Bankar brjóta lög um neytendalán

Á fréttasíðunni Gagnauga.is má lesa um hvernig: Bankarnir viðurkenna að húsnæðislán brjóti gegn lögum um neytendalán

Vitnað er í Morgunblaðsgrein frá 6. Október 1993 þar sem segir:

BANKAR og sparisjóðir hafa ekki getað keypt afborgunarsamninga sem gerðir hafa verið frá mánaðarmótum vegna þess að þeir standast almennt ekki upplýsingaskyldu nýrra laga um neytendalán. Ef fyrirtækin ætla að selja þessi viðskiptaskjöl verða þau að láta reikna út kostnað við lántökuna og mánaðarlegar afborganir og leita lántakendurna aftur uppi til að kynna þeim upplýsingarnar á formlegan hátt.

Stefán segir að í lögunum séu nokkuð stíf skilyrði og geti bankarnir ekki keypt lánssamninga sem fyrirtæki gera við neytendur nema þau séu uppfyllt. Segir hann að svo virðist sem viðskiptalífið hafi sofið á verðinum í þessu máli því frá mánaðarmótum hafi þurft að reka menn til baka með alla nýja lánssamninga. Nýju upplýsingarnar vanti og fyrirtækin hafi heldur ekki keypt sér nauðsynlegar ábyrgðartryggingar vegna skilmála laganna um rétt neytenda til að rifta slíkum samningum. Stefán segir að þetta hafi valdið erfiðleikum hjá mörgum fyrirtækjum sem treystu á rekstrarfjármögnum með greiðri sölu viðskiptaskuldabréfa.

Þarna er í raun viðurkennt að lögin hafi haft eða átt að hafa í för með sér bætta stöðu neytenda gagnvart lánveitendum, en að fjármálafyrirtækjum hafi mistekist að fara eftir þeim. Af þeim sökum var stofnaður starfshópur sem var falið að endurskoða lögin (laga þau til fyrir bankana) og þau voru svo endurútgefin árið eftir í eilítið breyttri mynd.

Um það var fjallað í Morgunblaðsgrein þann 26. júlí 1994:

Helsta markmið laganna var að tryggja að neytandi hefði alltaf upplýsingar um samanlagðan kostnað vegna láns og gæti auðveldlega gert samanburð á sambærilegum grundvelli milli mismunandi lánstilboða. Þannig var upplýsingaskylda lögð á lánveitendur, sem þurftu að sýna skriflega fram á upplýsingar um höfuðstól og útborgun, árlega nafnvexti og lántökukostnað, fjölda greiðslna og upphæð þeirra, auk heildarupphæðar endurgreiðslna. Þá ber lánveitanda að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar og gefa upp vexti, lántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar í auglýsingum um lán og lánafyrirgreiðslu.

Vanti einhver þessara atriða er lánveitandanum mögulega óheimilt að innheimta kostnað vegna þeirra, nema þá í mesta lagi þann sem samræmist upplýsingum á greiðsluáætlun ef hún er undirrituð af lántakanda. Minnist einhver þess að hafa séð lánasamning sem uppfyllir öll þessi skilyrði? Kannast lántakendur við að hafa verið sýnd greiðsluáætlun þar sem gert er ráð fyrir að kostnaður geti hækkað um tugi prósenta á skömmum tíma vegna verðtryggingar?

Lögin voru svo aftur endurskoðuð árið 2000 með lögum nr. 179/2000 og í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar voru gerðar við frumvarpið ýmsar breytingatillögur, meðal annars að útvíkka gildissvið þeirra þannig að þau nái einnig til húsnæðislána, eða eins og segir í nefndaráliti um þessa breytingu:

"Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að f-lið 1. mgr. 2. gr. laganna, sem kveður á um að lánssamningar sem tryggðir eru með veði í fasteign séu undanþegnir lögum um neytendalán, verði breytt þannig að hann taki til lánssamninga sem Íbúðalánasjóður gerir eða annarra sambærilegra fasteignaveðlánasamninga sem gerðir eru vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Við athugun málsins kom í ljós að annars staðar á Norðurlöndunum falla lánveitendur sem veita lán með veði í fasteign til lengri tíma undir ákvæði laga um neytendalán. Ástæðulaust þykir að undanskilja slíka aðila ákvæðum laganna og þeirri skyldu að veita lántakanda upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar af láni. Við meðferð málsins í nefndinni kom í ljós að Íbúðalánasjóður, sem er sá aðili sem gerir flesta lánssamninga vegna öflunar íbúðarhúsnæðis, er ekki mótfallinn því að ákvæði laga um neytendalán taki einnig til slíkra samninga. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin jafnframt til að f-liður 1. mgr. 2. gr. laganna falli brott."

Lögin tóku gildi með þessum breytingum, en undir álitið skrifa: Vilhjálmur Egilsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Einar K. Guðfinnsson, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Gunnar Birgisson og Hjálmar Árnason.

Fréttaumfjöllun Morgunblaðsins frá 1993-4 fjallar um staðfest dæmi þess að fjármálafyrirtæki hafi talist brotleg við skilyrði laga um neytendalán. Miðað við þá húsnæðislánasamninga sem komið hafa fyrir mín augu virðast þau líka hafa átt í basli með að uppfylla sömu skilyrði eftir breytinguna árið 2000 þegar lögin voru útvíkkuð til húsnæðislána. Ýmislegt bendir til þess að slíkt kunni að mynda grundvöll til riftunar þeirra og skaðabótakröfu af hálfu tjónþola (lántakanda).

En afhverju er þá staða lántakenda í mörgum tilvikum svo slæm sem raun ber vitni? Það skyldi þó aldrei vera að hér hafi "eftirlitið brugðist" í enn einu tilfelli? Ljóst er að væri þessum lögum framfylgt af alvöru þá kynni það að bæta verulega stöðu lántakenda frá því sem verið hefur að undanförnu.

Athygli vekur að svo virðist sem í umsögn sinni um lögin hafi Neytendastofa, sem er ætlað að fara með eftirlit með neytendalánastarfsemi, kvartað undan skorti á fjárveitingum til að rækja þá skyldu. Á fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir 186,1 milljóna króna rekstrakostnaði sem virðist ekki nein ofrausn. Til samanburðar er gert ráð fyrir tíföldum þessum kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins, sem hefur lítið gert annað en að standa vörð um fjármálakerfið og reynst neytendum gjörsamlega gagnslaus stofnun.

Rétt er að taka fram að í afar fáum þeirra dómsmála sem að undanförnu hafa fallið lántakendum í vil hefur reynt á lög um neytendalán, málin hafa flest verið dæmd útfrá vaxtalögum þrátt fyrir réttaráhrif EES-samningsins sem leggja þá frumkvæðisskyldu á dómstóla að líta einnig til laga um neytendavernd jafnvel þó þeim sé ekki haldið í frammi í málatilbúnaði af hálfu neytenda. Væri eftir þessu farið gæti það skipt sköpum því íslensk lög kveða á um talsvert víðtækari neytendavernd en víðast í Evrópu.

Þetta lyktar allt af svipaðri skítalykt og iðnaðarsalt, iðnaðarsílikon, kadmíumáburður eða bara sjálf gengistryggingin, sem allir sem kunna að lesa geta núna fullvissað sig um að var allan tímann vitað af innanbúðarfólki að væri ólögleg, sbr. umsagnir samtaka fjármálafyrirtækja, samtaka atvinnurekenda og viðskiptaráðs og greinargerð með frumvarpi til vaxtalaga nr. 38/2001. Ekkert vantar upp á nema að einhver embættismaður skríði fram og yppi öxlum yfir þeim bannsetta klaufaskap að taka ekki eftir því að í áratug eða meir hafi neytendum verið boðin svikin vara.

Í óbeinum tengslum við þetta langar mig loks að vekja á athygli tvennu. Annars vegar stórgóðu viðtali Jon Stewart í þætti sínum Daily Show síðastliðið miðvikudagskvöld, við pistlahöfundinn Joe Nocera sem fjallar um framferði þarlendra fjármálafyrirtækja sem virðist eiga sér sterkar hliðstæður hérlendis. Hins vegar afar áhugaverðum borgarafundi sem haldinn verður í Háskólabíói annað kvöld, mánudaginn 23. janúar. kl. 20:00-22:00 undir yfirskriftinni: Er verðtryggingin að kæfa heimilin?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vá, 27 "Like" en ekki ein einasta athugasemd. Það bendir til þess að mér hafi tekist að grípa hugsanir lesenda án þess að neinu sé við að bæta.

Takk fyrir innlitin og haldið áfram að berjast!

P.S. Var að koma heim frá kraftmiklum og góðum borgarafundi, þar var meðal annars boðað til framhaldsfundar í Grasrótarmiðstöðinni á laugardaginn kl. 13:00 um skuldavanda heimilanna, þar sem meðal viðmælenda verða fulltrúar Hagsmunasamtaka Heimilanna.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2012 kl. 01:44

2 identicon

Heill þér Guðmundur Ásgeirsson

Ég geri róttæka athugasemd um færslu þína, - þ.e. fyrirsögnina.

Þú tekur breytingartillögu mína til þóknanlegrar meðferðar.

Fyrirsögnin þín er:

Er bankarnir brotlegir við lög um neytendalán?

en á að vera 

Bankarnir eru brotlegir við lög um neytendalán

við gætum tekið rispu í gegnum lögin :)

Þökk,

Eygló Yngvadóttir (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 02:02

3 Smámynd: Þorsteinn Guðmundsson

Hvað hefurðu fyrir þér í því að íslensk lög kveði á um víðtækari neytendavernd en lög annarra Evrópulanda ?

Þorsteinn Guðmundsson, 24.1.2012 kl. 12:52

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæl Eygló. Ég hef tekið áskorun þinni og breytt fyrirsögninni.

Á borgarafundinum í gærkvöldi var ágætur maður sem benti á merkilega staðreynd. Í lögum um neytendalán stendur:

12. gr. Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.
Þegar reiknuð er út árleg hlutfallstala kostnaðar skal gera ráð fyrir eftirfarandi:
   1. Ef engin hámarksupphæð er tilgreind í lánssamningi skal hámarksupphæð láns, sem veitt er, teljast 150.000 kr.
   2. Ef ekki er tilgreindur ákveðinn lánstími og ekki er unnt að ráða hann af samningi skal lánstími talinn eitt ár.

Við skulum þá taka rispu í gegnum þessa lagagrein:

Samkvæmt henni á uppgefin lántökukostnaður að fela í sér verðbætur sem miðast við verðlagsforsendur og vexti á lántökudegi. Eins og bent hefur verið á er sjaldgæft að íslenskum lánasamningum fylgi yfir höfuð slíkar upplýsingar, og engin dæmi eru heldur um að neinum viðskiptavinum hafi verið sýnd greiðsluáætlun sem geri ráð fyrir allt að 18,6% verðbólgu.

1. Framkvæmd verðtryggingar í núverandi mynd (hverrar lögmæti er umdeilt) felur í raun í sér mánaðarlega endurfjármögnun með viðbótarláni, sem er ótakmarkað að fjárhæð nema tilgreint sé eitthvað þak á verðbætur í lánasamningi. Leitun er að slíkum samningum hjá neytendum.

2. Lánstími þessarar viðbótarlántöku er ekki heldur tilgreindur, og skal því vera að hámarki eitt ár.

Ergo: Sé ekki tilgreint þak á verðbætur í lánssamningi skal hámarksupphæð höfuðstólsfærðra verðbóta teljast 150.000 krónur sem skuli endurgreiðast ári síðar. En þá virðist heldur ekkert útiloka að heimilt sé að endurlána að nýju upp að þessu hámarki, og jafnvel að gera það mánaðarlega eftir hverja afborgun af þessum lánuðu verðbótum. Með því að útfæra slíkt veltilán gæti lánveitandi þannig haldið skuldinni við þau mörk sem jafngildir í reynd kúluláni að fjárhæð 150.000 krónur sem gjaldfellur í lok lánstímans.

Tökum nú dæmi um hvaða þýðingu þetta gæti haft fyrir algenga tegund láns, til 40 ára á 4,5% vöxtum með samningsákvæði um ótakmarkaða verðtryggingu eins og bróðurpartur íslenskra húsnæðislána.

Þar sem ekkert hámark er tilgreint er það sjálkrafa 150.000 krónur sem má veltilána í 40 ár, og þar sem engir aðrir vextir eru tilgreindir hljóta samningsvextirnir 4,5% að eiga við. Vextir af þessari fjárhæð yrðu þá 0,045x150.000kr./ári*40ár = 270.000 krónur samtals. Í lok lánstímans gjaldfellur svo auðvitað veltilánið þannig að heildarkostnaður lántakanda yrði þá þegar upp er staðið 270.000 + 150.000 = 420.000 krónur.

Nema eitthvað annað verðbótaþak sé tilgreint í samningnum.

Rétt er að taka fram að hámarksfjárhæðin er óháð lánsfjárhæð.

Þetta var fyrsta rispan, en það er líka fleira sem klæjar þarna...

Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2012 kl. 13:29

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þorsteinn: Hvað hefurðu fyrir þér í því

Það sem ég hef fyrir mér í því eru lögin sem ég vísa í.

1994 nr. 121 21. september/ Lög um neytendalán 

...sem voru innleidd hér á landi vegna lögfestingar EES-samningsins.

Samkvæmt reglum ESB er ekki skylt að flokka húsnæðislán sem neytendalán. Samkvæmt íslensku lögunum er það hinsvegar gert, og gildissvið þeirra er þannig umtalsvert víðtækara en víðast annarsstaðar.

Vissirðu að elsta dómafordæmið um neytendasamninga í lagasafni Evrópudómstólsins er frá Íslandi árið 1931?

Ég hvet þig til að lesa þessa ritgerð hérna:

Lokaverkefni: "Af óréttmætum skilmálum í neytendasamningum" eftir Aðalsteinn Sigurðsson [2011] | Skemman

Guðmundur Ásgeirsson, 24.1.2012 kl. 13:43

6 Smámynd: Þorsteinn Guðmundsson

Nei, þetta vissi ég ekki. Takk fyrir svarið !

Þorsteinn Guðmundsson, 24.1.2012 kl. 14:11

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll Guðmundur! Er grasrótarmiðstöðin í Skipholti?

Helga Kristjánsdóttir, 25.1.2012 kl. 02:04

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Helga, Grasrótarmiðstöðin er í Brautarholti 4 (sjá staðsetningu á korti).

Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2012 kl. 06:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband