Endurvekjum Glass-Steagall !

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins óskaði eftir því í dag að kerfi yrði sett á laggirnar sem gerir bönkum í vanda kleift að fara í þrot án þess stefna fjármálakerfinu í tvísýnu og neyða skattgreiðendur til þess að bjarga þeim.

Framkvæmdastjórn ESB hefur hug á að auka völd fjármálaeftirlita hvers ríkis fyrir sig með því að veita þeim vald til þess að krefjast þess að fjármálafyrirtæki skipti um stjórnendur...

Jafnframt verði fjármálaeftirlitum gert mögulegt að undirbúa yfirtöku á gjaldþrota bönkum meðal annars með því að færa starfsemi þeirra yfir í einskonar „brúarbanka" til þess að tryggja að starfsemi þeirra raskist ekki.

Þessar hugmyndir eru ágætar og þeim ber að fagna, en þær eru samt alls ekki nýjar af nálinni. Í Bandaríkjunum hefur tryggingasjóður innstæðueigenda (FDIC) haft slíkar heimildir frá því hann var stofnaður með setningu svokallaðra Glass-Steagall laga árið 1933. Með setningu svokallaðra neyðarlaga (nr. 125/2008) á Íslandi vegna fjármálahrunsins haustið 2008 voru Fjármálaeftirlitinu einnig veittar sambærilegar heimildir til að yfirtaka fjármálafyrirtæki og endurskipulegja þau, meðal annars til að verja hagsmuni innstæðueigenda.

Annað sem Glass-Steagall lögin svokölluðu höfðu í för með sér var aðskilnaður fjárfestingabanka frá hefbundinni viðskiptabankastarfsemi, í þeim tilgangi að takmarka hættuna og áhrifin af hruni vegna áhættusamra viðskipta fjármálabraskara. Í þau 66 ár sem Glass-Steagall lögin voru í gildi varð ekkert allsherjar bankahrun í líkingu við það sem varð 1929 og gaf tilefni til lagasetningarinnar. Þessi aðskilnaður var hinsvegar afnuminn með setningu nýrra laga, Financial Services Modernization Act, sem Bill Clinton þáverandi forseti undirritaði árið 1999 fyrir vini sína á Wall Street. Þetta gerði bönkunum á Wall Street kleift að byrja að versla með flókna skuldabréfavafninga sem tryggðir voru með fasteignaveðlánum (MBS). Óvissa sem upp kom um raunverulega samsetningu og gæði slíkra gjörninga er almennt talinn marka upphafið að alþjóðlegu fjármálakreppunni sem nú stendur yfir.

Fyrr á þessu ári fór svo að berast upp á yfirborðið orðrómur sem lengi hefur verið undirliggjandi, um að brögð væru í tafli varðandi fasteignabréfavafningana. Nú er að koma í ljós að svikin ná ekki bara til vafninganna sjálfra, heldur virðast húsnæðislánin sjálf sem liggja þeim til grundvallar, hafa mörg verið veitt með afar vafasömum hætti þannig að þau uppfylla jafnvel ekki þau skilyrði sem sett eru svo að þau teljist hafa lagalegt gildi. Nauðungarsölur á grundvelli þeirra eru jafnvel taldar vera ólögmætar, og hafa mörg ríki og sumir bankar sett ótímabundna frestun á allar nauðungarsölur á meðan verið er að greiða úr óvissunni. Sumir hafa tekið svo sterkt til orða að óvissan nái til nánast allra húsnæðislána á markaðnum, og enginn geti í raun verið viss um hver sé raunverulegur eigandi húsnæðis í landinu og hverjir séu lögmætir veðhafar. Húsnæðismarkaðurinn í Bandaríkjunum er margfalt stærri en t.d. hlutabréfamarkaðurinn, og því stefnir óvissan öllu hagkerfinu í uppnám.

Bandaríkjamenn hafa þá siðvenju þegar svona hneyskli kemur upp að gefa því nafn og þessi krísa hefur fengið heitið "nauðungarsölukrísan" 2010, einnig kölluð "foreclosuregate" eða "fraudclosure". En hvað svo sem við köllum það þá er ljóst að í uppsiglingu er eitthvað sem gæti á endanum átt eftir að láta "fárviðrið" sem sagt var geysa á fjármálamörkuðum haustið 2008 líta út eins og vindhviðu í kaffibolla þegar upp verður staðið (ef það verður þá einhverntímann). Ætli íslensk stjórnvöld séu búin að undirbúa viðbragðáætlun fyrir seinna hrunið? Góður maður sagði eitt sinn að það að gera mistök er mannlegt, en að gera sömu mistökin tvisvar er heimska!

Þess má geta að aðskilnaður fjárfestinga- og viðskiptabanka í anda Glass-Steagall er ein af þeim 10 helstu tillögum að breytingum á fjármálakerfinu sem var að finna í skýrslu Atlanefndarinnar svokölluðu sem vann úr niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið 2008. Slíkur aðskilnaður er líka efst á blaði þeirra 10 atriða sem vinnuhópur um hugmyndir að úrbótum á íslensku fjármálakerfi (Icelandic Financial Reform Initiative*) leggur til að tekin verði til skoðunar, og er það ekki að ástæðulausu sem þetta atriði er númer eitt á þeim lista.

Ætli íslensk stjórnvöld séu búin að undirbúa slíka breytingu?

* Rétt er að geta þess að höfundur á aðild að vinnuhópi IFRI.


mbl.is „Bankar greiði fyrir banka"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband