Fríríkið á Miðnesheiði

Besta hugmyndin sem ég hef heyrt varðandi nýtingu varnarsvæðisins fv. er sú að stofna þar fríríki í líkingu við Kristjaníu, sem vill svo skemmtilega til að er önnur yfirgefin herstöð. Íbúar þar eru nú á hrakhólum því til stendur að reka þá á brott til að rýma fyrir nýbyggingum, og væri því kærkomið ef þeir fengju samastað í sambærilegu umhverfi. Þetta myndi líka leysa ýmis innanríkisvandamál fyrir okkur. Íslendingar þyrftu t.d. ekki lengur að fara upp í flugvél til að skreppa í "Stínu", eins og margir gera reglulega þó þeir hafi kannski ekki allir hátt um það (sshhh...). Kristjanía er langmest sótti ferðamannastaðurinn og best þekkta vörumerkið í öllu Danaveldi, og væri því vel við hæfi að við myndum hirða það tromp af þeim rétt eins og Magasin o.fl. dönsk fyrirbæri. Samlegðaráhrifin við Bláa Lónið myndu margfalda ferðamannastrauminn, það er örugglega mjög þægilegt að slappa af í Lóninu eftir að gera það sem ferðamenn gera jafnan í Kristjaníu. ;) Geðslag á svæðinu yrði því allt hið rólegasta, og ferðaþjónustan á Suðurnesjum stæði í miklum blóma. Framtíð fasteigna á svæðinu væri tryggð því Kristjaníubúar hafa mikla og góða reynslu af viðhaldi gamallar byggðar. Þeir eru a.m.k. ekki með allt frosið eins og núverandi gæslumenn svæðisins (sumir íbúanna eru reyndar "freðnir" en það er allt önnur saga ;). Að lokum myndi þessi lausn fyrirbyggja mögulegan skaða sem hlotist gæti af sölu fasteignanna á opnum markaði, eins og sumir hafa lýst áhyggjum yfir. Ef eitthvað er myndi fasteignaverð á Suðurnesjum hækka, það hefur a.m.k. gert það í Kaupmannahöfn allt frá því að fríríkið var stofnað þar! Íbúarnir myndu eflaust vera tilbúnir til að hreinsa svæðið eftir herinn sem neitar að taka með sér eigin skít (sonur minn er 3 ára og meira að segja hann þrífur oftast upp eftir sig!). Og ef við skyldum hafa áhyggjur af óæskilegum fylgifiskum eins og glæpum og fíkniefnasmygli, þá má benda á að ef einhverstaðar er ákjósanlegur staður, þá er það einmitt þarna uppi á afskeggtri heiði, innan mannheldrar girðingar, með jarðsprengjusvæði og varðstöðvar allt um kring. Þetta má styðja nákvæmlega sömu rökum og þegar Valgerður Sverrisdóttir predikar fyrir uppbyggingu stóriðjuvera, þ.e. að fyrst það þarf að byggja þau einhversstaðar í heiminum hljóti að vera skást að byggja þau hér þar sem þau valda einna minnstu heildartjóni á umhverfinu samanborið við önnur lönd.

Að lokum: Áfram Ísland, því herinn er burt! (og farið hefur fé betra)


mbl.is Vel útbúinn draugabær til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

stórgóður og sniðugur pistill - nú er bara að safna saman hóp til að lobbyast með þessa hugmynd

halkatla, 29.1.2007 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband