingi

"Nú við deilum ekki sömu túlkun á um hvað Rannsóknarskýrsla Alþingis fjallar. Ég held að það sé hin stóra lygi vinstri manna að bankahrunið sem varð hér á Íslandi hafi verið hrun einhverrar hugmyndafræði, hafi verið hrun einhvers siðferðis eða annað...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband