Formaður lögmannafélags varðhundur glæpagengja

Formanni lögmannafélagsins ætti að vera fullljóst að Hæstréttur hefur úrskurðað að vaxtaberandi bílasamningar séu í raun lán. Enda eru þeir meðhöndlaðir sem slíkir í bókhaldi fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Ákvæði þeirra um vörslusviptingar "hins leigða" hafa þar af leiðandi ekkert gildi. Aðeins er um að ræða venjulega skuld sem skal innheimta lögum samkvæmt.

Formanni lögmannafélagsins ætti jafnframt að vera fullljóst að innheimtuþjónusta í atvinnuskyni er leyfisskyld starfsemi samkvæmt innheimtulögum. Enginn þeirra málaliða sem stunda þetta á vegum fjármálafyrirtækja hafa slíkt leyfi, og þar með er ekki um að ræða innheimtu heldu tilraun til ólögmætrar auðgunar, sem er refsiverður glæpur samkvæmt almennum hegningarlögum eins og hver annar þjófnaður.

Vegna innheimtu slíkra krafna er enn fremur rétt að benda á að þar sem engin þinglýst veðbönd hvíla á viðkomandi eign er aðeins um sjálfsskuldarábyrgð að ræða. Þar af leiðandi er aldrei löglega hægt að fullnusta kröfuna með beinni upptöku viðkomandi eignar, heldur þarf fyrst að hafa verið gert árangurslaust fjárnám og í framhaldinu þyrfti að krefjast gjaldþrotaskipta á búi skuldarans. Við gjaldþrotaskipti ætti ökutækið samkvæmt gjaldþrotalögum að fara á uppboð og söluandvirði þess að vera ráðstafað hlutfallslega upp í kröfur allra lánadrottna, en ekki aðeins þess sem veitti bílalánið.

Það er ekkert til í lögum sem heitir vörslusvipting af hálfu einkafyrirtækis.

Þeim sem heldur öðru fram er varla sætt á formannsstóli lögmannafélags.


mbl.is Ögmundur svarar Brynjari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óverðtryggð lán raunhæfur valkostur

Umræðan um afnám verðtryggingar hefur virkilega hafið sig á flug að undanförnu. Sem er vel því nú er einmitt mánuður eftir þar til Undirskriftir Heimilanna við kröfu um leiðréttingu verðtryggðra lána og afnám verðtryggingar, verða afhentar þegar haustþing kemur saman þann 1. október.

Ein helstu mótrök verðtryggingarsinna hafa verið þau að hún sé nauðsynleg vegna einhverra íslenskra séraðstæðna sem þó hefur aldrei verið útskýrt fyllilega hverjar séu. Stundum hefur því jafnvel verið slegið föstu að það sé ekki hægt að afnema verðtryggingu á Íslandi, þrátt fyrir að þjóðin hafi búið hér í landinu í yfir þúsund ár áður en fyrst voru sett lög um verðtryggingu. Aðildarsinnar hafa einnig reynt að halda því fram að Evrópusambandsaðild og upptaka evru séu einhvernveginn forsendur afnáms verðtryggingar, þó að með því sé orsök og afleiðingu snúið á hvolf. Sannleikurinn er auðvitað sá að við þyrftum fyrst að afnema einhliða verðtryggingu áður en það væri einu sinni raunhæft að reyna að uppfylla skilyrðin fyrir upptöku evru.

Í þessu gleymist gjarnan mikilvægur punktur. Á Íslandi eru nú þegar tugir þúsunda óverðtryggðra lána í íslenskum krónum, bæði til íbúða- og bílakaupa, sem flest urðu til sem slík á grundvelli laga nr. 151/2010 um endurútreikning lána með ólöglega gengistryggingu. Stærsti galli þeirra eru vextir sem breytast mánaðarlega og voru á tímabili afar háir en hafa sem betur fer lækkað umtalsvert síðan þá, en lántakendur gátu valið um verðtryggingu eða ekki. Þó lög þessi hafi verið gölluð á margan hátt, sköpuðu þau engu að síður mikilvægt fordæmi og empiríska sönnun þess að lánveitingar í krónum þurfa ekki endilega að vera verðtryggðar.

Í liðinni viku hefur umræðan hinsvegar færst í mun raunsærri farveg.

Það byrjaði á sunnudaginn í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni þegar Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans sagði m.a. að í sínum huga væri "verðtryggingin hvorki forsenda þess að hér sé líf á Íslandi eða dauðadómur þess. Það þyrfti bara að vera frjálst val. Við getum að sjálfsögðu lifað án verðtryggingar eins og aðrar þjóðir"

Á mánudaginn skrifaði Ögmundur Jónasson ráðherra pistil vegna brotthvarfs Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem varð tilefni umfjöllunar í vikunni og í kjölfari lýsti hann því yfir að hann hefði frá upphafi verið í meginatriðum sammála kröfu Hagsmunasamtaka Heimilanna um niðurfærslu skulda. Það var auðvitað ánægjulegt að heyra þetta, en þeirri spurningu er hinsvegar ósvarað hvers vegna Ögmundur lætur þessa skoðun svo afgerandi í ljós fyrst núna þegar AGS er farinn...

Á miðvikudag var fundur í félagsmálanefnd Alþingis undir formennsku Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þingkonu Samfylkingar, þar sem til umræðu var frumvarp til breytinga á lögum um húsnæðismál sem myndu heimila Íbúðalánasjóði að veita óverðtryggð lán. Í meirihlutanefndaráliti kemur fram skýr vilji til að slík heimild verði veitt og Íbúðalánasjóður nýti sér hana. Nefndarmenn virðast reyndar ekki tilbúnir að ganga svo langt að kveða á um fasta vexti eins og í frumvarpinu, heldur vilja fela Íbúðalánasjóði valdið til vaxtaákvarðana, en það væri engu að síður mikilvægt skref í átt til afnáms verðtryggingar.

Á fimmtudag stóð Íslandsbanki fyir málstofu um verðtryggingu þar sem Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður á hagfræðisviði Seðlabankans sagði að hægt væri að afnema verðtryggingu án mikils kostnaðar um leið og eðlilegar stöðugleikaforsendur væru fyrir hendi.

Við sama tilefni sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar og formaður efnahags- og viðskiptanefnda, alveg ljóst að hægt væri að reka hagkerfi án verðtryggingar. Víðast hvar væri málum háttað þannig.

Samdægurs tók Arion Banki af skarið og tilkynnti að frá og með 15. þessa mánaðar yrðu boðin glæný óverðtryggð íbúðalán til 25 og 40 ára með föstum vöxtum til fimm ára í senn. Það merkilega er að Ísland er ekki búið að taka upp evru og það er nákvæmlega ekkert útlit fyrir að svo verði. Lánin sem um ræðir verða veitt í krónum, samskonar krónum og því hefur verið haldið fram eins og náttúrulögmáli að sé ekki hægt að lána út án verðtryggingar. Eftirtektarvert er að lög um verðtryggingu hafa ekki einu sinni verið afnumin, en það hefur aldrei verið skylda að bjóða eingöngu verðtryggð lán, bankar hafa alltaf haft frelsi um þessar tvær meginútfærslur lánsforma.

Á föstudag birti Fréttablaðið heilsíðuviðtal við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra, þar sem hann er spurður hvort hann muni beita sér fyrir afnámi verðtryggingar: "Já ég mun gera það, alveg tvímælalaust. Ég tel að það sé grundvallaratriði. Það er annað í því samhengi sem rétt er að skoða, en það er að vextir bíta ekki sem hagstjórnartæki í verðtryggðu fjármálakerfi. Hækkun vaxta á að slá á þenslu og segja fólki og fyrirtækjum að nú eigi það að fara varlega í lántökur. Það bítur hins vegar ekki þar sem afborgunarbyrðin breytist ekki, hún færist inn í framtíðina... Það virðist hins vegar ekki hafa komist til skila inn fyrir veggi Seðlabankans."

Greinarhöfundur sendir Ögmundi hamingjuóskir vegna þessarar nýjustu hugljómunar og leggur til að hann verði umsvifalaust gerður að efnahags- og viðskiptaráðherra en Árna Páli þess í stað fundin sendiherrastaða í fjarlægu landi þar sem hann gæti ef til vill bætt á sig brúnku. Ögmundi til ánægju og fróðleiks mætti hinsvegar benda á að þessi viska hefur einmitt komist til skila inn fyrir veggi Seðlabankans, hana mætti til dæmis lesa út úr niðurstöðum fræðigreinar Ásgeirs Daníelssonar forstöðumanns hagfræðisviðs bankans sem hann skrifaði í 1. tbl. Efnahagsmála í febrúar 2009. Þrátt fyrir það stendur Seðlabankinn þó ennþá varðstöðu um verðtrygginguna.

Á laugardag var svo aftur fjallað um fyrirhugaðar heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita óverðtryggð lán. Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 sagði Sigurður Erlingsson framkvæmdastjóri sjóðsins að hann teldi að hægt yrði að hefja veitingu óverðtryggðra lána á fyrri hluta næsta árs.

Allt þetta eru miklar og ánægjulegar fréttir. Hinsvegar má ekki gleyma mikilvægi þess að stíga skrefið til fulls og gera það óheimilt að velta verðlagsrýrnun fjármuna einhliða yfir á lántakandann. Það eina sem í rauninni þarf til að afnema verðtryggingu er að gera eftirfarandi breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu:

14. gr. orðist hér eftir þannig: "Óheimilt er að verðtryggja lánsfé í viðskiptum við almenning."

Frá og með þeim degi teldust verðtryggingarákvæði lánasamninga ógild og skyldi þá endurreikna þau samkvæmt 18. gr. sömu laga, þeirri sem liggur til grundvallar endurútreikningi lána með ólöglega gengistryggingu. Þannig væri um leið náð fullkomnu jafnræði milli lántakenda óháð lánsformum eða viðskiptasögu. Önnur ákvæði laganna þyrfti loks að fínpússa til samræmingar við þessa fyrirætlan svo vilji löggjafans sé skýr.

Til þess að þrýsta á um þessa breytingu er meðal annars hægt að taka þátt í Undirskriftasöfnun Heimilanna, en þegar nýtt þing kemur saman þann 1. október verða þær undirskriftir sem þá hafa safnast formlega afhentar.

Með frekara undanhaldi verðtryggingar er aðeins tímaspursmál hvenær henni verður útrýmt af íslenskum neytendamarkaði, og þá verður afnám hennar með lögum aðeins formsatriði. Eins og fordæmin sanna er vel hægt að taka lánsform sem þegar hefur náð útbreiðslu og kveða með lögum um breytingu allra slíkra lána í annað lánsform. Þegar það var síðast gert hafði það heldur ekki í för með sér neinar efnahagslegar hamfarir heldur skilaði þvert á móti tugmilljarða hagnaði í ársreikningum nýju bankanna!


mbl.is Býður óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríski harmleikurinn á sér engin takmörk

Skuldir Grikklands eru óviðráðanlegar og björgunarlánapakkarnir guðmávitahvaðmörgu frá ESB/ECB/IMF duga ef til vill ekki til að bjarga ríkissjóði frá greiðsluþroti.

Samkvæmt nýlekinni skýrslu gríska fjármálaráðuneytisins.

Ráðherrann brást við uppgötvuninni með því að gefa í skyn að ekkert væri að marka tiltekinn hluta starfsmanna sinna, á meðan annar hluti þeirra fundar með lánadrottnum ríkissins sem eiga líklega skammt eftir af langlundargeði.

Nei því fer fjarri að ég hafi ímyndunarafl til að skálda þetta upp.

Hafa þessir menn ekki heyrt að evran er frábær gjaldmiðill og upptaka hans er skotheld leið til að koma í veg fyrir efnahagslegar ófarir?


mbl.is Viðkvæmar upplýsingar láku út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fór Ísland í stríð við geimverur?

Bloggarinn Paul Krugman hagfræðingur, segir að Ísland hafi gert rétt með því að fara óhefðbundna leið í gegnum kreppuna, í grein sem hann skrifar í tilefni af "útskrift" landsins af gjörgæsludeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Athyglisverðasti hlutinn af bloggfærslu hagfræðingsins er þessi hérna:

Iceland still has high unemployment and is a long way from a full recovery; but it’s no longer in crisis, it has regained access to international capital markets, and has done all that with its society intact.

Nóbelsverðlaunahafinn virðist sem sagt ekki hafa frétt af skuldavanda íslenskra heimila og þúsunda yfirvofandi uppboða, sem mörg kunna jafnvel að vera ólöglega framkvæmd.

En það er svo sem ekki við öðru að búast af manni sem nýlega hélt því fram að falsað geimverustríð væri ef til vill lausn hins alþjóðlega efnhagsvanda.

Og hélt einhver að hagfræði væri þurr og laus við sköpunargáfu?


mbl.is Krugman: Ísland gerði rétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur tekur undir kröfur Hagsmunasamtaka Heimilanna

„Sú krafa var uppi í upphafi kreppunnar að allar skuldir yrðu færðar niður á þeim grundvelli sem Hagsmunasamtök heimilanna kröfðust. Þeirri hugsun var ég algerlega sammála,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í tilefni af brotthvarfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Honum "fannst þetta sanngjörn krafa. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sneri hins vegar röngunni út í málinu og krafan náði af þeim sökum aldrei fram að ganga, fékk aldrei alvarlega umræðu..."

Þetta eru stórfréttir hvorki meira né minna. Ekki í þeim skilningi að þetta komi nokkrum einasta manni með viti á óvart, heldur að nú skuli dökka hliðin á málinu koma fram í dagsljósið. Þetta opnar algjörlega nýjan vettvang fyrir alla umræðu um þessi málefni. Tilefnið eru nýleg skrif Ögmundar á bloggsíðu sína, en ég vil einnig vekja athygli á hugvekju sem ég skrifaði daginn sem AGS hvarf formlega af landi brott:

Almenna leiðréttingu NÚNA!

Eins og kemur fram í pistlinum hafa engin þeirra markmiða sem talin eru upp í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins náðst í raun og veru. Utan eitt: endurreisn fjármálakerfisins, sem er ennþá allt of stórt, spillt og óhagkvæmt til að þjóna þörfum lands og þjóðar. Velferðarkerfið og heimili landsmanna, sitja hinsvegar ennþá á hakanum.

Andrea J. Ólafsdóttir og Ámundi Loftsson standa við hakann.
Andrea J. Ólafsdóttir formaður Hagsmunasamtaka Heimilanna tekur við Hakanum frá höfundi listaverksins, Ámunda Loftssyni

Það ánægjulega er að sjá núna ljósið við endann á göngunum. Með brotthvarfi AGS eru íslensk stjórnvöld ekki lengur bundin af þeim viljayfirýsingum sem áður hafa verið gefnar út um "engar frekari aðgerðir til handa heimilinum" eins og fjallað var um hér í apríl í fyrra og aftur í október síðastliðnum. Það ætti því ekki lengur að vera neitt því til fyrirstöðu að ráðast í almenna leiðréttingu íbúðalána og afnám verðtryggingar.

Munið að taka þátt í Undirskriftasöfnun Heimilanna.

14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr.

14. gr. Óheimilt er að verðtryggja lánsfé í viðskiptum við almenna viðskiptavini fjármálafyrirtækja.
Almennur viðskiptavinur telst hver sá sem ekki nýtur stöðu fagfjárfestis eða viðurkennds gagnaðila á fjármalamörkuðum samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti .


mbl.is Sjóðurinn vildi ekki aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldatryggingarálag Íslands undir Evrópumeðaltali

Bloomberg fjallar í dag um nýlega stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands. Vitnað er í Ásgeir Jónsson fyrrum yfirmann greiningardeildar Kaupþings, sem tókst ekki að greina ástæður hrunsins fyrr en eftir á, en hann segir að þessi ákvörðun opni fyrir þann...

Kemur Sheikh Al-Thani evrunni til "bjargar"?

Tilkynnt var í dag um fyrirhugaða sameiningu tveggja grískra banka og endurfjármögnun svo úr verður stærsti banki suðausturhluta álfunnar: Alpha Eurobank. Fjórðungur hlutfjárframlagsins og jafnframt 16% eignarhlutur í hinum nýja banka er sagður muni...

Almenna leiðréttingu NÚNA!

Samstarfi íslenskra stjórnvalda og alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk formlega í dag þegar síðasta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands var samþykkt af stjórn sjóðsins í Washington. Þessu hefðu margir eflaust viljað fagna. En því miður fellur fögnuðurinn í...

Myndbandskynning um verðbótaútreikninga

Hér má sjá samantekt Guðbjörns Jónssonar á lagagrundvelli verðbótaútreikninga, ásamt ítarlegri greiningu hans á ólíkum reikniaðferðum fyrir afborganir verðtryggðra lána. Munið svo eftir Undirskriftasöfnun Heimilanna

Menningarnótt Heimilanna 2011

Hagsmunasamtök heimilanna verða með fjölskylduvæna dagskrá frá klukkan 13 til 17 á menningarnótt. Við verðum á horni Laugavegar og Skólavörðustígs og munum fagna því í samvinnu við öflugan hóp listamanna að yfir 20.000 undirskriftir hafa safnast í...

Kennslustund í verðbótareikningi

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Stefáni Inga Valdimarssyni stærðfræðingi að það gefi sömu niðurstöðu fyrir lántaka að verðbæta höfuðstól láns og að verðbæta greiðslur af sama láni. En f yrst það er stærðfræðingur sem heldur þessu fram er ef til vill...

Sýnidæmi um útreikning verðbóta

Köllum: A=afborgun (heildarlánsfjárhæð/fjöldi gjalddaga), E=eftirstöðvar (höfuðstóls), V=vaxtahlutfall (prósenta), N=neysluverðsstuðull (hlutfallsleg hækkun vísitölu) 1) Í stað þess að verðbæta á hverjum gjalddaga greiðslu af nafnvirði eftirstöðva : (A +...

Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði vill falsað geimverustríð

Paul Krugman nóbelsverðlaunahafi í hagfræði í viðtali á CNN: If we discovered that space aliens were planning to attack and we needed a massive buildup to counter the space alien threat and really inflation and budget deficits took secondary place to...

Hvenær er nauðungaruppboð löglegt?

Það sem af er ári hafa 175 fasteignir verið seldar ofan af Reykvíkingum og vel á annað þúsund uppboða til viðbótar eru í farvatninu. En hversu mörg þessara uppboða ætli séu í raun og veru lögmæt? Í Bandaríkjunum er uppi sú fáránlega staða að lögmæti...

Stjórnarskrárfrumvarpið mitt

FRUMVARP að Stjórnarskrá 1. gr. Stjórnarskrá þessi er æðsta löggjöf aðila hennar . Ekkert má lögfesta sem brýtur í bága við æðri löggjöf. 2. gr. Það er bannað að vera vondur við aðra. Refsing skal vera í samræmi við brotið. 3. gr. Lagasetningu fylgir...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband