Tillögur að félagslega ábyrgu fjármálakerfi

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs verða afhent í Reykjavík á morgun en þema verðlaunanna árið 2010 er "græn fjármálaumsýsla". Verðlaunin hljóta að þessu sinni þrír norrænir bankar, Ekobanken í Svíþjóð, Cultura Bank í Noregi og Merkur Andelskasse í Danmörku. Sameiginlegt markmið þeirra er "að samræma hefðbundna bankastarfsemi án áhættusækni og markvissa framtíðarsýn um sjálfbærni. Það er einkum áherslan á þessi framtíðarmarkmið sem fulltrúar þessara bankastofnana telja vera gott úrræði fyrir stóran hluta bankaheimsins, sem í raun hefur selt fjármálageiranum sál sína með áherslunni á skammtímaáhættu." - segir í frétt mbl.is

Af þessu tilefni er við hæfi að vekja athygli á því að hér á landi hefur um nokkurra mánaða skeið verið starfandi hópur áhugafólks um úrbætur á fjármálakerfinu. Meðal þeirra markmiða sem hópurinn hefur haft að leiðarljósi eru einmitt sjálfbærni, samfélagsleg ábyrgð og ekki síst sameiginlegur ávinningur samfélagsins í heild. Það er mér sem þáttakanda í starfi hópsins mikil ánægja að þessi gildi séu í hávegum höfð á hinum samnorræna vettvangi, og tel fullvíst að þetta verði okkur mikil hvatning til að halda áfram öflugu starfi.

Hópurinn kynnti fyrstu 10 tillögur sínar að úrbótum á fjármálakerfinu undir heitinu Icelandic Financial Reform Initiative, á blaðamannafundi í Norræna Húsinu þann 6. október síðastliðinn á tveggja ára afmæli bankahrunsins. Það var skemmtileg tilviljun að norrænu bankarnir þrír skyldu halda kynningu á starfsemi sinni á sama stað fyrr í kvöld, meira að segja í sama salnum. Tíu helstu tillögur um úrbætur á fjármálakerfinu ásamt upptöku frá blaðamannafundinum má finna á vefsíðu hópsins: IFRI.is.

Þessa má geta að norrænu verðlaunabankarnir þrír hafa ákveðið að ánafna þriðjungi verðlaunafjárins eða rúmlega 2,4 milljónum króna, til verkefna sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri og félagslega ábyrgri bankastarfsemi á svæðum þar sem skortur er á slíku. Þar á meðal eru Ísland og Finnland.


mbl.is Hluta verðlauna ánafnað til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég var að enda við að lesa yfir atriðin 10 á IFRI.is og lýst mjög vel á þetta, er svo sem enginn hagfræðingur, enda þarf ekkert endilega að hlusta alltaf á þá, þá væri jú engin kreppa.

Þetta með fræðsluna er algjört möst. Ætti að byrja við 12-14 ára aldurinn og halda áfram í gegnum framhaldsskólann, svo að ungt fólk viti hvað orðið lán merkir í raun og veru, hvernig samfélagið er skrúfað saman, til hvers við borgum skatta og fleira í þeim dúr.

Ef ég mætti breyta einu, þá yrði það varðandi lánin. Lán uppá 1.000.000 með 10% vöxtum, ætti að þýða það að maður borgar 1.100.000 eftir lánstíman, hversu langur sem hann er. Venjulegt fólk skilur ekki hvað 10% þýða á endanum og borga bara, fegin að vera búin að skrifa undir. Lenging og stytting á lánstímanum gæti þá verið framkvæmd með nýrri undirskrift. Ef það er ekki nóg fyrir bankana, þá má bara setja 15% á eða 20%.

Persónulega finnst mér það bara asnalegt að það séu rekin fyrirtæki sem stunda viðskipti með peninga og búa ekki til neinn hagvöxt nema í eigin vasa. Leiðinlegt að fólk sem er það vel gefið að geta það, sé ekki að stunda alvöru rekstur sem kemur samfélaginu til góða líka á annan hátt en bara í gegnum skatta af tekjunum.

Spurningin er hvort ESB sinnar séu ánægðir með þetta, því að svona hugarfar gæti styggt "ríkisstjórn" ESB. Og ef við förum inn sem engin heilvita maður ætti að vilja að svo stöddu, þá knýjum við fram alvöru breytingar á efnahagskerfi ESB í gegnum byltingu íbúa aðildarlandanna. Það verður ekki erfitt að fá breskan, grískan og írskan almenning með í það. Reyndar held ég að það verði létt að fá almenning allra landa með í svona byltingu. Nema kannski Norður Kóreu.

H. Valsson (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 19:37

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir innlitið Hörður. Áhugaverðar pælingar hjá þér.

Og nei, þú þarft ekki að vera hagfræðingur til að skilja heilbrigða skynsemi, margir þeirra hafa það meira að segja að aðal starfi að dylja hana á bakvið óhóflegt flækjustig. Slíkt þjónar heldur ekki hagsmunum almennings.

Það eina sem þarf er opið og gegnsætt kerfi með hóflegt flækjustig, almennur grundvallarskilningur á hinu sanna eðli fjármagns og peningasköpunar, sæmilega gott talnalæsi og grundvallar reiknikunnátta. Ef kerfið er ekki að uppfylla þessi skilyrði þá þjónar það ekki tilgangi sínum nógu vel, þetta þurfa ekki og eiga alls ekki að vera nein geimflaugavísindi.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.11.2010 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband