Jónína S. Lárusdóttir fv. ráðuneytisstjóri

Enn á ný er Jónína S. Lárusdóttir ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu komin í hringiðuna. Skemmst er að minnast aðkomu hennar að málefnum er varða innstæðutryggingar (IceSave) eins og tíundað er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þá sat Jónína sem fulltrúi ráðuneytisins í "samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika" í aðdraganda hrunsins, en árangursleysi þeirrar vinnu ætti að vera öllum ljóst. Í raun hafði ekki borist eitt einasta pappírssnifsi frá hópnum inn á borð ríkisstjórnar að sögn fyrrverandi ráðherra, og svo litlar spurnir voru af hinu meinta starfi að annar foringi stjórnarliðsins hafði jafnvel steingleymt því að hópurinn væri til.

Nú er komið á daginn að fyrir rúmu ári síðan fékk Jónína í hendur þrjú samhljóða minnisblöð með álitum lögfræðinga ráðuneytisins og Seðlabankans um ólögmæti gengistryggingar. Þrátt fyrir að þessi staða kallaði augljóslega á viðbrögð og undirbúning af hálfu ráðuneytisins vegna hugsanlegra afleiðinga fyrir hagsmuni ríkissjóðs, þá virðist Jónína hafa unnið markvisst að því að halda þeim leyndum innan þröngs hóps embættismanna. (Sjá prýðilega samantekt Þórðar Björns Sigurðssonar.) Af ummælum viðskiptaráðherra og fyrirliggjandi staðreyndum má helst draga þær ályktanir að Gylfi hafi annaðhvort tekið þátt í blekkingaleiknum, eða rétt eins og forvera hans verið haldið "úti í kuldanum". Hafa ýmsir kallað eftir ábyrgð ráðherrans í málinu og nú síðast hafa þingmenn Hreyfingarinnar skorað á Gylfa að segja af sér.

Aftur berast böndin að Jónínu. Hvort sem um ásetning eða hrein afglöp er að ræða, þá er það orðið endurtekið munstur að stór mál sem hún kemur nálægt verða að hinu mesta klúðri. Hún hefur nú látið af störfum í ráðuneytinu og verið ráðin framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Arion banka (inn og út um gluggann...) en þar mun hún væntanlega hafa yfirumsjón með innheimtu, m.a. gengistryggðra lána. Verði bankanum og viðskiptavinum hans að góðu. Fyrir vikið þykjast starfsmenn ráðuneytisins nú ekki geta rakið það hverjum Jónína hafi sent afrit af títtnefndum minnisblöðum, og hverjum ekki. Þeir bera því við að búið sé að loka tölvupósthólfi hennar. Við eigum sem sagt að trúa því að þar með hafi allar eldri upplýsingar á póstþjóni ráðuneytisins gufað upp, og hvergi séu til varaafrit. *hóst* Kanntu annan betri?


mbl.is Ráðuneytisstjóri hafði þrjú álit undir höndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband