Ekki lyklafrumvarp
2.3.2015 | 20:50
Forsætisráðherra var inntur eftir því á Alþingi í dag hvort von væri á lyklafrumvarpi sem margoft hefur verið lofað að muni koma fram. Hann svaraði með því að benda á frumvarpsdrög sem liggja frammi til umsagnar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins. Einnig hélt hann því fram að svar innanríkisráðherra fyrr í vikunni á þá leið að ekkert slíkt frumvarp væri í vinnslu hjá ráðuneyti hennar hefði verið misskilið.
Þessar skýringar eru því miður bæði misvísandi og villandi. Frumvarp það sem um ræðir er alls ekkert lyklafrumvarp, og sá sem heldur slíku fram talar annað hvort gegn betri vitund eða skortir hana. Staðreyndin er sú að umrætt ákvæði frumvarps þessa felur í sér tillögu um styttingu á fyrningarfresti þeirra krafna sem ekki fást greiddar af söluandvirði eignar á nauðungarsölu, úr fjórum árum í tvö ár.
Breyting samkvæmt tillögum þessum er vissulega dálítil réttarbót fyrir þolendur nauðungarsalna, en lyklafrumvarp er það alls ekki. Til skýringar á því hvað átt er við með lyklafrumvarpi, þá snýst það í meginatriðum um að ekki sé hægt að krefja skuldara fasteignaveðláns um meiri efndir en sem felast í verðmæti hinnar veðsettu eignar. Með öðrum orðum sé hægt að skila lyklunum og afhenda eignina gegn ráðstöfun hennar upp í áhvílandi skuldir án frekari eftirmála. Það sem eftir stendur er svo afskrifað.
Frumvarp það sem forsætisráðherra vísaði til, felur ekki í sér annað en styttingu á fyrningarfresti eftirstæðra krafna í tvö ár. Engu að síður munu kröfuhafar geta hundelt skuldara í tvö ár, gengið að öllum öðrum eignum þeirra og knúið þá í gjaldþrot, eða framlengt útlegðina með árangurslausu fjárnámi, sem er enn erfiðara að komast út úr.
Jafnframt skýtur það skökku við, fyrst að forsætisráðherra heldur því fram að hið margumtalaða lyklafrumvarp sé nú loks að líta dagsins ljós, að drög þessi hafa legið fyrir á vef innanríkisráðuneytisins allt frá 6. febrúar síðastliðnum! Það er einhver "undarlegur pólitískur leikur" hjá innanríkisráðherra að birta lyklafrumvarp sem allir bíða eftir í ofvæni, og segja svo ekki einu sinni frá því fyrr en að rúmum þremur vikum liðnum eftir að hafa verið þráspurð og þverneitað, og í stað þess að skýra stolt frá því í ræðustól Alþingis og í fjölmiðlum næstu kvöld þar á eftir, að senda forsætisráðherra það í einkaskilaboðum sem hann kemur svo á framfæri í síðbúnu andsvari við allt annarri fyrirspurn.
Aðeins tvær mögulegar skýringar koma til greina: Annars vegar að blessað fólkið kunni ekki fótum sínum forráð, hvorki pólitískt né í stjórnsýslustörfum sínum. Hins vegar að um hreinar eftiráskýringar sé að ræða, til þess að draga dul á að það sé í raun ekki von á neinu sérstöku lyklafrumvarpi. Þess í stað eigi að hraða eignaupptökunni með því að stytta þann tíma sem kröfuhafar fá til að flá fólk inn að beini.
Þessi skringilega staða sem stjórnvöld hafa nú skapað með þessum axarasköftum sínum, er í raun stórkostlegt sóknartækifæri fyrir stjórnarandstöðuþingmenn. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að þeir taki sig saman og leggi sjálfir fram lyklafrumvarp, og láti reyna á það með áberandi hætti hversu margir stjórnarliðar treysti sér til þess að greiða atkvæði gegn því og svíkja kjósendur sína.
Það þarf ekki einu sinni að semja frumvarpið, því hérna er tilbúin útfærsla á því sem tengir jafnframt veðandlagið við þróun fasteignaverðs og deilir þannig áhættunni af þróun á mörkuðum milli lánveitanda og lántaka:
1. gr. Lánveitanda, sem veitir neytanda lán gegn veði í fasteign sem ætluð er til lögheimilis, er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum eignum lántaka en sem nema þeim eignarhluta sem lánað var til nema krafa hafi stofnast vegna saknæmra athafna lántaka. Með eignarhluta sem lánað var til er átt við hlutfall af uppgjörsverðmæti fullnustueignar sem svarar til þess hlutfalls kaupverðs sem fengið var að láni við kaup hennar eða matsverðs við endurfjármögnun. Krafa lánveitanda á neytanda skal falla niður ásamt áföllnum lántökukostnaði og öðrum gjöldum, þó svo uppgjörsverðmæti fullnustueignarhluta nægi ekki til fullnaðargreiðslu hennar.
2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi
Að lokum er þeirri áskorun hér með beint til allra þingmanna, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, að flytja frumvarp þessa efnis á Alþingi.
Eins konar lyklafrumvarp komið fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 3.3.2015 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Leggur til lögleiðingu gjaldeyrisfölsunar
23.2.2015 | 20:32
Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp, sem felur beinlínis í sér tillögu um að lögleiða nokkuð sem hingað til hefur verið ólöglegt, það er að segja gengistryggð lán. Þau hafa verið ólögleg frá því að heimildir til verðtryggingar miðað við gengisvísitölur voru felldar brott úr vaxtalögum árið 2001. Hinsvegar hefur verið leyfilegt að lána í erlendum gjaldeyri, og myndi verða það áfram að óbreyttu. Því er vandséð þörfin fyrir slíkt frumvarp.
Annað sem er einkennilegt við frumvarpið er það hefur að geyma afvegaleiðandi málfræðivillur og jafnvel ranga hugtakanotkun. Sjáum dæmi:
2. gr.
- Á eftir VI. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Erlend lán, með einni nýrri grein, 16. gr. a, sem orðast svo:
- Ákvæði þessa kafla gilda um erlend lán. Erlent lán er lán í erlendum gjaldmiðli eða gengistryggt lán. Lán í erlendum gjaldmiðli er lán í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Gengistryggt lán er lán í íslenskum krónum þar sem höfuðstóll, greiðsla afborgana og/eða greiðsla vaxta er háð breytingum á gengi erlends gjaldmiðils eða gengisvísitölu, þ.m.t. samsettra gjaldmiðla sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir.
- Heimilt er, nema lög mæli á annan veg, að veita erlend lán. Um erlend lán til neytenda gilda lög um neytendalán.
Um þetta er ýmislegt að segja. Til að byrja með er lagt til að nýr kafli bætist við lög um vexti og verðtryggingu, sem gildi um erlend lán. Því næst er svo hugtakið "erlent lán" beinlínis endurskilgreint sem "lán í erlendum gjaldmiðli eða gengistryggt lán í íslenskum krónum". Fyrir utan það að vera bæði málvilla og rökvilla, er þetta beinlínis villandi.
Í uppgjörsleiðbeiningum Seðlabanka Íslands til fjármálafyrirtækja er erlent lán skilgreint (réttilega) sem: "Bein erlend lántaka hjá erlendri lánastofnun eða öðrum erlendum aðila." Samkvæmt orðasafni Financial Times þýðir "erlent lán" (foreign loan), "lán sem er veitt af erlendri ríkisstjórn eða fjármálastofnun" (A loan to a country or organization made by a foreign government or financial institution).
Þessi skilgreining er sú sama allsstaðar í heiminum. Til að taka fjarlægt dæmi er hér tilvitnun í leiðbeiningar Seðlabanka Filippseyja til lánastofnana um gjaldeyrismál:
"Foreign loans refer to all obligations (regardless of currency of denomination and form, i.e., cash or in kind) owed by Philippine residents to non-resident entities, including advances from foreign parent companies, shareholders and affiliates and peso- denominated loans from non-residents. Foreign currency denominated loans refer to obligations owed by Philippine residents to FCDUs of banks operating in the Philippines."
Lán þarf sem sagt að hafa verið tekið erlendis hjá erlendum aðila, til þess að teljast vera erlent. Það hefur hinsvegar ekkert með að gera í hvaða gjaldmiðli lánið er. Til dæmis er lán frá þýskum banka jafn erlent hvort sem það er í evrum, dollurum, eða jafnvel þó það væri í krónum. Lán sem eru tekin innanlands, eru hinsvegar innlend lán, sama hvaða gjaldmiðli þau eru í. Til dæmis ef Íslendingur tekur lán hjá Landsbanka Íslands, þá er það innlent lán, alveg sama hvort það er í íslenskum krónum eða erlendum gjaldeyri. Uppruni láns er ekki það sama og gjaldmiðillinn sem lánaður er. Svo dæmi sé tekið þá verður reiðhjól ekki að bifreið þó það sé keypt með lánsfé frá bílasölu!
Ekki skánar það þegar lengra líður á frumvarpið, þar sem lagt er til að gerðar verði breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands til að gera ráð fyrir erlendum lánum, en þar segir í 2. mgr. tillögu skv. 3. gr:
- Í reglunum er heimilt að binda erlend lán skilyrðum sem varða tekjur lántaka, tegund trygginga, upplýsingaskyldu lánveitanda, lengd lánstíma og tilhögun endurgreiðslna. Heimilt er að ákveða að mismunandi ákvæði gildi um einstaka flokka lántaka, svo sem tiltekna hópa einstaklinga eða lögaðila, sveitarfélög og aðila sem opinberir aðilar eru í ábyrgð fyrir.
Samkvæmt þessu virðist eiga að búa til reglur sem kveði á um mismunun, þannig að fólki verði skipt upp í flokka eftir því hvort og í hvaða mæli það fái heimildir til að taka gengisbundin neytendalán. Erfitt er að sjá að þetta geti samræmst 65. gr. stjórnarskrár þar sem segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum.
Þar sem það er bundið í núgildandi stjórnarsáttmála að draga úr vægi verðtryggingar í neytendalánum, skýtur það jafnframt mjög skökku við að fjármálaráðherra skuli leggja fram frumvarp um auknar heimildir til verðtryggingar, þ.e.a.s. miðað við gengisvísitölur.
Helstu góðu fréttirnar eru þó þær tillögur sem gerðar eru um breytingar á lögum um neytendalán, en þar segir meðal annars:
5. gr.
- Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
- a. Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
- Ef höfuðstóll, greiðsla afborgana og/eða greiðsla vaxta er í öðrum gjaldmiðli eða er háð gengi annars gjaldmiðils en þeim sem lántaki er með tekjur í, að hluta til eða að öllu leyti, skal þrátt fyrir 2. mgr. ávallt framkvæma greiðslumat. Óheimilt er að veita lántaka slíkt lán nema greiðslumat leiði í ljós að hann hafi augljóslega fjárhagslega burði til að standast verulegar breytingar á gengi þess gjaldmiðils sem tekjur lántaka eru í samanborið við þann gjaldmiðil sem lánið er í eða tekur mið af.
Þetta er athyglivert, ekki síst ef litið er til þess að langflest lán neytenda eru í raun í öðrum gjaldmiðli en þeir hafa tekjur í, þ.e. verðtryggðum krónum. Það er kannski bara fagnaðarefni ef á að stemma stigu við þeim? (Muna 65. greinina um bann við mismunun! ;)
Athyglisverðust af öllum er samt 1. gr. frumvarpsins:
1. gr.
- Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Það á þó ekki við um neytendalán.
Til þess að skilja hvað þetta þýðir er nauðsynlegt að gera grein fyrir því hvað 2. mgr. 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu segir, en samkvæmt henni hefur hingað til verið heimilt að miða verðtryggingu lánsfjár við hlutabréfavísitölur. Sú heimild hefur lítið verið nýtt og er nánast óþekkt á almennum neytendamarkaði. Það er því alls ekki órökrétt að kveða á um bann við slíkum lánum til almennra neytenda, enda geta þau verið gríðarlega áhættusöm.
Það sem er þó öllu merkilegra er hversu einföld sú breyting er að banna þessa tegund verðtryggingar í neytendalánum sérstaklega. Ekki síst þegar litið er til þeirrar miklu umræðu sem verið hefur og sérfræðivinnu um afnám verðtryggingar miðað við vísitölu neysluverðs, sem er mjög útbreidd í neytendalánum, en hún er einmitt heimiluð með 1. mgr. 14. gr., næst á undan þeirri sem fjallar um hlutabréfavísitölur.
Þarna er því komin í ljós mjög einföld leið til að afnema verðtryggingu neytendalána, sem væri hægt að framkvæma strax á þessu þingi með breytingartillögu við frumvarp þetta, þess efnis að á undan 1. gr komi ný grein svohljóðandi:
- Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Það á þó ekki við um neytendalán.
Þannig væri hægt að banna verðtrygginguna strax. Reyndar hefur frumvarp þess efnis nú þegar verið lagt fram, en það var gert á síðasta kjörtímabili:
http://www.althingi.is/altext/141/s/1138.html
Þar eru útfærðar með miklu ítarlegri hætti þær heildarbreytingar sem gera þyrfti á umgjörð íslensks lánamarkaðar til þess að særa verðtrygginguna út með öllu. Einkum er þar um að ræða breytingar á lagaumhverfi opinberra lánastofnana á borð við Íbúðalánasjóð og Lánasjóð íslenskra námsmanna, svo dæmi séu tekin.
Ekkert er því til fyrirstöðu að endurflytja frumvarp þetta núna!
Greiðslumat vegna erlendra lána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Taka þarf dýpra í árinni
14.2.2015 | 13:26
Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, segir í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins, sem út kom í morgun, að hann telji mikilvægt að Neytendastofa hafi eftirlit með samningalögunum. Það myndi auka mjög öryggi þeirra sem komast í vanskil við smálánafyrirtækin. Þeir hafi ekki burði til þess að ráða sér lögfræðing.
Þessar yfirlýsingar eru góðar, og allar í rétta átt. Hinsvegar þarf að ganga mun lengra. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að á meðan Neytendastofa hefur ekki viðhlítandi valdheimildir til að hafa eftirlit með og stöðva notkun óréttmætra skilmála í neytendasamningum, er Ísland brotlegt við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum.
Ekki er síður mikilvægt að allir hlutaðeigandi geri sér grein fyrir því að þetta er alls ekkert einangrað við smálánafyrirtæki, heldur á jafnt við um stórlánafyrirtæki. Með því er auðvitað átt við stóru bankana og almenn fjármálafyrirtæki, en brot þeirra gegn neytendum eru miklu stórfelldari að umfangi en þau sem hin svokölluðu smálánafyrirtæki stunda.
Viðskiptavinir fjármálafyrirtækja hafa almennt ekki burði til að ráða sér lögfræðing í því skyni að leita réttar síns. Enn síður gagnvart hinum stærri brotum sem erfiðara er að verjast þar sem stóru bankarnir tefla fram sínum lögfræðingaher. Þar er einfaldlega oft á tíðum við ofurefli að etja. Stærsta hagsmunamál íslenskra neytenda á fjármálamarkaði er að þessi óréttláta staða verði jöfnuð og veittur raunhæfur möguleiki á réttargæslu neytenda.
Síðast en ekki síst verða dómstólar svo að tileinka sér þær reglur sem innleiddar hafa verið á sviði neytendaverndar hér á landi undanfarna tvo áratugi, og byrja að dæma í samræmi við þær. Því miður hefur orðið grafalvarlegur misbrestur í þeim efnum, og eru úrbætur á því brýnasti þátturinn í eflingu neytendaverndar á fjármálamarkaði á Íslandi.
Það er til lítils að hafa góðar reglur, ef ekki er farið eftir þeim og þeim ekki framfylgt af eftirlitsstjórnvöldum sem eiga að hafa slíkt hlutverk með höndum. Enn verra er þegar dómstólar virða þær reglur svo beinlínis að vettugi, eins og þeir hafa ítrekað gert í hverju málinu á fætur öðru þar sem þeir hafa frekar tekið undir málstað hinna brotlegu lánveitenda, heldur en neytenda sem hafa orðið þolendur slíkra brota.
Þessari þróun þarf að snúa við, áður en unnið verður óbætanlegt tjón á orðspori íslenska dómskerfisins. Dómstólar sem ekki dæma eftir lögum eru með slíku framferði að dæma sjálfa sig úr leik og gera sig ómarktæka. Það er eitt alvarlegasta brot sem hægt er fremja gegn hagsmunum réttarríkisins, þegar dómstólar hjálpa til við að grafa undan því.
Skoða lagabreytingar vegna smálána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 15.2.2015 kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Verðtrygging veldur verðbólgu
13.2.2015 | 08:45
Talsverð umræða hefur verið að undanförnu um verðbólgu og vexti í tengslum við kjarasamninga. Í þeirri umræðu hefur verið haldið fram kenningum sem eiga ekki við nein rök að styðjast, og hafa samtök atvinnurekenda, með samtök fjármálafyrirtækja innanborðs, farið þar einna fremst í flokki.
Þau hafa staðið fyrir endurflutningi á gömlu þjóðsögunni um að launahækkanir valdi verðbólgu og þar með hækkunum verðtryggðra lána, til þess að reyna að hræða launþega frá því að gera kröfur um hærri laun. Ekki hefur verið látið þar við sitja enda hafa mörg heimili nú þegar yfirgefið verðtryggða lánakerfið, og hefur því einnig verið haldið fram að launahækkanir muni valda vaxtahækkunum á óverðtryggðum lánum.
Varla verður annað séð en að um beinar hótanir sé að ræða, þar sem innan vébanda þessara samtaka eru bæði þeir atvinnurekendur sem eru í stöðu til að hafa áhrif á verðlag og vexti. Það geta þeir gert með því einfaldlega að hækka verð á vörum og þjónustu sem þeir selja, og á það einnig við um bankana hvað vaxtakjör varðar.
Þessum villandi málflutningi hefur nú verið svarað af hálfu VR sem hefur sýnt fram á það með skýrum hætti að ekki er beint samband milli kjarasamninga og verðlagsbreytinga. Því ber að fagna, enda orðið löngu tímabært að rétta við þá öfugsnúnu umræðu sem allt of lengi hefur tíðkast um efnahagsmál hér á landi.
Af þessu tilefni er rétt að minna á að eins og margoft hefur verið fjallað um hér á þessum síðum, þá er einn orsakavaldur verðbólgu sem hefur sögulega verið vanmetinn hér á landi, en það er verðtrygging útlána bankakerfisins. Hér er ekki um neina kenningu að ræða, heldur einfaldlega fyrirliggjandi staðreynd.
Orsakasambandið er að finna í því hvernig verðtryggðu lánin eru útfærð. Annars vegar með því að vísitölubinda höfuðstól lánanna og annars vegar að bókfæra allar þannig uppreiknaðar en ógreiddar framtíðar verðbætur sem eign í nútímanum. Með þessum hætti myndast fölsk eign úr ókomnum tekjum sem engin innstæða er fyrir, en það jafngildir í reynd peningaprentun sem hefur jafnan í för með sér verðbólgu.
Þannig byggjast rökin fyrir því að afnema verðtryggingu í lánakerfinu ekki aðeins á því að slík lán séu varasöm fyrir neytendur, heldur einnig að sjálft fyrirkomulagið sé beinlínis efnahagslega skaðlegt. Hagfræðingastéttin hefur lengst af upp til hópa litið algjörlega framhjá þessari skaðsemi í blindri hrifningu sinni af þessu séríslenska fyrirbæri, með vissum undantekningum þó.
Nú eru hinsvegar ýmis teikn á lofti um að vakning sé að verða, ekki aðeins meðal hagfræðinga, heldur þjóðarinnar allrar, um mikilvægi þess að taka til endurskoðunar ýmsar þrálátar hugmyndir sem lengi hefur verið haldið á lofti og eiga ef til vill ekki við rök að styðjast. Því ber að fagna og vekur það jafnframt von um að með breyttu hugarfari verði jafnvel hægt að ná viðunandi tökum á stjórn efnahagsmála hér á landi.
Afnám verðtryggingar er nauðsynlegt skref í þá átt.
Leiðir ekki sjálfkrafa til verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.2.2015 kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Engin þörf á lögum um staðgöngumæðrun
9.2.2015 | 21:32
Að undanförnu hefur skapast umræða um svokallaða staðgöngumæðrun hér á landi, sem felur það í sér að gerður er samningur við tilvonandi móður um að í stað þess að hún muni eiga og ala barnið upp sjálf, muni hún þess í stað gefa það þeim foreldrum sem samninginn gera við hana. Oft er annað þeirra í raun líffræðilegt foreldri viðkomandi barns, en hitt ekki, og er ófrjósemi algengasta ástæða þess að fólk grípur til þessa ráðs svo það geti orðið foreldrar þrátt fyrir að geta ekki sjálft alið börn.
Ekki nóg með það heldur hefur verið stofnað sérstakt félag um málstaðinn, Staðganga. Þessi umræða hefur nú náð æðstu hæðum, þar sem sjálfur heilbrigðisráðherra hefur gripið hana á lofti og jafnvel lýst yfir vilja til þess að hlutast til um að foreldrar sem ákveða að fara þessa leið, að eignast barn með staðgöngumóður, geti orðið löglega skráðir foreldrar þeirra barna sem þannig séu getin með samþykki allra hlutaðeigandi.
Velvilji ráðherrans hefur nú gengið svo langt að hann hefur jafnvel lýst yfir vilja til þess að beita sér fyrir sérstakri lagasetningu um þessa svokölluðu "staðgöngumæðrun". Þetta er hinsvegar allt saman á misskilningi byggt, því það er nákvæmlega engin þörf á nýrri eða sérstakri lagasetningu af þessu tilefni. Að þessu leyti eru bæði umrædd samtök sem og ráðherrann, því miður alveg úti á þekju í þeirri umræðu.
Það sem samtökin Staðganga og heilbrigðisráðherrann þurfa einfaldlega að gera er að lesa lög nr. 130/1999 um ættleiðingar og byrja svo að starfa samkvæmt þeim:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/1999130.html
Nákvæmlega engin þörf er á nýjum lögum um þetta efni.
Mikil þörf fyrir lög um staðgöngumæðrun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ólögmætur samningur ekki sanngjarn
7.2.2015 | 16:30
Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Nákvæmlega...
27.1.2015 | 15:39
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (84)
Dugar ekki fyrir lágmarksframfærslu
26.1.2015 | 20:58
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ekki ákvörðunum heldur "stefnumótun"
20.1.2015 | 23:01
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Launahækkanir valda ekki verðbólgu
7.1.2015 | 16:11
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Gleðilega hátíð
24.12.2014 | 19:42
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Villandi vaxtaútreikningar
24.12.2014 | 17:10
Viðskipti og fjármál | Breytt 25.12.2014 kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Verðtryggð lán lækka í janúar!
26.11.2014 | 21:05
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verðtryggðu lánin lækka
26.11.2014 | 10:16
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt heimsmet í uppsiglingu
24.11.2014 | 12:20