Skrautleg saga Varðar

Vörður tryggingafélag á sér langa sögu sem hefur verið dálítið skrautleg það sem af er þessari öld. Henni er líklega best lýst eins og hún er birt á heimasíðu félagsins, en þarna tvinnast sagan á milli margra af stærstu viðskiptablokkum landsins á nokkuð forvitninlegan hátt. Aðalatriðin hef ég feitletrað:

Vörður er ungt vátryggingafélag en með langa sögu. Rætur félagsins liggja í stofnun Vélbátasamtryggingar Eyjafjarðar, en það var stofnað var árið 1926. Það var síðar nefnt Vélbátatrygging Eyjafjarðar GT og svo Vörður vátryggingafélag hf. Má því segja að Vörður hafi orðið 80 ára árið 2006.

Íslandstrygging hf. var stofnað árið 2002. Félagið hóf starfsemi sína í öllum greinarflokkum vátrygginga í byrjun ágúst 2002. Að félaginu stóð hópur einstaklinga og lögaðila sem áhuga höfðu á vátryggingarekstri. Félagið fékk ágætan meðbyr á markaðnum og stækkaði hratt. Á haustmánuðum 2004 hófust viðræður á milli forsvarsmanna Varðar vátryggingafélags og Íslandstryggingar hf. um samruna félaganna. Töldu eigendur og stjórnendur beggja félaga þann samruna afar heppilegan þar sem ekki væri rekstrargrundvöllur fyrir svo litlum rekstrareiningum. Í tengslum við fyrirhugaðan samruna eignaðist Baugur 100% hlutafjár Varðar vátryggingafélags en þegar samrunaviðræður voru á lokastigi tilkynnti Baugur um sölu á öllu hlutafé Varðar til VÍS. Eftir stuttar viðræður á milli stjórnenda Íslandstryggingar hf. og VÍS var ákveðið að samrunaáformum þeim sem farið höfðu að stað milli Varðar vátryggingafélags og Íslandstryggingar hf. yrði fram haldið og var samruni félaganna ákveðinn í lok árs 2004. Var félögunum síðan rennt saman þann 1. janúar 2005 og fékk sameinað félagið nafnið Vörður Íslandstrygging hf.

Árið 2006 var Verði Íslandstryggingu nokkuð þungt í skauti. Árið einkenndist af breytingum á eignarhaldi stórra hluta í félaginu, örum breytingum á yfirstjórn og hallarekstri á vátryggingastarfsemi. Í mars 2006 keypti Exista hf. síðan Eignarhaldsfélag VÍS hf. og komst um 56% hlutur í Verði Íslandstryggingu þannig í eigu Exista. Í framhaldi leitaði Exista eftir því að ná samstöðu um að sameina Vörð Íslandstryggingu og VÍS. Samkomulag náðist ekki í hópi hluthafa félaganna. Í nóvember 2006 kaupir Klink ehf. mest allt hlutafé Varðar Íslandstryggingar af Exista og selur í beinu framhaldi til Eignarhaldsfélagsins ehf. Að Eignarhaldsfélaginu ehf. standa SP-Fjármögnun, Landsbankinn og BYR sparisjóður. Er ætlun eigenda félagsins að efla starfsemi þess á alla vegu og gera félagið að raunhæfum valkosti við stóru félögin á markaðnum.

Í júní 2007 var nafni félagsins breytt í Vörður tryggingar hf.
 
Vörður líftryggingar hf. var stofnað í desember 2007. Eigendur þess eru Landsbankinn og Vörður tryggingar hf.
 
Framkvæmdastjóri Varðar trygginga hf. og Varðar líftrygginga er Guðmundur Jóhann Jónsson. Guðmundur starfaði um langt árabil sem einn af stjórnendum Sjóvá.

 

Eftir slíkan lestur eru ýmsar spurningar sem vakna: Hafa þessar yfirtökur og samrunar síðustu 6-7 ára skilað einhverri hagræðingu í rekstri þessara fyrirtækja? Hafa einhver merki þess komið fram í verðlækkunum á tryggingum fyrir neytendur? Ef aukin hagræðing þýðir aukinn hagnaður, hver naut góðs af því (annar en eigendur/kaupendur/seljendur þessara fyrirtækja)? Hversu oft á leiðinni var bókfært virði þessara félaga samanlagt hækkað í bókhaldi eigendanna (með því að færa inn viðskiptavild eða aðrar "óefnislegar eignir" e.t.v.)? Snýst þetta kannski um eitthvað annað en hagnað af loftbóluviðskiptum (völd kannski)? Hvaða áhrif höfðu þessi síendurteknu eigendaskipti á fjárfestingarstefnu þeirra sjóða sem tilheyrðu tryggingafélaginu? Hvaða áhrif hafði það svo á markaðsverð hlutabréfa o.þ.h. sem fjárfest var í? Getur verið að tilgangurinn hafi verið eitthvað allt annað en tryggingarekstur? Eru bankar heppilegir aðilar til að eiga og reka tryggingafélög eða önnur fyrirtæki (t.d. lífeyrissjóði)? Hvar eru eðlileg mörk á milli hefðbundinnar bankastarfsemi (innlán/útlán) og fjárfestingarfélaga eða jafnvel spákaupmennsku? Í sumum tilvikum virðast mörkin hafa verið óskýr og jafnvel "irrelevant" þegar sömu aðilar eiga í öllu klabbinu frá botni til topps. Eitt er víst og það er að bankarnir sem eiga hlut að máli hafa verið afar duglegir að markaðssetja og selja ýmsar fjármálatengdar afurðir fyrir hönd fyrirtækja sem þeir hafa eignast með áþekkum hætti og hér er lýst.


mbl.is Vörður starfar á FME-undanþágu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Sæll Mummi.

Mjög augljóslega svínarí og svik þarna á ferð.  Hafðu þökk fyrir að benda á þetta og undirstrika hversu miklir olígarkar léku hér lausum hala fyrir ári síðan eða svo...

Sigurjón, 17.5.2009 kl. 03:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband