Engin áhrif á bílasamninga einstaklinga

Dómur féll í héraðsdómi Reykjavíkur í dag um rekstrarleigusamning sem fyrirtæki gerði við Lýsingu vegna sendibifreiðar. Eins og fram kemur í meðfylgjandi frétt var tekist á um það í málinu hvort líta beri á umræddan samning sem leigusamning eða í raun veru sem lán. Ástæða þess er einföld, því þrátt fyrir að óheimilt sé að gengistryggja lán þá er jafnan heimilt að gera það við leigusamninga.

Leiða má að því líkur að margir viðskiptavinir Lýsingar velti því nú fyrir sér hvaða áhrif þessi dómur kunni að hafa fyrir þeirra hagsmuni. Í þeim efnum er rétt að gera skýran greinarmun á rekstrarleigusamningum fyrirtækja annars vegar, og bílasamningum einstaklinga hinsvegar. Dómurinn komst í þessu máli að þeirri niðurstöðu að um rekstrarleigusamning væri að ræða, eins og hér segir:

Samkvæmt áðursögðu er hvergi að finna höfuðstól í samningnum heldur eingöngu kveðið á um mánaðarlegar leigugreiðslur sem stefnandi þarf að standa skil á. Enn fremur verður af gögnum málsins ráðið að stefnandi hafi greitt stefnda virðisaukaskatt sem bættist ofan á einstakar leigugreiðslur. Þá þykja ákvæði samningsins er lúta að þjónustu til leigutaka og höftum á notkun bifreiðarinnar ekki eiga heima í lánssamningi. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að telja að samningurinn sé samkvæmt efni sínu leigusamningur.

Jafnframt var getið um að skila bæri bifreiðinni að leigutíma loknum:

Í 3. gr. samningsins kemur fram að leigutími sé frá 19. febrúar 2008 til 5. mars 2011 og að fjöldi greiðslna sé 36. Þá segir auk þess að leigumun skuli í lok leigutíma skilað til seljanda og að samningurinn sé óuppsegjanlegur af hálfu leigutaka.

Í niðurlagi dómsorðs segir jafnframt:

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að samningur aðila sé, eins og heiti hans ber með sér, samningur um rekstrarleigu á bifreið, en ekki lánssamningur. Samkvæmt því komu ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki í veg fyrir að aðilar gætu samið um að fjárhæð mánaðarlegra leigugreiðslna væri bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í þessu máli.

Varðandi þetta síðastnefnda er mikilvægt að hafa í huga að í júní 2010 var dæmt um svokallaðan bílasamning sem Lýsing hafði gert við einstakling. Slíkir samningar eru ólíkir rekstrarleigusamningum að því leyti að í þeim koma jafnan fram upplýsingar um kaupverð bifreiðar og höfuðstól samnings, ásamt vöxtum, sem að mati hæstaréttar töldust frekar einkenni láns en leigusamnings. Jafnframt innihalda slíkir samningar ákvæði um að samningshafi eignist bifreiðina að kaupleigutíma loknum, oftast gegn afar lágu málamyndagjaldi. Slíka samninga var óheimilt að gengistryggja.

Ljóst er að niðurstaða héraðsdóms í dag varðandi rekstrarleigusamning hafi líklega verið rétt og í samræmi við veruleikann. Aftur á móti er útilokað að sú niðurstaða muni hafa nein áhrif á bílasamninga einstaklinga, sem þegar liggur fyrir dómafordæmi um að séu í raun lánssamningar með ólögmæta gengistryggingu. Loks er rétt að benda á að í málinu í dag var leigutakinn fyrirtæki, og því komu neytendaverndarsjónarmið ekki til álita. Þau munu hinsvegar án efa gera það í prófmálum einstaklinga vegna bílasamninga sem á eftir að leiða til lykta fyrir dómstólum.


mbl.is Rekstrarleiga en ekki lánssamningur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vegna fyrirspurnar sem mér barst er hér stutt samantekt á helstu atriðum sem dómurinn taldi að gerðu þennan samning að leigusamningi en ekki láni, sem var meginforsenda niðurstöðunnar:

  1. Hvergi var að finna höfuðstól eða kaupverð í samningi
  2. Þrátt fyrir ákvæði um vexti taldist það eitt ekki hafa úrslitaþýðingu (!)
  3. Ýmis önnur ákvæði töldust ekki jafnan eiga heima í lánssamningi
  4. Eingöngu var kveðið á um mánaðarlegar leigugreiðslur
  5. Leigutaki greiddi virðisaukaskatt sem bættist ofan á leigugreiðslur
  6. Kveðið var orðrétt á um upphaf og endi leigutíma í samningi
  7. Samkvæmt samningi bar að skila hinu leigða við lok samnings

Við þetta má bæta að í umræddu máli komu neytendasjónarmið ekki til álita þar sem leigutaki var fyrirtæki. Aftur á móti er rétt að benda á að ef til álita kæmi mál einstaklings sem er neytandi með samskonar samning og þennan, þá myndi sá samningur ekki heyra undir nema hluta þeirrar löggjafar sem lýtur að neytendavernd. Til dæmis heyra leigusamningar almennt ekki undir lög um neytendalán, en þeir heyra þó almennt undir samningalög og þar er einnig að finna ákvæði til varnar neytendum, einkum í 36. gr.

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1936007.html#G36

Guðmundur Ásgeirsson, 22.11.2012 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband