Meira líf = meiri hiti !

Burtséð frá því hvort um náttúrulega hringrás er að ræða eða ekki, þá held ég að hljóti að skipta dálitlu máli að við mannskepnurnar séum ekki að bæta meiru við þetta ferli en nauðsyn krefur og breyta þannig eðlilegri þróun þess. Á hinn bóginn má auðvitað ekki heldur líta á mannskepnuna sem "aðskotahlut" í vistkerfi jarðarinnar, við erum jú ekkert annað en afleiðing náttúrulegrar þróunar og höfum síst minni réttindi en aðrar tegundir til að nýta auðlindir jarðar og losa úrgang.

Í liffræðinni eru fimm skilyrði sem þarf að uppfylla til að teljast vera lífvera, og eitt af þeim er: "Efnaskipti, nærist og umbreytir efnum í orku eða geymir; næringin eykur vöxt og býr til orku fyrir hreyfingu t.d.; losar úrgang." (skv. Wikipedia) Það er semsagt öllum lífverum eðlilegt að breyta efnum úr umhverfinu í orku til að nota við daglega iðju sína og auka vöxt sinn, en losa sig jafnframt við þann úrgang sem verður til fyrir vikið. Ekkert er tekið fram um hversu hratt eða hægt þetta þurfi að eiga sér stað og í náttúrunni fyrirfinnast misjafnlega hröð efnaskipti þó maðurinn sé líklega öfgafyllsta dæmið, en síðast þegar ég vissi taldist Homo Sapiens samt ennþá til lífvera. Í ljósi umræðunnar um hækkandi hitastig jarðar er svo athyglisvert að líta snöggvast á skilgreiningu eðlisfræðinnar á hugtakinu hiti: "Hiti, einnig nefndur hitastig, er eðlisfræðileg stærð, sem er mælikvarði á hreyfiorku sem býr í óreiðukenndri hreyfingu efniseinda." (skv. Wikipedia) En á mannamáli þýðir þetta að með aukinni virkni innan efnislegs kerfis mælist aukning á hitastigi þess. Vistkerfi og lífhvolf jarðarinnar ásamt öllu innihaldi þess er vissulega efnislegt kerfi gert úr efniseindum, og hreyfing innan þess hefur vissulega stóraukist með áður óþekktum hraða undanfarin 200 ár eða svo vegna stóraukinna umsvifa mannskepnunnar. Hækkun hitastigs ætti því ekki að koma mjög á óvart og í raun hlýtur að þykja undarlegt að til séu stjórnmálamenn og jafnvel vísindamenn sem virðast ekki átta sig á þessu augljósa orsakasamhengi.

Það flækir málið reyndar nokkuð að í opinberri umræðu eru loftslagsbreytingar oft settar undir málaflokka á borð við "umhverfismál" og þannig spyrt saman við ýmisskonar náttúrvernd, dýrafriðun o.fl. Þetta er því miður villandi því ef við tækjum nú hugtakið náttúruvernd fullkomlega bókstaflega myndi það þýða að við ættum einmitt að líta á hlýnun jarðar sem eðlilega og rökrétta afleiðingu lífs á jörðinni, þ.m.t. mannlífs, og ættum alls ekki að grípa inn í heldur einmitt vernda hina "náttúrulegu" þróun þess ferlis. En með sama hraða hlýnunar verða heimkynni þriðjungs allra jarðarbúa komin undir vatn eftir nokkra áratugi, og þannig mætti færa rök fyrir því að hrein bókstafstrú í náttúruverndarmálum sé í besta falli skaðleg og allt að því ómannúðleg. Það væri því nær að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og tala um loftslagsbreytingar ekki bara í tengslum við umhverfismál, heldur líka sem utanríkismál, efnahagsmál og jafnframt eitt stærsta þjóðaröryggismál framtíðarinnar. Síauknar náttúruhamfarir ásamt fyrirsjánlegri olíuþurrð (sjá "Peak Oil") munu nefninlega hafa einna verst áhrif á vanþróuðum svæðum sem nú þegar einkennast af skorti, vonleysi, spillingu og pólitískum óstöðugleika. Hlýnun jarðar mun þannig koma af stað ófáum borgarstyrjöldum og öðrum staðbundnum átökum um þær takmörkuðu eignir og auðlindir sem eftir munu standa, og búast má við gríðarlegu mannfalli ásamt langstærsta flóttamannavandamáli sem heimurinn hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir! Á tímum alþjóðavæðingar, hryðjuverka, og síaukinna umsvifa Íslands á alþjóðavettvangi m.a. með framboði til Öryggisráðs SÞ, hlýtur þetta að vera eitthvað sem kemur okkur við. Ísland er þjóða fremst í umhverfismálum en betur má ef duga skal, og við björgum ekki mannkyninu ein aðeins 300.000 talsins. Við getum hinsvegar kennt þeim sem vilja að hjálpa sér sjálfir eins og við höfum gert t.d. með þróunaraðstoð og fiskveiðiráðgjöf í þriðja heiminum með góðum árangri, og hvet ég því hér með til þess að framvegis taki Ísland aukinn þátt í ráðgjöf við uppbyggingu sjálfbærrar starfsemi og innleiðingu vistvænna lifnaðarhátta í ríkjum sem eru aftarlega á því sviði.  Það er framfaramál, ekki bara þjóðarinnar heldur heimsbyggðarinnar allrar.


mbl.is Bráðnandi ísjakar efla lífríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband