Hvað þýða þessi viðskipti?

Seðlabankinn, fyrir hönd ríkissjóðs, hyggst kaupa útistandandi ríkisskuldabréf að fjárhæð 130 milljarðar króna. Þetta er restin af þeim erlendu skuldabréfum ríkissjóðs sem falla í gjalddaga á þessu ári og næsta. Bréfin eru í Evrum en til að greiða fyrir þau ætlar Seðlabankinn að nota hluta af 767 milljarða gjaldeyrisforða sínum sem er að mestu fenginn að láni hjá AGS og samstarfsríkjum sjóðsins.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að niðurstaðan geti ekki annað en verið jákvæð. Hann útskýrir að í raun sé um að ræða vaxtamunaviðskipti sem muni skila ávinningi á hvorn veg sem þau fara. Þegar ég heyri svona fullyrðingar hingja viðvörunarbjöllur sjálkrafa. En reyndar fylgir sögunni að þetta hafi verið hluti af hliðaráætlun sem Seðlabankinn hefði gert ef ske kynni að IceSave ríkisábyrgð yrði hafnað. Það er hressileg tilbreyting að Seðlabankinn hafi verið með "Plan B" tilbúið í þetta sinn, ef eitthvað er mun það auka traust og trúverðugleika út á við.

En hvað þýðir þessi gjörningur fyrir íslenskt efnahagslíf? Nú lítur þetta ágætlega út eins og fréttatilkynningin hljómar, en þannig er það nú líka yfirleitt alltaf. Hvaða þýðingu hefur það til dæmis að Seðlabankinn sé að kaupa skuldir ríkissjóðs? Er það ekki bara eins og að færa fé á milli vasa? Er þetta ígildi peningaprentunar? Stendur ríkissjóður uppi skuldsettur gagnvart Seðlabankanum eftir þessi viðskipti? Ef svo er hvert fer þá ágóðinn af þeim vöxtum sem ríkið greiðir Seðlabankanum? Fer hann í vexti sem greiddir eru af innstæðum bankastofnana hjá Seðlabankanum? Eða skilar hann sér aftur til ríkissjóðs sem samfélagsarður?

Ég auglýsi eftir skýringum á mannamáli ef einhvers býðst til að veita þær.

Reyndar ætti það að vera ein af starfsskyldum Seðlabankastjóra.


mbl.is Ríkissjóður býðst til að kaupa erlend skuldabréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hvað tekur AGS uppí skuld þegar ekki verður hægt að borga lánið frá þeim?  Er Már kolvitlaus að fara að eyða AGS láninu í svona? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.4.2011 kl. 23:28

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þarna er í raun bara verið að endurfjármagna erlendar skuldir ríkisjóðs með gjaldeyrisforðanum.  Með þessu sýnist mér að Már hugsi sér að láta Seðlabankann njóta þess vaxtamunar sem er á fjármagni hans til íslenska ríkisins og þess fjármagn sem hann er með í gegn um AGS áætlunina. En í þessu er hinsvegar augljós og mikil gengisáhætta fyrir bankann.

Sennileg er samt rökrétt að Seðlabankinn sé í þannig braski frekar en ríkisjóður.

Guðmundur Jónsson, 18.4.2011 kl. 11:53

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll nafni.

Það er þannig sem þetta er kynnt, að verið sé að skipta einni skuld út fyrir aðra til að fá hagstæðari vexti. Hinsvegar er rétt sem þú segir að þessu fylgir gjaldeyrisáhætta. Hvort það er betra að skulda dollara eða evrur fer í raun eftir því hvor þessara gjaldmiðla þú heldur að verði fyrri til að hrynja. Í tilviki þeirra beggja er það óhjákvæmilegt en bara spurning hvernig tímasetningarnar verða, hvor fellur á undan og hversu langt.

Persónulega finnst mér að hvorki Seðlabankinn eða ríkissjóður eigi að standa í svona braski. Ríkið ætti að fjármagna sig með gjaldtöku af  gjaldmiðilsútgáfunni sjálfri og sköttum ef upp á vantar, en alls ekki með skuldsetningu og aldrei í öðru en sínum eigin fullvalda gjaldmiðli. Ef tímabundnar aðstæður krefjast aukins fjármagns ætti helst ekki að leyfa stjórnmálamönnum að gefa út skuldabréf á skattinn okkar, nema e.t.v. aðeins gegn traustri viðskiptaáætlun sem óháður aðili eins og Ríkisendurskoðun þyrfti að votta. Þar þyrfti að gera grein fyrir því fyrirfram hvernig vaxtagreiðslur af lántökunni verði fjármagnaðar með tekjum af þeirri fjárfestingu sem tekið er lán fyrir, án þess að koma þurfi til aukinnar skattheimtu. Tímamörk slíkrar lántöku ættu enn fremur að miðast við kjörtímabil þess sem ber ábyrgð á lántökunni.

Þeir sem stjórna landinu eiga alls ekki að hafa opna heimild til að borga fyrir kosningaloforð gærdagsins og senda svo reikninginn inn í framtíðina þangað til þeir verða horfnir úr embætti og einhver annar þarf að taka við.

Þetta er hinsvegar það sem við stöndum frammi fyrir í dag, þökk sé mistökum fortíðar. Mér sýnist ekki annað en að þetta tilboð Seðlabankans sé hugsanlega skynsamleg leið til að fást við þann vanda. Það leysir samt ekki grundvallaratriðin sem urðu þess valdandi að þessi staða kom upp. Fyrir hönd IFRI höfum við beint fyrirspurnum til aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands um hvort bankinn ætli að taka einhver þeirra skrefa sem við teljum forsendur nauðsynlegra breytinga til að útrýma grundvallarorsökum þess vanda sem liggur í núverandi fyrirkomulagi peningamála. Svarið sem aðahagfræðingurinn gaf okkur var skýrt og skorinort: "NEI".

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2011 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband