Taka þarf dýpra í árinni

Frosti Sig­ur­jóns­son, formaður nefnd­ar­inn­ar, seg­ir í sam­tali við Sunnu­dags­blað Morg­un­blaðsins, sem út kom í morg­un, að hann telji mik­il­vægt að Neyt­enda­stofa hafi eft­ir­lit með samn­inga­lög­un­um. Það myndi auka mjög ör­yggi þeirra sem kom­ast í van­skil við smá­lána­fyr­ir­tæk­in. Þeir hafi ekki burði til þess að ráða sér lög­fræðing.

Þessar yfirlýsingar eru góðar, og allar í rétta átt. Hinsvegar þarf að ganga mun lengra. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að á meðan Neytendastofa hefur ekki viðhlítandi valdheimildir til að hafa eftirlit með og stöðva notkun óréttmætra skilmála í neytendasamningum, er Ísland brotlegt við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum.

Ekki er síður mikilvægt að allir hlutaðeigandi geri sér grein fyrir því að þetta er alls ekkert einangrað við smálánafyrirtæki, heldur á jafnt við um stórlánafyrirtæki. Með því er auðvitað átt við stóru bankana og almenn fjármálafyrirtæki, en brot þeirra gegn neytendum eru miklu stórfelldari að umfangi en þau sem hin svokölluðu smálánafyrirtæki stunda.

Viðskiptavinir fjármálafyrirtækja hafa almennt ekki burði til að ráða sér lögfræðing í því skyni að leita réttar síns. Enn síður gagnvart hinum stærri brotum sem erfiðara er að verjast þar sem stóru bankarnir tefla fram sínum lögfræðingaher. Þar er einfaldlega oft á tíðum við ofurefli að etja. Stærsta hagsmunamál íslenskra neytenda á fjármálamarkaði er að þessi óréttláta staða verði jöfnuð og veittur raunhæfur möguleiki á réttargæslu neytenda.

Síðast en ekki síst verða dómstólar svo að tileinka sér þær reglur sem innleiddar hafa verið á sviði neytendaverndar hér á landi undanfarna tvo áratugi, og byrja að dæma í samræmi við þær. Því miður hefur orðið grafalvarlegur misbrestur í þeim efnum, og eru úrbætur á því brýnasti þátturinn í eflingu neytendaverndar á fjármálamarkaði á Íslandi.

Það er til lítils að hafa góðar reglur, ef ekki er farið eftir þeim og þeim ekki framfylgt af eftirlitsstjórnvöldum sem eiga að hafa slíkt hlutverk með höndum. Enn verra er þegar dómstólar virða þær reglur svo beinlínis að vettugi, eins og þeir hafa ítrekað gert í hverju málinu á fætur öðru þar sem þeir hafa frekar tekið undir málstað hinna brotlegu lánveitenda, heldur en neytenda sem hafa orðið þolendur slíkra brota.

Þessari þróun þarf að snúa við, áður en unnið verður óbætanlegt tjón á orðspori íslenska dómskerfisins. Dómstólar sem ekki dæma eftir lögum eru með slíku framferði að dæma sjálfa sig úr leik og gera sig ómarktæka. Það er eitt alvarlegasta brot sem hægt er fremja gegn hagsmunum réttarríkisins, þegar dómstólar hjálpa til við að grafa undan því.


mbl.is Skoða lagabreytingar vegna smálána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Afar athyglisverð umfjöllun var um þessi mál í kvöldf´rettum Stöðvar 2 þar sem var m.a. rætt við Pétur Blöndal varaformann efnahags- og viðskiptanefndar og skýrt frá því að von væri á tillögum að lagabreytingum með vorinu.

http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV89839CE1-D6D5-4621-865B-D8417018E2EF

Þá kom fram í Sunnudagsmogganum að þær hugmyndir sem uppi eru lúti m.a. að því að veita Neytendastofu heimildir til að hafa eftirlit með óréttmætum skilmálum í neytendasamningum, þar á meðal neytendalánum, og að stöðva notkun slíkra skilmála með lögvaldi.

Slík úrræði verða reyndar að vera til staðar samkvæmt EES-tilskipun sem Ísland hefur verið brotlegt við í áraraðir, en ef úr því verður bætt yrði um mikla réttarbót að ræða fyrir íslenska neytendur.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.2.2015 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband