Svarið er einfalt: NEI

"Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hef­ur lagt fram fyr­ir­spurn á Alþingi til dóms­málaráðherra í því skyni að reyna að eyða laga­legri óvissu um það hvort umsk­urður á kyn­fær­um drengja sé í raun leyfi­leg­ur."

Svarið við fyrirspurn þingmannsins blasir við: NEI, slíkt athæfi er refsivert.

Ástæðan er sú að athæfið sem um ræðir er beinlínis skilgreint sem líkamsárás í almennum hegningarlögum og líkamsárás er almennt refsiverð, alveg óháð kyni þolandans. Auk þess er öll mismunun á grundvelli kynferðis óheimil samkvæmt stjórnarskránni og því hlýtur refsiverður verknaður sem beinist að einstaklingi af einu kyni að vera jafn refsiverður þó svo að hann beinist að einstaklingi af einhverju öðru kyni.

Punkturinn er sá að kyn þolanda líkamsárásar á ekki að skipta máli.

Út frá þessu má svo velta vöngum um hvað hafi farið í gegnum huga þeirra þingmanna sem samþykktu að setja sérákvæði um limlestingar á kynfærum kvenna í almenn hegningarlög árið 2005. Var þeim kannski ekki kunnugt um að öll mismunun á grundvelli kynferðis væri stjórnarskrárbrot og slík lagasetning yrði því að vettugi virðandi? Þau hafa kannski ekki heldur gert sér grein fyrir því að til er fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karl eða konu heldur eitthvað þar á milli eða jafnvel utan þess ramma.

Þetta tilvik sýnir hversu slæmar afleiðingar ófulkomin lagasetning getur haft í för með sér. Núna 13 árum seinna er sitjandi þingmaður greinilega í óvissu um það hvort ákvæðið gildi fyrir bæði kyn eða ekki, þó svo að það hljóti augljóslega að hafa átt að gilda um bæði kyn frá upphafi. Alþingi Íslendinga þarf að temja sér vönduð vinnubrögð og þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum sem sýna fram á nauðsyn þess.

Alþingismenn þurfa líka að gera sér grein fyrir nauðsyn þess að virða gildandi stjórnarskrá. Ef þeir gerðu það kæmi kannski í ljós að henni er ekki að kenna um hin ýmsu tilvik þar sem hún hefur verið brotin, þó vissulega megi alltaf betrumbæta hana.


mbl.is Vill eyða lagalegri óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Tek undir allt her ad ofan.

Ekki haegt ad orda thetta betur.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 19.9.2018 kl. 02:28

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er lítilfjörleg aðgerð framkvæmd á hentugasta tíma m.t.t. að þetta grói fljótt. Þú virðir hér ekki forræði foreldra né þá staðreynd að víða um lönd er umskurður viss vörn gegn lífshættulegum sjúkdómum.

Jón Valur Jensson, 19.9.2018 kl. 11:40

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Valur.

Í pistlinum hér að ofan var ég ekki að fjalla um afstöðu með eða á móti slíkum aðgerðum, heldur hvað íslensk lög hafa að segja og hvað þau þýða, hvort sem við erum sammála því eða ekki.

Hvort sem mönnum finnst slík aðgerð lítilfjörleg eða ekki, breytir það engu um að athæfið er skilgreint sem líkamsárás og sá verknaður er refsiverður samkvæmt almennum hegningarlögum.

Forræði foreldra getur aldrei veitt þeim heimild til að fremja eða hvetja til líkamsárása gegn börnum sínum. Þvert á móti eru það mannréttindi barna að njóta verndar gegn ofbeldi, svo sem líkamsárásum. Þar með er það um leið skylda foreldra barna að veita þeim slíka vernd að því leyti sem þeim er unnt.

Sú staðreynd að athæfið tíðkist í sumum öðrum löndum breytir engu um íslensk lög, sem eru ólík lögum margra annarra landa, ekki aðeins að þessu leyti heldur í fjölmörgum öðrum atriðum.

Rökin um að þetta sé einhverskonar vörn gegn lífshættulegum sjúkdómum kunna að hafa átt við á einhverjum stöðum á einhverjum tíma í mannkynssögunni. Að sama skapi eiga þau engan veginn við á Íslandi í nútímanum þar sem er fyrir hendi þróað heilbrigðiskerfi og slíkir sjúkdómar eru ekki vandamál við þær aðstæður. Engum hér á landi stafar nein sjúkdómshætta af forhúð sinni, sem ekki er hægt að fyrirbyggja með venjulegu og eðlilegu hreinlæti.

Í þeim fáu undantekningartilvikum sem læknisfræðilegar ástæður útheimta slíkar aðgerðir, eru þær auðvitað heimilar, enda er þá ekki um líkamsárás að ræða. Umfjöllunin hér að ofan snýst alls ekki um þær undantekningar, heldur það sem almennt gildir um lang flest tilvik þar sem slíkar ástæður eru ekki fyrir hendi.

Lögin eru eins og þau eru, hvort sem við erum sammála þeim eða ekki. Það sem ég er helst að gagnrýna hér að ofan er sá klaufaskapur löggjafans árið 2005 að setja kynbundið ákvæði í lög og fara þannig í bága við stjórnarskrárbundið bann við mismunun á grundvelli kynferðis. Ef orðunum "stúlkubarn" og "kona" hefði einfaldlega verið sleppt í ákvæðinu væru réttaráhrif þess þau sömu en gildissviðið ótvírætt. Þá þyrftu hvorki þingkonan sem bar fram fyrirspurnina né aðrir að velkjast í neinum vafa um það þrettán árum seinna, að allar líkamsárásir eru refsiverðar óháð kyni þolandans.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2018 kl. 12:53

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi rök um að þetta sé vörn gegn lífshættulegum sjúkdómum átti ekki aðeins við "á einhverjum tíma í mannkynssögunni", heldur ennþá, eins og fram kom í ræðu bandarísks læknis (víðföruls og mjög fróðs um heilsumál í Afríku) á ráðstefnu um þessi umskurðarmál í Norræna húsinu í vor eða síðla vetrar.

Þetta gildir alveg sérstaklega í Afríkulöndum. En ef þar verður umskurður bannaður, er eins víst, að HIV-sýkingartilfellum mun fjölga, og það gefur að skilja, á tímum þjóðflutninga, að það verður þá ekki einkamál Afríkumanna.

Jón Valur Jensson, 19.9.2018 kl. 16:13

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Íslensk lög gilda á íslandi, en ekki í Afríku.  Og þá menn megi tálga hvern annan þar, hvort heldur í þeim tilgangi að þóknast einhverjum guðum, af meintum heilsufarsástæðum eða bara sér til skemmtunar er auka-atriði.

Ólöglegt hér þýðir ólöglegt hér.

Ef þetta væri öðruvísi þá mættum við frjálslega fyljga hér þýzkum umferðarlögum og skattalögum í Lúxemborgar og þar fram eftir götunum eins og okkur litist best á.

Væri töff, en heimurinn virkar ekki þannig.

Ásgrímur Hartmannsson, 19.9.2018 kl. 17:13

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Afríka nútímans er vissulega ákveðinn staður og tími í mannkynssögunni. Umfjöllunin hér að ofan snýst samt alls ekki um hvort og hvernig þeir sem þar búa haga sínum málum, heldur var ég einfaldlega að lýsa aðstæðum hér á Íslandi, sem eru gjörólíkar. Smitsjúkdómar í Afríku verða augljóslega aldrei stöðvaðir með því að fremja líkamsárásir á Íslandi og það eru því engin rök fyrir neinu að vísa til þess. Það helsta sem við getum gert til að hjálpa þeim með slíkt er að veita þróunaraðstoð.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2018 kl. 17:51

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta er engin líkamsárás, mun vægara en kirtlataka.

Og þetta hefur aldrei verið ólöglegt hér.

Nice try, though, you get 2 for trying!

Jón Valur Jensson, 19.9.2018 kl. 18:18

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lastu ekki færsluna Jón Valur?

Athæfið er skilgreint sem líkamsárás í almennum hegningarlögum og hefur verið það frá árinu 2005. Líkamsárás hefur verið refsiverð lengur en Ísland hefur verið fullvalda.

Ekki "nice try" heldur "fail".

Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2018 kl. 19:20

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nice fail, then!

En þetta er EKKI "líkamsárás", ekki frekar en fjarlæging á vörtu, kirtlataka eða brjóstnám. Þetta er aldrei gert án samþykkis foreldranna.

Jón Valur Jensson, 19.9.2018 kl. 20:38

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Getur þú kannski birt skilgreininguna þína á líkamsárás Guðmundur og úr hvaða lögum hún er tekin?

Þorsteinn Siglaugsson, 19.9.2018 kl. 20:38

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Alveg sjálfsagt Þorsteinn, mér sýnis JVJ ekki veita af smá skammti af beinhörðum staðreyndum.

Almenn hegningarlög nr. 19/1940 - 218. gr. a.

Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Nú hefur árás í för með sér stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlýst af, eða hún telst sérstaklega vítaverð vegna þeirrar aðferðar sem notuð er, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum. 1)
    1)L. 83/2005, 3. gr.

Vonandi hélduð þið ekki að ég væri að skálda þetta...

Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2018 kl. 22:22

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er ekki skilgreining á líkamsárás Guðmundur. Ég spyr aftur, hvaða skilgreiningu á líkamsárás byggir þú á?

Þorsteinn Siglaugsson, 19.9.2018 kl. 22:55

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hún kemur fram á svipuðum slóðum í sömu lögum.

"Þar má lesa út úr greinum 217 til 219 að líkamsárás teljist það þegar maður ræðst vísvitandi á annan mann og veldur honum tjóni á líkama eða heilbrigði, hvort sem um ásetning eða gáleysi er að ræða, og hljóti maður fyrir það þriggja ára fangelsi eða sektir ef um sérstakar aðstæður er um að ræða. Refsing fer síðan eftir því hversu alvarlegt tjónið er."

Vísindavefurinn: Hver er lögfræðilega skilgreiningin á líkamsárás?

En umfjöllunin í pistlinum hér að ofan snerist alls ekki um þessa skilgreiningu á hugtakinu líkamsárás, heldur á athæfinu sem lýst er í 218. gr. a: "veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti". Þar er þetta tiltekna athæfi skilgreint sem líkamsárás. Í greinargerð með frumvarpi til viðkomandi laga er m.a. vísað til fyrrumræddrar 218. gr. sem má e.t.v. kalla almenna líkamsárásarákvæðið. Þar sem athæfið er skilgreint sem líkamsáras leiðir af sjálfu sér að verknaðarlýsing þess telst vera ein tegund líkamsárasar.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2018 kl. 23:26

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, þetta er reyndar ekki þannig að í þessari 218 grein sé athæfinu lýst sem líkamsárás, heldur að það sé framið með líkamsárás. Það er tvennt ólíkt. Ef lög banna að drepa mann með hnífi er það ekki þar með skilgreining á hnífi.

Ég reikna með að skilgreiningin sem þú tekur af Vísindavefnum sé rétt. En þá verður þú líka að athuga að þetta er mjög almenn og í raun frekar óljós skilgreining sem má túlka á ýmsa vegu. Það lítur þó út fyrir að til að eitthvað teljist líkamsárás þurfi það að valda þolandanum heilsutjóni. Ég efast því stórlega um að umskurn drengja myndi teljast líkamsárás í skilningi þessara laga, enda liggur ekkert fyrir um að hún valdi neinu heilsutjóni.

Þorsteinn Siglaugsson, 19.9.2018 kl. 23:35

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vissulega er skilgreiningin almennt orðuð, en það er vegna þess að þegar hegningarlögin voru samin var gert ráð fyrir því að hugtakið þarfnaðist ekki mikilla skýringa þar sem það væri alkunnugt. Af því leiðir að þar sem lögunum sleppir tekur einfaldlega orðabókin við hvað varðar skilgreiningar á hugtökum.

líkams-árás H árás (á mann) sem gæti valdið líkamsmeiðingum.

 - Orðabók menningarsjóðs 1990

Hér er eiginlegt tjón ekki einu sinni talið vera nauðsynlegur þáttur skilgreiningarinnar, enda geta sum hættubrot verið refsiverð jafnvel þó ekkert tjón hljótist af, og sama gildir um tilraun.

Öll skerðing lifandi vefja getur talist líkamstjón og sé tjónið varanlegt er það jafnan talið alvarlega en tímabundið líkamstjón. Tökum sem dæmi að eyrnasnepill sé bitinn af manni í áflogum. Sárið grær fljótt en lýti hlýst af sem maðurinn þarf að lifa með alla tíð. Það væri klárlega líkamsárás og skiptir þá engu hvort hann hafi þjáðst mikið eða lítið, jafnvel þó hann hefði verið meðvitundarlaus af lyfjanotkun teldist það samt líkamsárás. Þar sem afleiðingarnar eru varanlegar telst árásin mun alvarlegri en ef ekki hefði verið bitið alveg af heldur aðeins komið sár sem grær um heilt.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.9.2018 kl. 23:55

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nú hefurðu alveg málað þig út í horn, karlinn minn.

Jón Valur Jensson, 20.9.2018 kl. 01:41

17 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nú, jæja, ef öll skerðing lifandi vefja er líkamstjón þá er til dæmis kirtlataka líkamstjón. Líka botnlangataka. Göt í eyru eru líka líkamstjón samkvæmt þessari skilgreiningu. Hvort klipping á hári og nöglum fellur undir þetta líka veit ég ekki, enda ekki viss hvort þetta teljast lifandi vefir. En það er þó líklegt. Rakarar mega nú vara sig á Guðmundi Ásgeirssyni!

Þetta er sumsé ekki jafn einfalt mál og þú vilt vera láta Guðmundur. Þú verður bara að sætta þig við það held ég.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.9.2018 kl. 09:03

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég sagði að öll skerðing "getur talist líkamstjón". Það er alls ekki fortakslaus fullyrðing, frá henni eru undantekningar.

Flest tilvikin sem þú nefnir Þorsteinn, eru ekki líkamsárás. Til að mynda botnlangataka og kirtlataka ef slíkar aðgerðir eru framkvæmdar af læknisfræðilegri nauðsyn, er það ekki líkamsárás. Klipping á hári og nöglum ekki heldur, ef hún fer fram með samþykki þess sem óskar eftir snyrtingunni. Ef slíkt samþykki skortir horfir það þó öðruvísi við. Götun á eyrum mál deila um hvort sé réttlætanlegt þegar um ung börn er að ræða en ef þau hafa náð aldri og þroska til að veita samþykki fyrir því er það ekki líkamsárás.

Vissulega er þetta ekki klippt og skorið (pun intended) en það er lögfræði sjaldnast, því ef allt væri klippt og skorið í lögum þyrftum við ekki háskólamenntaða og vottaða sérfræðinga til þess að skera úr um þau tilvik þar sem vafi er fyrir hendi.

Jón Valur, málningin er þurr.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2018 kl. 11:11

19 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, við erum þá líklega bara sammála um það Guðmundur að vera ekkert að reyna að svara þessari spurningu en leyfa dómstólum að fást við það, ekki satt?

Þorsteinn Siglaugsson, 20.9.2018 kl. 15:29

20 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mikið rétt, það er einmitt hlutverk dómstóla.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2018 kl. 17:08

21 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hér sýnist mér að fyrirbærin útúrsnúningar og orðhengilsháttur hafi verið teygð á ystu nöf í tengslum við hugtakið: "líkamsárás".
Samanburður umskurðar við læknisaðgerðir á borð við kirtlatöku og botnlanga er auðvitað sömuleiðis litlu skárri en ályktun ónafngreinds alþingismanns um teygjanlegt hugtak.

Barn er umskorið vegna trúarlegrar skoðunar FORELDRIS og verður að sitja uppi með líkamlega áverka.
Umskurður er að minni hyggju öllum heimill sem þess óska eftir að þeir eru orðnir lögráða. Það er dálítið íþyngjandi túlkun á forræði foreldra yfir barni ef það kæmi í ljós í úrskurðum dómstóla á ákæru sonar á hendur foreldrum vegna þessa tilgreinda verknaðar, að barni sé það óviðkomandi til æviloka hvað foreldrar láti fjarlægja eftir fæðingu af eðliegum líkamshlutum þess.

Árni Gunnarsson, 20.9.2018 kl. 17:45

22 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Munurinn liggur í því hvort um er að ræða læknisfræðilega nauðsyn. Sé hún hvorki fyrir hendi né fulnægjandi samþykki (sem ómálga börn geta aldrei veitt) þá er um líkamsárás að ræða. Það er ekki útúrsnúningur heldur einfaldlega lagaleg skilgreining.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2018 kl. 18:05

23 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er hjartanlega sammála og þykir stórundarlegt að það geti orðið ágreiningsefni.

Slæmt að mér sýnist þú hafa misskilið orð mín og ályktanir um orðhengilsháttinn Guðmundur.

Þeirri ályktun var svo sannarlega beint til viðfangsmanna þinna sem sáu sig neydda til að grípa til hans.

Árni Gunnarsson, 20.9.2018 kl. 20:01

24 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Enmitt, takk fyrir innlitið Árni.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2018 kl. 20:02

25 identicon

Hvernig bregst dómskerfið við, ef fullorðinn einstaklingur kærir foreldra sína fyrir að hafa umskorið sig, af trúarástæðum, þegar hann var ómálga ungabarn?  Er hægt í dag að leggja fram kæru vegna þessa?

Jóhannes (IP-tala skráð) 20.9.2018 kl. 22:39

26 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Jóhannes.

Þetta er góð spurning, sem er þó erfitt að svara því aldrei virðist hafa reynt á þetta ákvæði fyrir dómstólum frá því að Alþingi samþykkti það sem lög þann 24. maí 2005.

Þú spyrð hvort hægt sé að leggja fram kæru í dag vegna slíks verknaðar. Almennt má svara því þannig að það fer eftir því hvort verknaðurinn var framinn fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 83/2005 við birtingu þeirra í stjórnartíðindum 9. júní 2005.

Ástæðan er sú að refsilög geta aldrei haft afturvirk áhrif. Það þýðir að ef verknaðurinn var framinn fyrir umrætt tímamark, þá var hann ekki refsiverður, en hafi hann verið framinn eftir það tímamark ætti að vera hægt að leggja fram kæru.

Þetta er þó ekki tæmandi svar heldur byggist það eingöngu á því sem ráða má af framangreindri lagasetningu. Á hinn bóginn má alveg velta því fyrir sér hvort önnur eldri lög geti óbeint leitt til þess að athæfið hafi verið ólöglegt á þeim tíma sem það var framið. Til að mynda dettur mér í hug að Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur árið 1994 hér á landi, en í honum gætu verið ákvæði sem hugsanlega mætti styðjast við. Ég treysti mér þó ekki til að fullyrða án frekari skoðunar hvort slík rök gætu náð fram að ganga fyrir dómstólum því þá myndu vegast á réttindi þess sem var misgert við gagnvar þeim sem framdi verknaðinn á þeim tíma í góðri trú um að hann væri þá refsilaus.

Ég vona að þetta sé nægilegt svar fyrir þig.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2018 kl. 23:18

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

 Nú tekur nýrra við: Guðmundur farinn að ýja að því, að Mannréttindasáttmáli Evrópu banni umskurð drengja og geri "brotlega" foreldra þeirra ábyrga. Með þessu veifar hann refsivendi laganna yfir að minnsta kosti tugum milljóna Gyðinga- og múslimahjóna, og geri aðrir betur!!

Jón Valur Jensson, 21.9.2018 kl. 03:23

28 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Valur. Fyrra svarið mitt var ætlað Jóhannesi.

Vinsamlegast ekki oftúlka það sem ég nefndi um MSE, ég fullyrti ekkert í þá veru. Íslensk lög gilda á Íslandi. Það vill svo til að MSE var reyndar lögfestur á Íslandi árið 1994.

Guðmundur Ásgeirsson, 21.9.2018 kl. 04:58

29 Smámynd: Óli Jón

Jón Valur skrifar: "Þessi rök um að þetta sé vörn gegn lífshættulegum sjúkdómum átti ekki aðeins við "á einhverjum tíma í mannkynssögunni", heldur ennþá, eins og fram kom í ræðu bandarísks læknis (víðföruls og mjög fróðs um heilsumál í Afríku) á ráðstefnu um þessi umskurðarmál í Norræna húsinu í vor eða síðla vetrar.

Þetta gildir alveg sérstaklega í Afríkulöndum. En ef þar verður umskurður bannaður, er eins víst, að HIV-sýkingartilfellum mun fjölga, og það gefur að skilja, á tímum þjóðflutninga, að það verður þá ekki einkamál Afríkumanna."

Það sem hann veit og kýs að horfa fram hjá er að kaþólska kirkjan er ábyrg fyrir óteljandi fjölda HIV-smitaðra með einarðri og fáránlegri andstöðu við notkun smokksins. Myndi kaþólska kirkjan sjá að sér í þessum málum myndi nýgengi smits hríðfalla um leið.

En það er með þetta eins og að taka til alvöru aðgerða gegn kerfisbundinni yfirhylmingu með kynferðislegri misbeitingu kaþólskra presta gagnvart börnum; það er ekki að fara að gerast í bráð.

Óli Jón, 22.9.2018 kl. 14:46

30 Smámynd: Jón Valur Jensson

Miklar og harðar ráðstafanir kaþólsku kirkjunnar gegn því, að prestar geti misnotað börn, eru svo sannarlega í gangi og hafa verið frá tíma Jóhannesar Páls 2. og Benedikts páfa 16, einkum með því að beita SÍUM gagnvart þeim sem fá að hefja prestsnám og með hröðu eftirliti. Barnaníð er því trúlega mun minna meðal kaþólskra nútímapresta en margra annarra starfsstétta.

Svo leyfir kirkjan hjónum, þar sem annað hvort þeirra er með HIV-smit, að nota smokkinn. Ógiftir lausríðandivoru hins vegar ekki líklegir til að fara eftir banni kirkjunnar við kynmökum utan hjónabands.

Jón Valur Jensson, 22.9.2018 kl. 16:18

31 Smámynd: Jón Valur Jensson

hörðu eftirliti

Jón Valur Jensson, 22.9.2018 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband