Röng fyrirsögn - ekkert mál unnið

Óhætt er að fullyrða að fyrirsögn fréttar mbl.is af stöðu mála hjá Umboðsmanni Skuldara sé í besta falli villandi, ef ekki hreinlega kolröng. Þar er gefið í skyn að stærstur hluti mála hjá embættinu sé "unninn". Sé fréttin lesin nánar kemur hinsvegar í ljós að af 4099 umsóknum um greiðsluaðlögun hafa 2941 þegar verið samþykktar, 1755 málum hefur verið lokið og þar af 900 þeirra lyktað með samningum. Með öðrum orðum þá hefur aðeins tæpur helmingur umsókna leitt til niðurstöðu, og þar af í helmingi tilvika hefur sú niðurstaða verið samningar. Sú fullyrðing að efnisleg niðurstaða í innan við helmingi mála jafngildi því að "stærstur hluti "þeirra hafi "unnist" er einfaldlega röng.

Ekki nóg með að frjálslega sé farið með tölulegar staðreyndir,  heldur er hugtakanotkun líka verulega ábótavant. Samningar við kröfuhafa hljóta óhjákvæmilega að fela í sér málamiðlanir og því tómt mál að tala um að nein mál hafi "unnist". Enda hefur embættið engar valdheimildir og getur þar af leiðandi ekkert gert til að knýja fram sigur í þeim málum þar sem lánveitendur hafa jafnvel með augljósum hætti brotið lög og samninga á viðskiptavinum sínum.

Hagsmunasamtök heimilanna og Talsmaður neytenda fóru í maí fram á lögbann á ólöglegar vörslusviptingar fjármálafyrirtækja, sem eru reyndar þegar bannaðar og hafa alltaf verið það. Sýslumaður gerði kröfu um tveggja milljóna tryggingu vegna lögbanns, á athæfi sem er ólöglegt. Málsaðilar vildu að sjálfsögðu ekki una þeirri kröfu, ekki frekar en að þurfa að borga fyrir lögregluútkall til að stöðva innbrotsþjófa. Sýslumaður hafnaði lögbannskröfunni án þess að taka nokkra afstöðu til málsatvika og var þeim úrskurði vísað til héraðsdóms þar sem var staðfest í júní að reiða þyrfti fram tvær milljónir til þess eins að sýslumaður svari þeirri spurningu efnislega hvort hann muni framfylgja gildandi landslögum, óháð því hvort hann muni svo gera það!

Nokkuð hefur verið deilt um fordæmisgildi dóms í máli 600/2011 um eignarréttargildi fullnaðarkvittana fyrir greiðslu samningsvaxta, og alandi á slíkri óvissu hafa fjármálafyritæki flest haldið ótrauð áfram innheimtu. Í júní fóru sömu aðilar einnig fram á lögbann á innheimtu þessara lána sem hafa verið endurreiknuð með ólöglegum útreikningum. Allt kom fyrir ekki og sýslumaður hafnaði því líka án nokkurs rökstuðnings en þeirri ákvörðun var einnig vísað til dómstóla síðastliðinn föstudag.

Eitt er það tilvik sem ekki er hægt að deila um varðandi fordæmisgildi og það er lánið sem dæmt var um í máli 600/2001, en engu að síður hafa hjónin sem unnu það mál líka fengið senda ólöglega innheimtuseðla eftir að dómur féll í málinu! Til gamans má geta þess að á fimmtudaginn síðastliðinn var þingfest mál sem þau sáu sig knúin til að höfða gegn lánveitanda, í því skyni að knýja hann til að láta af hinni ólöglegu innheimtu. Það er semsagt ekki einu sinni nóg að vinna í hæstarétti til þess að fá lánin sín, ekki leiðrétt, heldur aðeins löglega innheimt!

Það skýtur skökku við að gefið sé í skyn að nokkur mál hafi unnist hjá Umboðsmanni skuldara, embætti sem hefur að eigin sögn engar valdheimildir og virðist líka hafa takmarkaða hvatningu til þess að knýja fram rétt fólks gagnvart lánastofnunum sem ítrekað hafa opinberast sem löglaus glæpasamtök, og þaulskipulögð. Nokkur umræða hefur átt sér stað nýverið um þær ógnir sem að landsmönnum kunni að stafa af skipulagðri glæpastarfsemi, og hefur jafnvel verið skipaður starfshópur um málið hjá innanríkisráðuneytinu. Það er þó afar hjákátlegt að heyra stjórnmálamenn beina slíkri umræðu að samtökum vélhjólamanna, sem hafa lítið gert annað en fylgja því viðskiptalíkani sem sömu stjórnmálamenn leyfa að sé viðhaft í fjármálastarfsemi almennt. Það skyldi þó aldrei vera að ástæðunnar væri að leita hjá þeim sjálfum?

Vertu breytingin sem þú boðar! Aðrir munu ekki gera eins og þú segir þeim, heldur eins og þú sýnir þeim með eigin fordæmi. Þetta vita allir sem hafa einhverntíma átt börn.


mbl.is Stærstur hluti mála unninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síðan er það verðtryggingin, gaman væri að frétta af því hvenar það mál fer fyrir dómstólana fyrir tilstuðlan HH.

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.7.2012 kl. 14:44

2 identicon

Þetta er rétt hjá hér. Embættið er sérsniðið að óskum fjármálafyritækja allt gengur út á að þau nái eins miklu og hægt er af skuldara en haldi honum þó á lífi til hann geti haldið áfram að borga. Setti mál til þeirra þar sem ég var rændur af fjármálafyrirtækinu Lýsingu sem sem lét Frumherja útbúa fyrir sig að öllu leiti upplogna og falsaða kosnaðarmatsskoðun. Blekkingum var beytt þegar málið var sett fyri héraðsdóm til ég mætti ekki með gögn til að grípa til varna.Og áritun frá dómara kom mér að óvörum. Sýslumenn og dómsstólar unnu með þjófunum. Og umboðsmaður skuldara gerði ekkert í málunum.Enda Samfylkingin örugglega  séð um mannaráðningarnar hjá embættinu.

Örn Ægir (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 10:16

3 identicon

Í skjóli sýslumanna dómsstóla og stjórnmálamanna vaða þjófar upp sem herja á almenning það er bara Ísland í dag!

Örn Ægir (IP-tala skráð) 4.7.2012 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband