Hætta við Hálslón?

Spurning hvort þetta ætti ekki að vekja smá áhyggjur, ég vil svosem ekki vera með hrakspár eða óþarfa svartsýni, en það er samt skynsamlegt að gera sér grein fyrir mögulegum aðsteðjandi hættum og á Íslandi er jarðvá ein þeirra. Skv. jarðskjálftakortum er þetta í um 10-20 km fjarlægð frá Hálslóni við Kárahnjúka, sem er aðeins steinsnar (í bókstaflegri merkingu!) þegar hamfarir á borð við eldgos eru annars vegar. Þar er einmitt mjög nýlega búið að bæta ofan á jarðskorpuna u.þ.b. 2.100 Gl af vatni með tilheyrandi þrýstingi sem ekki var fyrir. Til að gefa smá hugmynd um hvað þessar tölur þýða fyrir hinn almenna borgara, þá er fjarlægðin ofan úr Breiðholti og út á Seltjarnarnes einmitt á þessu bili og þyngd Hálslóns er u.þ.b. 2,1x10^12 kg = 2,1 milljarðar tonna! Miðað við það sem ég veit um jarðfræði (sem er takmarkað) og eðlisfræði (talsvert meira!) þá þykir mér augljóst að þessar jarhræringar eiga sér stað innan áhrifasvæðis Kárahnúkavirkjunar.

Dýpt jarðskjálftanna bendir svo til þess að þarna sé um að ræða hreyfingar á bergkviku, sem byrjuðu á >14 km dýpi en færast nú ofar um 1km á dag að meðaltali. Ef fram heldur sem horfir mun það sem þarna er á ferðinni ná til yfirborðsins öðru hvoru megin við þar næstu helgi! Vissulega eru jarðskjálftar einir og sér ekki skýr fyrirboði um gosvirkni, en þetta svæði hefur aldrei hegðað sér svona fyrr svo vitað sé. Á þessu stigi er samt ekkert sem bendir til þess að þetta sé í rénun og það eina sem blasir við er fullkomin óvissa um framhaldið. Ég man ekki betur en að í aðdraganda og á framkvæmdastigi virkjunarinnar hafi a.m.k. einn eða tveir jarðfræðingar varað við hugsanlegum áhrifum þessa gríðarlega viðbótarálags á jarðskorpuna þarna í jaðri eins virkasta umbrotasvæðis sem fyrirfinnst á yfirborði jarðar. Hvar eru þeir nú og hvað hafa þeir um þessar hræringar að segja?

Landsvirkjun hefur vonandi vakandi auga með þróuninni þarna austur á fjöllum og ætti að vera byrjuð að undirbúa viðbragðsáætlun, annað væri fífldirfska enda væri stærsta fjárfesting Íslandssögunnar í hættu ef svo vill til að þarna séu eldsumbrot í uppsiglingu. Öskufall gæti mögulega borist í lónið og aukið verulega við aursöfnun sem gæti reynst vandamál fyrir aflvélar virkjunarinnar, jarðskjálftar og sprungumyndun vegna gosóróa gætu veikt jarðlög í lónstæðinu og mögulega valdið skemmdum á mannvirkjum t.d. göngunum sem miðla vatni til og frá lóninu. Eldingar úr gosmekki gætu truflað raforkudreifingu eða fjarskipta- og stjórnbúnað, hraunrennsli gæti tekið raflínur í sundur og í versta falli fyllt lónið að svo miklu leyti að það verði ónothæft. Við slíkar kringumstæður gætu samningar um orkusölu til Fjarðaráls verið í uppnámi og Stóri Draumurinn orðinn að verstu martröð. Ekki bara náttúruhamfarir heldur ennig efnahagslegar!

Þetta eru auðvitað allt saman getgátur og vangaveltur en ef allt færi nú á versta veg, þá veit ég a.m.k. um einn mann sem mun rísa upp og segja "sjá, ég varaði ykkur við" og það er Steingrímur J. Sigfússon formaður VG sem varaði við því að leggja öll eggin í sömu risakörfuna. Að sama skapi yrði athyglisvert í framhaldinu að fara yfir sjónarmið þeirra verndarsinna sem vildu helst að svæðið yrði friðað og varðveitt ósnert um aldur og ævi, það markmið væri fallið um sjálft sig óháð virkjuninni. Mannanna verk eru flest smá og hverful í samanburði við þær breytingar sem náttúrunni sjálfri eru eðlislægar, ekki síst á lítilli eyju sem situr á flekaskilum beint ofan á uppstreymisreit.

Og náttúruöflin eru aldeilis víða í ham, nýbúið að hleypa úr Grímsvötnunum og núna þegar þetta er skrifað geisar þvílíkur stormur að rigningin er byrjuð að frussast inn um gluggann á baðherberginu! Crying


mbl.is Ekkert lát á jarðskjálftum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband