Engin þörf á lögum um staðgöngumæðrun
9.2.2015 | 21:32
Að undanförnu hefur skapast umræða um svokallaða staðgöngumæðrun hér á landi, sem felur það í sér að gerður er samningur við tilvonandi móður um að í stað þess að hún muni eiga og ala barnið upp sjálf, muni hún þess í stað gefa það þeim foreldrum sem samninginn gera við hana. Oft er annað þeirra í raun líffræðilegt foreldri viðkomandi barns, en hitt ekki, og er ófrjósemi algengasta ástæða þess að fólk grípur til þessa ráðs svo það geti orðið foreldrar þrátt fyrir að geta ekki sjálft alið börn.
Ekki nóg með það heldur hefur verið stofnað sérstakt félag um málstaðinn, Staðganga. Þessi umræða hefur nú náð æðstu hæðum, þar sem sjálfur heilbrigðisráðherra hefur gripið hana á lofti og jafnvel lýst yfir vilja til þess að hlutast til um að foreldrar sem ákveða að fara þessa leið, að eignast barn með staðgöngumóður, geti orðið löglega skráðir foreldrar þeirra barna sem þannig séu getin með samþykki allra hlutaðeigandi.
Velvilji ráðherrans hefur nú gengið svo langt að hann hefur jafnvel lýst yfir vilja til þess að beita sér fyrir sérstakri lagasetningu um þessa svokölluðu "staðgöngumæðrun". Þetta er hinsvegar allt saman á misskilningi byggt, því það er nákvæmlega engin þörf á nýrri eða sérstakri lagasetningu af þessu tilefni. Að þessu leyti eru bæði umrædd samtök sem og ráðherrann, því miður alveg úti á þekju í þeirri umræðu.
Það sem samtökin Staðganga og heilbrigðisráðherrann þurfa einfaldlega að gera er að lesa lög nr. 130/1999 um ættleiðingar og byrja svo að starfa samkvæmt þeim:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999130.html
Nákvæmlega engin þörf er á nýjum lögum um þetta efni.
![]() |
Mikil þörf fyrir lög um staðgöngumæðrun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ólögmætur samningur ekki sanngjarn
7.2.2015 | 16:30
Af fyrirsögn hinnar tilvísuðu fréttar mætti draga þá ályktun að Héraðsdómur Reykjavíkur hefði dæmt á þá leið að sá verðtryggði lánssamningur sem um var deilt fyrir dómnum, hafi að mati dómsins talist sanngjarn. Þetta er hinsvegar algjörlega kolrangt.
Hvergi í umræddum dómi kemur fram að samningurinn sé sanngjarn að mati dómsins, enda var ekki gerð krafa um neitt slíkt í málinu. Þessi staðhæfing á sér einfaldlega ekki stoð í dómsorðinu. Þvert á móti kemur fram í því að viðurkennt sé að lánssamningurinn hafi verið ólöglega gerður þannig að brotið hafi gegn lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Með því var í raun fallist á þessa megin málsástæðu sem málatilbúnaður neytenda byggðist á.
Dómararnir töldu hinsvegar þrátt fyrir þetta að samningurinn ætti að halda gildi sínu.
Svo má velta því fyrir sér hvað sé eiginlega á seyði hjá þeim sem geta komist að þeirri niðurstöðu að lán sem er ólöglegt geti samt talist lögmætt. Málflutningur um það álitaefni mun hinsvegar fara fram fyrir Hæstarétti Íslands, en ekki á bloggsíðum.
Tilgangur þessara skrifa er fyrst og fremst að leiðrétta fréttaumfjöllun um málið þar sem haldið hefur verið fram röngum fullyrðingum um niðurstöðuna, og að útskýra hver sú niðurstaða raunverulega er. Ekki að færa rök með eða gegn henni.
Það hlýtur að þurfa að gera þá lágmarkskröfu til fjölmiðla að þegar þeir fjalli um niðurstöður dómstóla, þá skýri þeir rétt frá staðreyndum um þær niðurstöður.
![]() |
Verðtryggður lánssamningur sanngjarn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Nákvæmlega...
27.1.2015 | 15:39
Árið 2012 var haldin skoðanakönnun (sem í viðhengdri frétt er reyndar ranglega kölluð þjóðaratkvæðagreiðsla) en ein spurninganna í þeirri könnun sneri að því hvort kjósendur vildu að í nýrri stjórnarskrá Íslands yrði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi. Þetta er líklega einhver verst orðaði og óljósasti svarmöguleiki sem íslenskum kjósendum hefur verið boðið að taka afstöðu til í opinberri könnun eða atkvæðagreiðslu af nokkru tagi.
Til að mynda virðist ekki hafa hvarflað að spurningahöfundum að spyrja hvort kjósendur vildu hafa slíkt ákvæði í núgildandi stjórnarskrá, og því var ekki hægt að taka afstöðu til þjóðkirkjuákvæðis ef maður var til dæmis á móti því að ný stjórnarskrá tæki gildi eða ef maður vildi einfaldlega fella þjóðkirkjuákvæðið út úr núgildandi stjórnarskrá, svo dæmi sé tekið. Þannig var könnunin alls ekki til þess fallin að ná fram raunverulegri afstöðu allra til þessa málefnis. Þeir sem vildu svo dæmi sé tekið, halda í þjóðkirkjuákvæði núgildandi stjórnarskrár, hefðu samt orðið að svara spurningunni neitandi.
Annar og mun stærri galli á spurningunni sem um ræðir var sá, að hún laut alls ekki að afstöðu fólks til þess hvort það vildi yfirhöfuð hafa þjóðkirkju eða ekki, heldur eingöngu að því hvort það vildi ákvæði um það í stjórnarskrá, það er að segja nýrri eins og áður sagði. Allir sem vildu yfir höfuð nýja stjórnarskrá gátu því alveg óháð afstöðu sinni til þess að reka þjóðkirkju eða ekki svarað spurningunni játandi, ef þeir á annað borð vildu að sú afstaða endurspeglaðist í nýrri stjórnarskrá. Þannig gátu til dæmis bæði þeir sem vildu nýja stjórnarskrá með ákvæði sem heimilar þjóðkirkju og þeir sem vildu nýja stjórnarskrá með ákvæði sem bannar þjóðkirkju, svarað þessari sömu spurningu játandi jafnvel þó afstaða þeirra til málefnisins væri í raun gjörólík.
Þessi umrædda spurning var sniðin að þörfum þeirra sem vildu afnema gildandi stjórnarskrá og halda í þjóðkirkjuna. Það var hinsvegar enginn svarmöguleiki fyrir þá sem vilja hvorki nýja stjórnarskrá né þjóðkirkju, heldur vilja halda núgildandi stjórnarskrá að öðru leyti en því, að fella brott ákvæði hennar um þjóðkirkju. Það var heldur enginn svarmöguleiki fyrir þá sem vilja halda bæði núgildandi stjórnarskrá og þjóðkirkjunni. Enn fremur var enginn svarmöguleiki fyrir þá sem vilja halda núgildandi stjórnarskrá og hafa í henni ákvæði sem bannar þjóðkirkju. Þannig var þessum stóru þjóðfélagshópum mismunað, með því að láta eins og þær væru ekki til og útiloka að þeir gætu tjáð afstöðu sína til viðkomandi málefnis í umræddri könnun.
Helgi Hrafn Gunnarsson pírati er klókur og skemmtilegur þingmaður. Hann er í þeirri erfiðu stöðu að vera trúr þeirri stefnu pírata að stjórnmál skuli fara eftir vilja fólksins, en á sama tíma er þjóðkirkja ósamrýmanleg persónulegri sannfæringu Helga Hrafns sem hann er bundinn af samkvæmt (núgildandi) stjórnarskrá. Helgi Hrafn hefur hinsvegar fundið gríðarlega snjalla leið til þess að slá tvær flugur í einu höggi með því að koma til móts við bæði sjónarmiðin samtímis, og þá þriðju með því að setja um leið fram hárbeitta háðsádeilu á ofangreinda spurningu ásamt þeim annmörkum á henni sem hér hafa verið raktir.
Við umræður á Alþingi í dag lýsti Helgi Hrafn þeirri tillögu sinni að ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá verði með þeim hætti, að þjóðkirkju skuli aldrei í lög leiða heldur skuli ríkisvaldið styðja og vernda trúfrelsi á Íslandi, og sagðist hann jafnframt nú þegar hafa hafið undirbúning að frumvarpi þess efnis.
Sé það ekki ljóst nú þegar, felur tillaga Helga Hrafns í sér nákvæmlega þann svarmöguleika sem undirritaður hefði merkt við í umræddri könnun, ef hann hefði yfir höfuð staðið til boða. Það gerði hann hinsvegar ekki og þess vegna var sú könnun markleysa.
![]() |
Þjóðkirkja ekki leidd í lög |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (84)
Dugar ekki fyrir lágmarksframfærslu
26.1.2015 | 20:58
Starfsgreinasamband Íslands ætlar að krefjast þess í komandi kjarasamningum að lágmarkslaun verði innan þriggja ára 300.000 krónur á mánuði. Skoðum af þessu tilefni aðeins hvað þetta myndi gefa í ráðstöfunartekjur (og lífsgæði) fyrir einstakling.
Einstaklingur með þær tekjur lendir í neðsta skattþrepi og þarf því að greiða 37,3% í skatt, 4% í lífeyrissjóð (sem aldrei munu fást til baka) og einnig í verkalýðsfélag en hjá VR sem er stærsta verkalýðsfélagið eru það 0,7%. Samtals eru því 42% dregin af strax við útborgun en á móti kemur persónuafsláttur 50.902 kr. á mánuði, þannig að heildarfrádráttur verður 75.098 kr. og útborguð laun samkvæmt því verða 224.902 kr. á mánuði.
Samkvæmt neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins fyrir barnlausan einstakling eru heildarútgjöld án húsnæðiskostnaðar samtals kr. 234.564 á mánuði. Einstaklingur á lágmarkslaunum er því strax kominn í -9.662 (í mínus) sé aðeins miðað við opinber viðmið um framfærslu. Þar af leiðandi verður augljóslega ekkert eftir til að standa straum af húsnæðiskostnaði, og því ljóst að einstaklingur á 300.000 kr. launum á mánuði þarf að velja milli húsaskjóls eða framfærslu, en hann getur alls ekki valið bæði.
Ímyndum okkur svo að þessi sami einstaklingur hafi áður um ævina gert samfélaginu þann óleik að fjölga þegnum þess og skattgreiðendum framtíðarinnar, með því að eignast fleiri börn en þau tvö sem hvert par þarf að geta til þess eins að viðhalda mannfjölda þjóðarinnar. Gefum okkur svo að þakkirnar sem sá einstaklingur hafi fengið fyrir þetta framlag sitt til samfélagsins hafi verið hjónaskilnaður. Hámarksmeðlag er þrefalt eða samtals 80.589 kr. sem gefur 144.313 í útborguð laun eða um 60% af framfærslukostnaði án húsnæðis.
Okkar maður þarf einhversstaðar að búa. Gefum okkur að þar sem hann á 3 börn þurfi hann 4 herbergja íbúð en þær eru jafnframt í lægsta flokki fermetraverðs í Reykjavík sem er nú um 1.761 kr/m2. Hann getur því leigt 82 m2 íbúð en 4 herbergja íbúðir af þeirri stærð eru sjaldgæfar og ljóst að í slíkum íbúðum eru barnaherbergin á stærð við kústaskápa.
Einstaklingur í þessari stöðu þarf því að velja á milli þess hvort hann hafi í sig og á sjálfur (því þá er ekkert eftir handa börnunum) eða hvort hann veiti sjálfum sér og börnunum húsaskjól í þröngri kompu þar sem er hvorki matur, lyf, læknisþjónusta, né samgöngur eða önnur samskipti við umheiminn. Aðra valkosti hefur hann ekki og það er alveg gjörsamlega útilokað að hann geti skaffað bæði, þ.e. húsaskjól og framfærslu.
Það er alveg morgunljóst að einstaklingar sem eru í slíkri stöðu geta beinlínis þurft að velja milli þess hvort þeir verði a) heimilislausir (sem eykur alls ekki atvinnumöguleikana) eða b) svelti bæði sig og börnin sín. Slík staða er augljóslega alveg ómöguleg!
Þetta sem að framan greinir er tiltölulega einfalt reikningsdæmi, sem allir ættu að geta reiknað sjálfir hafi þeir lokið grunnskólaprófi og kunni að fletta grunntölum upp á veraldarvefnum, líkt og kannanir benda til þess að eigi við um meirihluta þjóðarinnar. Útkoman hinsvegar, getur einfaldlega ekki gengið upp í neinum veruleika sem líkist þeim sem við viljum að sé við lýði hér á landi.
Þess vegna eru það vægast sagt mjög hóflegar kröfur, að fara aðeins fram á 300.000 krónur í lágmarkslaun. Reyndar er vandséður ávinningurinn af því að vera í verkalýðsfélagi sem gerir þá kröfu að maður þurfi að velja á milli þess að borða, eða njóta húsaskjóls, en að á sama tíma sé það gert með öllu útilokað að búa við bæði fæði og húsaskjól.
Einhverntímann var sagt að glæpir borguðu sig ekki. Hér á landi fá fangar hinsvegar bæði frítt fæði og húsaskjól, svo varla er lengur hægt að halda því fram lengur að það eigi við.
Viljum við búa í þjóðfélagi þar sem glæpir bókstaflega borga sig?
![]() |
Lægstu laun verði 300 þúsund |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ekki ákvörðunum heldur "stefnumótun"
20.1.2015 | 23:01
Tillagan sem fjallað er um í tengdri frétt gengur ekki út á að veita almenningi neinn aðgang að raunverulegri ákvarðanatöku. Forræðishyggjusamir stjórnmálamenn vilja auðvitað halda öllu ákvarðanavaldi hjá sér. Tillagan lætur hinsvegar vel í eyrum. Hún er því ekkert annað en háfur til að veiða atkvæði með, eða allavega til þess að reyna það.
![]() |
Vilja auka þátttöku almennings í ákvörðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Launahækkanir valda ekki verðbólgu
7.1.2015 | 16:11
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Gleðilega hátíð
24.12.2014 | 19:42
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Villandi vaxtaútreikningar
24.12.2014 | 17:10
Viðskipti og fjármál | Breytt 25.12.2014 kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Verðtryggð lán lækka í janúar!
26.11.2014 | 21:05
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verðtryggðu lánin lækka
26.11.2014 | 10:16
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt heimsmet í uppsiglingu
24.11.2014 | 12:20
Upplýsingafrelsi er á niðurleið
19.11.2014 | 21:12
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frumvarp um afnám verðtryggingar
13.11.2014 | 11:59
Verðtrygging | Breytt 14.11.2014 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Marklaust lögbann
12.11.2014 | 17:12
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leiðréttingin stenst ekki lög um neytendalán
10.11.2014 | 09:55