Ísland: 2 / ESA og ESB: 0

Ísland vann Icesave málið, eins og skýrt var frá fyrr í morgun. Þar með er lokið fjögurra ára þrotlausri baráttu gegn því að íslenska ríkið undirgangist að tilhæfulausu fjárhagslega ábyrgð á innstæðutryggingum vegna þrotabús Landsbankans. Það er sérstæð tilfinning að þetta skuli loksins vera búið. Nánast eins og heilum kafla í sögunni hafi verið lokað. Eftir stendur atburðarás sem líklega munu verða skrifaðar bækur um næstu áratugina. Bara færsluflokkurinn "Icesave" hér á þessu bloggi gæti fyllt eina.

Nú verður væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að aflétta leynd á þeim gögnum sem haldið var frá almenningi þegar lög um ríkisábyrgð vegna Icesave voru til meðferðar á hinu háa Alþingi. Ég bíð spenntur eftir því að fá loksins að sjá þau.

Um niðurstöðuna verður að hafa þann fyrirvara að maður hefur fengið takmarkaðan tíma og svigrúm til að kynna sér dóminn sem þekur rúmar 35 blaðsíður. Að sjálfsögðu ber þó að fagna niðurstöðunni. Það sem kemur kannski helst á óvart er hversu einföld og afdráttarlaus hún er:

THE COURT hereby:

  1. Dismisses the application.
  2. Orders the EFTA Surveillance Authority to pay its own costs and the costs incurred by Iceland.
  3. Orders the European Commission to bear its own costs.

Dómkröfum er einfaldlega hafnað, og það sem meira er: ESA er dæmt til að greiða málskostnað Íslands! Og ég sem hafði búið mig undir loðna niðurstöðu og túlkunarstríð... Jæja, flestir verða eflaust fegnir að losna við það.

Upp úr stendur að fallist er á flest þeirra mikilvægustu sjónarmiða sem lögð voru til grundvallar málsvörn Íslands og ástæðum þess að hafna samningum um ríkisábyrgð. Má þar nefna nokkur atriði sem verða reifuð nánar hér.

Dómurinn túlkar tilskipun um innstæðutryggingar á sama veg og hefur af staðfestu verið haldið fram hér þessu bloggi allt frá upphafi málsins með fullu samræmi í þeim málflutningi, en undir mikilli orrahríð frá borgunarsinnuðum nafnleysingjum í athugasemdakerfinu. Í stuttu máli segir þar að tilskipunin leggi eingöngu þá skyldu á ríkin að koma á fót innstæðutryggingakerfi og regluverki um það, en feli hinsvegar alls ekki í sér ábyrgð ríkja á greiðslugetu tryggingasjóða. Af þessu leiðir að ekki þarf að skera úr um hvort Ísland hafi brugðist meintri skyldu, sem aldrei var fyrir hendi.

Athyglisvert er að í dómnum er sérstaklega vikið að þeirri málsástæðu sóknaraðila að tryggingasjóður innstæðueigenda sé beint eða óbeint ríkisrekinn og þar með á ábyrgð ríkisins. Þó að áður hafi komið fram að engin greiðsluskylda sé fyrir hendi telur dómurinn ástæðu til að taka sérstaklega fram að sóknaraðilum hafi ekki tekist að rökstyðja þessa kenningu með fullnægjandi hætti. Þess má geta að í 2. gr. laga nr. 98/1999 stendur skýrum stöfum að sjóðurinn skuli vera sjálfseignarstofnun, en það er einkum á því sem áðurnefnd afstaða byggir sem haldið hefur verið fram hér á þessu bloggi frá upphafi málsins.

Ef einhverjum finnst ég vera að segja: "Told you so" þá er líklega nokkuð til í því. En það er heldur ekki í fyrsta skipti sem þessar síður hér hafa veitt tilefni til þess. Lárus Blöndal lögmaður í málsvarnarteymi Íslands notaði reyndar nákvæmlega þetta orðatiltæki í beinni útsendingu aukafréttatíma sjónvarps í hádeginu.

Varðandi seinni hluta málsins, er lýtur að meintri mismunun, er þar einnig fallist á helstu rök sem hér hafa verið sett fram. Mismunun á ekki við nema í sambærilegum tilvikum, en með hliðsjón af því er ekki með nokkru móti hægt að jafna saman innlendum innstæðum í krónum annars vegar, og gjaldeyrisinnstæðum í erlendum útibúum hinsvegar. Jafnframt er tómt mál að tala um að íslensk stjórnvöld hafi getað mismunað varðandi innstæðutryggingar, einmitt vegna neyðarlaganna sem gerðu kleift að færa innstæður í nýja banka svo þær voru alltaf aðgengilegar og því stofnaðist engin krafa á tryggingasjóðinn vegna þess. Þær aðgerðir falla einfaldlega utan gildissviðs regluverks um innstæðutryggingar og koma því ekki til álita.

Dómurinn gengur jafnvel lengra en margir andstæðingar ríkisábyrgðar hafa viljað fara í túlkun á því hverjar skyldur íslenska ríkisins hafi raunverulega verið gagnvart innstæðueigendum í útibúum Landsbankans erlendis. Ekki fæst betur séð en að dómurinn telji FME hafa uppfyllt skyldur íslenskra stjórnvalda með því að birta tilkynningu um greiðsluskyldu tryggingasjóðs vegna innstæðna hjá Landsbanka Íslands hf., nánar tiltekið þann 27. október 2008 eða 21 degi eftir að heimasíðu Icesave var lokað en það er einmitt sá frestur sem tilskipun 94/19 um innstæðutryggingar kveður á um. Á þeim tímapunkti höfðu innlendar innstæður verið færðar í annan banka (NBI hf.) og því náði greiðsluskyldan aldrei til þeirra.

Tímalínan er svona: 6. október lokast Icesave vefsíðan, 7. október yfirtekur FME Landsbankann, 9. október hefur nýr banki verið stofnaður sem yfirtekur innlend viðskipti, 21. október stofnast formleg greiðsluskylda tryggingasjóðs. Þannig má segja að þessar aðgerðir á grundvelli neyðarlaganna svokölluðu og kennitöluflakk með bankana hafi beinlínis komið í veg fyrir að um mismunun væri að ræða, enda fengu allir sem áttu innstæður eftir það jafna meðferð óháð þjóðerni. Þannig var ekki um að ræða mismunun þó svo að vissulega hafi innstæður í sitthvorum bankanum fengið ólíka meðferð en þá verður að líta til þess að einungis annar þeirra fór á hausinn.

Einn af þeim talpunktum sem oft hafa komið upp í umræðu um þetta mál er frasinn "ískalt stöðumat", en samkvæmt því liggur nú fyrir að með því að koma í tvígang í veg fyrir þá fyrirætlan íslenskra stjórnvalda að undirgangast ranglátar skuldbindingar að ósekju, sem auk þess var ekki nokkur leið að standa við og hefðu því skapað landinu beina greiðslufallshættu, hafa umtalsverðir fjármunir sparast. Nýlega hefur kostnaður sá sem til þessa dags hefði fallið á ríkið af seinasta og "hagstæðasta" samningnum verið metinn á 80 milljarða í erlendum gjaldeyri og væru samt eftirstöðvar útistandandi, en efri mörk kostnaðarmats fyrri samninganna voru yfir 300 milljörðum.

Ekkert að þakka, en næst þurfum við að knýja á um að endursamið verði um >300 milljarða skuldabréfið milli nýja og gamla Landsbankans sem er sagt vera í erlendum gjaldeyri þó nákvæm samsetning þeirra gjaldmiðla sé eitthvað á reiki. Undirliggjandi þessari meintu og upplognu skuld bankans "okkar" eru meira og minna lán með ólöglega gengistryggingu eða ólöglega veðsetningu í fiskveiðikvóta sem er stór hluti þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem standa í vegi fyrir breytingum á veiðistjórnunarkerfinu. Því hefur enn ekki verið svarað hvers vegna Landsbankinn eða nokkur annar hér á landi ætti yfirhöfuð að borga eitthvað fyrir þessar verðlausu eignir, hvað þá að taka fyrir þeim stærsta einstaka lán sem tekið hefur verið hér landi svo vitað sé og það meira að segja í beinhörðum erlendum gjaldeyri? Eftir dóminn í Icesave málinu í dag liggur fyrir að hægt er að gefa allt að helmingsafslátt eða meira af þessum eignum sem nýji bankinn er með í láni hjá þeim gamla, án þess að það breyti neinu um endurheimtur forgangskrafna.

Stærsta spurningin sem þessi dómur skilur eftir ósvaraða er svo hver áhrifin kunni að verða fyrir önnur ríki innan EES og bankakerfi þeirra. Þar sem fyrir liggur skýr dómur um að engin ríkisábyrgð sé á innstæðutryggingum kemur þá til skoðunar hvernig fjármögnun trygginganna er háttað, en í flestum ríkjunum er um að ræða svipað fyrirkomulag og hér á landi og er greiðslugeta slíkra sjóða almennt á bilinu 1-2% af tryggðum innstæðum. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig evrópskir ráðamenn ætla að fara að því að telja innstæðueigendum trú um að þetta dugi þegar á reynir, sem það gerir augljóslega ekki eins og nærtækasta dæmið sannar þ.e. málið sem hér um ræðir.

Það gerist ekki mjög oft að ég sé sammála hæstvirtum utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni, en þar sem hann sendi þeim þakkir sem stóðu að einhverju leyti að því að "koma málinu í þennan dómstólafarveg" eins og hann orðaði það nokkurnveginn í viðtali um fyrstu viðbrögð sín við niðurstöðunni, þá ætla ég að kvitta fyrir með því að ljúka þessu á tilvitnun úr meðfylgjandi frétt:

Spurður um áhrif sem dómurinn kunni að hafa á evrópska banka segir Össur að þau geti verið einhver. Það kunni að hafa áhrif þegar búið sé að fella dóm sem segi beinlínis að ríki þurfi ekki að sjá til þess, eða reiða fram fé, til að innistæðutryggingasjóður þurfi að standa við skuldbindingar sínar. Þau gögn sem lögð voru fram til stuðnings málarekstrinum hafi bent til að ekkert landi hafi getað staðið undir því.

* Þau hefðu þá í raun þurft að ábyrgjast að meðaltali 83% af VLF samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar HÍ.


mbl.is „Við höldum veislu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi vildu að við borguðum Icesave | Svipan – fréttamiðill

Jóhanna og fleiri vilja ekki vera að leita að sökudólgum.

Það þarf ekkert að leita að þeim, þau eru ekki týnd.

Þau sem sögðu já við Icesave III voru:

Jóhanna Sigurðardóttir,
Össur Skarphéðinsson,
Steingrímur J. Sigfússon,
Ólína Þorvarðardóttir,
Helgi Hjörvar,
Magnús Orri Schram,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Ögmundur Jónasson,
Mörður Árnason,
Árni Páll Árnason,
Árni Þór Sigurðsson,
Björn Valur Gíslason,
Björgvin G. Sigurðsson,
Jón Bjarnason,
Katrín Júlíusdóttir,
Kristján L. Möller,
Oddný G. Harðardóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Þuríður Backman,
Þráinn Bertelsson,
Valgerður Bjarnadóttir,
Skúli Helgason,
Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Bjarni Benediktsson,
Ólöf Nordal,
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Jón Bjarnason,
Tryggvi Þór Herbertsson,
Þráinn Bertelsson,
Atli Gíslason,
Álfheiður Ingadóttir,
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir,
Jón Gunnarsson,
Katrín Jakobsdóttir,
Kristján Þór Júlíusson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Ragnheiður Elín Árnadóttir,
Róbert Marshall,
Árni Johnsen,
Ásbjörn Óttarsson,
Einar K. Guðfinnsson,
Ólafur Þ. Gunnarsson,
Guðbjartur Hannesson.

Hjá sátu:

Siv Friðleifsdóttir,
Guðlaugur Þór Þórðarson,
Guðmundur Steingrímsson.

Nei sögðu:

Þór Saari,
Margrét Tryggvadóttir,
Birgitta Jónsdóttir,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Birkir Jón Jónsson,
Gunnar Bragi Sveinsson,
Eygló Harðardóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson,
Vigdís Hauksdóttir,
Lilja Mósesdóttir,
Pétur H. Blöndal,
Unnur Brá Konráðsdóttir,
Ásmundur Einar Daðason,
Birgir Ármannsson,
Sigurður Kári Kristjánsson,
Höskuldur Þórhallsson.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.1.2013 kl. 16:51

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott að rifja upp hverjir sögðu hvað í þessu máli, helst ættum við að læra það utanað.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.1.2013 kl. 20:23

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Takk Guðmundur fyrir þitt ómetanlega framlag í þessari baráttu.

Pistlarnir þínir og barátta þín eru hluti af þeim stólpum sem þessi sigur í dag hvílir á.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 28.1.2013 kl. 22:01

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir að líta inn og jákvæðar athugasemdir.

Yfirlit yfir mál þar sem ég hef verið virkur þáttakandi og haft rétt fyrir mér, sem hafa fært almenningi ávinning:

1. Dómar um gengistryggingu: 150-350 milljarðar.

2. Icesave: 80-335 milljarðar (efri mörk skv. AGS)

Samanlagt: 230-685 milljarðar sem almenningin hafa sparast.

Þökk sé framtaki fjölda fólks sem mér er mikill heiður að hafa starfað með að þessum málefnum sem hafa sparað Íslendingum næstum heila þjóðarframleiðslu. Ég leyfi mér að fullyrða að engin ríkisstjórn á lýðveldistímanum hafi náð viðlíka árangri í efnahagsmálum.

Þetta er númer eitt: sigur venjulega fólksins. Ég er til dæmis ekki sérstakur að því leyti að hafa neinar prófrgráður eða skrásett afrek í stjórnmálum eða viðskiptum á ferilsskránni. Fyrir utan Icesave, sem ég átti hlut í að fella ásamt fullt af öðru góðu fólki. Ég nefni engan einn frekar en annan og mitt hlutverk var ekki það eina sem skipti máli. Allir sem tóku þátt skiptu máli.

Næst er það verðtrygging neytendalána sem þarf að kollvarpa.

Ég held að þetta hljóti að fylla okkur sjálfstrausti í því líka.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.1.2013 kl. 23:39

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Iceland's 'Icesave' Deposit Victory Slams Door On European Deposit Insurance Hopes | Zero Hedge

(h/t BOFS blog)

Bein tilvitnun í tölvupóst frá því fyrr í dag:

The implication being: Bank deposit insurance schemes in the European Economic Area are NOT backed by government liability, neither explicitly nor implicitly

Þeir sem þekkja Zerohedge vita hvaða þýðingu tilvitnun þar hefur. Fyrir hina hefur það þó líklega litla þýðingu nema þeir byrji að lesa sér til þar sem alvöru þekkingu er að finna. Svo er ágætt að kíkja á Max Keiser.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.1.2013 kl. 01:06

6 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Þú átt mikinn heiður skilinn Guðmundur. Þrotlaus skrif þín í áraraðir um stöðu málsins hverju sinni og fróðlegar skýringar þínar á lögfræðilegum bakgrunni hafa viðhaldið trú margra á því að málstaður íslensku þjóðarinnar væri réttur en málstaður íslensku ríkisstjórnarinnar væri rangur. Furðulegt dæmi um ríkisstjórn sem árum saman vinnur af alefli gegn hagsmunum þjóðar sinnar.

Magnús Óskar Ingvarsson, 29.1.2013 kl. 06:17

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir með Magnúsi Guðmundur, þú átt þakkir skildar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2013 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband