Djöfulsins snillingar?

Á vísi birtist frétt sem lítið ber á og ólíklegt verður að teljast að mbl.is muni endurflytja. Fréttin er hinsvegar stórmerkileg, ekki aðeins vegna staðreynda sem þar koma fram heldur þess sem hægt er að lesa milli línanna án mikillar fyrirhafnar. Við sögu koma alls 17,5 milljónir króna sem renna frá þremur af þekktari andlitum hrunverjaelítunnar til félags í eigu umdeilds manns sem er í hugum margra einn af helstu holdgervingum hrunadansins. Inn í þetta fléttast svo nafn annars mun yngri manns sem er einnig umdeildur en af allt öðrum ástæðum.

Vísir - Baldur, Ármann og Kjartan nýir eigendur

Baldur Guðlaugsson, fyrrum ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Ármann Þorvaldsson, fyrrum forstjóri Kaupþing Singer&Friedlander, skráðu sig fyrir hlutafjáraukningu í BF-útgáfu um miðjan september síðastliðinn. Öld ehf., félag í eigu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, var áður eini eigandi útgáfunnar. Öld á nú helmingshlut.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Fyrirtækjaskrá barst í lok nóvember 2011. BF-útgáfa, sem gefur út undir heitunum Bókafélagið og Almenna bókafélagið, gaf út 20 bækur í fyrra. Á meðal þeirra voru bækur eftir Egil Gillz Einarsson og tvo eigendur útgáfunnar, þá Ármann og Hannes Hólmstein.

Hlutafé BF-útgáfu var hækkað úr 500 þúsund í eina milljón króna að nafnvirði. Baldur skráði sig fyrir 250 þúsund króna hlutafé á genginu 40. Hann greiddi því 10 milljónir króna fyrir. Ármann keypti 50 þúsund að nafnvirði á genginu 40 og greiddi tvær milljónir króna fyrir. Kjartan keypti 200 þúsund að nafnvirði á genginu 27,5 og greiddi 5,5 milljónir króna fyrir. Nýju eigendurnir settust í kjölfarið í stjórn útgáfunnar. Skoðunarmaður hennar er síðan fjórði eigandinn, Hannes Hólmsteinn.

Eini fasti starfsmaður BF-útgáfu er framkvæmdastjórinn Jónas Sigurgeirsson. Hann var yfirmaður samskiptasviðs Kaupþings fyrir hrun. - þsj

Varla er hægt að hugsa sér safaríkari frétt af eins hversdagslegum hlut og bókaútgáfu. Bækur eftir þá félaga Gillz og Hannes Hólmstein munu varla seljast í svo mörgum bílförmum í viðbót að þar sé gríðarleg hagnaðarvon. Arðsemikröfu þessa viðskiptafæris hlýtur því að vera fullnægt með einhverjum öðrum hætti en beinum tekjum af útgáfustarfseminni sjálfri. En hvernig þá?

Bókaútgáfa getur vissulega verið liður í víðtækari markaðssetningu, sem felst í því að ákvarðanir útgefanda ráða því hverskonar hugmyndafræði er á borð borin fyrir lesendur. Slík hugmyndafræði getur jafnframt þjónað ákveðnum tilgangi sem er ekki endilega víst að sé augljós, en sé hægt að hafa af ávinning af slíku er mögulegt að þannig sjái menn fyrir sér að láta viðskiptaáætlunina ganga upp.

En að öllum samsæriskenningum slepptum, þá er auðvitað líka til í dæminu að þessir herramenn hafi einfaldlega ekkert lært frá fyrri árum um gæði fjárfestinga. Eða jafnvel að langur og þyrnum stráður ferill í viðskiptalífinu hafi aðeins verið hliðarspor frá þeirra sönnu ástríðu: bókmenntum. Slík saga væri svo sem alveg efni í góðan reyfara, sem Hannes gæti skrifað og þeir félagar svo gefið út í sameiningu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband