Boðar dagsetningin 21.12.2012 kaflaskipti í mannkynssögunni?

Það kannast eflaust sumir við að hafa heyrt minnst á þessa dagsetningu, en sú hugmynd er t.d. útbreidd að þennan dag verði heimsendir samkvæmt trú Maya sem voru frumbyggjar í Ameríku. Þekking Mayanna á stjörnufræði var mikil og tímatal þeirra var svo nákvæmt að það er aðeins nýlega eða á síðustu 100-200 árum sem vestrænir stjörnufræðingar hafa náð sömu nákvæmni í tímaútreikningum. Þó svo að Mayar hafi litið á tímann sem "línulega" framvindu rétt eins og við gerum flest, þá þróaðist hinsvegar veröldin skv. trú þeirra og heimsmynd eftir hringferlum (cycles) og því er það líklega oftúlkun að tala um algjöran endapunkt eða heimsendi á tiltekinni dagsetningu. Nær væri að tala um nýja "öld" í Þeim skilningi að þá verði mögulega einhverskonar kaflaskipti í mannkynssögunni eða jafnvel fasaskipti svipað og þegar vatn sýður og verður að lofttegund eða þegar postulín er ofurkælt og við ákveðið hitastig verður það skyndilega ofurleiðandi á rafstraum. E.t.v. munu kaflaskiptin eingöngu verða á tímatalinu sjálfu og eiga sér enga samsvörun í raunverulegum atburðum, svipað og þegar ný öld byrjar í okkar tímatali þá þarf það ekki endilega að hafa í för með sér miklar breytingar því tímatalið er eftir allt saman bara mannleg upfinning. Samt sem áður er auðvelt að setja þessar hugmyndir í samhengi við þá staðreynd að breytingar á jörðinni hafa sennilega aldrei verið meiri á dögum mannskepnunnar en einmitt um þessar mundir. Jafnframt verða breytingar sífellt meiri og hraðari, sérstaklega á sviði tækni og vísinda. Fyrir Mayana voru þetta hinsvegar trúarbrögð og skv. þeim var tímatalið gjöf frá guðinum Itzamna, það má því vel vera að einhverjir hafi viljað túlka það með allskyns hindurvitnum. Hvað sem öðru líður þá var vizka þeirra mikil, sérstaklega fyrst þeir voru með þá speki á hreinu að mismunandi fyrirbæri fara í misstóra og misjafnlega reglulega hringi, en allt saman fer þetta þó í einn stóran hring! ;)

Reyndar er það ekki bara dagatal Maya sem vísar til þessarar (eða svipaðrar) dagsetningar heldur ýmislegt fleira, t.d. er afar sérstök kenning sem gengur undir nafninu Novelty Theory. Hún byggir á nokkuð metnaðarfullri stærðfræðilegri greiningu á kínverskri heimspeki (I Ching, e. Book of Changes) og leitast við að varpa ljósi á heildarmyndina af sögu tímans, en skv. henni er næsta víst að eitthvað alveg óvænt og áður óþekkt sé í vændum þennan dag í mannkynssögunni (með skekkju upp á nokkra daga til eða frá). Kenningu þessari til stuðnings hefur verið bent á samræmi milli niðurstaðna hennar og ýmissa sögulegra atburða, en vegna þess að hún byggir að hluta til á dulspeki og inniheldur a.m.k. eina "óþekkta breytistærð" þá verður vísindalegt gildi hennar samt alltaf umdeilanlegt. Efahyggjufólk skipar gjarnan slíkum hugmyndum í flokk með spádómum Nostradamusar og þvíumlíku, en hunsar um leið þá staðreynd að nútíma "raunvísindi" eru uppfull af "óþekktum breytistærðum" og kenningum sem hafa verið "aðlagaðar" til að passa við mælingar á því sem við köllum "raunverulegt", reyndar eru raunvísindin fráleitt laus við vangaveltur um heimsendi. Engu að síður flokkast flest svona fræði í besta falli undir jaðarvísindi sem njóta ekki (enn sem komið er a.m.k.) almennrar viðurkenningar í vísindasamfélaginu frekar en aðrar dómsdagshugmyndir sem finna má í velflestum trúarbrögðum sem og heimsmynd margra menningarþjóða bæði fyrr og síðar.

Tímabylgjan 1989-2012

Tímabylgjan fyrir árin 1989-2012.

Þróun lykilbreytinga frá upphafi mannkyns.

Vísindamenn sjálfir eru engu að síður margir farnir að velta fyrir sér fyrirbærinu "breytingar" og hvernig það á við t.d. þróunarsöguna og framfarir mannkynsins. Með tilkomu upplýsingabyltingarinnar hefur komið fram á sjónarsviðið lögmálið um "hröðun samlegðaráhrifa" sem á sérstaklega við um fyrirbæri í upplýsingatækni en það leiðir af sér veldisvöxt í framleiðslu á þekkingu og þar með veldisvöxt í þekkingu á framleiðslutækni o.s.frv. Leiddar hafa verið að því líkur að í framtíðinni muni tækniþróun almennt fylgja samskonar ferli, ekki síst með auknum framförum í gervigreind. Þetta er algerlega nýtt í mannkynssögunni þar sem þróun og framleiðsluaukning mannkyns fram að þessu hefur verið tiltölulega línuleg og breytti iðnbyltingin engu um það heldur jók einungis hraðann á annars línulegum vextinum (enda stjórnaðist hún fremur af pólitík og landvinningum þó nýsköpun hafi vissulega verið ein forsendan). Veldisvöxtur er hinsvegar þess eðlis að eftir að ákveðnum þröskuldi er náð mun hraði þróunarinnar verða slíkur að enginn mannlegur máttur mun geta fylgt honum eftir, hvað þá brugðist við afleiðingunum. Það sem þá mun gerast verður í raun ekki undir okkur mönnunum komið, en hvaða öfl eða lögmál munu þá ráða örlögum okkar er eitthvað sem er í raun engin leið að skilja fyrirfram því þá erum við að tala um atburðarás sem er löngu komin fram úr mannlegum skilningi! (Þess vegna er einmitt talið líklegt að einhverskonar gervigreind verði afar stór áhrifaþáttur.) Athugið að hér er ekki átt við breytingu sem er sérstök aðeins vegna þess að hún sé mun stærri en áður hefur þekkst, heldur verður atburðarásin sjálf líka allt annars eðlis en flest sem við höfum áður þekkt og þar að auki nánast óútskýranleg, a.m.k. fyrirfram.

Lögmál Moore's um reiknigetu er þekktasta dæmið um veldisvöxt vegna samlegðaráhrifa, en hér má sjá það á logarithmiskum kvarða.

Vísindaskáldsagnahöfundar og nú í seinni tíð virtir vísindamenn á sviði taugalækninga, tölvufræða, gervigreindar, eðlisfræði, geimvísinda o.fl. hafa sameinast um hugtakið "Technological Singularity" yfir það sem í vændum er, heitið vísar til þess að þetta er sprottið af tækniþróun, singularity er svo fræðimál yfir kringumstæður þar sem hefðbundin lögmál hætta að gilda og ástandið verður stærðfræðilega óskilgreint eða órökrænt í venjulegum skilningi. Erfitt er að spá fyrir um það með nokkurri vissu hvenær þetta muni eiga sér stað, stærðfræðingurinn og rithöfundurinn Vernor Vinge sem er talinn vera höfundur hugtaksins spáir þessu einhvern tíma á bilinu 2005-2030, en Ray Kurzweil gervigreindarsérfræðingur og höfundur lögmálsins um veldisvöxt samlegðaráhrifa hefur hinsvegar nefnt árið 2045 sem ágiskun. Dæmi um singularity væri á jöfnu sem er teiknuð upp í hnitakerfi og eftir því sem lengra er farið á x-ás þá hækkar gildið á y-ás sífellt hraðar þar til komið er að ákveðnu x-gildi þar sem y-gildið stefnir á að verða óendanlegt, í menntaskólastærðfræðinni kallast þetta lóðfella en þar sem "óendanlegt" er ekki nein ákveðin tala þá telst það ekki reiknanleg niðurstaða og jafnan er því óskilgreind á slíku x-gildi. Rétt eins og línurit sem lýsir útþenslu á blöðru sem blásin er upp dugar ágætlega til að lýsa því sem er að gerast, þá er jafnframt engin leið að framlengja línuna lengra en að þeim punkti þar sem blaðran springur. Eftir það dugar línuritið ekki lengur til að lýsa atburðarásinni, hvað þá skilja hana til hlítar. Stafar þetta m.a. af því að gúmmí er náttúrulegt og þ.a.l. óreglulegt efni og þegar blaðran skyndilega springur breytist staða kerfisins svo hratt að útkoman skömmu seinna er afar viðkvæm fyrir þessum margslungnu upphafsskilyrðum. M.ö.o. þá verður kerfið óreiðukennt (chaotic) um leið og fyrsti punkturinn á yfirborði blöðrunar hefur tognað umfram þanþol sitt. Þetta þekkja allir sem hafa sprengt blöðu og vita að þá er mjög ófyrirsjánlegt nákvæmlega hvernig (og jafnvel hvenær) hún sundrast eða í hvaða áttir gúmmítæjurnar þeytast. Fyrir utan það að vera óreiðukennt, hávært og jafnvel skemmtilegt, þá getur þetta auðvitað líka haft mjög slæmar afleiðingar, sérstaklega ef þú ert eins og lítill maur sem býr á yfirborði blöðrunnar í þann mund sem hún springur!

Meira um þetta á heimasíðu The Singularity Institute for Artificial Intelligence.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þú hafa áhugaverða skoðun á umheiminum. Ég sé hann miklu minni, eiginlega bara eins og heimili með nokkrum sprækum krökkum. Í dag finnst mér heimurinn eins og hjá skilnaðarforeldrum sem vilja halda friðinn en geta ekki annað en tekist á.

Kveðja, Káta

Káta (IP-tala skráð) 19.8.2008 kl. 03:16

2 identicon

Vá, þú ert kominn í bookmarks hjá mér!  Mjög gaman að lesa frá þér   

Bestu kveðjur 

Ásta 

Ásta (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband