"Öryggisverktakar", málaliðar, drápsiðnaður

Ég má til með að tjá mig um þetta fyrirbæri sem kallast í ameríku "öryggisverktakar", en það er hugtak sem var eiginlega fundið upp í tengslum við "stríðið" gegn hryðjuverkum. Eins og glöggir skilja er þetta ekkert annað en fínt orð yfir einkavæddan hernað þar sem bardagamennirnir eru málaliðar eins og það heitir á mannamáli. Eins og aðrir "verktakar" hljóta þeir að gera ráð fyrir hagnast af starfsemi sinni, sem er auðvitað viðbjóðslegt að skuli vera til sem atvinnugrein. Ef áherslan liggur í gróða, og það með vopnavaldi, hvað verðum þá um hluti eins og mannréttindi og önnur siðferðisleg gildi?

Tilgangur þeirra á víst að vera að sinna öryggisgæslu, en hvaða munur er á hlandi og skít í miðri borgarastyrjöld? Þeir eru svosem álíka vel vopnaðir og hermennirnir sjálfir og a.m.k. jafn vel þjálfaðir, hafa sumir eflaust þegar fengið reynslu "á vígvelli" t.d. gegn "uppreisnarmönnum og skæruliðum" í einhverri borgarastyrjöldinni, svo ekki sé nú minnst á Black-ops.  Ólíkt venjulegum hermönnum hafa svona málaliðar nefninlega nóg að gera líka á "friðartímum", þökk sé ýmsum glæpasamtökum og ekki síst leyniþjónustum.

Mögulega eru þeir þarna til að passa hermennina, þeir eru jú margir nánast barnungir og veitir kannski ekki af. Ég þekki reyndar örlítið til hermanns sem er í Írak og skilst að ástandið sé þannig að þeim sé varla hleypt út því það sé of hættulegt. Með fullri virðingu fyrir aðstæðum þeirra, þá hlýtur maður samt að spyrja sig hvaða tilgangi það þjóni þá að vera þar fyrst það er greinilega "of" hættulegt, og eru ekki öll stríð svosem í eðli sínu hættuleg?!

Svona einkaherir hafa þó ýmsar hliðar sem eru kannski ekki mikið auglýstar, en geta komið "að góðum notum" á svæðum þar sem ríkir hvort eð er lögleysa. Í Írak starfa þeir t.d. í lagaumhverfi sem er smíðað af leppstjórnarútibúi Bush & co., og þar sem þeir eru utan Bandaríkjanna eru þeir líka utan bandarískra laga svo lengi sem það þjónar hagsmunum í Washington. Í Afganistan starfa þeir m.a. á svæðum þar sem ríkir svo mikil spilling að hægt er að komast upp með nánast hvað sem er með því að múta réttum aðilum o.s.frv. Sum þessara fyrirtækja eru á snærum leyniþjónustustofnana og eru fengin í ýmis "sérverkefni" sem ekki er skýrt frá í smáatriðum, en dæmi eru sögð vera allt frá vopnasmygli til fangaflutninga og þaðan af verra. Það er kannski ekki langsótt að láta sér detta í hug að einhver þeirra séu jafnvel sk. "skúffufyritæki" sem leyniþjónustur beita gjarnan í leynilegum tilgangi, og minni ég í því sambandi á ólöglegt millilandaflug slíkra fyrirtækja með fanga á vegum CIA sem komust í hámæli á síðasta ári og hafa verið staðfestar margoft af áreiðanlegum heimildum.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð hér um virðingu ráðamanna þarna vestra fyrir mannréttindum eða réttara sagt skort þar á (dæmi), hvað þá siðferðiskennd þarlendra fyrirtækja sem oft á tíðum virðist hreinlega ekki vera til staðar. Þessar staðreyndir ætla ég ekki að rekja nánar, en ég held að hver sá skyni borni maður sem veltir þessu fyrir sér hljóti að komast að þeirri niðurstöðu að það sé afar slæm hugmynd að etja amerískum einkafyrirtækjum út í vopnuð átök í miðri borgarastyrjöld. Ef svo ólíklega vill til að Ísland nái kjöri í Öryggisráð SÞ, þá myndi ég vilja sjá þann vettvang notaðan til að mótmæla slíku framferði til jafns við annan ósóma, og að leitað verði leiða til að stemma stigu við þessari óheillaþróun. Það er ekki í lagi að sum ríki komist upp með að vaða um á skítugum skónum í öðrum löndum með hvaða vitleysu sem þeim dettur í hug. Ekki heldur þó það sé sagt vera í nafni "frelsis" eða annar óljósra markmiða sem eru góðra gjalda verð, en hafa því miður verið gengisfelld allmikið í upprunalandinu með spunakenndum málflutningi, útúrsnúningum, blekkingum og glæpsamlegu framferði af ýmsu tagi.


mbl.is Starfsemi Blackwater til rannsóknar í tveimur ráðuneytum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

svona"fyrirtæki" hafa líka staðið fyrir mansali og allskyns ólýsanlegum horror, auk manndrápanna. virkilega sjúkt og það versta að þetta sé leyft og stutt af Bandaríkjastjórn - og vinum þeirra by association

halkatla, 28.9.2007 kl. 00:42

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Var að horfa á fréttaskýringar af þessu frá Reuters, og sem betur fer virðist að Demókratarnir séu a.m.k. að taka hart á þessu núna í þingnefndunum og vonandi að þeir fylgi því eftir alla leið. Maður veit reyndar aldrei, eins og allt í amerískum stjórnmálum gæti það svosem verið bara plat... *hósthóst*...

Guðmundur Ásgeirsson, 3.10.2007 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband