Ekki fyrsta íslenska rapplagið

Helgi Björnsson söngvari var í viðtali í morgun í þættinum Ísland vaknar á útvarpsstöðinni K100. Þar var einkum rætt um fyrirhugaða sextugsafmælistónleika og af því tilefni skautað létt yfir feril söngvarans. Meðal þess sem þar kom fram var sú fullyrðing að lagið Toppurinn (að vera í teinóttu) sem Helgi söng með hljómsveitinni Síðan skein sól hafi verið fyrsta rapp­lagið sem var gefið út á Íslandi.

Við ofangreinda fullyrðingu er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi verður að teljast í besta falli umdeilanlegt hvort flokka megi umrætt lag sem rapp. Hörðustu rappáhugamenn myndu tæplega samþykkja það og gætu bent á að þó í laginu sé fönkaður raftaktur og textarnir rímaðir dugar það ekki til þess að tónsmíð flokkist sem rapp, heldur þarf fleira að koma til. Í öðru lagi og burtséð frá þeirri flokkun, virðist sú fullyrðing ekki standast nánari skoðun að rapptónlist hafi ekki verið gefin út hér á landi fyrr en með þessu lagi.

Á vefnum Glatkistan má nefninlega lesa um hina goðsagnakenndu rappsveit Tennurnar hans afa, sem var starfandi á árunum 1988-1995. Sveitin gaf árið 1991 út hljóðsnælduna Dömur mínar og herrar, látið eins og heima hjá ykkur, með 10 rapplögum. Sum laganna svo sem La barna og Ég er kinky vöktu athygli fyrir það sem á þeim tíma þóttu klámfengnir textar, en sem fáir myndu sennilega kippa sér upp við í dag og yrði frekar litið á þau sem gamanvísur. Síðarnefnda lagið var svo notað í kvikmyndinni Veggfóður og kom það út á samnefndri plötu með tónlist úr myndinni árið eftir eða 1992.

Sama ár eða 1992 kom lagið Toppurinn út á smáskífunni S.S.Sól (hver man ekki eftir smáskífum á geisladiskum?) og ári seinna eða 1993 á breiðskífunni SSSól. Þannig er ljóst að það var hvorki fyrsta rapplagið sem var gefið út á Íslandi né það fyrsta sem var flutt á íslensku. Þvert á móti fæst ekki betur séð en að Tennurnar hans afa eigi þann heiður, nema mér skjátlist og einhverjir aðrir hafi verið enn fyrri til að gefa út rapp hér á landi.

Það er samt eitthvað svo séríslenskt og krúttlegt við það að sextugur söngvari annálaðrar sveitaballahljómsveitar telji sig hafa verið fyrstan til að gefa út rapp hér á landi, að maður verður eiginlega að gefa honum prik fyrir viðleitnina. :)


mbl.is Helgi stóðst prófið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ertu tónlistarlega geldur Guðmundur minn? Ertu ekki viss hvort "Toppurinn að vera í teinóttu"sé rapplag!?   En er þá snælda sama og smáskífa á geisladiski?  Eins og topp-menn á K100,skautaði ég létt yfir færsluna þína.

Helga Kristjánsdóttir, 11.4.2018 kl. 15:52

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Helga, ég er vonandi ekki tónlistarlega geldur. Hef fylgst með raftónlist og rappi allt frá því slík tónlist hóf fyrst að heyrast í menntaskólaútvarpi hér á landi, og stjórnaði meira að segja slíkum þætti einu sinni. Byrjaði svo að dútla við rafrænar tónsmíðar á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar og var meðal vinningshafa Núlistarverðlauna Músíktilrauna árið 1998, sama ár og fyrst voru veitt sérstök verðlaun fyrir rapp. Ég tel mig því hafa eitthvað til málanna að leggja þegar slík tónlist er annars vegar.

Snælda og geisladiskur er vissulega ekki það sama, en Veggfóður kom út á geisladiski árið 1992. Ég man vel eftir því þar sem ég átti eintak af honum, sem hvarf reyndar síðar í einhverju teiti.

Og nei, sveitaballatónlist verður ekki sjálfkrafa rapp við það eitt að nota trommuheila í stað trommuleikara.

Takk fyrir að skauta létt yfir færsluna, góðar stundir. :)

Guðmundur Ásgeirsson, 11.4.2018 kl. 16:25

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvernig skilgreina menn rapp-kaflann í laginu Limbó-rokk-tvist, sem var gefið út árið 1964 og sýnt í Sænska sjónvarpinu 1966?

Útsetjarinn, Ólafur Gaukur, var raunar af gamla skólanum og fór aðeins aðra leið í undirspilinu en ég hafði lagt upp með og rappkenndara. 

Sænskir sjónvarpsgrínarar töldu reyndar á sínum tíma, að lagið fæli í sér fyrsta brake-dansinn, sjá Youtube. 

Ómar Ragnarsson, 12.4.2018 kl. 22:11

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir skemmtilega ábendingu.

Ómar Ragnarsson - Limbo Rock Twist

Á þessum tíma var líklega ekki búið að finna upp á heitinu rapp fyrir tónlist. Almennt er "Rappers Delight" með Sugarhill Gang sem kom út 1979 talin vera fyrsta rapp hljómplatan. Þó má alltaf deila um hvort eitthvað eldra en það geti kallast rapp.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.4.2018 kl. 14:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband