Eldsumbrot?

Það hafa talsverðar jarhræringar verið víðsvegar á landinu undanfarið, en skemmst er að minnast Suðurlandsskjálftanna í sumar. Núna nýlega hljóp svo úr Skaftárkötlum flóð sem var með þeim stærstu sem þekkjast undir "venjulegum" kringumstæðum (þegar ekki er um eldsumbrot að ræða). Í kjölfarið fór af stað dágóð skjálftahrina undir vesturhluta Vatnajökuls á svæði sem liggur í beinni línu frá Laka í NNA átt, alla leið að Trölladyngju. Síðan í gær hefur svo verið talsverð virkni á Tjörnes-brotabeltinu við Norð-Austurland og margir skjálftar þar á bilinu 2-3 og a.m.k. einn vel yfir 4 sem telst nokkuð stór skjálfti þó engin hætta stafi af þessu enn sem komið er. Svo er nú verið að benda á að virkni við Upptyppinga hafi tekið sig upp að nýju eftir hlé í sumar, en þar hefur alveg frá í fyrra verið í gangi svokallað kvikuskot. Slíkt fyrirbæri má útskýra ágætlega með því að ímynda sér aðstæður svipaðar og í eldgosi þar sem kvika er á leið upp á yfirborðið, nema hvað hún nær ekki að brjótast alla leið í gegn og því eru einkenni eldsumbrotanna ekki sjáanleg á yfirborðinu. Engu að síður eru þetta gríðarlegir kraftar sem þarna eru að verki í iðrum jarðar, og skjálftavirknin samfara þessu hefur hægt og sígandi verið að þokast nær yfirborðinu alveg frá því að virknin hófst á þessu svæði í fyrra. Í þessu sambandi er rétt að benda á að það er aðeins steinsnar frá Upptyppingum að Hálslóni eða um 20km eins sjá má á meðfylgjandi korti. (Sama mynd og fylgdi fréttinni.)

Upptyppingar

Ef í ljós kemur að þarna er kvika að safna upp þrýstingi í stóru neðanjarðarkvikuhólfi líkt og er undir Öskju (eða var a.m.k. áður en hún sprakk) þá er ljóst að voðinn er vís og Kárahnúkavirkjun í hættu ef þarna verður eldgos. Þeir sem hafa komið í Öskju eða kynnt sér sögu hennar vita að þegar slík gos verða (á nokkur hundruð ára fresti) þá er kraftarnir sem leysast úr læðingi svo gríðarlegir að efnahagskreppan og peningaupphæðir sem nefndar hafa verið í því sambandi verða tittlingaskítur í samanburði! Það væri nú dæmigert fyrir kaldhæðni örlaganna ef landvættirnir myndu bregðast þannig við núverandi ástandi að senda eins og 1 stk. litlu-ísöld yfir Vestur-Evrópu, ekki síst Bretlandseyjarnar í ljósi efnahagslegra árása þeirra gegn okkur undanfarið...

 Bara pæling.


mbl.is Aukin virkni við Upptyppinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Líka fyndið að skjálftavirkni við Upptyppinga hefst um leið og Hálslón er orðið fullt og eykst síðan þegar það byrjar að tæmast. Eflaust tilviljun en samt dáldið kómískt.

Brynjólfur Þorvarðsson, 21.10.2008 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband