Flugeldahagfræði: hvernig á að fela 250 milljarða?

Skrifað hefur verið undir samkomulag á milli íslenskra stjórnvalda, skilanefndar Landsbanka Íslands og Nýja Landsbankans (NBI) um uppgjör á eignum og skuldum vegna skiptingar bankans. Íslenska ríkið er sagt "þurfa" að leggja NBI til "aðeins" 140 milljarða í hlutafé gegn 80% eignarhlut í hinum nýja banka. Við nánari athugun kemur þó í ljós að í raun er þetta enn ein djúpt skuldsett yfirtakan, líkt og ennþá væri árið 2007.

Það fylgir nefninlega sögunni að NBI mun leggja inn í þrotabú gamla Landsbankans 260 milljarða króna gengistryggt skuldabréf (með tilheyrandi gengisáhættu) sem verður greitt af á 10 árum. Hlutur ríkisins í nýja bankanum er 80% og samsvarandi hlutall af skuldinni við gamla bankann eru 208 milljarðar sem verða teknir af rekstri NBI næsta áratuginn. Ríkið er því alls ekki að kaupa innlenda reksturinn af þrotabúi gamla Landsbankans á 140 milljarða eins og skilja má af fréttinni. Réttara væri að segja að ríkið sé að yfirtaka innlendan rekstur Landsbankans fyrir 140 + 208 = 348 milljarða og fela mismuninn eða tæp 60% af yfirtökuverðinu með skuldsetningu hins nýja félags NBI hf.

Athugið að þessi niðurstaða miðast við núvirði en tekur hvorki tillit vaxtakostnaðar né gengisáhættu vegna þessarar gríðarháu skuldsetningarinnar og gerir auk þess ráð fyrir að áfram verði hér allt í kalda koli efnahagslega. Verðmat undirliggjandi eigna bankans er nefninlega háð mikilli óvissu, en fari svo að verðmæti yfirfærðra eigna reynist meira en mat NBI gerir ráð fyrir mun bankinn gefa út viðbótarskuldabréf til gamla bankans sem gæti numið um 90 milljörðum króna og á móti fengi ríkissjóður áðurnefnd hlutabréf að fjárhæð 28 milljarðar til sín að miklu leyti. Mismunurinn á því eru 62 milljarðar til viðbótar sem ríkið þarf að punga út, en aðeins ef við verðum svo lánsöm að hér muni verða einhver efnahagsbati. Samtals gæti því endanlegt yfirtökuverð farið upp í allt að 348 + 62 = 410 milljarða (á núvirði) en niðurstaða um það mun ekki fást fyrr en 2012.

Þó svo að þversumman sé sú sama á 140 milljörðum og 410 milljörðum, þá er mismunurinn 250 milljarðar eða 178%. Þessi tilbúningur ber vott um gríðarlega "sköpunargáfu" í bókhaldi og toppar eflaust marga vitleysuna frá árunum 2007-2008. Ef þetta er forsmekkurin að hinu "nýja" hagkerfi Íslands þá líkist það skuggalega mikið hinu gamla, eini munurinn er að nú er búið að þjóðnýta pappírsbraskið og bókhaldsbrellurnar.


mbl.is 90% upp í forgangskröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Hvernig á annað að vera þegar allt liðið með 2007 hagfræðiþekkinguna er komið aftur til vinnu hjá gjaldþrotabönkunum og fjárvana bönkunum?

Þetta lið er þrælvant að gera verðmæti úr engu með pappírstrixum og ekki batnar það þegar það þarf að nota niðurstöðuna í pólitísku tímahraki.

Magnús Sigurðsson, 12.10.2009 kl. 22:40

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Flugeldahagfræði. Það var orðið. Ég er ekki viss um að töframaðurinn David Blaine hefði náð að útfæra svona brellu.

Halda þeir að við trúum því að skuldir gufi upp, ef þær eru skírðar upp á nýtt?

Nú eru verkfærin sannarlega búin í verkfæratöskum spunalæknanna.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.10.2009 kl. 09:21

3 Smámynd: Haraldur Baldursson

Álfoss var þekkt prjónaverksmiðja...en jafnvel á sínum bestu dögum annaði hún ekki spuna á við verksmiðju Samfylkingarinnar. Það er verið að reyna að draga lopa yfir augu almennings...en það er bara ekki að virka, það treystir enginn ríkisstjórninni lengur.

Varðandi Icesave.... ég held að við þurfum að fara að negla þetta niður... bretar og hollendingar fái LÍ+NBI og auk þess smá summu..10-20 milljarða...en ekki meira. Þessi tala þarf að vera nelgd niður. Annars kemur 23. okt og Tryggingasjóðurinn fellur....og allir gjörningar eftir það væru rakin lögleysa.

Haraldur Baldursson, 13.10.2009 kl. 10:08

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég sé Guðmundur að þú lítur Landsbanka-brelluna svipuðum augum og ég. Almenningi er annað hvort strokið upp eða niður, eftir því hvernig liggur á brellu-meisturum Samfylkingarinnar.

Nú þurfa landsmenn að standa fastir fyrir og láta ekki Sossana koma sér úr jafnvægi með svona brellum. Eftir 23.október erum við laus úr Icesave-gildrunni og Bretar og Hollendingar eiga enga aðra kosti en fara með málið fyrir dómstóla, eins og við höfum alltaf óskað eftir.

Raunar efast ég um að andskotarnir leggi í slíkan slag, sem við getum ekki annað en unnið. Við höfum með okkur lög, reglugerðir, siðferði og tryggina-reglur. Við erum bráðum í góðum málum.

Loftur Altice Þorsteinsson, 13.10.2009 kl. 19:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband