Reikna með 56% endurheimtum

Breska blaðið Sunday Mail fjallar um eftirköstin af IceSave í dag. Í greininni kemur fram nokkuð furðuleg túlkun á málsatvikum, og frjálslega farið með ýmsar staðreyndir. Athygli vekur að þar er því haldið fram að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans upp í kröfu breska ríkisins séu aðeins áætlaðar 56%. Reyndar er ekki alveg ljóst hvernig þessi niðurstaða er fengin, svo rétt er að taka þessu með fyrirvara.

Í fréttinni er fullyrt að einhverjir ónafngreindir sérfræðingar telji eignir þrotabúsins ekki duga fyrir nema 1,3 milljörðum punda af 2,3 milljarða punda kröfu breska fjármálaráðuneytisins. Mismunurinn er 1 milljarður punda eða 56%, en athugið að kröfufjárhæðin sem er tilgreind samsvarar hinsvegar aðeins lágmarkstryggingunni upp að 20.888 Evrum. Þarna er því verið að draga upp frekar skakka mynd af útkomunni því ljóst er að Bretar munu fá miklu meira í sinn hlut úr þrotabúi Landsbankans en sem nemur lágmarkstryggingunni, vegna neyðarlaganna sem veittu kröfum þeirra forgang.

Samkvæmt opinberlega skjalfestum forsendum munu endurheimtur breska fjármálaráðuneytisins af 2,3 milljarða punda kröfu sinni vegna lágmarkstryggingar nánast örugglega verða 100%. Þar að auki eiga þeir kröfu upp á 2,4 milljarða punda í þrotabú Landsbankans vegna viðbótartryggingar sem breska ríkið ábyrgðist, og búist er við að endurheimtur af henni verði 1,9 milljarðar punda eða tæp 80%. Samanlagðar heimtur af öllum kröfum breska fjármálaráðuneytisins vegna IceSave eru þar með áætlaðar 4,2 milljarðar punda eða 89%.

Þetta er hægt að lesa út úr gögnum á vefsíðum fjármálaráðuneytisins og skilanefndar Landsbankans, sem er jafnvel sagt vera varfærið mat, og er augljóslega himinn og haf milli þess og fullyrðinganna í fréttinni. Getur verið að málið hafi ekki verið kynnt nægilega vel fyrir erlendum fjölmiðlum? Eða vita þeir eitthvað meira en kemur fram í hinum opinberu gögnum? Til dæmis hver vegna tilboði um þrotabúið ásamt 250 milljón punda eingreiðslu var hafnað...


mbl.is Verslanir seldar til borga Icesave?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Guðmundur,

Ég hef grun um að þetta hafi verið lítið kynnt.  Það virtist sem að Hollenska fjármálaráðuneytið reiknaði með að EKKERT yrði greitt eftir að samningurinn var felldur!  Af ýmsu sem sást í erlendum fjölmiðlum held ég að margir, jafnvel á Íslandi, hafi talið að verið væri að greiða atkvæði um hvort íslendingar borguðu eða ekki, þ.e. hvort EITTHVAÐ yrði borgað! 

Samningurinn tók í raun aðeins til formsatriða um greiðslur og tryggingar á þessum greiðslum þannig að það var ákveðið greiðsluplan.  Án samningsins fer þetta eftir innheimtum.  Ég held að þessi munur hafi verið lítið eða ekkert kynntur fjölmiðlum af íslenskum stjórnvöldum og svo virðist sem að jafnvel þeir sem komu að samningsgerðinni (t.d. hollenska fjármálaráðuneytið) væri ekki alveg með á nótunum. 

Ég sá líka talsvert fjallað um þessi mál á þennan hátt á Íslandi, þ.e. að það væri verið að greiða atkvæði um hvort ætti eða ætti ekki að greiða þessa peninga til baka.  Þannig virðist mér að laumustefnan verið orðin slík að þjóðin og jafnvel viðsemjendur voru ekki vissir um hvað var verið að semja um;)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 18.4.2011 kl. 01:45

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Á síðari stigum var það aldrei til umræðu hér á landi hvort ætti að borga heldur fyrst og fremst hver ætti að borga. Samkvæmt landslögum og reglum evrópska efnahagssvæðisins er það sjálfseignarstofnunin Tryggingasjóður Innstæðueigenda og Fjárfesta, en ekki íslenskir skattgreiðendur.

Miðað við nýjustu endurheimtuspá mun TIF greiða Bretum og Hollendingum lágmarkstrygginguna að fullu og þrotabúið allt að 80% upp í viðbótartryggingar sem Landsbankinn keypti í Bretlandi og Hollandi og greiddi af iðgjöld þar. Þetta þýðir að bresku og hollensku sjóðirnir þurfa ekki að greiða nema 20% af þeirri fjárhæð sem þeir hafa gengist í ábyrgð fyrir samkvæmt skilmálum trygginganna. Samkvæmt tilhögunn hinna erlendu sjóða eiga þeir að dekka Þennan mismun með innheimtu iðgjalda af öðrum bönkum í viðkomandi löndum, sem enn eru í rekstri (eftiráfjármögnun).

Uppruni 56% tölunnar er hér með orðin gáta vikunnar.

Vinningshafinn hlýtur að launum páskaegg frá Nóa Síríus.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2011 kl. 14:33

3 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Guðmundur,

Þau voru ansi mörg bloggin og facebook póstarnir sem ég las fyrir kosningar, sem héldu þessu fram, þ.e. að það væri verið að kjósa um að borga eða borga ekki;) 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 18.4.2011 kl. 16:15

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Frá sjónarhóli kjósandans snerist þetta vissulega um spurninguna: "Á ég að borga þetta eða ekki?" Það er hinsvegar ekki sama spurningin og hvort Bretar og Hollendingar eigi að fá borgað. Þeir eiga að sjálfsögðu að fá réttmætar kröfur sínar greiddar að mestu leyti úr Tryggingarsjóði Innstæðueigenda (TIF). Hafi einhver haldið öðru fram hefur það verið á misskilningi byggt.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2011 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband