Afhverju ekki fyrr?

„Í fyrsta sinn er hægt að bregðast við sam­drætti með vaxta­lækk­un." Segir Gylfi Zoega, prófessor í hag­fræði og nefnd­armaður í pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands.

Við þessi tíðindi vaknar óhjákvæmilega sú spurning, hvers vegna nú sé allt í einu í fyrsta skipti (frá upphafi vega að því er virðist) hægt að bregðast við samdrætti með vaxtalækkun, eins og hefur reyndar verið gert í flestum löndunum í kringum okkur á undanförnum kreppuárum? Gylfi getur vonandi útskýrt það fyrir okkur.

Hann útskýrir vonandi í leiðinni þá forsendu þessarar hugsanlegu vaxtalækkunar að "semjist um hóflegar launahækkanir". Einkum í ljósi þess að hann sjálfur og hin sem taka ákvarðanir um vaxtastig, fá í fyrsta lagi ekki greidd laun samkvæmt kjarasamningum og í öðru lagi hafa hækkanir á þeim launum að undanförnu verið allt annað en hóflegar.

Og vonandi útskýrir hann Gylfi líka betur í hverju þetta meinta samband á milli launa og vaxta felst, þar sem vextir koma hvergi fram í kjarasamningum, ráðningarsamningum eða launaseðlum, heldur eingöngu í lánasamningum og gjaldskrám banka?

Eru óhóflegar launahækkanir Gylfa og fólks af hans kaliberi kannski einmitt ástæðan fyrir því að hingað til hefur ekki verið hægt að bregðast við samdrætti með vaxtalækkun? Það smellpassar allavega við þær forsendur sem hann gefur sér sjálfur um þetta meinta samband milli launaákvarðana og vaxtaákvarðana.


mbl.is Geti brugðist við með lækkun vaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bendi þér á að lesa þjóðhagfræði 101. 

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 1.4.2019 kl. 10:46

2 identicon

Gengið hefur verið að falla sé að pundið þrátt fyrir óvissuna um Brexit í vetur hefur fallið mikið er komið í 160 krónur rúmar Ég finnst það skrítið þetta hefur ekkert með WoW air að gera byrjaði að falla mikið fyrr

Nenni ekki að skrifa meira um þetta alltaf sama svika lognið íslenska hagkerfið látum hagfræðingana segja okkur fleiri smá sögur hvað sé hægt og hvað ekki

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 1.4.2019 kl. 10:59

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Stefán Örn.

Á leitir.is finnst engin bók með sem heitir Þjóðhagfræði 101. Aftur á móti er til kennslurit sem heitir Þjóðhagfræði 103, nýjasta útgáfa frá árinu 2005. Ég yrði hissa ef þar kemur fram svar við því hvers vegna núna árið 2019 er í fyrsta sinn hægt að bregðast við samdrætti með vaxtalækkun, eða hvers vegna það var ekki hægt árið 2008, þar sem það var eftir útgáfu ritsins.

En þú getur kannski gert nánar grein fyrir tilvísuninni? Tengill á heimild og blaðsíðunúmer kæmi sér vel.

Ef þú ert með skýringuna á takteinum væri líka til mikils hagræðis ef þú gætir sett hana fram hér í stuttu máli, til að spara lesendum að þurfa að grúska eftir henni í skræðum.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 11:06

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Baldvin.

Ég var nú ekkert sérstaklega að spá í gengi gjaldmiðla í þessum pistli heldur ákvarðanir á innlendu vaxtastigi og velti upp ákveðnum álitaefnum um samhengi þeirra og orsakatengsl.

En takk fyrir innlitið.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 11:13

5 identicon

Sæll Guðmundur

Já ég skil en ef þeir lækka vexti fáum við fleiri krónur í hægri vasann og svo eru þær teknar sem dæmi og meira til með genginu úr vinstri vasanum Hvernig eykst þá kaupmátturinn:) ?

Verðum að horfa yfir sviðið því þessi íslensku trix eru oftast á þá leið að láta okkur trúa að peningaröflin þykki svo vænt um okkur lýðinn númer eitt tvö og þrjú.

Takk fyrir fyrir að velta þessum steinum við opinberlega er mikilvægt

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 1.4.2019 kl. 12:08

6 identicon

Það er frekar auðvelt að útskýra afhverju það var ekki grundvöllur fyrir vaxtalækkun 2008. Þá var mikill verðbólguþrýsingur og útlit fyrir gríðarlegt útstreymi gjaldeyris. Við þær aðstæður hefði verið glórulaust að lækka vexti.  Hvorugt á við núna þ.e. ef verkalýðshreyfingin sýnir örlitla veruleikatengingu.

Ég er reyndar á því að Seðlabankinn hafi sýnt  varkárni óþarflega lengi í kjölfar hrunsins. Hann hefði átt að hefja lækkunarferlið fyrr og hraðar að mínu mati. En ég ætla mér ekki að halda því fram að ég hafi vit umfram sérfræðinganna í Seðlabankanum.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 1.4.2019 kl. 12:37

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Skrýtið hvernig einu skýringarnar sem fást á því hvers vegna vextir eru svona eða hinsegin, virðast alltaf þurfa að snúast um eitthvað annað en vextina sjálfa. Fólk nefnir allskyns hluti eins og flæði gjaldeyris hingað eða þangað, gengi gjaldmiðla, verðbólgu og jafnvel launakjör, en allir horfa framhjá því að vaxtahæð er ekkert annað en ákvörðun sem er tekin af sama fólkinu og útskýrir þá ákvörðun aldrei út frá sjálfu sér heldur alltaf með vísan til ytri þátta.

Fyrir okkur raunvísindamönnum er þetta álíka samhengislaust og að útskýra sólskin með skýjafari, þannig að sólskin komi þegar engin ský eru á himni til að skyggja á sólina. Án nokkurs tillits til þess að fyrir ofan skýin er alltaf sólskin, nema á nóttunni.

Ef bensínmælirinn í bílnum mínum sýnir hálfan tank, hvarflar ekki að mér að leita skýringa í kúplingunni eða varadekkinu. Fullnægjandi og rétt skýring er sú að frá því að ég fyllti tankinn er ég búinn að dæla helmingnum af bensíninu inn á vélina. Vegna þess að ég ákvað sjálfur hvoru tveggja, áfyllinguna og notkunina.

Fróðlegt væri að fá skýringar á vöxtum, sem fjalla um vextina sjálfa og ákvarðanir um þá, en ekki allt mögulegt annað.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 14:00

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eins og Stefán Örn segir þá er verðbólga mikilvægur þáttur þegar kemur að vöxtum. Laun hafa áhrif á möguleika til vaxtahækkana vegna þess að ef þau hækka of bratt leiðir það að öðru óbreyttu til verðbólgu. Vextir eru ekki eitthvað sem hægt er að ákveða með pennastriki án þess að taka tillit til annarra þátta í hagkerfinu.

Þorsteinn Siglaugsson, 1.4.2019 kl. 15:15

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Allar þessar kenningar hafa endurómað áður.

Engin þeirra útskýrir meint orsakasamband.

Ef bensíntankurinn hjá mér er hálffullur af bensíni veit ég að hinn helmingurinn er fullur af lofttegundum, án nokkurra mælinga, vegna þess að þar á milli er stærðfræðilegt orsakasamband. Hagfræðingar sýna aldrei fram á neitt slíkt orsakasamband heldur ganga bara út frá því að það sé fyrir hendi, vegna þess að kenningarnar sem þeir lærðu í skóla ganga ekki upp öðruvísi.

Rétt eins og til þess að láta jarðmiðjukenninguna virka, þurfti að ganga út frá því að ferlar reikistjarnanna væru ekki hreinar sporöskjur heldur með allskonar slaufum á svo það stemmdi við athuganir. Seinna föttuðu menn svo að athuganirnar voru alls ekkert að sýna fram á neinar slíkar slaufur, heldur voru þær að sýna fram á að jarðmiðjukenningin byggði á röngum forsendum um orsakasamband sem var aldrei til nema sem ímyndun.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 15:55

10 identicon

Miklar launahækkanir auka esp eftir vörum og þjónustu  -> aukin esp hækkar verðlag -> Svar Seðlabanka er að hækka vexti sem eykur sparnað og dregur úr esp eftir lánsfé sem bæði er til þess fallið að draga aftur úr esp eftir vörum og þjónustu sem ætti að lækka verðlag.

Háir vextir á Íslandi eru líklegir til þess að draga hingað erlent fjármagn  sem leitar í háa vexti og koma í veg fyrir að fjármagn flýi úr landi af sömu ástæðu. -> gengið styrkist -> innflutt vara lækkar í verði.

Guðmundur þó svo að maður skilji sjálfur ekki orsakasambönd eða kenningar þýðir það ekki að samböndin séu ekki til staðar og að kenningarnar standist ekki í grundvallaratriðum.  Þó svo að ég skilji ekki ýmsar kenningar í kjarneðlisfræði þá þýðir það ekki að þær séu rangar.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 1.4.2019 kl. 16:57

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Peningar eru reyndar "orsakasamband byggt á ímyndun", rétt eins og sentímetrar.

Þess vegna verða vextir aldrei annað en ímyndun ofan á ímyndun og í því sambandi geta menn ímyndað sér hvað sem er jafnvel heilan metir. 

Magnús Sigurðsson, 1.4.2019 kl. 18:06

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stefán Örn.

Í síðustu athugasemd þinni snertirðu einmitt það grundvallar atriði sem skilur á milli okkar (með fullri virðingu).

Ég tek engar kenningar um meint orsakasamband gildar, nema sýnt sé fram á það orsakasamband. Ef ekki er hægt að útskýra það á röklegan hátt sem gengur upp, þá er það bara hugmynd, sem er ómögulegt að vita hvort sé rétt eða röng.

Fólki eins og þér er líklega alveg sama hvort reiðhjólið hreyfist út af hömstrum í hjólbörðunum sem hlaupa þegar þið sparkið í fótstigin, eða einhverju öðru gangverki. Það er líka í góðu lagi enda hindrar það ekki venjulega notkun reiðhjólsins.

Ég er aftur á móti þannig gerður að ég myndi aldrei trúa því til að byrja með að það gætu verið hamstrar í dekkjunum, ef þeir væru hvergi sýnilegir eða nein ummerki um þá.

En ef ég myndi sýna þér hvernig sveifarnar snúa tannhjólinu sem togar í keðjuna sem snýr hinu tannhjólinu sem er fast við öxulinn, myndirðu þá halda áfram að trúa á hamstrana?

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 18:57

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús.

Vextir eru ekki ímyndun heldur ákvörðun.

Þess vegna eru þeir ekki heldur afleiðing.

Alveg sama hversu oft því er haldið fram.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 19:01

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Guðmundur þú mátt nota hvaða orð sem þú vilt yfir þessi hókus pókus vísindi, en það breytir ekki því að þetta flokkast undir það sama og var kallað gullgerðarlist á öldum áður. Hún er stunduð á öllum tímum.

Magnús Sigurðsson, 1.4.2019 kl. 19:29

15 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ef verðbólga er mikil krefjast lánveitendur hárra vaxta til að forðast að eignir þeirra rýrni. Ef verðbólga er lítil krefjast þeir lægri vaxta.

Ef áhætta í rekstri fyrirtækis er mikil krefjast þeir sem lána því hærri vaxta en ef áhættan er lítil.

Ef framboð á lánsfé er mikið fá lántakar lægri vexti en ef framboðið er lítið.

Það er algerlega tilgangslaust að ræða þessi mál yfirleitt ef menn afneita því að vextir mótast ekki í einhverju tómarúmi óháð öllu öðru.

Eða hver væri annars tilgangur slíkrar umræðu? Að slá fram staðhæfingum? Að sýna öðrum fram á að maður sé úti á þekju?

Þorsteinn Siglaugsson, 1.4.2019 kl. 19:51

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

... og vegna þess að þú spyrð um sönnun fyrir orsakasambandi: Reynslan sýnir að þetta orsakasamband er til staðar. En kannski er reynsla okkar bara blekking?

Þorsteinn Siglaugsson, 1.4.2019 kl. 19:53

17 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús.

Gullgerðarlist er ágætt orð yfir þetta. :)

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 20:53

18 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þorsteinn.

Til er nokkuð sem kallast "self fulfilling prophecy" sem lýsir því ferli þegar við trúum að eitthvað muni hafa í för með sér ákveðnar afleiðingar og hegðum okkur svo í samræmi við þær væntingar þannig að við endum með að skapa sjálf afleiðinguna. Var hún þá afleiðing af því sem forspáð var um, eða af trú okkar á þá forspá og hegðun í samræmi við þá trú? Ef sú trú heldur áfram ómeðvituð munum við aldrei geta komist að hinu sanna um það.

Er reynsla okkar kannski bara blekking? Nei, ekki ef hún er byggð á skilningi sem hefur verið prófreyndur við aðstæður sem eru einangraðar frá öðrum mögulegum áhrifaþáttum, það kallast hin vísindalega aðferð. Öðru máli gegnir um blinda trú á ályktanir dregnar af reynslu, en sýna má hvernig slíkt getur leitt okkur í ógöngur með dæmisögu:

Eitt sinn var lögregluþjónn í smábæ en fjölskylda hans átti og rak ísbúð þar sem hann hljóp stundum undir bagga með afgreiðslustörfum á álagstímum. Af reynslu sinni í þessum tveimur störfum varð honum ljóst að þegar mest seldist af ís var líka mest um tilkynningar til lögreglu um kynferðisbrot, en hafði ekki hugmynd um hvers vegna. Eitt sinn spurði kunningi hans í gríni hvort það væri nokkuð í ísblöndunni sem hefði þessi áhrif á fólk? Það þótti honum fjarstæða, en fór í kjölfarið að hugsa hvort fjarvera hans frá lögreglustörfum þegar mikið var að gera í ísbúðinni gæti kannski verið ástæða þess að á meðan léku níðingar lausum hala, sem angraði hann svo að hann hætti alveg að hjálpa í ísbúðinni.

Rökvillan í þessari dæmisögu er sú að leggja tölfræðilega samleitni að jöfnu við orsakatengsl.

Raunverulega var enginn að fylgjast með því hvaða lögregluþjónn væri á vakt hverju sinni og aðlaga hegðun sína eftir því. Ekki hafði ísinn heldur neitt með það að gera, þvert á móti var fólk að fá sér ís allavega ekki að fremja nein afbrot á meðan.

Lögreglumaðurinn dró ranga ályktun því hann bar ekki réttilega kennsl á orsakatengslin: Þegar heitt er í veðri eykst tíðni kynferðisbrota af hreinum lífeðlisfræðilegum ástæðum og þannig yrði það líka ef ís væri ekki til. Af menningarlegum ástæðum er þó til neysluvaran ís, sem er kaldur og selst því vel þegar heitt er í veðri. Annað af þessu hefur þó engin áhrif á hitt.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.4.2019 kl. 21:40

19 identicon

Guðmundur hefur þú þá efasemdir um eftirfarandi orsakasambönd?

1. Hærri laun eykur esp eftir vörum og þjónustu

2. Aukin esp eftir vörum og þjónustu hækkar verðlag

3. Hærri vextir eykur sparnað og dregur úr esp

4. Hærri vextir draga úr esp eftir lánsfé og þar með úr framkvæmdum og neyslu

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 1.4.2019 kl. 22:39

20 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stefán Örn.

Ég kannast alveg við þær hagfræðikenningar og -hugmyndir sem búa að baki þessum spurningum. Þar sem ég er ekki sérfræðingur á sviði hagfræði get ég aðeins svarað þeim út frá tvennu: eigin reynslu og röklegri greiningu á hinu meinta orsakasambandi.

1. Hærri laun eykur esp eftir vörum og þjónustu

Reynsla: Eftirspurn mín eftir vörum og þjónustu myndi ekki aukast við hærri laun heldur ætti ég kannski auðveldara með að anna henni. Kæmust þau á það stig að duga þokkalega yrði ég ekkert ósáttur.

Greining: Eftirspurn eftir vörum of þjónustu er einföldun á gangverkinu. Eftirspurn ólíkra hópa ræðst af gjörólíkum þáttum. Sem dæmi ræðst eftirspurn allra að lágmarki af lífsnauðsynjum. Flestir en þó ekki allir vilja bæta sæmilegum lífsgæðum þar ofan á. Svo eru líka aðrir sem vilja alltaf meira, og þeirra eftirspurn ræðst eflaust af launum í ríkara mæli en af lífsnauðsynjum eftir því sem hærra er farið en þá verðu líka hópurinn fámennari.

2. Aukin esp eftir vörum og þjónustu hækkar verðlag

Reynsla: Það eina sem ég sé hækka verðlag er þegar sá sem selur vöru eða þjónustu hækkar verðið á henni og þegar það er gert er ég ekki spurður um eftirspurn mína eftir henni.

Greining: Ef virkur samkeppnismarkaður með virkum neytendum er fyrir hendi ætti verð á vörum og þjónustu að endurspegla undirliggjandi kostnað og gæði frekar en kaupmátt viðskiptavinar. Aukin sala þýðir að rekstraraðili getur aukið veltu sína og dregið úr álagningu án þess að minnka hagnað sinn. Þannig getur aukin eftirspurn eftir vörum og þjónustu allt eins stuðlað að lægra verði og er því ekki augljóst af hverju verð ætti þá endilega að hækka.

3. Hærri vextir eykur sparnað og dregur úr esp

Svo þessi spurning skipti máli þarf til að byrja með að hafa eitthvað til leggja fyrir í formi sparnaðar en það er ekki öllum gefið. Eru þeir kannski ekki hluti af kenningunni?

Reynsla: Þegar ég hef átt eitthvað aukreitis hef ég reynt að finna því farveg sem nýtist að einhverju markmiði sem skiptir máli miklu frekar en einhverri reiknaðri ávöxtunartölu. Fjármunir eru huglæg verkfæri en ekki markmið í sjálfu sér. Besta ávöxtun sem ég hef fengið af einhverjum viðskiptum kom ekki út töflureikni heldur með óvæntum hætti sem var ómögulegt að spá fyrir um.

Greining: Hér er í raun spurt að tvennu, hvort hærri vextir auki sparnað og hvort það dragi úr eftirspurn. Hærri vextir auka ekki endilega sparnað í formi fjárfestinga, aðrir þættir geta ráðið því svo sem þróun fasteignaverðs eða annarra eigna. Annað sem ræður sparnaði er hversu mikið er afgangs af ráðstöfunarfé eftir að eftirspurn er fullnægt. Það svigrúm ræðst af miklu fleiri þáttum en vaxtastigi á sparnaðaleiðum fyrir almenning.

4. Hærri vextir draga úr esp eftir lánsfé og þar með úr framkvæmdum og neyslu

Reynsla: Eftirspurn mín eftir lánsfé er ekkert sérstök, mér finnst lítið spennandi að vera tannhjól í því skuldagangverki sem virðist vera illrjúfanlegur hluti af samfélaginu. Að því leyti sem ekki er um annað að velja verður að leita að illskásta kostinum.

Greining: Eflaust eru einhverjir sem taka lán síður þegar vextir eru háir en staðreyndin er sú að á Íslandi eru langmest lán tekin vegna húsnæðiskaupa og þær ákvarðanir eru oftar byggðar á húsnæðisþörfum en vaxtastigi. Fólk hefur alveg tekið húsnæðislán á öllum tímum hagsögunnar þó að vextir hafi sveiflast upp og niður.

Ef við göngum út frá því að það sé gott að vera skuldlaus hlýtur fyrirmyndarþjóðfélagið að byggjast á einhverju öðru en lánsfé. Það virðist kannski vera einhver útópía en þá má að sama skapi segja að eilíft skuldafangelsi hljóti að vera dystópía. Þær hugmyndir sem við höfum um þetta kerfi eru í raun þær sem móta það og þess vegna er ekkert sem útilokar að við getum betrumbætt þær/það.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2019 kl. 00:21

21 identicon

Sæll aftur Guðmundur

Einhver líkti hinu opinbera einhvern tímann við snjóbolta sem rynni niður snævi þakta fjallshlíð og stækkaði og stækkaði, uns hann steyptist út í kolsvart og úfið hafið og við skattgreiðendur og seðlabankastjóri og co horfum á það gerast aftur og aftur furðulostin þegar gengis-og vaxtatafla Seðlabankans lýsir upp myrkrið svo almenningur getum haldið áfram að trúa að okkar okkar velferð sé borgið :)

Baldvin Nielsen

P.S. Flott umræðan hérna takk fyrir mjög upplýsandi!

B.N. (IP-tala skráð) 2.4.2019 kl. 11:45

22 identicon

Þessi þekktu orsakasambönd hagfræðinnar hafa ekki verið fundin út með því að spyrja Guðmund Ásgeirsson út hvernig hann myndi bregðast við kringumstæðunum heldur liggja á bak við kenningarnar áratuga rannsóknir út um allan heim hvað gerist í hagkerfum við þessar aðstæður. T.d. hvað hefur gerst á Íslandi þegar laun hafa hækkað. Jú ótrúlegt en satt þá hefur neysla alltaf aukist á Íslandi í kjölfar launahækkanna. Reyndar gerist það allstaðar þó svo að gerist hugsanlega ekki hjá Guðmundi

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.4.2019 kl. 11:46

23 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stefán Örn.

Ég hlýt þá að vera svona sérstakur, fyrst ég passa ekki inn þessar rúðustrikuðu kenningar hagfræðinnar.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2019 kl. 13:41

24 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Öll félagsvísindi, Guðmundur, grundvallast á reynsluþekkingu. En þeir eru til sem halda því fram að reynsluþekking sé bara bull. Þú ert nokkuð bersýnilega einn af þeim. Röksemdafærsla þín er hins vegar í verulegu skötulíki - eiginlega í líki löngu dauðrar og langkæstrar skötu ef maður fer út í smáatriði. Þegar sagt er að hærri laun leiði til aukinnar neyslu - sem hún gerir nefnilega hjá meginþorra fólks (og sú niðurstaða byggir alls ekki á tölfræðilegri samleitni einni saman), þá andmælir þú með staðhæfingu um að þú sjálfur myndir ekki eyða meiru þótt þú hefðir hærri laun. (Þú tekur hins vegar fram að aldrei hafi á það reynt, svo staðhæfingin grundvallast ekki einu sinni á þinni eigin prívatreynslu.) Það hvað þú heldur að þú myndir gera, Guðmundur, er hins vegar algert aukaatriði. Það sem skiptir máli er hvernig þorri fólks bregst við einhverjum tilteknum aðstæðum. Hin klassísku rök gegn þessu eru að afleiðsla (adduction) sé ekki röklega gild vegna þess að hún feli ekki í sér eilíf sannindi. En ég hef hingað til ekki séð neinn hafna aðleiðslu á grunni einhverra skrýtinna staðhæfinga um hvernig þeir myndu kannski sjálfir haga sér. Þú ert eiginlega kominn út í "jú víst" og "afþvíbara" lógík og þá held ég að það sé best að láta umræðunni lokið.

Þorsteinn Siglaugsson, 2.4.2019 kl. 15:17

25 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Þorsteinn.

Ég stunda meistaranám í félagsvísindagrein þar sem reynsluþekking getur skipt verulegu máli og því afneita ég alls ekki. Aftur á móti á ég líka að baki menntun í raunvísindum og þekki þess vegna bæði. Afstaða mín mótast af hvoru tveggja.

Ég leyfi mér alveg að vera ósammála ríkjandi kenningum þegar þær ganga ekki upp í mínum huga, hvort sem um er að ræða niðurstöður úr raunvísindum eða félagsvísindum. Raunvísindamenn gera nefninlega stundum mistök líka og falla í rökvillugryfjur. Þar á meðal að gera ráð fyrir því að allir hegði sér eins eða að allir taki upplýstar og rökréttar ákvarðanir, sem er hvorutveggja rangt. Orsakasamband áhrifaþátta og hegðunar er nefninlega einstaklingsbundið og við erum öll ólíkir einstaklingar, sem er gott.

Á sama tíma geri ég mér grein fyrir því að þeir sem taka afstöðu gegn ríkjandi kenningum, mega alveg búast við því athugasemdum frá þeim sem eru ósammála og aðhyllast hina ríkjandi kenningu. Sem er nákvæmlega það sem hér er um að ræða.

Ég fagna umræðunni, því hún upplýsir.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2019 kl. 15:28

26 identicon

Guðmundur: Auðvitað haga einstaklæingar sér misjafnlega og öll hegðun er einstaklingsbundin en í samhenginu hvort auknar ráðstöfunartekjur þjóðarinnar auki neyslu eða ekki Þá skiptir  einstaklingurinn ekki máli heldur massinn. Hvernig hegðar heildin sér samanlögð.  Reynslan hér og annarstaðar sýnir að ef ráðstöfunartekjur aukast ALMENNT þá eykst neysla ALMENNT og það er það sem skiptir máli. Ef laun hækka almennt meira en sem nemur framleiðniaukningu hagkerfisins þá mun verðbólga aukast að öllu jöfnu.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 2.4.2019 kl. 16:14

27 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll aftur Stefán.

Massinn samanstendur af einstaklingum.

Þegar stór hluti þjóðarinnar á ekki fyrir mat til neyslu síðustu daga mánaðarins, er aukin neysla beinlínis nauðsynleg og til þess að borga fyrir hana þarf það fólk hærri laun.

Aukin neysla veldur ekki verðhækkunum. Mjólkurlítrinn kostar það sama hvort sem ég kaupi einn lítra eða tvo, svo dæmi sé tekið. Þvert á móti ætti meiri sala að gefa svigrúm til verðlækkana, því þá geta kaupmenn dregið úr álagningu án þess að skerða hagnað. Svo ég noti sama dæmið þá gæti kaupmaðurinn lækkað álagningu á mjólurlítranum um helming ef ég kaupi tvo lítra í stað eins og samt grætt jafn mikið á þeim viðskiptum við mig.

Enn fremur hefur Hagstofa Íslands staðfest að magnbreytingar á neyslu geta ekki leitt til breytinga á vísitölu neysluverðs, einfaldlega vegna þess hvernig hún er reiknuð út. Það eina sem hækkar vísitölu neysluverðs eru verðhækkanir, sem eru ákveðnar af atvinnurekendum, eða hinu opinbera vegna þeirrar þjónustu sem það veitir. Þetta eru hreinræktuð skilgreiningaratriði.

Ef einhver hluti massans sem eru í stöðu til að hafa slík áhrif hegðar sér öðruvísi en að ofan er lýst, þá er það hegðun þeirra sem þarf að breyta, en ekki hinna sem eru í engri stöðu til að hafa áhrif á ákvaraðnir þeirra um verð, þ.m.t. vexti sem eru jú ekkert annað en verð á lánsfé.

Ekki reyna að mata hamstrana heldur laga keðjuna.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2019 kl. 19:24

28 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er bara tóm þvæla Guðmundur að stór hluti þjóðarinnar eigi ekki fyrir mat síðustu daga mánaðarins. Það er afar fámennur hópur sem lifir undir fátæktarmörkum.

Aukið framboð af vöru, meðan eftirspurn stendur í stað, leiðir til lægra verðs. Aukin eftirspurn leiðir til hærra verðs. Það er með þessum hætti sem magnbreytingar leiða til hækkunar á vísitölunni. 

Annars er eiginlega hálf fáránlegt að vera að ræða þetta við þig. Þú ert bara búinn að bíta í þig að margsönnuð hagfræðileg orsakatengsl séu ekki annað en einhvert samsæri. 

Þorsteinn Siglaugsson, 2.4.2019 kl. 19:37

29 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Þorsteinn.

Hver stór sá hluti þjóðarinnar er sem nær ekki endunum saman, er ekki aðalatriðið því ef einn okkar meðbræðra sveltur er það einum of mikið. Honum mun heldur ekkert líða betur þó hann heyri að hann tilheyri "fámennum" hópi, burtséð frá því hvort það sé rétt.

Það er líka hálf fáránlegt að þurfa að ræða um það hvort eitthvað sé til sem heitir "sannaðar" hagfræðikenningar.

Aftur á móti væri fróðlegt að sjá slíkar sannanir því það myndi ekki boða neitt minna en byltingu ef hagfræði myndi í fyrsta sinn í sögunni breytast úr félagsfræðigrein í raunvísindi.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.4.2019 kl. 19:46

30 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er það sem ég var að segja. Þú hafnar því að niðurstöður félagsvísindanna séu gildar. Það er í sjálfu sér allt í lagi að hafna því, en það er út í hött að hafna því á grundvelli einhverra vangaveltna um hvað maður myndi sjálfur kannski gera.

Þorsteinn Siglaugsson, 3.4.2019 kl. 15:03

31 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Enn er samt ósvarað þeirri spurningu sem var inntak pistilsins. Hvers vegna hefur aldrei fyrr verið hægt að bregðast við samdrætti með vaxtalækkun?

Guðmundur Ásgeirsson, 3.4.2019 kl. 15:08

32 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hann Stefán Örn er búinn að útskýra það hér fyrir ofan Guðmundur.

Þorsteinn Siglaugsson, 4.4.2019 kl. 17:33

33 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Að segja eitthvað er ekki það sama og að útskýra það.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.4.2019 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband