Nagladekk skapa meiri vanda en þeim er ætlað að leysa!

Ég bý í Reykjavík á 3 börn, miðstrákurinn fékk RS-veiru í öndunarfærin þegar hann var pínulítill. Síðan þá hefur hann verið mjög gjarn til að fá öndunarfærasýkingar og astmaköst, sérstaklega á veturna þegar er stillt veður með þurrk og frosti, og svifryksmyndun er hvað mest. Ég hætti að nota nagladekk fyrir tveimur árum síðan, keyri nú um á heilsársdekkjum allan ársins hring með góðri reynslu, og vil því hvetja aðra til að íhuga þetta vel. Mín reynsla af naglaleysinu er mjög góð, minni kostnaður, minni bensíneyðsla, hljóðlátari akstur og betri samviska. Og það merkilegasta er kannski, að í 90% tilfella, þ.e. þegar götur eru sæmilega auðar eða hafa verið mokaðar, þá er veggripið MUN BETRA heldur en þegar ekið er um á mjóum járnpinnum sem skauta bara ofan á hörðu malbikinu. Tölfræðilega eru nagladekk í raun hættulegri en önnur dekk, nema þú sért akandi meirihluta tímans á svelli, en í seinni tíð hafa slíkar aðstæður heyrt til undantekninga hér í borg. Þessa örfáu daga sem það gerist er bara málið að aka skynsamlega eftir aðstæðum og þá er maður oftast í góðum málum. Ég vil að lokum taka fram að þessum áróðri mínum er fyrst og fremst beint til almennra ökumanna eins og ég er sjálfur, og á ekki endilega við aðra sem þurfa að geta treyst á ökutæki sín við erfið skilyrði, t.d. vegna vinnu sinnar eða annara kringumstæðna. Við hin ættum samt sem áður að geta keyrt varlega þegar er hálka eða bara sleppa því að nota bílinn við slíkar aðstæður og labba eða taka strætó. Svo er auðvitað sumt fólk sem ætti alls ekki að hafa leyfi til að keyra að vetrarlagi nema að fara fyrst á námskeið um eðlisfræðina sem liggur að baki veggripi ökutækja, og hafa fengið almennilega þjálfun í hálkuakstri, en förum betur út í þá sálma síðar...

mbl.is Svifrykið skemmir lungu barna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Nagladekk eru bara frumstæð og fáránleg. Nýtast aðeins við mjög sérstæðar aðstæður. Fólk seegist nota nagladekk í snjó, þvílík firra.

Bönnum nagladekkin og verndum heilsu barnanna og okkar.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.1.2007 kl. 14:03

2 identicon

Í gegnum tíðina hafa hinir og þessir spekingar rætt um dekk, veggrip og þá nagla því samfara.  Því miður hafa margir hverjir haft í frammi miklar fullyrðingar án þess að í raun hafa nokkuð til síns máls.  Það sem menn hafa í reynslubrunni verður ekki af þeim tekið og ekki nema gott eitt um það að segja ef þeim tekst að aka við slæm skilyrði með þeim búnaði sem þeir hafa valið sér.  Það réttlætir hins vegar ekki ofsóknir gegn nagladekkjum eins og kemur fram hér í athugasemd.  Öryggi er að mínu mati miklu meira áríðandi en áróður gegn nagladekkjum sem hingað til hafa sannað gildi sitt og engum hefur tekist að koma fram með óyggjandi mótrök enda erfitt ef þá hægt.  Áróður gatnamálstjóra og fleiri gegn nagladekkjum er vanhugsaður áróður eingöngu til þess að spara krónur þar sem fullyrt er að nagladekkin skemmi malbikið.  Það hafa heldur ekki komið fram neinar sannanir fyrir því að nagladekkin séu sökudólgur malbiksslits enda hefur ekki orðið um neina breytingu á sliti þó nagladekkjum í Reykjavík fækki ár frá ári stórlega.  Það er vitað að þessi gríðarlegi saltaustur á götur er aðal sökudógurinn og getur í raun hver maður sagt sér það.  Þegar götur þ.e. akstursleið er alltaf söltuð og því laus við hálku og snjó er auðvitað engin þörf á nagladekkjum en það réttlætir engan veginn áróður og ofstæki gegn öryggi annarra sem þurfa að aka við önnur skilyrði.

Þórhallur V Einarsson (IP-tala skráð) 28.1.2007 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband