Engin tilviljun !

Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG telur það hreina tilviljun að á meginlandi Evrópu skuli hafa fundist dómstóll, og hann dæmt lögum samkvæmt.

Ja hérna.

Ekki er álit formanns utanríkismálanefndar á evrópsku réttarfari mjög hátt ef marka má þessi ummæli. Eða kannski dómstólum yfir höfuð? Þeir hafa jú verið að lækka skuldir heimila á meðan tríkisstjórnin hefur hækkað þær, svo kannski er hann bara bitur að fá ekkert credit. (pun intended)

Eins og færsluflokkurinn "Icesave" á þessu bloggi hefur skrásett vandlega allt frá haustinu 2008, þá er fullyrðing Árna ekki rétt því dómurinn var engin tilviljun. Heldur var hann aðeins rökrétt ályktun á grundvelli gildandi laga og tilskipana sem allir geta lesið á vefnum og er einfaldlega skrifaður beint eftir því sem þar segir.

Jafnframt er viðurkennd sú meginröksemd gegn ríkisábyrgð að tryggingasjóðurinn sé sjálfseignarstofnun. Þó að EFTA dómstólinn hafi ekki einu sinni þurft þess sérstaklega þar sem hann var þegar kominn að niðurstöðu, þá sá hann samt ástæðu til að taka afstöðu til þessa álitaefnis og tók undir það að sjóðurinn hafi verið sjálfseignarstofnun og því ekki á fjárhagslegu forræði ríkisins. Á umræddu ákvæði 2. gr. laganna um innstæðutryggingar hefur afstaða undirritaðs til málsins grundvallast frá byrjun!

Reyndar afstaða Ríkisendurskoðunar líka sem er ári eldri og gerir það að verkum að mín afstaða og rök fyrir henni voru ekki einu sinni orginal hugmyndir.

Ekkert af þessu voru tilviljanir heldur fyrst og fremst afleiðingar læsis og óskertrar ályktunarhæfni, en það eru mikilvægir eiginleikar sem fleiri ættu að þjálfa með sér.


mbl.is Tilviljun hvernig Icesave-málið þróaðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Told.You.So!

Núna hlýt eg að hafa efni á þessari yfirlýsingu, þegar efasemdir um evrópska innstæðutryggingakerfið eru loksins komnar á forsíðu Wall Street Journal, sem var síðast þegar ég vissi víðlesnasta dagblað heims.

Ef einhver efast um tilefnið vil ég einfaldlega benda viðkomandi á að lesa færsluflokkin Icesave á þessu bloggi, eða þegar hann kemur út á bókarformi fari svo að hagstæður samningur bjóðist sem samræmist ísköldu stöðumati. (pun intended)

Svo var meira að segja vitnað orðrétt hjá Zerohedge, sem eins og kunnugir vita er ein víðlesnasta óháða fjármálasíðan sem ekki er menguð af yfirborðskenndum áróðri.

Iceland's 'Icesave' Deposit Victory Slams Door On European Deposit Insurance Hopes

The implication being: Bank deposit insurance schemes in the European Economic Area are NOT backed by government liability, neither explicitly nor implicitly

(h/t BOFS blog)


mbl.is Icesave-dómur vekur spurningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland: 2 / ESA og ESB: 0

Ísland vann Icesave málið, eins og skýrt var frá fyrr í morgun. Þar með er lokið fjögurra ára þrotlausri baráttu gegn því að íslenska ríkið undirgangist að tilhæfulausu fjárhagslega ábyrgð á innstæðutryggingum vegna þrotabús Landsbankans. Það er sérstæð tilfinning að þetta skuli loksins vera búið. Nánast eins og heilum kafla í sögunni hafi verið lokað. Eftir stendur atburðarás sem líklega munu verða skrifaðar bækur um næstu áratugina. Bara færsluflokkurinn "Icesave" hér á þessu bloggi gæti fyllt eina.

Nú verður væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að aflétta leynd á þeim gögnum sem haldið var frá almenningi þegar lög um ríkisábyrgð vegna Icesave voru til meðferðar á hinu háa Alþingi. Ég bíð spenntur eftir því að fá loksins að sjá þau.

Um niðurstöðuna verður að hafa þann fyrirvara að maður hefur fengið takmarkaðan tíma og svigrúm til að kynna sér dóminn sem þekur rúmar 35 blaðsíður. Að sjálfsögðu ber þó að fagna niðurstöðunni. Það sem kemur kannski helst á óvart er hversu einföld og afdráttarlaus hún er:

THE COURT hereby:

  1. Dismisses the application.
  2. Orders the EFTA Surveillance Authority to pay its own costs and the costs incurred by Iceland.
  3. Orders the European Commission to bear its own costs.

Dómkröfum er einfaldlega hafnað, og það sem meira er: ESA er dæmt til að greiða málskostnað Íslands! Og ég sem hafði búið mig undir loðna niðurstöðu og túlkunarstríð... Jæja, flestir verða eflaust fegnir að losna við það.

Upp úr stendur að fallist er á flest þeirra mikilvægustu sjónarmiða sem lögð voru til grundvallar málsvörn Íslands og ástæðum þess að hafna samningum um ríkisábyrgð. Má þar nefna nokkur atriði sem verða reifuð nánar hér.

Dómurinn túlkar tilskipun um innstæðutryggingar á sama veg og hefur af staðfestu verið haldið fram hér þessu bloggi allt frá upphafi málsins með fullu samræmi í þeim málflutningi, en undir mikilli orrahríð frá borgunarsinnuðum nafnleysingjum í athugasemdakerfinu. Í stuttu máli segir þar að tilskipunin leggi eingöngu þá skyldu á ríkin að koma á fót innstæðutryggingakerfi og regluverki um það, en feli hinsvegar alls ekki í sér ábyrgð ríkja á greiðslugetu tryggingasjóða. Af þessu leiðir að ekki þarf að skera úr um hvort Ísland hafi brugðist meintri skyldu, sem aldrei var fyrir hendi.

Athyglisvert er að í dómnum er sérstaklega vikið að þeirri málsástæðu sóknaraðila að tryggingasjóður innstæðueigenda sé beint eða óbeint ríkisrekinn og þar með á ábyrgð ríkisins. Þó að áður hafi komið fram að engin greiðsluskylda sé fyrir hendi telur dómurinn ástæðu til að taka sérstaklega fram að sóknaraðilum hafi ekki tekist að rökstyðja þessa kenningu með fullnægjandi hætti. Þess má geta að í 2. gr. laga nr. 98/1999 stendur skýrum stöfum að sjóðurinn skuli vera sjálfseignarstofnun, en það er einkum á því sem áðurnefnd afstaða byggir sem haldið hefur verið fram hér á þessu bloggi frá upphafi málsins.

Ef einhverjum finnst ég vera að segja: "Told you so" þá er líklega nokkuð til í því. En það er heldur ekki í fyrsta skipti sem þessar síður hér hafa veitt tilefni til þess. Lárus Blöndal lögmaður í málsvarnarteymi Íslands notaði reyndar nákvæmlega þetta orðatiltæki í beinni útsendingu aukafréttatíma sjónvarps í hádeginu.

Varðandi seinni hluta málsins, er lýtur að meintri mismunun, er þar einnig fallist á helstu rök sem hér hafa verið sett fram. Mismunun á ekki við nema í sambærilegum tilvikum, en með hliðsjón af því er ekki með nokkru móti hægt að jafna saman innlendum innstæðum í krónum annars vegar, og gjaldeyrisinnstæðum í erlendum útibúum hinsvegar. Jafnframt er tómt mál að tala um að íslensk stjórnvöld hafi getað mismunað varðandi innstæðutryggingar, einmitt vegna neyðarlaganna sem gerðu kleift að færa innstæður í nýja banka svo þær voru alltaf aðgengilegar og því stofnaðist engin krafa á tryggingasjóðinn vegna þess. Þær aðgerðir falla einfaldlega utan gildissviðs regluverks um innstæðutryggingar og koma því ekki til álita.

Dómurinn gengur jafnvel lengra en margir andstæðingar ríkisábyrgðar hafa viljað fara í túlkun á því hverjar skyldur íslenska ríkisins hafi raunverulega verið gagnvart innstæðueigendum í útibúum Landsbankans erlendis. Ekki fæst betur séð en að dómurinn telji FME hafa uppfyllt skyldur íslenskra stjórnvalda með því að birta tilkynningu um greiðsluskyldu tryggingasjóðs vegna innstæðna hjá Landsbanka Íslands hf., nánar tiltekið þann 27. október 2008 eða 21 degi eftir að heimasíðu Icesave var lokað en það er einmitt sá frestur sem tilskipun 94/19 um innstæðutryggingar kveður á um. Á þeim tímapunkti höfðu innlendar innstæður verið færðar í annan banka (NBI hf.) og því náði greiðsluskyldan aldrei til þeirra.

Tímalínan er svona: 6. október lokast Icesave vefsíðan, 7. október yfirtekur FME Landsbankann, 9. október hefur nýr banki verið stofnaður sem yfirtekur innlend viðskipti, 21. október stofnast formleg greiðsluskylda tryggingasjóðs. Þannig má segja að þessar aðgerðir á grundvelli neyðarlaganna svokölluðu og kennitöluflakk með bankana hafi beinlínis komið í veg fyrir að um mismunun væri að ræða, enda fengu allir sem áttu innstæður eftir það jafna meðferð óháð þjóðerni. Þannig var ekki um að ræða mismunun þó svo að vissulega hafi innstæður í sitthvorum bankanum fengið ólíka meðferð en þá verður að líta til þess að einungis annar þeirra fór á hausinn.

Einn af þeim talpunktum sem oft hafa komið upp í umræðu um þetta mál er frasinn "ískalt stöðumat", en samkvæmt því liggur nú fyrir að með því að koma í tvígang í veg fyrir þá fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að undirgangast ranglátar skuldbindingar að ósekju, sem auk þess var ekki nokkur leið að standa við og hefðu því skapað landinu beina greiðslufallshættu, hafa umtalsverðir fjármunir sparast. Nýlega hefur kostnaður sá sem til þessa dags hefði fallið á ríkið af seinasta og "hagstæðasta" samningnum verið metinn á 80 milljarða í erlendum gjaldeyri og væru samt eftirstöðvar útistandandi, en efri mörk kostnaðarmats fyrri samninganna voru yfir 300 milljörðum.

Ekkert að þakka, en næst þurfum við að knýja á um að endursamið verði um >300 milljarða skuldabréfið milli nýja og gamla Landsbankans sem er sagt vera í erlendum gjaldeyri þó nákvæm samsetning þeirra gjaldmiðla sé eitthvað á reiki. Undirliggjandi þessari meintu og upplognu skuld bankans "okkar" eru meira og minna lán með ólöglega gengistryggingu eða ólöglega veðsetningu í fiskveiðikvóta sem er stór hluti þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem standa í vegi fyrir breytingum á veiðistjórnunarkerfinu. Því hefur enn ekki verið svarað hvers vegna Landsbankinn eða nokkur annar hér á landi ætti yfirhöfuð að borga eitthvað fyrir þessar verðlausu eignir, hvað þá að taka fyrir þeim stærsta einstaka lán sem tekið hefur verið hér landi svo vitað sé og það meira að segja í beinhörðum erlendum gjaldeyri? Eftir dóminn í Icesave málinu í dag liggur fyrir að hægt er að gefa allt að helmingsafslátt eða meira af þessum eignum sem nýji bankinn er með í láni hjá þeim gamla, án þess að það breyti neinu um endurheimtur forgangskrafna.

Stærsta spurningin sem þessi dómur skilur eftir ósvaraða er svo hver áhrifin kunni að verða fyrir önnur ríki innan EES og bankakerfi þeirra. Þar sem fyrir liggur skýr dómur um að engin ríkisábyrgð sé á innstæðutryggingum kemur þá til skoðunar hvernig fjármögnun trygginganna er háttað, en í flestum ríkjunum er um að ræða svipað fyrirkomulag og hér á landi og er greiðslugeta slíkra sjóða almennt á bilinu 1-2% af tryggðum innstæðum. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig evrópskir ráðamenn ætla að fara að því að telja innstæðueigendum trú um að þetta dugi þegar á reynir, sem það gerir augljóslega ekki eins og nærtækasta dæmið sannar þ.e. málið sem hér um ræðir.

Það gerist ekki mjög oft að ég sé sammála hæstvirtum utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni, en þar sem hann sendi þeim þakkir sem stóðu að einhverju leyti að því að "koma málinu í þennan dómstólafarveg" eins og hann orðaði það nokkurnveginn í viðtali um fyrstu viðbrögð sín við niðurstöðunni, þá ætla ég að kvitta fyrir með því að ljúka þessu á tilvitnun úr meðfylgjandi frétt:

Spurður um áhrif sem dómurinn kunni að hafa á evrópska banka segir Össur að þau geti verið einhver. Það kunni að hafa áhrif þegar búið sé að fella dóm sem segi beinlínis að ríki þurfi ekki að sjá til þess, eða reiða fram fé, til að innistæðutryggingasjóður þurfi að standa við skuldbindingar sínar. Þau gögn sem lögð voru fram til stuðnings málarekstrinum hafi bent til að ekkert landi hafi getað staðið undir því.

* Þau hefðu þá í raun þurft að ábyrgjast að meðaltali 83% af VLF samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar HÍ.


mbl.is „Við höldum veislu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr kafli skrifaður

Skáldsagan um Ísland - bofs.blog.is

Efnisyfirlit:

Iðnaðarsalt í matvælaframleiðslu

Ólögleg lán og endurútreikningar

Landbúnaðaráburður með kadmíum

Iðnaðarsílikon í brjóstaígræðslum

Landeyjahöfn og Grímseyjarferjan

Skólplosun á vatnsverndarsvæðum

Fjármálaeftirlitið og seðlabankinn

Símaskrárforsíðan og guli límmiðinn

Mannauðs- og fjárhagskerfið Orri

Nýr kafli : Gallað repjuolíumalbik


mbl.is Gölluð repjuolía líklega orsökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn er ekki Hæstiréttur

Nokkur misskilningur kemur fram í fréttaflutningi Morgunblaðsins í dag af málefnum varðandi gjaldeyrishöft og nauðasamninga föllnu bankanna. Þar er stillt upp til samanburðar annars vegar fyrirhuguðum nauðasamningum stóru viðskiptabankanna þriggja sem gætu hlaupið á þúsundum milljarða að stóru leyti í beinhörðum erlendum gjaldmiðlum, og hinsvegar Sparisjóðabankans en kröfuhafar hans eru að mestu leyti innlendir og áætlað er að útgreiðslur í gjaldeyri muni aðeins jafngilda 14 milljörðum.

Fréttaritarar klykkja svo út með eftirfarandi fullyrðingu um hið síðarnefnda tilvik Sparisjóðabankans: "Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sætir það tíðindum, enda hefur Seðlabankinn lagst gegn þeirri leið vegna þrotabúa Glitnis og Kaupþings. Í Morgunblaðinu í dag segir, að málið gæti því haft fordæmisgildi."

Slík fullyrðing hlýtur að sæta nokkrum tíðindum, því allir sem til þekkja hafa lengstum staðið í þeirri meiningu að fordæmisgildi í hérlendu réttarfari hefðu fyrst og fremst dómar Hæstaréttar Íslands. Þó svo sannarlega megi gera þá kröfu til eftirlitsstofnana að þær gæti samræmis þá skapar slíkt samt ekki fordæmisgildi að lögum.

Til að meta fordæmisgildi þarf að auki að líta til þess hvort um sambærileg atvik er að ræða. Þá hlýtur að þurfa að setja spurningamerki við það hvort hægt sé að líkja saman uppgjörum sem eru annars vegar að mestu leyti utanlands og hinsvegar innanlands, eða hvort hægt sé að jafna saman hagsmunum af svo gjörólíkri stærðargráðu. Ef það skiptir ekki máli hver stærðargráða fjárhagslegra hagsmuna er fyrir fordæmisgildi, þá þurfa yfirmenn í Seðlabankanum líklega að fara vel yfir það atriði með héraðsdómaranum í Reykjavík sem er á öðru máli, svo dæmi sé tekið.

Vilji menn setja fram þá kenningu að einstakar ákvarðanir eftirlitsaðila fjármálakerfisins í sértækum og fordæmalausum kringumstæðum geti verið fordæmisgefandi, þá er ekki heldur víst að mönnum sé ljóst hvað þeir eru nákvæmlega að fara fram á. Það var til dæmis undir eftirliti og með beinu samþykki sömu eftirlitsaðila sem útlán bankakerfisins til heimila landsmanna voru færð yfir í nýjar bankastofnanir á hálfvirði, en heimilin hlytu þá að eiga rétt á sama afslætti fyrst fordæmi hefur skapast.

Hvað þá með fyrirmælin sem gefin voru út um að reikna mætti nýja og hærri vexti á samninga sem voru gerðir með löglegum vöxtum í upphafi? Þá hlytu innstæðueigendur nú að endurreikna nýja og hærri vexti afturvirkt á innstæður sínar og krefja bankana um mismuninn, ef um slíkt gilda fordæmi. Seðlabanki Íslands hefur jafnframt verið iðinn við að láta hirða eignir af fólki þrátt fyrir að það hafi aldrei stofnað til viðskipta við þann banka og eftirlitsaðilar hafa látið stórfellda umboðslausa eignaupptöku óáreitta, jafnvel gefið út fyrirmæli í því skyni. Ef um fordæmisgildi er að ræða, þá hljóta þolendur þessara mannréttindabrota nú að mega labba upp í seðlabanka og ná í sér í hvaðeina sem þeir telja sig eiga rétt á, utan dóms og laga.

Því það er jú búið að setja fordæmi, er það ekki?

Nei, rökvillan felst auðvitað í því að seðlabanki hefur ekki úrskurðarvald í ágreiningsefnum, heldur eru það dómstólar en jafnvel úrskurðir þeirra hafa þó mjög takmarkað fordæmisgildi, nema helst hjá hæstarétti og þó fer sá dómstól sjálfur ekki heldur alltaf eftir sínum eigin fordæmum.


mbl.is SÍ skoðar að leyfa greiðslu gjaldeyris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt jólalag, gegn verðtryggingu

Mér barst ábending um þetta tónlistarmyndband við nýtt jólalag sem hljómsveitin Grasasnar frá Borgarbyggð og sönghópurinn Stúkurnar frá Akranesi fytja saman og skaut upp kollinum á YouTube . Lagið heitir "(Við viljum ekki hafa) Verðtryggð jól". Gleðileg...

Vísitölutenging höfuðstóls er ólögleg

Að vísitölutengja höfuðstól lána brýtur í bága við löggjöf Evrópusambandsins, segir Elvira Mendez Pinedo, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í Evrópurétti, sem hefur rannsakað verðtrygginguna undanfarið. Hún hyggst senda eftirlitsnefnd EFTA og...

Ríkisábyrgðarleiðin út úr kreppunni

Það er með öllu óskiljanlegt að lánshæfismatsfyrirtækið Moody's skuli boða ruslflokkun ef Icesave málið tapast. Reyndar er venja hjá fyrirtækinu að hafa rangt fyrir sér, eins og til dæmis þegar það gaf út lánshæfismat íslensku bankanna kortéri fyrir...

Drómi enn til rannsóknar Samkeppniseftirlits

Meðfylgjandi frétt fjallar um athugun sem Fjármálaeftirlitið hefur gert á starfsháttum Dróma, og er niðurstaða eftirlitsins sú að í öllum meginatriðum séu starfshættir Dróma faglegir og í samræmi við kröfur um góða viðskiptahætti, eins segir í fréttinni....

Engin áhrif á bílasamninga einstaklinga

Dómur féll í héraðsdómi Reykjavíkur í dag um rekstrarleigusamning sem fyrirtæki gerði við Lýsingu vegna sendibifreiðar. Eins og fram kemur í meðfylgjandi frétt var tekist á um það í málinu hvort líta beri á umræddan samning sem leigusamning eða í raun...

Ályktun gegn verðtryggingu afhent þingforseta

Fulltrúar af 1000 manna borgarafundi Hagsmunasamtaka heimilanna afhentu í dag Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta alþingis, ályktun fundarins sem er svohljóðandi: Almennur fundur í Háskólabíó 13. nóvember 2012 krefst þess að Alþingi tryggi tafarlaust...

Heimilin gætu hagnast um 600 milljarða

600 milljarðar fyrir heimilin væru ríflega ígildi þess að fá skattlaust ár. Með eðlilegu ríkisábyrgðargjaldi af innstæðutryggingu fengjust tvö. Jafnvel þrjú, ef við skyldum verða svo heppin að tapa Icesave málinu. Já, að tapa Icesave málinu segi ég og...

Verðtryggingin dregin fyrir dóm

Ríkisstjórnin ætlar að auðvelda bönkunum að ljúga að okkur. Samkvæmt nýju frumvarpi um neytendalán þurfa bankarnir ekki að reikna verðtryggingu inn í útreikning á kostnaði við lántöku. Samt er verðtryggingin stærsti kostnaðarliðurinn við lán...

Neytendalánafrumvarpið er hneyksli

Ríkisstjórnin ætlar að auðvelda bönkunum að ljúga að okkur. Samkvæmt nýju frumvarpi um neytendalán þurfa bankarnir ekki að reikna verðtryggingu inn í útreikning á kostnaði við lántöku. Samt er verðtryggingin stærsti kostnaðarliðurinn við lán...

Verðtryggðar krónur?

Stjórn Heimdallar stendur í dag á Lækjartorgi fyrir sölu á íslenskum krónum í skiptum fyrir aðra gjaldmiðla, í mótmælaskyni við gjaldeyrishöft. Ætli verðtryggðar krónur verði á boðstólum hjá þeim? Vil nota tækifærið og minna á málskostnaðarsjóð...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband