Undirliggjandi ástæður ófriðarins

Eins og áður hefur komið fram hér þá tel ég átökin í Georgíu að miklu leyti snúast um orkuöryggismál, þ.e.a.s. olíu og gasflutninga frá Kaspíahafssvæðinu til Evrópu. Í því samhengi datt ég niður á grein hjá NY Times sem varpar nokkuð góðu ljósi á forsögu þessu máls. Skv. þessu mætti jafnvel ganga svo langt að draga þá ályktun að þetta stríð standi ekki milli þjóðríkja í hefbundnum skilningi, heldur séu þarna í dulbúningi átök Gazprom-klíku Pútíns við BP um olíuhagsmuni við Kaspíahaf og jafnvel víðar á rússnesku áhrifasvæði.

BP lokaði í gærmorgun Baku-Supsa olíuleiðslunni sem liggur um Georgíu af ótta við tjón vegna átakanna þar, en leiðslan var sú síðasta undir stjórn vestrænna aðila sem flytur eldsneyti frá Kaspíahafssvæðinu til Evrópu. Skömmu síðar lýsti svo Medvedev forseti því yfir að rússneski herinn hefði náð markmiðum sínum með aðgerðunum í Georgíu og nágrenni. BP vildi samt alls ekki kannast við skemmdir á rörinu og sögðu lokunina eingöngu vera í "öryggisskyni". Hinsvegar segja Georgíumenn að Rússar hafi gert a.m.k. eina loftárás á leiðsluna sem Rússarnir neita auðvitað að staðfesta. Á meðan flæðir samt engin olía um svæðið nema með samþykki Gazprom og yfirmenn orkuöryggismála í Evrópu eru á nálum, skiljanlega.

Ef Rússar skyldu nú ákveða að skrúfa fyrir alltsaman eins og þeir gerðu við Úkraínu þá hafa þeir hreðjatak á Evrópuríkjunum, án eldsneytis verða herir Evrópuríkjanna ekki starfhæfir lengi og miðað við núverand ástand mála hjá þeim bandaríska er hæpið að þeir myndu ná að bregðast í tæka tíð við árás og koma Evrópu "til bjargar" enn á ný. Áður en maður afskrifar slíkar pælingar vil ég benda á ákveðið munstur í taktík Rússa að þessu sinni: þeir segja eitt en gera annað að því er virðist til að villa um fyrir bæði andstæðingum og áhorfendum, svo sækja þeir fram á einum stað af fullum þunga til að draga þangað athygli á meðan þeir undirbúa næstu sókn á allt öðrum stað, S-Ossetía og Abkhazia eru t.d. landfræðilega aðskilin svæði en á milli þeirra er annað hérað. Það skyldi þó aldrei vera að framrásin núna til suðurs inn í Georgíu sé aðeins "diversion" og hluti af undirbúningi fyrir enn stærri framrás í vesturátt?... Hvað sem vangaveltum líður þá er þetta stórhættulegt ástand.

Sem unglingur las ég stóra og mikla spennusögu eftir Tom Clancy sem heitir Red Storm Rising þar sem einmitt er fjallað um stríð sem brýst út í Evrópu vegna aðstæðna er tengjast orkuöryggismálum. Reyndar eru það Sovétmenn sem eru þar að verða bensínlausir vegna gríðarlegrar sprengingar sem verður af ókunnum ástæðum í stærstu olíuhreinsunarstöð þeirra, og sjá þeir fram á orkukreppu sem þeir munu ekki geta leynt fyrir vökulum augum bandarískra gervihnatta. Til þess að forðast gjaldþrot og verða ekki að auðveldu skotmarki fyrir vesturveldin ákveða þeir að nota þær eldsneytisbirgðir sem eftir eru til leifturstríðs inn í Evrópu. Þeir meta alla valkosti í stöðunni slæma en þann skástan að taka sénsinn á því að Bandaríkin muni hika við að beita kjarnavopnum sínum meðan þeir beiti sjálfir engum gereyðingarvopnum. Þá tækist þeim hugsanlega að leggja undir sig stóran hluta Evrópu með gríðarstórum hefðbundnum herafla sínum í leifturstríði áður en Bandaríkin næðu að senda liðsstyrk til NATO-ríkjanna í Vestur-Evrópu. Það skyldi þó aldrei vera að græðgi Gazprom-klíkunnar verði til þess að koma af stað einhverju svipuðu nú, en þá værum við að horfa fram á a.m.k. Sovétríkin endurreist og jafnvel stærra landsvæði undir harðstjórn fyrrverandi KGB-manna og heiminn enn einu sinni á barmi tortímingar.

P.S. Merkilegast þegar ég las þessa bók á sínum tíma fannst mér, að hún gerist að stóru leyti á Íslandi þó svo að megin sögusvið átakanna sé í Mið-Evrópu, en þetta á að vera á tímum kalda stríðsins þegar hér var bandarísk herstöð. Annars prýðileg bók sem ég mæli með til afþreyingar, hún er mjög spennandi ef lesendur hafa á annað borð áhuga á slíkum skáldskap.


mbl.is Bandaríkin styðja Georgíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eg vil vekja athygli á algerlega nýjum og áhugaverðum vinkli á þennan ófrið sem bent var á annarsstaðar á blogginu. Þarna er rifjað upp að tæknilega hafi það jú verið Georgíumenn sem njóta stuðnings Bandaríkjanna og NB: Ísraelsmanna, sem upphaflega réðust á aðskilnaðarsinnana í S-Ossetíu. Í kjölfar átakanna þar hafi svo Bandaríkjamenn stefnt miklum fjölda herskipa inn á Persaflóa í átt að Íran, og eru liðsflutningar þeirra til svæðisins nú svo miklir að t.d. hefur Kuwait brugðist við með því að lýsa yfir hæsta viðbragðsstigi vegna möguleikans á því að einhverskonar átök séu í uppsiglingu þar um slóðir. Ég hef hingað til hallast að þeirri kenningu að Rússarnir hafi notað skyndiárás Georgíumanna sem tylliástæðu til að ógna vestrænum olíhagsmunum með BP þar fremst í flokki. En það skyldi þó aldrei vera að þessi "diversion" hafi í raun verið að undirlagi Bandaríkjanna/Ísraels í þeim tilgangi að kynda undir fyrir árás á Íran sem lengi hefur verið yfirvofandi, og e.t.v. senda Rússum í leiðinni tóninn að halda sig til hlés á meðan? Með flutningi Georgískra hermanna frá Írak og vestræns "hjálparliðs" til Georgíu eru þeir á vissan hátt að draga línu í sandinn þar fyrir frekari framrás Rússa til suðurs. Það myndi svo torvelda þeim aðstoð við Írani ef ráðist verður á þá og um leið koma í veg fyrir að Rússarnir gangi á lagið og noti kringumstæðurnar sem tylliástæðu til að sölsa undir sig öll Kákasuslöndin. Ef rétt reynist, þá er það taktískt nokkuð klókt af hönnuðum þessarar atburðarásar. Samt sem áður mun líklega seint verða fullvíst hvað er satt og logið í þessu stríði sem einkennist af miklum og augljósum áróðri á báða bóga.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2008 kl. 01:04

2 identicon

http://english.aljazeera.net/news/europe/2008/08/2008814165558285413.html

Eru þjóðernishreinsanir að eiga sér stað?

Axel (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 15:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband