Smálánafrumvarp er þunnur þrettándi

Nýlegt frumvarp ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem ætlað er að stemma stigu við ólöglegum smálánum, felur í raun lítið annað í sér en lögfestingu á gildandi rétti. Skoðum nánar efni frumvarpsins (með nokkrum einföldunum fyrir lesendur):

1. gr. Lögin eru ófrávíkjanleg.

Vissulega ber að fylgja lögum, nema í þeim komi beinlínis fram að víkja megi frá þeim í ákveðnum tilfellum. Núgildandi lög um neytendalán veita enga slíka heimild, nema neytanda til hagsbóta. Þess vegna bætir það engu við réttaráhrif laganna að taka sérstaklega fram að þau séu ófrávíkjanleg, heldur er það bara "útlitsatriði" (e. cosmetics).

2. gr. Íslensk lög gilda um lánið þó lánveitandinn sé erlendur aðili, ef neytandinn er íslenskur og stendur að viðskiptunum frá Íslandi.

Þetta er þegar gildandi réttur samkvæmt 5. gr. laga um lagaskil á sviði samningaréttar nr. 43/2000. Þess vegna bætir þessi áskilnaður engu við efnislegan rétt neytanda, heldur er hann bara "útlitsatriði".

3. gr. Brjóti lánveitandi gegn ákvæði um hámarkskostnað er neytanda ekki skylt að greiða neinn kostnað af láninu.

Þetta er þegar gildandi réttur samkvæmt 3. mgr. 36. gr. c laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Áskilnaðurinn bætir því engu við efnislegan rétt neytanda, heldur er hann bara "útlitsatriði".

Sjá nánar: Endurútreikningur óþarfur - borgið höfuðstólinn - bofs.blog.is

4. gr. Neytendastofa getur krafið lánveitendur um ýmsar upplýsingar og gögn um starfsemi þeirra.

Þetta er þegar gildandi réttur samkvæmt VIII. kafla laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005. Reyndar eru nýju ákvæðin ítarlegri og afdráttarlausari um þær upplýsingar sem má krefja um, en það er eina raunverulega nýmæli frumvarpsins. Þetta gagnast fyrst og fremst Neytendastofu en hefur engin áhrif á stöðu neytenda sem eru krafðir um óhóflegar greiðslur af ólöglegum lánum.

Vandamálið við ólöglegu smálánin felst ekki í því að ákvæði sem þessi skorti, þvert á móti hafa þau lengi verið í íslenskum lögum. Hið raunverulega vandamál felst í því að þeim lögum er ekki farið eftir og þeim ekki framfylgt. Frumvarp til laga framfylgir ekki sjálfu sér heldur þurfa aðilar á borð við eftirlitsstofnanir og neytendasamtök að nýta lögboðin úrræði til að framfylgja réttindum neytenda. Það hefur hins vegar reynst ómögulegt vegna rangtúlkana íslenskra dómstóla á reglum á því sviði. Umrætt frumvarp ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra gerir engar úrbætur á þessu þó ítrekað hafi verið bent á nauðsyn þess og leiðir til þess á öllum stigum málsins en þær ábendingar hafa allar verið hunsaðar. Fyrir vikið felur frumvarpið ekki í sér raunverulega lausn á því vandamáli sem er yfirlýstur tilgangur þess að takast á við.

Vissulega er jákvætt að árétta þessi réttindi neytenda og gera þau skýrari í lögum á þessu sviði. Engu að síður verða íslensk stjórnvöld að hysja upp um sig og byrja að framfylgja réttindum neytenda samkvæmt reglum á sviði neytendaverndar af meiri myndarskap en hingað til, í stað þess að þykjast vera að gera það með breytingum á útlitsatriðum sem hafa engin raunveruleg áhrif ein og sér. Margoft og ítrekað hefur verið bent á lausnir og leiðir til þess (sjá t.d. hér og hér) en á það hefur því miður ekki verið hlustað.


mbl.is Geta neitað að greiða vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband