Endurútreikningur óþarfur - borgið höfuðstólinn

Nú hafa svokölluð smálánafyrirtæki ákveðið að hætta að sniðganga íslensk lög með því að leggja ólöglega háan kostnað á slík lán. Reyndar fylgir ekki sögunni hvort þau ætli einnig að hætta að sniðganga dönsk lög sem þau segjast starfa eftir, en samkvæmt dönskum lögum er skilyrði að 48 klukkustundir líði frá lánsumsókn áður en lánveiting er staðfest.

Þessari frétt var m.a. slegið upp í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni: "Smálán heyra nú sögunni til". Sú framsetning er mjög villandi því þessi fyrirtæki eru alls ekki hætt að veita smálán, heldur hafa þau látið undan gagnrýni á ólöglega háan kostnað og ákveðið að lækka hann niður að löglegum mörkum, sem jafngilda nú 53,75% ársávöxtun samkvæmt íslenskum lögum. Smálán munu því áfram bjóðast á þeim kjörum og þó þau séu innan löglegra marka eru þetta samt dýrustu lán sem bjóðast.

Fagnaðarlæti eru ótímabær fyrr en staðreynt hefur verið hvort umrædd fyrirtæki muni standa við þessar yfirlýsingar. Sporin hræða því á meðan íslensk fyrirtæki störfuðu undir sömu vörumerkjum og eru nú í eigu Kredia Group, héldu þau því ítrekað fram að lánakjör væru innan löglegra marka en bjuggu jafnframt til dulbúinn aukakostnað á lánin sem var margfalt umfram lögleg mörk og hunsuðu alla úrskurði um að þeim væri það óheimilt.

Í tilkynningu á vef Neytendasamtakanna segir nú:

Neytendasamtökin krefjast tafarlauss endurútreiknings smálána

"Stjórnvöld verða að tryggja að nú þegar fari fram endurútreikningur á öllum lánum af hálfu hlutlauss aðila eins og umboðsmanns skuldara. ..."

Það sem Neytendasamtökin virðast misskilja er að umboðsmaður skuldara er ekki gjaldfrjáls lögfræðiþjónusta eða réttindagæsluaðili fyrir skuldara, heldur hefur embættið milligöngu um að koma á nauðasamningum við kröfuhafa. Að semja um að greiða kröfur er alls ekki það sama og að hnekkja þeim sem ólöglegum og fella þær niður. Ótal margir hafa leitað til umboðsmanns skuldara með slíkar hugmyndir í von um að embættið myndi aðstoða við að fella niður ólöglegar kröfur, en komist að því að slík þjónusta er einfaldlega ekki í boði þar. Fyrir utan örfáa lögmenn er aðeins einn hlutlaus aðili hér á landi sem býður upp á aðstoð við slíkt: Hagsmunasamtök heimilanna.

Varðandi "endurútreikning" ólöglegra smálána er rétt að vekja athygli á því sem kemur fram í 3. mgr. 36. gr. c í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 sem felur í sér innleiðingu á reglum úr Tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum:

"Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans."

Undirstrikaði textinn þýðir að ef ósanngjörnum skilmála er vikið til hliðar - en ólöglegur skilmáli hlýtur jafnframt að vera ósanngjarn - þá á neytandinn rétt á því að samningurinn standi óbreyttur að öðru leyti. Þegar um lán er að ræða þýðir það að ef skilmálar um vexti eða kostnað eru ólöglegir á að fella þá brott en þá stendur eftir lán sem er vaxtalaust og án alls kostnaðar þannig að einungis þarf að endurgreiða höfuðstólinn. (Höfuðstóll samkvæmt lögum um neytendalán er sú upphæð sem upphaflega var tekin að láni og hún breytist ekkert eftir það þó sumir íslenskir verðtryggingarperrar vilji halda öðru fram.)

Með öðrum orðum þarf ekki að endurreikna neitt. Sá sem hefur tekið lán með skilmálum um ólöglega háan kostnað á einfaldlega að endurgreiða höfuðstólinn án þess kostnaðar. Sem dæmi: ef teknar voru 20.000 krónur að láni þá skal endurgreiða 20.000 krónur og ekkert umfram það. Enginn sérstakur útreikningur er nauðsynlegur.

Annað sem segir í tilkynningu Neytendasamtakanna vekur hroll:

"Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld og fyrirtæki til að bregðast afar skjótt við svo réttindi lántaka verði tryggð. Í því skyni benda Neytendasamtökin á málshraðann þegar ólögleg gengislán voru endurútreiknuð árið 2010."

Sporin hræða svo sannarlega við þessa upprifjun, því þegar fjármálafyrirtæki fengu leyfi stjórnvalda til samráðs um endurútreikninga gengislána í trássi við samkeppnislög og útilokuðu fulltrúa neytenda frá aðkomu að því, var niðurstaðan þvert gegn þeim lögum og reglum EES um neytendavernd sem var vísað til hér að ofan. Ekki aðeins var ákveðið að fella niður ólöglega hlutann (gengistrygginguna) heldur einnig löglega hlutann (vextina). Gott og vel, flestir hefðu getað vel við unað að lánin væru þá líka vaxtalaus, nema svo var farið í alveg ótrúlegar æfingar til að halda því fram að í staðinn skyldu koma svokallaðir "seðlabankavextir" sem fóru upp í um 20% í hruninu.

Ekki nóg með að enginn heilvita maður hefði samþykkt að taka lán á slíkum kjörum ef þau hefðu legið fyrir við undirskrift, heldur átti þessi niðurstaða sér hvergi neina stoð í lögum og braut gróflega gegn ofangreindum EES-reglum sem ætlað er að vernda neytendur. Því hefur stundum verið haldið fram að þeir sem tóku gengistryggð lán hafi fengið þau "lækkuð" en það er helber misskilningur því með þessum kolólöglegu æfingum voru þau í raun hækkuð, í mörgum tilfellum um helming eða jafnvel meira.

Neytendur: látið ekki blekkja ykkur og hlunnfara eina ferðina enn. Ef þið hafið tekið lán sem er með ólöglegum skilmálum um kostnað, endurgreiðið þá bara sömu fjárhæð án hins ólöglega kostnaðar. Gætið þess svo framvegis að stofna ekki til viðskipta við aðila sem stunda óréttmæta viðskiptahætti.


mbl.is Krefjast endurútreiknings smálána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér er fyrirmunað að skilja, afhverju Fjámálaetirlitið er ekki búið að stoppa þessi ólöglegu smá lán fyrir mörgum árum. Því þetta er óskiljanlegt með öllu,því þetta er á verksviði Fjármálaeftilitsin.

Jón Ólafur (IP-tala skráð) 26.7.2019 kl. 17:16

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Ólafur.

Nei þetta er nefninlega ekki á verksviði Fjármálaeftirlitsins þar sem þessi fyrirtæki eru ekki bankar, heldur er þetta á verksviði Neytendastofu samkvæmt lögum um neytendalán.

Staðreynd málsins er sú að Neytendastofa gerði einmitt það, stoppaði þessa starfsemi hér á landi fyrir mörgum árum og endaði með því að keyra viðkomandi fyrirtæki í gjaldþrot með dagsektum.

Það sem gerðist svo í kjölfarið var að tékkneskt fyrirtæki keypti vörumerkin þeirra úr þrotabúunum og hóf að veita smálán frá Danmörku. Þar í landi er ekkert lögbundið hámark kostnaðar eins og hér á landi og það hagnýtti tékkneska fyrirtækið sér með því að setja starfsemina í danskt skúffufyrirtæki.

Hvorki Fjármálaeftirlitið né Neytendastofa hafa lögsögu í Danmörku heldur er eftirlit þar á verksviði danskra stjórnvalda. Það væri því kannski réttara að spyrja sem svo: Hvers vegna dönsk yfirvöld hafa ekki stoppað þessa starfsemi enda byggist hún líka á því að sniðganga 48 klst. afgreiðslutíma skammtímalána.

Sniðgangan fer fram með því að láta lánið vera til 5 dögum lengri tíma en þeir 90 dagar sem dönsk lög skilgreina sem skammtímalán. Afborganir svo eru þannig að eftir 30 daga á að endurgreiða allt lánið mínus tvær krónur, eftir 60 daga greiðist ein króna og eftir 95 daga sú síðasta. Þetta er auðvitað "tær snilld".

En aðalpunkturinn er sá að dönsk stjórnvöld bera ábyrgð á eftirliti með dönskum lánafyrirtækjum. Ekki íslensk.

P.S. Því hefur stundum verið haldið fram að til að fá viðunandi lánakjör á Íslandi þurfi að fá erlenda aðila inn á íslenskan lánamarkað. Alltaf þegar ég sé eða heyri slíku haldið fram læðist aulahrollur niður bakið á mér, því erlendir aðilar eru nú þegar á íslenskum lánamarkaði og reynslan af þeim er ekki góð.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.7.2019 kl. 17:47

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vegna umfjöllunar Eyjunnar/DV um málið er ástæða til að taka fram að gífuryrði á borð við "Kerfisfræðingur segir Neytendasamtökin með allt niður um sig varðandi smálánin" eru alfarið á ábyrgð viðkomandi fjölmiðils og eiga sér enga stoð í ofangreindum skrifum.

Það er ekki markmið þessara skrifa að gagnrýna Neytendasamtökin sem hafa unnið gott starf við að þrýsta á um að stöðva innheimtu smálána með ólöglega háum kostnaði. Aftur á móti taldi ég ástæðu til að leiðrétta þann hvimleiða misskilning sem virðist vera á kreiki, að í stað ólöglegu vaxtanna þurfi að endurreikna lánin með öðrum (löglegum) vöxtum sem aldrei var samið um. Rétt eins og er bent á að í tilviki gengistryggðra lána, hafi slík nálgun brotið í bága við lög og reglur evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt þeim á einfaldlega að fella brott ólöglega skilmála og ef það þýðir að lánveitandi verði að sætta sig við að fá enga vexti, er það einmitt refsingin fyrir að veita ólögleg lán.

Einnig var nauðsynlegt að leiðrétta þann útbreidda misskilning að umboðsmaður skuldara gæti réttinda neytenda gagnvart lánveitendum, en það er einfaldlega ekki í verkahring embættisins.

P.S. Sá sem þetta skrifar er ekki aðeins kerfisfræðingur heldur einnig lögfræðingur og sérfræðingur í neytendarétti.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.7.2019 kl. 22:07

4 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Guðmundur. Ef þetta er svo kristaltært í lögum að neytandi njóti vafans þá á ég við gengistryggðu lánin sem dæmd voru ólögleg og skv. skrifum þínum hér að ofan þá hefði þau öll átt að standa vaxtalaus, þar sem vaxtaákvæði þeirra voru dæmd ólögleg. 

Hefur dómskerfið brugðist gersamlega gagnvart  þeim neytendum sem stóðu eftir með dæmd ólögleg gengislán? Hvað er til ráða fyrir þessa neytenndur sem misstu húsnæði sitt vegna þeirra dóma sem féllu og settir voru seðlabankavextir. 

Eggert Guðmundsson, 27.7.2019 kl. 16:29

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Eggert.

Þegar gengistrygging lánanna var dæmd ólögleg, hefðu þau einfaldlega átt að standa óbreytt að öðru leyti þ.e. með umsömdum vöxtum. Neytendur gerðu aldrei sérstaka kröfu um að ógilda vextina enda voru þeir ekkert ólöglegir. En fyrst að Hæstiréttur ákvað að taka upp á því að ógilda vextina líka þó það væri ónauðsynlegt, þá mátti alls ekki setja aðra óumsamda vexti í staðinn, en var samt gert.

Já dómskerfið hefur brugðist gersamlega gagnvart þeim neytendum sem voru með gengistryggð lán. Ítrekað hefur verið reynt að snúa dómstólum og stjórnvöldum frá þessari villu vega sinna, en þau hafa staðfastlega hafnað öllum slíkum tækifærum og geta því ekki talist vera í góðri trú. Eftir að það var fullreynt hér innanlands stóð því ekkert annað til boða en að bera þetta undir Mannréttindadómstól Evrópu sem var gert rétt fyrir síðustu jól.

Hér má lesa nánar um kæruna til MDE:

Kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu - Hagsmunasamtök heimilanna

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2019 kl. 17:18

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Þakka þér kærlega fyrir svarið Guðmundur.

Eru sterkar líkur á að þetta mál sem þið senduð til Mannréttindadómstól Evrópu verði tekið fyrir og ef svo að dómstóllinn dæmi neytendum í hag, telur þú þá að það verða einhverjar leiðréttingar viðhafðar hér á landi að hálfu yfirvalda og / eða dómstóla til handa þeim sem misstu allt sitt.

Eggert Guðmundsson, 27.7.2019 kl. 17:31

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mjög erfitt er að segja til um líkur á útkomu mála sem fara til Mannaréttindadómstólsins, en þó er það hughreystandi að málinu hefur a.m.k. ekki verið vísað frá þó meira en hálft ár sé liðið frá málskoti. Hvort það megi túlka sem vísbendingu um að málið hljóti efnislega meðferð er þó of snemmt að segja til um.

Fari svo að Mannréttindadómstóllinn dæmi neytendum í hag í málinu eins og við bindum vonir við, getur það samt ekki haggað niðurstöðum íslenskra dómstóla enda er MDE ekki áfrýjunardómstóll heldur tekur hann aðeins afstöðu til þess hvort mannréttindi hafi verið brotin. Verði það niðurstaðan þ.e. viðurkenning á mannréttindabroti, þyrfti í kjölfarið að höfða skaðabótamál gegn íslenska ríkinu til að sækja bætur fyrir það tjón sem brotið hefur valdið.

Þetta eru samt bara vangaveltur á þessu stigi, fyrst verðum við að bíða og sjá hvort málið hljóti efnislega meðferð.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2019 kl. 17:41

8 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þegar ég sé nafnið þitt, þá kemur upp í hugann einhver sem skrifaði eða sagði að hann hefði reynt að setja það sem ég kalla

slóð  

Kreppufléttan, endurtekið

fyrir dóm, en fengið það svar að þetta hefði alltaf verið svona og svona.

Nafnið Ásgeir er ef til vill það sem vekur upp þessa hugmynd minningu.

Hvað veldur því að

Kreppufléttan, endurtekið

fer ekki fyrir dóm?

Egilsstaðir, 27.07.2019  Jónas Gunnlaugsson 

Jónas Gunnlaugsson, 27.7.2019 kl. 17:43

9 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Er hægt að setja lög, sem segja að höuðstóll og kostnaður við lán megi ekki fara yfir höfuðstól og 10%.

Þá hugsum við, á hverju eiga þá víxlarar að lifa.

Leikmaður hugsar, lögin eru ekki nógu skörp og stut. 

Egilsstaðir, 27.07.2019  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 27.7.2019 kl. 18:04

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jónas.

Ég veit ekki hvort ég skil fullkomlega hvað þú átt við, en "kreppuflétta" er ekki lagalegt hugtak. Til þess að fara með mál fyrir dóm þarf að byggja það á lögum og ef maður telur á sér brotið þarf að gera grein fyrir því í hverju lögbrotið felst.

Ef þú telur að á þér sé brotið á einhvern hátt er það réttur þinn að bera það undir dómstóla og leita þess að fá hlut þinn réttan. Þess vegna verð ég eiginlega að beina spurningunni aftur að þér.

Hvað veldur því að "kreppufléttan" fer ekki fyrir dóm?

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2019 kl. 18:22

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jónas.

Þú spyrð hvort hægt sé að setja lög um hámarksvexti?

Já vissulega er það hægt og hefur verið gert. Samkvæmt 26. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 má árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum ekki nema meira en 50% að viðbættum stýrivöxtum.

Svo má alveg hafa skoðun á því hvort þetta sé eðlilegt hámark eða hvort það eigi að vera hærra eða lægra.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2019 kl. 19:03

12 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Ég er aðeins að horfa á Kreppufléttan, endurtekið  og hvernig hún virkar og hvernig hægt er að færa eignirnar frá fólkinu og til bankana. 

Mér sýnist að aðilar skilji þetta, en engin geti tekið á því vegna ástands þjóðmálana.

Gangi þér allt í haginn.

Egilsstaðir, 27.07.2019  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 27.7.2019 kl. 21:00

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessi svokallaða kreppuflétta er auðvitað kjarni málsins, það er að segja hvernig þeir sem ráða fjármagninu geta ráðskast með lýðinn og notfært sér aðstöðuna til eignaupptöku.

Að sjálfsögðu reynum við að fá hana fyrir dóm en það gerist ekki í einu lagi heldur þarf að taka eitt mál í einu og láta þegar upp er staðið reyna á öll atriði sem hægt er. Þetta hefur einmitt verið í gangi árum saman og er alls ekki lokið þannig að það má kannski segja að kreppufléttan sé einmitt komin fyrir dóm.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.7.2019 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband