Iceland pays for Icesave
16.8.2012 | 21:28
Og Íslendingar flykkjast á staðinn til að reiða fram greiðslu.
Hlýtur að verða forsíðufrétt í Bretlandi og Hollandi!
![]() |
Miklu betri viðtökur en Bónus fékk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
IceSave | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Samtök fjármálafyrirtækja óæskileg...
27.7.2012 | 21:41
... jafnvel álitin skaðleg. Tilefni þessara skrifa er hinsvegar einkennilegt og þversagnakennt orðalag í fyrirsögn hinnar tengdu fréttar, og ekki síður meginmálið sem er ekkert minna en kostulegt.
Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir eiga rúmlega helming útlána fjármálafyrirtækja til heimila landsins. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) gagnrýna umsvif opinberra aðila á þessum markaði...
Samtök fjármálafyrirtækja sem eiga tæpan helming útlána fjármálafyrirtækja til heimila landsins, gagnrýna umsvif opinberra aðila vegna þess að þeir eiga hinn helminginn. Samkvæmt þessu mati samtakanna hljóta umsvif aðildarfyrirtækja þeirra sjálfra þá að vera undir sömu gagnrýni sett.
Aðildarfélög samtakanna ráða yfir eignum sem nema tvöfaldri þjóðarframleiðslu og eru stærri en öll önnur fyrirtæki landsins samanlagt. Í skjóli þessarar ráðandi stöðu yfir efnahagslífinu hafa þau framið ítrekuð brot gegn almenningi og viðskiptavinum með ólöglegum lánveitingum, eignaupptöku, markaðsmisnotkun, ólöglegu samráði, persónunjósnum, hótunum, ofsóknum og óhugnaði ýmisskonar, sem er allt saman kirfilega skjalfest í opinberum gögnum.
Að þau skuli nú hinsvegar telja svo yfirgnæfandi stöðu á markaði vera til óheilla, er auðvitað langþráður viðsnúningur í afstöðu. Við hljótum því að bíða í ofvæni eftir að byrjað verði að búta stóru bankana niður í smærri og heilbrigðari einingar.
Samtökin segja að umsvif ríkisins veiki eignasafn annarra...
Já ríkið ætti auðvitað ekki að veikja starfsemi bankanna heldur styrkja hana. Reyndar hefur ríkið gert einmitt það mjög nýlega, og varið til þess hundruðum milljarða af fjármunum skattgreiðenda!
En hvað með fyrirbæri sem veikir eignasafn heimilanna og kallast verðtrygging? Þó að slík starfsemi sé vissulega stunduð hjá Íbúðalánasjóði er það þó í það minnsta ríkinu og þar með skattgreiðendum til hagsbóta, en mun hinsvegar aldrei komast í hálfkvisti við þá veikingu sem þegar hefur orðið vegna afleiðinga af starfsemi aðildarfélaga SFF.
Ef þetta er merki um að SFF telji nú rétt að láta af slíku eru það gleðifréttir.
...lánveitenda á markaði...
Það er allt annað en ljóst hvaða "markað" er átt við. Hinsvegar er morgunljóst að þegar aðildarfyrirtæki SFF fengu útistandandi skuldir heimilanna á hálfvirði var engum öðrum veittur aðgangur að sömu kjörum og buðust á þeim "markaði", hvorki heimilunum sjálfum, Íbúðalánasjóði né öðrum.
Þessi stefnubreyting fjármálafyrirtækja um jafnan rétt til aðgangs að markaðskjörum hlýtur því að vera mikil gleðifrétt fyrir skuldsett heimili landsmanna.
...og auki kostnað sem fellur á ríkið vegna þeirrar áhættu sem stafar af lágu eiginfjárhlutfalli Íbúðalánasjóðs, undanþágu sjóðsins frá flestum opinberum gjöldum og lágri arðsemi eigin fjár sem bundið er í sjóðnum.
Gott og vel berum það þá saman við kostnaðinn sem þegar hefur fallið á ríkið vegna þeirrar áhættu sem hefur raungerst út af lágu siðferðishlutfalli "annara lánveitenda á markaði". Annars vegar eru það nokkrir tugir milljarða í tilviki Íbúðalánasjóðs, en hinsvegar mörg hundruð milljarðar sem veitt hefur verið til aðildarfélaga SFF. Augljóst er á hvora hliðina sá samanburður hallar.
Það er nefninlega einmitt hið lága eiginfjárhlutfall, undanþágur frá opinberum gjöldum, og hófleg ávöxtunarkrafa sem gera Íbúðalánasjóði kleift að lána út með minni tilkostnaði og þar með að bjóða lántakendum betri kjör en annars væri.
Væri kannski betra að hækka arðsemiskröfu Íbúðalánasjóðs og þar með lánskjörin? Það myndi steypa ótöldum fjölda heimila í greiðsluvanda og jafnvel á götuna þar sem þau lenda óhjákvæmilega á framfæri ríkis og sveitarfélaga og auka þannig bæði vandamálið og kostnaðinn. Þegar banki gerir þetta við sína kúnna þarf hann hinsvegar ekki að borga fyrir framfærslu þeirra eftir að þau verða heimislaus, heldur erum það við hin. Er fórnarkostnaðurinn af því tekinn með í "arðsemis"útreikningana? Hver einasti bóndi sem hefur lifað af á Íslandi veit að heilbrigt fé skilar arði en veiklað fé litlum eða engum, og er það því órjúfanleg forsenda rekstraráætlunar hans.
Þannig eru rök SFF ekki rök gegn heldur með félagslegum rekstri lánveitanda á húsnæðismarkaði!
Telja samtökin engin rök til þess að ríkið þurfi að annast almenn íbúðalán í einu ríkasta landi heims.
Vissulega er Ísland ríkasta land í heimi, og sem betur fer liggur mikið af þeim auði enn óhreyfður. En eru þá nokkur rök fyrir því að aðildafélög SFF þurfi eitthvað frekar að annast almenn íbúðalán heldur en "aðrir lánveitendur á markaði"? Ef sú fullyrðing er rétt að við séum svona rík þá hljótum við auðvitað bara að kaupa okkur hús til að búa í frekar en að vera að vesenast að óþörfu að fá lánað fyrir þeim. Annars væri eitthvað rangt við þessa röksemdafærslu, ekki satt?
Þá sé Íbúðalánasjóður íþyngjandi fyrir lánsmat ríkisins.
Aðildarfélög SFF hafa núna í fjögur ár eða lengur fengið þvert gegn gildandi lögum að njóta ókeypis ríkisábyrgðar á stærstum hluta skuldbindinga sinna, hvort sem hún er formleg eða verkleg. Þrjú stærstu aðildarfélög SFF eru hvert um sig á stærð við Íbúðalánasjóð, en í sjóðnum eru hinsvegar mjög litlar skuldbindingar þar sem reynt gæti á ríkisábyrgð því þær eru allar tryggðar með ótakmörkuðu veði í öllum undirliggjandi fasteignum. Megináhættan sem stafar af þeim er þegar verðtryggingin hækkar þau út fyrir veðrýmið og rústar greiðslugetu lántakandans. Ríkisábyrgð á skuldbindingum bankanna við innstæðueigendur er hinsvegar ekki tryggð með veði í nokkrum sköpuðum hlut, og eiginfjárframlag ríkisins til þeirra ekki tryggt nema með hlutabréfum í þeim sem verða hvort sem er verðlaus um leið og vafi stofnast um greiðslugetu þeirra.
Ef það er eitthvað sem er baggi á lánshæfi ríkisins er það ábyrgð þess og eignarhald á skaðræðis bönkum. Þess vegna er gríðarlega ánægjulegt að SFF skuli nú hafa með svona góðum rökstuðningi hafið opinberan málflutning gegn ríkisábyrgðinni, og í leiðinni fyrir afnámi verðtryggingar og leiðréttingu skulda heimilanna!
Fram kemur það mat SFF að æskilegt sé að dregið verði úr þeirri skuggabankastarfsemi sem felist í beinum lánveitingum lífeyrissjóða.
Jafnframt hlýtur þá að vera æskilegt að dregið verði úr þeirri skuggalegu glæpastarfsemi sem felst í framferði SFF til þessa dags, þar á meðal þjófnaði aðildarfélaganna úr lífeyrissjóðum landsmanna og af eignarhlut þeirra í fasteignum sínum.
Yfir þessum boðskap sem virðist vera étinn hrár upp eftir SFF kýs mbl.is þrátt fyrir allt að orða fyrirsögnina sem fullyrðingu um að útlán ríkisins séu óæskileg. Þessu fylgja þó engar skýringar á því hvers vegna bankar setja sér þá sjálfir reglur þar sem ríkisskuldabréf eru skilgreind sem bestu fjárhagslegu eignirnar með áhættustuðulinn núll. Jafnframt er litið algjörlega framhjá þeirri staðreynd að fjármálafyrirtækin og þar með samtök þeirra byggja í reynd tilvist sína að stóru leyti á lánum frá skattgreiðendum, til dæmis samanstendur stofnfé nýju bankanna að mestu leyti af ríkisskuldabréfum. Reyndar má færa gild rök fyrir því að án lánveitinga ríkissjóða væri fjármálakerfi vesturlanda ekki til í núverandi mynd.
Í ljósi allra þessara þversagna getur undirritaður ekki með nokkru móti gert sér grein fyrir því hvort hér er á ferðinni lélegur brandari eða tær snilld, eða jafnvel bæði. Textinn er allavega kostulegur og nánast súrrealískur.
![]() |
Útlán ríkisins óæskileg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 28.7.2012 kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fjársvelt eftirlit með neytendalánum
16.7.2012 | 11:50
Neytendastofa hefur samkvæmt lögum um neytendalán það hlutverk að framfylgja lögum og reglum og hafa eftirlit á sviði neytendalánastarfsemi. Þessu hlutverki hefur stofnunin þó afar takmarkaða möguleika til að gegna sem skyldi, sökum knappra fjárveitinga frá hinu opinbera. Í ársreikningi stofnunarinnar 2011 kemur fram að tekjur ársins voru rúmar 154 milljónir króna, að meginhluta framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 111 milljónir sem skerðist um 8 milljónir frá fyrra ári.
Á sama tíma hefur verið stofnað embætti Umboðsmanns skuldara sem samkvæmt fjárlögum 2011 fékk úthlutað 600 miljónum króna og hefur ráðið um hundrað manns til starfa, en stofnunin hefur þó engar valdheimildir til þess að framfylgja lögum um rétt neytenda gagnvart lánveitendum.
Fjármálaeftirlitið, sem hefur það lögboðna hlutverk að hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum og að sjá til þess að þau fari að lögum í starfsemi sinni, fær jafnframt úthlutað yfir 1.300 milljónum samkvæmt fjárlögum 2011. Í sínu fyrsta fjölmiðlaviðtali hefur nýráðinn forstjóri FME afneitað þessu lögboðna hlutverki. Forstjórinn telur það ekki vera í verkhring stofnunarinnar að gæta að framkvæmd laga, heldur fyrst og fremst að passa að bankarnir verði ekki fyrir skakkaföllum, eins ótrúlegt og það kann að virðast frá sjónarmiði heilbrigðrar skynsemi.
Þegar lög um neytendalán voru sett árið 1993 var eftirlit með þeim falið Samkeppniseftirlitinu en svo Neytendastofu þegar hún var stofnuð árið 2005. Frá upphafi hafa fjárveitingar til þess reyndar verið af mjög skornum skammti, sem skýtur afar skökku við, hafi nokkurntíma verið vilji til þess að réttur neytenda í lánastarfsemi væri virtur, en útskýrir jafnframt að nokkrum hluta hvers vegna brot á neytendarétti lántakenda eru svo algeng sem raun ber vitni hér á landi.
Svo dæmi sé tekið, þá var lögum um neytendalán breytt árið 2000 þannig að þau næðu einnig til húsnæðislána, og margfaldaðist þannig umfang þeirrar starfsemi sem undir eftirlitsskylduna fellur. Í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið er sett fram það mat að lagasetningin muni ekki hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Augljóslega er slíkt ómögulegt nema með mikilli og aukinni hagræðingu, og sú leið sem virðist hafa verið farin til þess er einfaldlega að láta þessa lögboðnu eftirlitsstarfsemi og réttarvörslu neytenda sitja á hakanum.
Sem hún hefur svo sannarlega fengið að gera alla tíð.
Í staðinn fá Íslendingar öðru hverju fréttir af því að slegið sé á puttana á verslunum fyrir villandi verðmerkingar á lítilfjörlegum varningi, eða skort á vottorðum frá sambærilegum eftirlitsstofnunum í öðrum löndum. Við fáum líka holla hreyfingu þegar við þurfum að labba frá kjötkælinum að verðskanna, sem er sagt efla samkeppni og lækka vöruverð. Þó er vandséð annað en að sömu rök hljóti að eiga við lánastarfsemi á neytendamarkaði.
Að þetta fyrirkomulag sé á villigötum, er líklega vægt til orða tekið.
![]() |
Málafjöldi vex á öllum sviðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.7.2012 kl. 04:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Feilskot á fyrsta degi í starfi
5.7.2012 | 15:37
Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur ákveðið að settur forstjóri stofnunarinnar, Unnur Gunnarsdóttir, verði fastráðin eftir að starfið var nýlega auglýst laust. Umsóknir bárust frá tíu einstaklingum en aðeins sex þeirra var gefinn kostur á viðtali vegna starfsins. *
Á sínum fyrsta degi fastráðningar veitti hinn nýji forstjóri símaviðtal í Bítinu á Bylgjunni í morgun um úrvinnslu mála vegna ólöglega gengistryggðra lána. Hægt er að hlusta á viðtalið hér: http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=12373
Í viðtalinu opinberast ýmis veigamikil grundvallaratriði sem nýráðinn forstjóri er annaðhvort að misskilja eða hreinlega að fara rangt með. Til dæmis virðist hún ekki telja það vera á verksviði Fjármálaeftirlits að sjá til þess að fjármálafyrirtæki fari að lögum. Það er þá væntanlega ekki heldur á verksviði brunavarnaeftirlits að reyna að koma í veg fyrir eldsvoða eða hvað? Eða bifreiðaeftirlits að koma í veg fyrir slys af völdum vanbúinna og hættulegra ökutækja? Svei mér þá...
Um samráðsvinnu vegna úrvinnslu mála í kjölfar dóma um gengistryggingu segir í viðtalinu að Samtökum Fjármálafyrirtækja hafi verið heimilað samráð með opinberum aðilum um úrvinnslu mála vegna gengistryggðra lána. Hið sanna er að Samkeppniseftirlitið segir skýrum orðum í ákvörðun sinni nr. 4/2012, 8.gr frá 9. mars síðastliðnum:
"Undanþága þessi veitir ekki öðrum aðilum en fjármálafyrirtækjum sem stunda útlánastarfsemi eða stunduðu slíka starfsemi fyrir bankahrunið 2008 rétt til samstarfs sem fer gegn 10. gr. samkeppnislaga. Undanþágan veitir ekki samtökum ofangreindra fyrirtækja heimild til samstarfs sem brýtur í bága við ákvæði 12. eða 10. gr. samkeppnislaga. Þó er þeim heimilt að útvega fundarritara og aðstöðu."
Þess má geta að umrædd takmörkun var sett á undanþáguheimildirnar meðal annars á grundvelli athugasemda sem Hagsmunasamtök heimilanna* lögðu fram í málinu, eins og fram kemur í ákvörðunarorðunum sem má lesa í heild sinni hér: http://www.samkeppni.is/media/akvardanir-2012/akvordun_0412_Undanthaga_vegna_samstarfs_i_kjolfar_doms_Haestarettar_600_2011.pdf
Það eina sem er markvert við símaviðtal forstjóra FME um þetta er að nú liggur fyrir annar af tveimur opinberum vitnisburðum embætissmanna í þá veru að Samtök fjármálafyrirtækja hafi fengið að brjóta samkeppnislög að því er virðist óáreitt af hálfu opinberra aðila sem tóku þátt í þeirri vinnu. Hinn fyrri vitnisburður kom frá Umboðsmanni skuldara í símaviðtali sem hún veitti fréttastofu RÚV um sama mál nýlega. Eina ráðgátan er í raun hvers vegna ekki er hafin opinber rannsókn af hálfu löggæsluyfirvalda á því sem virðist vera ólöglegt samráð á fjármálamarkaði.
Í máli forstjóra FME í morgun kom fram að í þeim málum sem snúast um úrvinnslu vegna ólöglegrar gengistryggingar hafi meginhlutverk FME verið að passa upp á að bankarnir væru í stakk búnir til að standa straum af þeirri "áhættu" sem dómunum fylgdi. Að mati forstjórans er semsagt áhætta fyrir fjármálafyrirtækin hvort þeim verði gert skylt að fara að lögum, og forgangsatriði sé að ríkið passi upp á að þeir fari ekki á hausinn. Er það þá "áhætta" ökumanns hvort hann fær sekt eða ekki fyrir að fara yfir á rauðu ljósi eða hvort hann veldur dauða og örkumlan við akstur undir áhrifum? Í viðtalinu minntist hinn nýji forstjóri ekki stöku orði á áhættu neytenda af því að plataðir hafi verið inn á þá ólöglegir lánasamningar og þeir notaðir til að gera eigur þeirra upptækar og reka þau af heimilum sínum!
Í ljósi þessarar stuðningsyfirlýsingar hljóta nú allir bankastjórnendur landsins að anda mun léttar, vitandi að sá aðili sem ráðinn hefur verið til þess að hafa eftirlit með þeim mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að gæta þess að þegar þeir fari á hausinn komi ríkið þeim til bjargar, og leyfi þeim að halda áfram sinni þaulskipulögðu og umfangsmiklu glæpastarfsemi.
Siðferðisblindan sem þarna er opinber, nægir til að setja venjulegan mann hljóðan.
* Þess skal getið að höfundur var meðal þeirra tíu sem sóttu um starf forstjóra Fjármálaeftirlitsins í maí síðastliðnum og hafði ekki erindi sem erfiði, en gegnir nú hlutverki varaformanns Hagsmunasamtaka heimilanna.
![]() |
Unnur ráðin forstjóri FME |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fasismi | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Röng fyrirsögn - ekkert mál unnið
3.7.2012 | 13:35
Óhætt er að fullyrða að fyrirsögn fréttar mbl.is af stöðu mála hjá Umboðsmanni Skuldara sé í besta falli villandi, ef ekki hreinlega kolröng. Þar er gefið í skyn að stærstur hluti mála hjá embættinu sé "unninn". Sé fréttin lesin nánar kemur hinsvegar í ljós að af 4099 umsóknum um greiðsluaðlögun hafa 2941 þegar verið samþykktar, 1755 málum hefur verið lokið og þar af 900 þeirra lyktað með samningum. Með öðrum orðum þá hefur aðeins tæpur helmingur umsókna leitt til niðurstöðu, og þar af í helmingi tilvika hefur sú niðurstaða verið samningar. Sú fullyrðing að efnisleg niðurstaða í innan við helmingi mála jafngildi því að "stærstur hluti "þeirra hafi "unnist" er einfaldlega röng.
Ekki nóg með að frjálslega sé farið með tölulegar staðreyndir, heldur er hugtakanotkun líka verulega ábótavant. Samningar við kröfuhafa hljóta óhjákvæmilega að fela í sér málamiðlanir og því tómt mál að tala um að nein mál hafi "unnist". Enda hefur embættið engar valdheimildir og getur þar af leiðandi ekkert gert til að knýja fram sigur í þeim málum þar sem lánveitendur hafa jafnvel með augljósum hætti brotið lög og samninga á viðskiptavinum sínum.
Hagsmunasamtök heimilanna og Talsmaður neytenda fóru í maí fram á lögbann á ólöglegar vörslusviptingar fjármálafyrirtækja, sem eru reyndar þegar bannaðar og hafa alltaf verið það. Sýslumaður gerði kröfu um tveggja milljóna tryggingu vegna lögbanns, á athæfi sem er ólöglegt. Málsaðilar vildu að sjálfsögðu ekki una þeirri kröfu, ekki frekar en að þurfa að borga fyrir lögregluútkall til að stöðva innbrotsþjófa. Sýslumaður hafnaði lögbannskröfunni án þess að taka nokkra afstöðu til málsatvika og var þeim úrskurði vísað til héraðsdóms þar sem var staðfest í júní að reiða þyrfti fram tvær milljónir til þess eins að sýslumaður svari þeirri spurningu efnislega hvort hann muni framfylgja gildandi landslögum, óháð því hvort hann muni svo gera það!
Nokkuð hefur verið deilt um fordæmisgildi dóms í máli 600/2011 um eignarréttargildi fullnaðarkvittana fyrir greiðslu samningsvaxta, og alandi á slíkri óvissu hafa fjármálafyritæki flest haldið ótrauð áfram innheimtu. Í júní fóru sömu aðilar einnig fram á lögbann á innheimtu þessara lána sem hafa verið endurreiknuð með ólöglegum útreikningum. Allt kom fyrir ekki og sýslumaður hafnaði því líka án nokkurs rökstuðnings en þeirri ákvörðun var einnig vísað til dómstóla síðastliðinn föstudag.
Eitt er það tilvik sem ekki er hægt að deila um varðandi fordæmisgildi og það er lánið sem dæmt var um í máli 600/2001, en engu að síður hafa hjónin sem unnu það mál líka fengið senda ólöglega innheimtuseðla eftir að dómur féll í málinu! Til gamans má geta þess að á fimmtudaginn síðastliðinn var þingfest mál sem þau sáu sig knúin til að höfða gegn lánveitanda, í því skyni að knýja hann til að láta af hinni ólöglegu innheimtu. Það er semsagt ekki einu sinni nóg að vinna í hæstarétti til þess að fá lánin sín, ekki leiðrétt, heldur aðeins löglega innheimt!
Það skýtur skökku við að gefið sé í skyn að nokkur mál hafi unnist hjá Umboðsmanni skuldara, embætti sem hefur að eigin sögn engar valdheimildir og virðist líka hafa takmarkaða hvatningu til þess að knýja fram rétt fólks gagnvart lánastofnunum sem ítrekað hafa opinberast sem löglaus glæpasamtök, og þaulskipulögð. Nokkur umræða hefur átt sér stað nýverið um þær ógnir sem að landsmönnum kunni að stafa af skipulagðri glæpastarfsemi, og hefur jafnvel verið skipaður starfshópur um málið hjá innanríkisráðuneytinu. Það er þó afar hjákátlegt að heyra stjórnmálamenn beina slíkri umræðu að samtökum vélhjólamanna, sem hafa lítið gert annað en fylgja því viðskiptalíkani sem sömu stjórnmálamenn leyfa að sé viðhaft í fjármálastarfsemi almennt. Það skyldi þó aldrei vera að ástæðunnar væri að leita hjá þeim sjálfum?
Vertu breytingin sem þú boðar! Aðrir munu ekki gera eins og þú segir þeim, heldur eins og þú sýnir þeim með eigin fordæmi. Þetta vita allir sem hafa einhverntíma átt börn.
![]() |
Stærstur hluti mála unninn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 5.7.2012 kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
LIBOR vextir í ruslflokk
30.6.2012 | 09:53
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Skálmöld
17.6.2012 | 14:46
Hvorki erlent lán né gengistryggt
16.6.2012 | 14:51
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Neyðarlög undirbúin í Bretlandi?
12.6.2012 | 11:47
Evrópumál | Breytt 13.6.2012 kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Og þetta er ekki pípa...
10.6.2012 | 04:28
Spurning um ráðherraábyrgð?
9.6.2012 | 21:46
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Skýrt brot á fjölmiðlalögum
30.5.2012 | 20:33
Fjölmiðlar | Breytt 31.5.2012 kl. 03:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ályktunin ógild? Eða bara ráðgefandi...
25.5.2012 | 15:35
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Orsakir bankahrunsins staðsettar?
25.5.2012 | 13:25
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
40% umsækjendur í annað sinn
23.5.2012 | 18:55
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)